Afríka
Dabækur: maí 2012. ,,...eins dauði"
Dagbækur frá Afríku maí 2012 Eftir fimm ár í Afríku er nú komið að heimferð. Ljónahundurinn Freyja og heimilsvarðhundur lagði í þriggja sólarhringa ferð heim á Frón til að þiggja gestrisni einangrunaryfirvalda í heilan mánuð. Hinar fábrotnu reitur okkar hjóna seldar, gefnar eða pakkað til að fara í langferð líka og Kisi kominn í fóstur, örlög hænsnanna verða heldur daprari. Hver vegur að heiman er vegurinn heim... og nú liggur hann þangað. Það er því komið að leiðarlokum þessarar útgáfu fréttabréfa frá Afríku. En það er ekki hægt að segja að síðustu vikurnar hafi verið tíðindalitlar í ,,Hinu heita hjarta Afríku” eins og Malavar kalla landið sitt: Það voru örlagaríkir dagar fyrir páska í Malaví
Terækt

Morgunsólin lýsir vaxtarsprotana á terunnum í suðurhluta Malaví og döggin drýpur af.  Hér er ein helsta útflutningsvara landsins.  Hver runni gefur af sér svona lauf í hundrað ár, að þeim loknum þarf að umplanta.  Teekrur Malaví eru unaðsreitur, yndislega fagrar og mannlíf þar í kring litríkt.  Hér er myndasaga frá telaufi að tehlaðborði á enska vísu.
Alþýðulistamaður


Hann er búinn að koma sér vel fyrir við þjóðveginn á fjölförnu horni með risastórt trélistagallerí.  Myndirnar eru í góðri líkamsstærð og veglegar á alla lund.  Hann segir bjartsýnn á framtíðina enda kominn nýr forseti, ný stjórnarskrá og nóg eldsneyti í landinu.  Smá skekkja með stjórnarskrána en við eyðileggjum ekki viðskiptavildina með athugasemdum.


James er hagur maður á tré.

Mýflugnamökkur

Þegar landkönnuðurinn David Livingstone kom fyrst að Malavívatni seint á 19.öld fannst honum sem reykir stigi upp af vatninu og það hlyti að standa í ljósum logum.  ,,Vatn loganna" var nafnið sem hann gaf því.  Þetta voru í reynd mýflugur á ferð.  Árlega leggja þær í gríðarmikið ferðalag með ströndum vatnsins og er sem reykjastrókar standi til himins.  Þeir þyrlast með miklum hraða yfir vatnsborðinu og fara marga tugi kílómtra á nokkrum mínútum, hver á fætur öðrum.  Fiskar elta, og sem sjá má er fiskimaður á kænu framarlega á myndinni að elta sömu fiska.  Þessir faraldur flugnanna er talinn sá mesti í dýraríkinu ef taldir eru einstaklingar sem eiga hlut.  Að mnnsta kosti er ljóst að fjöldi mýflugna sem litar himinn og vatn svört hlýtur að vera mikill.  Mývatn?  Það hefði verið réttnefni hjá Livingstone!  Þessi mynd er tekin í marga tuga kílómetra fjarlægð frá einum af mörgum strókum.
Götumarkaðslíf á einum rúnti

Eitt skot, einn rúntur um lifandi afrískan götumarkað á fjórum mínútum!  Sjáið góssið!

Líkamsrækt og önnur rækt

Á vesturlöndum borgar fólk stórfé fyrir aðgang að svona tæki til að stíga upp og niður í líkamsræktarstöðvum. Þetta er matvælarækt. Konan knýr fótstigna dælu, slangan liggur ofan í brunn og önnur út á akurinn til að vökva það sem á að fóðra fjölskylduna. Þetta gerir konan ekki til að brenna orku, heldur til að afla orku á akrinum.

Eldri greinar
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is