Afríka - ást við aðra sýn
Hér er hægt að panta bókina beint frá höfundi á hagstæðum kjörum:


Nafn
Heimilisfang
Pnr, staður
Sími
Netfang
Afsláttarkóði
Verð
Fjöldi
Hægt er að nota greiðslukort eða netgíró gegnum örugga þjónustu Dalpay.

Sendingarkostnaður er innifalinn.

Bókin er nú komin í almenna dreifingu í allar betri bókabúðir og fæst þar meðan takmarkað upplag endist.

Því miður varð að halda stofnkostnaði í lágmarki sem þýðir færri prentuð eintök en ella hefði verið.

Einnig er hægt að panta gegnum tölvupóst og gera ráðstafanir um greiðslu: Hafið samband í netfangið stefanjon@islandia.is 


Afríka
Afríkubókin fæst aðeins beint frá höfundi

Vinsamlega hafið samband við stefanjon@islandia.is ef vantar eintak.

Mannlegi þátturinn. PISTLAR.

Hér er textaútgáfa af pistlunum mínum í Mannlega þættinum á Rás 1 í byrjun 2017.  Pistlanir voru vikulega og hér eru þeir helstu:

 

Trjáljón

Ljónin í sunnaverðum þjóðgarðinum sem kenndur er við Elísabetu II drottningu Samveldisins hafa þann sið að fá sér sídegislúrinn í fíkjutrjám.  Af einhverjum ástæðum hafa þau komið sér upp þessari venju sem á sér fáa líka meðal ljóna í Afríku, ef nokkra.

Hér er systkinahópur, 2-3 ára, sem nýtur lífsins eftir annasama veiðinótt.

Veiðivörðurinn sem rakti slóðina að þessu tré taldi víst að mamman væri í leyni í runnaþykkni undir trénu því ekki sást hún.  Ljón skipta með sér verkum og oftar en ekki er það móðirin sem tekur vaktina meðan hjörðin sefur. 


Helsta vesen dagsins er að færa sig milli greina ef brugðið er blundi.

 Það má svo spreyta sig á því að rýna í felustaðinn.  Ljósir búkar og hangandi skott og lappir koma upp um þau úr nokkurri fjarlægð.  En þau þurfa tæpast að hafa áhyggjur,  hér eru engir náttúrulegir óvinir og veiðiþjófar komast ekki að þótt þeir vildu.

Í þessum garði eru einungis nokkrir tugir ljóna og örfá þeirra ,,trjáljón".  Þeim er varla hætt nema þau ráfi út fyrir garðmörkin og þá er þeim oft illa tekið af bændum sem vilja verja naut og geitur.  Enn týna því ljón tölunni.

Maður í slömminu

 

Hann býr einn í þessu hreysi, í miðju fátækrahverfi Kampala.  Sér fyrir nokkrum börnum með því að safna plastflöskum í endurvinnslu.  Hirða gömul dekk og brenna til að ná úr þeim kopvarvírum og selja.  Tína upp dósir.  Gamall hermaður í frelsisher Úganda.

Með öpum

Þetta var auðvitað fjölskylduheimsókn, komið við hjá fjarskyldum ættingum úti á landi, inni í skógi. Simpansar eru næsti kafli við okkur í þróunarsögunni. Heimildir segja að við og þeir séu með 99% sama erfðaefni, en nýjustu tölur eru 94%. Nokkuð nálægt samt. En samt svo fjarri.

 

Við heyrðum öskrin í fjarska. Fimm ferðamenn með vopnuðum skógarverði sem rann á hljóðið, þetta gekk vel, stundum líður dagurinn án þess að leyfisskyldir ferðamenn nái fundi við þessa frændur sína. ,,Þetta eru matarboð” sagði vörðurinn. Í dagrenningu skríða þeir úr hreiðrum sínum sem þeir flétta úr greinum og laufum til að sofa langt ofan við skógarbotninn þar til gaulandi garnir heimta morgunverð.

 

Öskrin bárust úr ýmsum áttum, þarna voru greinilega 4-5 fimm hópar á svæðinu, af þeim 130 sem eru í Kibale garðinum Alls um 1300 dýr. Hér lá einn simpansi undir tré og horfði á okkur, hljóp svo burt í hvelli og hvarf í þykknið, Ég bjóst við þeim stærri. En þeir leyna á sér, hlaupa um á fjórum fótum og eru álútir en þreknir um herðar og brjóst.

 

,,Hann er einn af þeim feimnu” sagði vörðurinn, við vorum á leið til fundar við annan þeirra tveggja hópa sem hafa verið aðlagaðaðir að mannaheimsóknum, kæra sig kollótta um fólkið sem gónir.

 

Skógurinn er ansi þéttur og hár, vafningsviður flækist utan um mann og greinar slást til og frá, sólin nær ekkki þarna niður, en nú runnu nokkrir apar niður langan trjástofn og kom alveg að okkur. Erindið var nú ekki að heilsa mannfólkinu. Við vorum í frjósemisathöfn.

 

Apaynja var greinilega komin með ástríðurnar í hágír, aftuendinn rjóður og slefandi, ótvírætt tákn um egglos. Þeir sem komu nú á góðu flugi niður á eftir voru engir aukvisar. Tvö karldýr, annar er varaforseti flokksins, næstur á eftir Alfa-foringjanum, hinn hvorki meira né minna en Titto sjálfur, ungur og upprennandi pólitíkus meðal flokksins, aðeins um hálfþrítugur en búinn að færast ofurhratt upp metorðastigann. Þeir ætluðu sér báðir að ná í egglosið.

 

Daman vildi færa sig dýpra inn í þykknið. Nú lagði af stað halarófa sem elti rjóðann afturendan á henni, fyrstur varaforsetinn, þá ungi metnaðarapinn og loks við, fimm bleiknefir í halarófu ásamt verðinum góða, við gengum rösklega gegnum rökkurskóginn til að missa ekki af uppákomunni sem augljóslega var í vændum.

 

Simpansadama með egglos lætur vita af sér með hjóðum og þessum táknræna bjarma sem af afturndanum stafaði. Það er kappsmál fyrir karlana að komast að. Sá fyrsti sem kemur sæði sínu upp á áfangastað vinnur. Hjá simpönsum hefur náttúran þann gang að sæðið sem fyrst kemur upp eftir egglos hleypur í kökk og varnar annara apa sæði sem á eftir kunna að koma að komast lengra. Svo frjógvast hún.

 

En það veit svo sem enginn hver er pabbinn hverju sinni, og þegar unginn kemur í heiminn er sameiginlega forsjá allra í flokknum.

 

Við þræddum leynda stigu á eftir blómarósinni rjóðu.

 

Fleiri voru á leiðinni. Hin karldýrin höfðu greinilega veður af því að eftir einhverju væri að slægast, og hróp og köll tóku að berast ofan úr trjákrónum og þytur í laufi þegar glöggt mátti greina að heill hópur veitti okkur eftirför. Titto gerðist órólegur og nú kom annar smáhópur ferðamanna að okkur og varaforsetinn og daman smeygðu sér dýpra í þykknið.

 

Hvernig nær ungur simpansi frama í flokknum? Með því að slást. Og sýna leiðtogafærni. Titto hafði þotið upp metorðastigann með því að slást meira og betur en aðrir karlar, svo virtist hann nokkkuð góður í að finna mat og verjast þegar aðkomuflokkar reyna að seilast til áhrifa inn á verndarsvæði hópsins.

 

Hver flokkur hefur sitt svæði og hleypir engum að. Karldýrin halda sig alltaf innan sama hópsins alla ævina, en eitt og eitt kvendýr færir sig á milli, stundum vegna þess að þeim er rænt eða þær gefst upp á ráðríki einhvers apans. Þannig tryggir náttúran líka hæfileg blöndum.

 

Nú vorum við búin að týna varaforsetanum og dömunni.

 

Hins vegar heyrðust hroðaleg læti ofan úr trjánum skammt undan, öskur, urr og gelt og brak og brestir. Slagsmál höfðu brotist út. Við þustum í átt að látunum en hlupum næstum þvi um koll varaforsetann og ynjuna sem sátu blíð á svip undir steini. Búin. Varaforsetanum hafði tekist að koma tappa í dömuna á réttu augnabliki. Það var Titto sem hljóp út undan sér, stóðst ekki að reka eftirfylgjendur frá og efndi til stórslagsmála uppi í trjánum þar sem allt var að verða vitlaust.

 

Ekki sáum við fangbrögð, glímur eða bit þótt stundum fari svona slagsmál alla leið og endi með sárum, þótt bræður berjist ekki til bana.

 

En nú heyrðust önnur köll. Slagsmálabræðurnir þustu af stað, sveifluðu sér af greinum eða þutu með skógarbotninum, einn sat efst í krónu og sýndi ógurlegar vígtennur: Það eru komnir bavíanar!!! Nú voru allir í saman liði og skutust með ógnarhraða til móts við meinvættina sem voru að stelast í berin þeirra!

 

Við eltum sem mest við máttum í ærandi látunum, sáum bara eitt brúnleitt bak á bavína en okkar flokkur fór hamförum upp og niður trjástofna, út á greinar og sveiflaði sér á tágum eins og í Tarsanmyndum.

 

Nú birtist einn af þeim stóru út á trjágrein þar sem hann blasti við öllum í kring, simpönsum og bavíönum. Stór í sólarljósinu og sveiflaði herfangi sínu: Ofurlítill bavíanaungi tísti af hræðslu. Sá stóri rumungur hélt um aðra afturlöppina og sveiflaði greyingu eins og tuskudúkku og lamdi harkalega í trjástofn: Dunk dunk dunk.

 

Það glitti í brúnt bakið á móðurinnn fyrir neðan tréð. Svo hvarf hún.

 

Ungaræninginn sat þarna uppi fyrir allra sjónum og lét krílið dingla niður frá sér, litla andlitið var afskræmt af hræðslu. Félagar öskruðu.

 
Hér getur að líta atganginn með bavíanaungann (best að skoða í fullri skjástærð)

Þetta var gildra. Herstjórnarleg gildra í stríðinu: ,,Komið ef þið þorið bavíanar og reynið að bjarga afkvæminu ykkar!”   Simpansar gera þetta tíðum til að lokka óvinin í árás úr felustöðum. Þótt bavíanar séu með skarpar vígtennur og fimari en simpansar eru þeir ekki nærri jafn sterkir og láta oft undan síga.

 

Sem þeir gerðu. Enginn gaf sig fram til að bjarga unganum. Dunk dunk dunk heyrðist aftur meðan greyinu var lamið í trjágrein, svo eymdarlegt vol sem fjaraði út þegar apinn þaut loks ofar í tréð.

 

Sömmu síðar kom eitthvert stykki hrapandi niður. Iðrin úr unganum skullu á skógarbotninum.

 

Stríðinu var lokið og bavínar farnir.

 

——

 

Næstu mínútur drusluðu þeir leyfunum af unganum með sér eftir skógarstíg. Þótt simpansar séu sólgnir í margs konar apakjöt eru engar heimildir um að þeir éti bavíana, mörgum til furðu. Stundum skipuleggja þeir smáapaveiðar til að ná sér í kjöt. Ein ynjan var fljót að koma á staðinn þegar karlarnir komu með ungahræið og bauð upp á skyndikynlíf fyrir munnbita, en áhuginn fjaraði strax út þegar kom í lkjós hvers kyns var. Þær selja blíðu sína þegar gott er í boði.

 

—-

 

Nú skom ró yfir hópinn. Búnir að éta morgunverðinn, slást og stríða. Kominn tími til að ríða.

 

Nokkrir lögðust undir tré og fengu sér blund eða horfðu heimspekilega út í bláinn. Aðrir tóku til við kynlífið, oft hefur simpansaynja mök fjörutíu sinnum á dag. Hér var mikið fjöllyndi í gangi. Apakarl sat spakur á grein og þurrkaði af skaufanum með laufblöðum.   Þetta gera þeir að afloknum mökum.

 

Tilhugalífið er einfalt. Ef apaynja er í stuði bíður hún bara upp á sig. Ef karl girnist ynju hefur hann forleik sem felst í að taka laufblað og rífa það í smátætlur, bara svona í rólegheitum, svo daman sjái, Láti hún ekki heillast af þessu öskrar hann á hana að koma. Dugi það ekki rýkur hann til og grípur til heimilisofbeldis, lemur hana til samfara.

 

Hér fór allt fram í ró og spekt. Uppi í trákrónunum voru þau að maka sig eitt af öðru, samfarir taka 5-6 sekúndur. Aðrir voru að flétta greinar í tuga metra hæð og þekja laufum til að búa sér til hreiður fyrir hádegisblundinn.

 

Nokkrir félagar sátu í makindum og leituðu lúsa hver á öðrum.

 

Við snæddum nesti á föllnum tjrábol. Aðokmufólk frá Síle, Írlandi og Íslandi, í hinum hópnum enn fjölbreyttari blanda; hér selt inn og bókað fyrirfram, aðeins tveir hópar á dag fá að fara inn á svæðið og skoða tvo simpansaflokka sem hafa vanist fólki.

 

——

 

Ég hlustaði á viðtal við heilafræðing sem sagði frá því að meiri skilingur væri nú kominn á því hvers vegna manninum hefði tekist að skilja sig frá hinum öpunum og þróast öðruvísi, í átt til þess að vera ráðandi lífvera á jörðinni. (Apar eru fimm: maður, bonobon-apar, simpansar, górillur og órangútan).

 

Við brutum okkur þessa leið með því að læra að elda.

 

Það er ekki stærð heilans sem skiptir öllu, jafnvel ekki hlutfallsleg stærð, þótt maðuinn hafi all stóran heila miðað við þyngd, heldur fjöldi taugaenda í heilanum. Maðurinn er með 86 milljarða taugaenda í heilanum en í heilaberkinum þar sem aðal skipulagsvinnan fer fram er hann með tvöfalt fleiri taugaenda en aðrir apar.

 

25% af orkuþörf líkamans fer í að knýja þennan mikla heila og þeirrar orku öflum við mun hraðar en aðrir apar geta með því að elda matinn.

 

Þangað til annað kemur í ljós skal ég trúa þessu. Það er við eldinn sem þróunarsaga mannkyns fór á skrið. Við náum okkur í þær hitaeiningar sem þarf og meltum fæðuna á stuttum tíma, sem gegur okkur bæði orku og ráðrúm til að standa í öllu þessu sem greinir men frá ættingjum sínum.

 

Annars værum við enn að leita að rótum og berjum og ávöxtum upp í 10 klukkustundir á sólarhring.

 

Fyrir útlendinga kostar 250 dollara að fara í svona dagsrölt til ættingja okkar. Heimamenn borga 140 dali.

 

,,Það eru ekki allir jafn heppnir og þið” sagði vörðurinn sem hafði aðeins einu sinni áður orðið vitni að apastríði, á sjö ára ferli.

 

Sumir borga sig inn og sjá bara einn eða tvo apa allan daginn. Að fara í górilluheimsókn kostar upp í 700 dollara.

 

——

Við brjótum okkur leið þangað sem nokkrir liggja í makingum eða snyrta og snurfusa hver annan.   Hér á ekki að vera nein hætta á ferðum fari maður ekki alltof nálægt, en 2-3 metra friðhelgi gildir. Reglan er sú að maður má ekki snerta apa, en kjósi api að snerta mann má hann það.

 

Íslendingurinn hefur dregist lítillilega aftur úr röðnni á þröngum stíg.   Stór, svartur og loðinn hlunkur sveiflar sér allt í einu fram fyrir hópinn, tekur snúnig á tré framhjá fólkinu og kemur svo urrandi illlur eftir stígnum í átt að afkomanda sagnaþula og víkinga. Hann þrífur upp lurk og lemur í jörðina, hristir grinar og öskrar, steðjar áfram að Frónbúanum hvítbláa sem þokar sér inn í runna og reynir að rifja upp glímutök Jóhannesar á Borg sem slóst við blámenn og jötna í sirkúsum utanlands. Nær maður hálfum Nelson á helvítið áður en hann lemur mann? En það er apinn sem rýkur upp í tré fnæsandi og gefur hugtakinu ,,armslengdarfjarlægð” rétta merkingu. Sonur eldfjallaeyjunnar andar léttar.

 

Það verður spennufall í hópnum. Vörðurinn spyr hvort ég hafi þekkt Titto aftur?

 

Góð upprifjun fyrir frekari pólitísk afskipti segi ég.

 

Það kemur í ljós að konan frá Síle er sálfræðingur.

,,Mannasálfræðingur” segir hún.

,,Er mikill munur á apasálfræði og mannasálfræði? spyr konan frá Írlandi.

,,Ekki sýnist mér” segir hún.

 

Þegar ég kem heim er það fyrsta sem ég sé mynd af fótboltabullum á leikvangi. Allt saman simpansar og bavíanar.

 

Dagbækur frá Afríku: Úganda október 2015

Úganda.  Nefni maður nýja heimalandið rekur fólk upp stór augu og svarar á móti: Idi Amin.
Idi Amin er mesta landkynning Úganda meðal miðaldra Íslendinga og eldri sem enn muna þennan mikla harðstjóra landsins.  Hann var rekinn frá völdum 1979.  Og lifir enn i minningu Íslendinga sem vita ef til vill fátt annað um Úganda.  Fjórum sinnum stærra en Ísland að flatarmáli.  Fólksfjöldi 36 milljónir.  Eitt af fátækari ríkjum Afríku og mjög neðarlega á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna.  

Hvar er Úganda?  Eiginlega í miðri Afríku.  Nær hvergi að sjó. Landsmenn kalla landið sitt hjarta Afríku en væri það á líkama myndi það kannski vera nafli Afríku.  Fyrir sunnan Súdan, fyrir vestan Keníu, með Kongó sem nágranna að að austan og á stóran hluta af Viktoríuvatni sem nær allt suður til Tansaníu.  Liggur við miðabaug og loftslagið eins og Íslendingar myndu kalla ,,eiflíft sælusumar”.  Einhver sagði að hugmyndin um aldingarðinn Eden ætti rætur að rekja hingað og annar segir að Winston Churchill hafi á sínum yngri árum sem erindreki lagt til að Bretar settu upp Afríkustöðvar sínar hér.  Landgæði væru slík.

Sutta lýsingin: Landlukt fátækt bændasamfélag sem lifir mest á akuryrkju og aðal útflutningsvörur eru kaffi og blóm, ávextir og grænmeti og fiskur úr vatninu.

Aðeins lengri lýsing:  Kampala er höfuðborgin og hefur útlínur sem minna á stórborgir, glæsihýsi uppi á hæðum, stórmarkaðir og verslunarklasar þar sem hin eilífa umferðarteppa hringar sig utan um mis fátækleg hverfi þegar glæsivillum sleppir.  Tveggja milljóna manna borg sem verður fjögurra milljóna manna borg á daginn?  Enginn veit almennilega.  Stefnir í að verða það sem kallað er ,,megaslömm” og er ekki eftirsóknarvert.

Og svo aðeins meira:  Forsetinn sem gengur undir gælunafninu M7 (heitir Muzaveni) sækist eftir endurkjöri á næsta ári og mun ef það tekst sitja lengur en 30 ár í embætti; fjöldi flokka á þingi er nokkur en aðalvaldaflokkurinn ráðandi  (Þjóðlegi byltingarflokkurinn).  

Landið er fyrrum nýlenda Breta og samsett úr nokkrum fjölda gamalla konungdæma sem lifa enn í umgjörð þingræðis, ættbálkar margir og fjölbreyttir, tungumál nálgast fjórða tuginn og sagt er að landsmenn reki sína hollustu fyrst og fremst hver til síns konungdæmis, aðrar áherlsur þar á eftir.  Kristnir í meirihluta og múslimar næstir á eftir, Indverjar stórir í fjármálageiranum.  Kínverjar hafa haslað sér völl í viðskiptum, fjárfestingu og fjárhagsaðstoð, en fjölmörg styrkjaríki veita landinu um 800 miljónir dollara árlega í þróunaraðstoð, Evrópusambandið og Bandaríkin meðal þeirra stærstu og Ísland meðal þeirra allra smæstu.

Hér í nafla Afríku er sagan lifandi og rík í hugum fólks.  Aðeins fáeinir áratugir frá sjálfstæði frá Bretum og svo innanlandsátök í kjölfarið.  En þar á undan nýlendutíminn sjálfur ,,when the Bristish fucked the country” eins og sagt er - og þar áður öll sú fjölbreytta menning sem þróaðist með ýmsum ættbálkum og konungsveldum á ýmsa lund og lifir enn í hefðum og venjum, sögum, ljóðum og dönsum.

Ég rak augun í eina sögu.  Hún er hliðarsaga við sjálfan Idi Amin.  Birtist í nokkrum minningaargreinum skömmu eftir að ég hreiðraði um mig í Kampala.  Hún er um konu sem  var næstum jafnaldra mín, gæti hafa verið skólasystir í Vogaskóla í gamla daga, en fyrir henni átti að liggja að verða fimmta eiginkona Idi Amins og ,,uppáhaldskonan”.  Sarah Amin lést í Lundúnum fyrir nokkrum vikum, 59 ára að aldri, 40 árum eftir að Amin sá hana go-go dansa með hljómsveit sem kallaðist ,,Byltingarband sjálfsvígavéladeildarinnar” og hafa síðri hljómsveitarnöfn verið fundin upp.  Enda köllluðu menn go-go stúlkuna Sjálfsvíga-Söru.  Hershöfðinginn sem hafði rænt völdum nokkrum árum áður sá í henni stóru ástina í lífinu.

Hún var þá 19 ára, ég var að útskrifast stúdent úr MT.  Haldið var tveggja millljóna dollara brúðkaup, Arafat var svaramaður og lítið spurðist til fyrrverandi kærasta Söru eftir þetta, en barn ól hún sem talið var víst að sá ætti.  Það skipti Amin engu, hann tók það í tölu þeirra 49 barna sem hann sagðist hafa getið með eiginkonum sínum.  

Þegar harðstjórinn sem talinn er hafa 300-500.000 mannslíf á samviskunni var hrakinn í útlegð fór Sara með honum.  Til Sádí Arabíu þar sem hann lést að lokum, en hún fór land úr landi, með viðkomu í Þýskalandi uns hún settist að í norður London og rak snyrtistofu og kaffihús í spekt nema laganna langi armur vildi meina að hún væri of kærulaus um heilbrgiðislöggjöfina gagnvart kakkalökkum og músum á staðnum.  Flestir bera henni gott orð.  Og alltaf bar hún Idi Amin vel söguna.  Hann hafi verið vænn og góður maður og reynst sér vel.

Og hér er ég kominn á þær slóðir sem Sjálfsvíga-Sara átti sína skrautlegu sögu, þessi næstum jafnaldra mín og go-go dansari með ,,Byltingarbandi sjálfsvígavéladeildarinnar” um það leiti sem ég stóð í biðröðum fyrir utan Sigtún en hún á leið í brúðarsæng með einum blóðugasta harðstjóra síðustu aldar.

Eldri greinar
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is