Regntími og hungurmánuðir


(Des-jan.2009)

Hellidembur dynja á Malaví.  Á vegum úti ganga drungalegar verur undir stórum regnhlífum.  Þessar konur að koma úr innkaupaferð, ein með mjölsekk á hausnum, tvær með smáfisk í plastpokum.  Þessi tími er í senn: hábjargræðistími og hungurmánuðir.

Regntíminn er hábjargræðistími í þeim skilningi að bregðist úrkoma sprettur ekki maís sem er undirstöðufæða landsmanna.   Rigning er því undirstaða lífs.  Því meira sem rignir núna því betra.  Í desember byrjar regntíðin og heldur áfram fram í mars.  Síðan rignir ekki neitt mánuðum saman.  Fólkið fylgist grannt með og hvarvetna er þetta umræðuefni: Hvernig eru rigningar hjá þér?  Maísinn sprettur í samræmi við úrkomuna.


Úrhellið er slíkt þegar vel gengur að varla sér úr augum, það gengur á með þrumum og eldingum og á undraskömmum tíma fyllast farvegir áa og lækja, en á götum úti hafa niðurföllin hvergi undan.  Tjarnir myndast á vegum og hver sá sem fyrir verður endar gegndrepa á fáum sekúndum.

En eftir stutta stund kann að stytta upp aftur.  Á meðan er stór og sterk regnhlíf það eina sem dugar.  En drungalegt er ástandið á meðan rignir, steingrá skýin grúfa yfir og hvergi glæta.  Það er því ekki ,,bjart yfir" þessum ásjónum á þjóðveginum, en þær brosa konurnar, því þær eru með björg í bú.  Rengtíminn er líka kallaður ,,hungurmánuðir".  Uppskeran frá í fyrra kann að vera á þrotum eða því sem næst, fólk er vant því að láta sér lítið nægja og ganga svangt til verka.  Minnir á Þorra, Góu og Mörsug á Íslandi, útmánuðina þegar fólk beið eftir vorinu.

Nú er bara að vona að rigni hressilega og uppskera verði góð.  Ef ekki, þá blasir við hungursneyð.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is