Númer eitt eða 125

Þessi börn eiga í vændum að lifa helminginn af meðalævi Íslendings.

Fögnuður Íslendinga yfir því að vera komnir í fyrsta sæti á lífsgæðakvarða Sameinuðu þjóðanna er skiljanlegur. Ég bý nú í landi sem er í 125. sæti og munurinn þar á milli er mikill. Til að byrja með nægir að nefna meðalævilíkur: Namibíumenn verða að meðaltali fertugir, Íslendingar slaga hátt upp í að lifa næstum tvöfalt lengur. Og sú langa ævi er að meðaltali miklu meira en tvöfalt betri. Af því að hlutabréfamarkaðurinn er að falla, krónan að gefa eftir og þorskurinn líka er ágætt fyrir okkur Íslendinga að gæta að því hvaða verkefni blasa við í landi númer 125 og bera saman við okkar hag. Skoðum nokkur ,,Þúsaldarmarkmið” Sameinuðu þjóðanna og stöðu landsins sem um ræðir:

Baráttan gegn fátækt

Heimili eru skilgreind fátæk ef þau verja meira en 60% af tekjum sínum í mat, og mjög fátæk ef hlutfallið er 80% eða meira. Í Namibíu fellur þriðjungur heimila undir þessa fátæktarlínu. Atvinnuleysi er 37%, en í sveitum er það 45% og meðal ungs fólks í kringum 60%. ,,Flóttinn af landsbyggðinni” er því staðreynd hér sem annars staðar, en það sem við tekur eru kofahreysi á jöðrum bæja og borga þar sem ekkert er að hafa, ekki skólar, heilsugæsla, grunnþjónusta eða atvinna. Fjórðungur barna undir fimm ára aldri er vannærður.

Almenn grunnmentun

Menntamál eru stærsti útgjaldaliður ríkisins og hlutfallslega stærri en á Íslandi. En hlutfall af hverju? Tekjurnar eru svo litlar að menntakerfið stendur fráleitt undir kröfum. Reyndar fara 90% barna í grunnskóla en mörg eru dottin út eftir fimmta bekk og einungis rúm 50% ljúka 10unda bekk til að komast í framhaldsnám.

Barnadauði

Listinn yfir orsakir barnadauða, ungbarna og yngri en 5 ára, segir að koma megi fyrir stóran hluta dauðsfalla. Niðurgangur vegna óhreins vatns, malaría, vannæring, berklar, lungnabólga og vanþroski í fæðingu eru allt ástæður barnadauða sem hægt er að leysa með betri heilsugæslu og minni fátækt.

HIV smit og malaría

Eitt af þúsaldarmarkmiðunum er að koma böndum á HIV smit. Hlutfall þess er ótrúlegt í löndum eins og Namibíu (20%) , Botswana (24%) og Malaví (14%). Ekki hefur tekist að snúa þróun við. Þetta þýðir að lífslíkur minnka og grafið er undan samfélaginu í heild. Aldraðir einstaklingar, afar og ömmur, verða að taka að sér sífellt fleiri munaðarleysingja. HIV smit er aðalástæða dauðsfalla í Namibíu, árlega deyja 23.000 manns úr sjúkdóminum og hefur sú tala hækkað um 10 þúsund á fimm árum. Þetta er hátt hlutfall hjá 2ja milljóna manna þjóð: 100 þúsund manns á hverjum fjórum árum. Sjúkdómurinn leggur gríðarlegar byrðar á heilbrigðiskerfið auk þess sem samfélög og fjölskyldur kikna undan framfærslukostnaði þeirra sem eftir lifa.

Sjálfbær þróun og umhverfi

Borgir og bæir bera ekki með góðu móti fólksfjölda sem kemur úr fátækum sveitahéruðum. En þau héruð eiga við landeyðingu, þurrka og ofbeit að stríða. Manngert umhverfi þolir ekki þungann af tilflutningum innan landsins, en í dreifbýli hjara sjálfsþurftarbændur á mörkum lágmarksafkomu og skorts. Varasjóðir í formi beitarlands, vatns og búfénaðar rýrna.


Þróunaraðstoð

Ríki númer 125, sem hér er lýst að ofan, er talið svo vel megandi að þróunaraðstoð hefur dregist saman. Úr 132 dollurum á mann við sjálfstæði 1992, niður í 60 dollara á mann núna. Namibía reiknast nú meðaltekjuland hjá S.Þ., sem þýðir að sjálfkrafa minnkar stuðningur utanfrá. Í landi þar sem ójöfnuður mælist meiri en annars staðar þýða meðaltekjur ekki neitt. GINI stuðull sem almennt er notaður til að mæla skiptingu lífsgæða er hvergi óhagstæðari fyrir fátæka en hér.

Það eru því næg verkefni í þessu landi þótt hagur sé talinn hægt batnandi. Við sjáum lífsgæðamuninn milli númer eitt og númer 125 á þessum fáu málaflokkum sem raktir hafa verið og varða Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Nú má endalaust velta vöngum í kringum tölur og mælivarða af þessu tagi. Ein nálgun sem mér flaug í hug við lestur þessarar lýsingar á landi númer 125 er að spyrja hvenær við Íslendingar vorum á þessu stigi? Að slepptri HIV plágunni, eru 100 ár síðan við vorum svipað á vegi stödd? Hagsögumenn kunna örugglega að lesa í þessar tölur af meiri nákvæmni en ég. En fyrir leikmann gæti ástandið í dag í landi 125 virst svipað og var á Íslandi um það leyti sem við fengum Heimastjórn. Um eða eftir aldamótin 1900. Barnadauði, kröm, menntunarskortur, fjármagnsskortur, fátækt á mörgum heimilum og sjúkdómar sem drógu forfeður okkar til dauða langt á undan því sem nú þekkist. Þeir sem halda að ,,þróun” sé bara spurning um hagfræðilegt töfrabragð ættu að gæta að þeim 100 árum sem íslenska efnhags- og velferðarundrið þurfti.

(Fyrir Fréttablaðið, jan. 2008).

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is