Namibía: Skyndikynni


Sá sem situr á skrifstofu minni í Windhoek, höfuðborg Namibiu, og lítur út um gluggann, sér ekki mikið af Afriku Tarzanbókanna. Eða sviðsmyndir frá hörmungasvæðum. Hér eru fallegar búðir með hátískuvörum og sprangandi tískudrottningum um gangstéttar, fagurlimaðir pálmar í skrúðgarði handa götunnar, uppáklæddir skrifstofumenn og bílaumferð sem eins gæti skriðið um götur í smábæ í suðurríkjum Bandaríkjanna.

Það er einhver Íslendingur í Namibíumönnum. Fámenn þjóð í dreifbýlu landi og fáir sem vita mikið um hana. Nýfengið sjálfstæði og vottar fyrir minnimáttarkennd sem þó er vandlega falin. ,,How do you like Namibia” er mjög algeng spurning. Okkar sjálfstæði hér í Namibíu er aðeins 17 ára. Og það ríkidæmi sem vissulega er til staðar í borginni streymir um ganga á nýrri Kringlu sem slær okkar heima út. Það er ærandi poppmúsik alls staðar sem maður kemur, eins og þessi þjóð hafi nýlega fengið þessa guðsgjöf og vilji nýta í botn áður en hún gengur henni úr greipum – að einhver guðshönd komi og slökkvi á tækinu. Allar helstu vörutegundir. Merkjavara þykir fín. Þeir taka Valentínusardaginn jafnvel hátíðlegar en við, gleypa alls kona vitleysu að þvi er virðist af íslenskri áfergju: ruslfæði og draslþætti í sjónvarpi. Matvörumarkaðir fullir af óhollu fæði sem flutt er inn eins og fullnusta verði boðorði. Græjur, bílar og farsímar í öllum auglýsingum.

Þetta er þröngi hringurinn.

Í 10 mínútna fjarlægð frá miðbænum er Katatura, fátækrahverfi sem versnar eftir því sem frá líður, og þar eru staðir eins og einkamötuneyti Christinu. Hún gefur blásnauðum og HIV smituðum börnum mat alla daga svo þau geti gengið í skóla. Hér býr allur fjöldinn sem streymir inn í miðborgina á daginn til að vinna hjá hinum.


Prúðbúnar konur við leikskólaopnun norður í landi.  Oft má þekkja af hvaða ættbálki viðkomandi er með því að skoða skartklæði kvenna.

 


Namibía er á lista yfir þjóðir með ,,meðaltekjur”. 30% þjóðarinnar hefur minna en dollar á dag. Það þýðir á mannamáli að fáir, mjög fáir, hafa mikið, mjög mikið, milli handa. Einhver sagði að ríki minnihlutinn væri sá ríkasti sem þekktist. Væntanlega þeir hvítu sem stýra demantabransanum og öðrum námagreftri.

Þessi litla sæta miðborg er með þýska gullaldarkirkju á hæðinni sem kennileiti, en eftir tveggja tíma akstur er maður kominn út á villimörk þar sem dýralífið er undursamlegt. Antilópur, zebrahestar, gírafar, klettarottur, flóðhestar og nashyrningar spranga í náttúrulegu umhverfi eins og fyrir þúsund árum. Þeir heppnu sjá ljón og fíla.



Fjórir tímar í vibót og við erum komin í land Himbanna. Hirðingja sem reka nautgripi um mörkina. Konurnar eins og aftan úr forneskju með húðina smurða frá hvirfli til ilja í leir, smjöri og rauðalit sem minnir á mýrarauða heima.


Hárið vandlega greitt í viðeigandi stíl og naktar að öðru leyti en leðurskupla hylur lendar. Karlarnir í pilsi að fornum sið, eða er það útfærsla af stuttubuxum? Fara svo yfir í nútímann að ofan, á pólóskyrtum, sjakket eða brasilíska landsliðsbúningnum í fótbolta.

Það er ekki furða að þeir hér kalli land sitt ,,land andstæðnanna”. Eins og Íslendingar gera um sitt land.

Þessi endalausa mörk með trjám, runnum og melum og smáhæðum þar sem helmingur allra bújarða er enn í eigu hvítra. Fjögur þúsund hvítir bændur eiga helming beitilands. Ein MILLJÓN blökkumanna á hinn helminginn. Þetta er ekki eina arfleifð nýlendu- og kynþáttastefnu.

Til austurs rennur landið saman við Botswana í Kalaharieyðimörkinni þar sem búskmenn búa og eiga erfitt uppdráttar í fátækt sem jafnast á við það versta sem þekkist.

Til vesturs hallar landið niður að Atlandshafinu þar sem elsta eyðimörk í heimi myndaðist. Þarna er 3-400 km akstur gegnum hitamóðu og mánalandslag þar til allt í einu tekur við sjávarmistur og tveir hafnarbæir: Walvis og Swakobmund. Ríkir útgerðarbæir með fjölda ferðamanna og glæsilegum viðurgerningi. Og þýska ráðandi á götum og í arkitektúr. Í hafinu bylta sér hvalir undan strönd eyðimerkurinnar, selir í hundruð þúsunda hjörðum róa í spikinu sem þeir safna á auðugum fiskimiðum.


Á miklum strandlónum hafast við milljónir farfugla.

Þetta er með réttu land andstæðna.

Langt suður með ströndinni er svo fiskimannabærinn Lúderits, hann minnir mig á Nuuk í Grænlandi þar sem hann stendur á klöppum við hafið og smábátar rugga í vari. Í matartímanum streyma út fiskverkamenn og -konur á bláum göllum eins og á Kópaskeri, í den. Allt svo nakið og napurt, nema sólin skín heitt og bakar gróðursnautt landið. Gull í greipar hafsins er sótt af krafti en á Zone 7 búa þúsundir í bárujárnsskýlum á hörðum þurrum mel þar sem ekki má sjá vott neinnar þjónustu nema skakka kamra þar sem lúxusinn rís hæst, og svo auðvitað súper nægktklöbb á hól.

Hér eru þrettán kynþættir í einni blöndu sem ekki blandast nema að óverulegu leiti. Hereroar eru stórir og stoltir, gamall hirðingjastofn. Mér er sagt að munurinn á þeim og Damörum sé sá að þeir fyrrnefndu vilja borða kjöt meðan þeir drekka, en Damarar vilji slást. Jæja, þetta er eitt af því sem skilur þá að. Þessir ólíku hópar mynda þjóð í einu ríki, viðurkennd opinber tungumál eru 13, en á skrá eru tæplega þrjátíu. Bara Sanfólkið, sem oftast þekkist í daglegu tali sem búskmenn, talar fimm tungumál og nokkrar mállýskur og skilur tæpast hvert annað. Þetta er þó ,,þjóð”flokkur sem telur ekki nema rúmlega 30 þúsund manns.


Ef ég ætti að giska á hver sé ráðandi félagsstaða í Namibíu yrði svarið: ung kona, einstæð, með eitt en líkast til fleiri börn.

 Hér eru tvær milljónir manna á landi sem er áttfalt stærra en Ísland. Sem þýðir að Namibía er jafnvel strjálbýlli en landið okkar.

Veturinn kemur á sumrin. Júní og júlí geta verið svalir, menn tala jafnvel um næturfrost þótt á hádegi séu vetrarhörkurnar í kringum 20 gráður í plús. Namibía er um það bil 30 gráðum fyrir sunnan miðbaug svo desember og janúar eru heitustu mánuðirnir og þá bráðnar hér allt í rúmlega 30 gráðum og vel yfir 40 í eyðimörkinni.

Það eru tvö orð sem virðast eiga við um Namibíumenn. Kjöt og SWAPO. SWAPO er valdaflokkurinn í landinu, sjalfstæðisflokkurinn sem barðist við Suður Afríku og hafði sigur. Namibía er búin að vera sjálfstætt ríki síðan 1990, í 17 ár, en SWAPO er 37 ára gömul hreyfing. Íbúar landsins sem komnir eru til vits og ára þekkja því kynþáttaskilnaðarstefnuna af eigin raun, og í ríkisstjórn eru margir sem lifðu stærstan hluta ævi sinnar í útlegð og báru vopn fyrir land sitt. Þótt hér sér fjölflokkakerfi er SWAPO ráðandi afl með mikla yfirburði.

Og það er eins með kjötið. Þótt hér sé nóg af ýmsum matvælum vilja Namibíumenn helst af öllu kjöt. Og hvað gera þeir við það? Grilla. Grill er uppáhaldsiðja þjóðarinnar. Var ég búinn að segja að það sé einhver Íslendingur í Namibíumönnum?

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is