Langt, langt í burtu, er lítill skóli


Hér norpar fátækin undir dulum sem börnin sveipa um sig í kulinu frá namibíska vetrinum. Atvinnuleysi er stundum sagt 80% en hvernig er það mælt þar sem enginn virðist vinna? San menn voru safnarar og veiðimenn í 20 þúsund ár, þeim er ekki gefið að gerast allt í einu bændur. Ef jarðnæði fæst.  Samfélögin eru háð matargjöfum sem koma stopult frá stjórnvöldum, sjaldan sést peningur og þeir fáu sem eiga seðla eiga erfitt, slík er ásóknin frá hinum sem aldrei eignast neitt.

Það er ekki einfalt mál að reka skóla á svona stað.  Myndasýning og grein:



Velkomin í lítinn sveitarskóla langt langt langt í burtu þar sem...

Það tekur einn og hálfan tíma að fljúga til Tsumkwe í norðurátt og vestur frá höfuðborginni, en það er eins og maður hafi farið 200 ár aftur í tíma. Og þó, nýreist GSM mastur sannar að það símsamband. Og meðan flugvélin eltir skugga sinn inn til lendingar á malarbrautinni má sjá þráðbeint strik í landinu, þetta er vegur til næsta bæjar, 300 km. af þvottabretti takk fyrir. Þar er nýlenduvöruverslun sem er stærri en tveir kofar sem þjóna slíku hlutverki í bænum. Hér búa 400 manns eða svo, það eru aðfluttir stjórnsýslumenn sem hafa menntun til að stýra þeim stofnunum prýða staðinn, allir almennir íbúar eru San. Bærinn var til fyrir nokkrum áratugum sem ,,stjórnsýslustöð” fyrir Austur-Búskmannaland. Var nefndur ,,Biðstöð dauðans” þegar frumbyggjar komu sér fyrir og ekkert nema næsti stallur fyrir heimabrugg gaf lífinu gildi. Nú skilur maður orðið Búskmaður. Hér er runnlendi endalaust, svo langt sem augað eygir og miklu lengra. Botswana er í 25 km fjarlægð, allt í kring þetta sviðna gras, kræklóttu runnar og tré á stangli. Innan bæjarmarkanna eru félagsmiðstöð, stjórnstöð ,,verndarvæðisins” sem er allt um kring, nýleg og falleg menningarmiðstöð þar sem eru smábúðir, forskóli og eini ,,veitingastaður” bæjarins þar sem ungt par kokkar á tveimur hellum í smábás.


San fólkið hefur sterka anlitsdrætti sem einkenna það.

Byggðin er dreifð, lágreist smáhýsi og kofar. Frumbyggjar landsins búa allt í kring, þessir San menn eru Ju/honesi. Þeir þykja best settir flestra San í landinu því hér eiga þeir rétt á að nytja verndasvæði dýra. Viðskiptavinir eru skotveiðimenn sem borga 50 þúsund Bandaríkjadollara fyrir að skjóta fíl, og hirða ekki einu sinni kjötið. Svo koma hingað unnendur náttúru í skoðunarferðir og gista jafnvel í frumbyggjaþorpum; þeim finnst verst að nú ganga engir lengur á lendaskýlum með boga og örvar. Og þess utan koma forríkir útlendingar sem hafa séð allt og gert allt – nema komið á veraldarenda.

Við tilheyrum ekki neinum þessara hópa. Við ætlum að kanna hvort hér sé grundvöllur fyrir því að koma upp leikskólum.

Fólkið sem starfar næst grasrótinni eru norsk kona á vegum þarlendra þróunarsamtaka og San maður sem er menntafulltrúi sýslunnar, einn fárra San sem eru langskólagengnir.

Nær grasrótinni kemst maður tæpast nema skríða. Bíllinn leggur að baki 80 km malarveg og skrönglast svo loks inn á sandslóða og krækir fyrir tré sem fílarnir hafa fellt. Þá kemur skólinn í ljós.



Svo yngstu börnin, 6-8 átta ára, þurfi ekki að fara á heimavist inni í Tsumkwe, þessa tæplega 100 km. inn í framandi menningarheim, fá þau að taka fyrstu þrjú árin í skólum sem Norðmenn styrkja úti í byggðunum. Skólarnir eru samtals fimm, kringum 30 krakkar í hverjum og eilíft basl að halda þeim gangandi.



Húsið er niðurnítt en krakkarnir eru að hreinsa til þegar okkur ber óvænt að garði. Það vantar slatta, því nú stendur yfir uppskerutími á ,,Djöflakló” sem er eitt af því fáa sem San fólkið ,,flytur út” – hana kaupa Þjóðverjar í heilsulyf. Börnin eru tekin úr skóla að íslenskum sið til að ,,bjarga verðmætum”. Menntamálafulltrúanum er ekki skemmt.


Kennslukonan á staðnum er í starfsnámi.

Kennararnir eru ungur maður og kona sem búa í tjöldum í næsta þorpi. Venjan er sú að ráða fallista úr grunnskólanum í kennslustörf, en nú á að þjálfa upp vænlega kennara til að læra til þess starfa. Þau eru í eins konar millistigi af fjarnámi, starfsþjálfun á staðnum og raunverulegu kennaranámi, fara stundum suður í viku í senn til að gleypa í sig fræði sem þau svo rækta á staðnum á milli.



Nemendur eru röskir krakkar og glaðlegir.

Það er sæmilegur agi í skólastofunni og utan hennar taka krakkarnir lagið og dansa. Rólur og fínheit prýða skólalóðina.

 Í skúr er kokkaður grautur úr maízmjöli.




Krakkarnir koma ekki nema matur fylgi. Enginn matur, enginn skóli.  Þau fara í röð til að fá matinn og skófla í sig grautnum. Mjölið er sjálfsagt eitthvað bætt með vítamínum, en einhæft er fæðið.

Menntafulltrúinn segir að þetta sé aðalmálið, og eilíft umkvörtunarefni að ekki fáist nægur matur.



Menntaðir kennarar fást ekki til að koma til starfa í svona byggðum. Þess vegna þarf að mennta þá fáu sem eitthvað hafa í þetta; lang algengast er að San fólk detti úr skóla kringum 10 ára aldurinn. Örfáir hafa lokið 10unda bekk og enn færri komist lengra.

Foreldrar hafa engan skilning á menntun. Hvers vegna ættu þeir að hafa hann? Hafa sjálf aldrei gengið í skóla og sjá ekki almennilega tilganginn. Hér má heyra sams konar varnarviðbrögð og stundum á landsbyggðinni heima: ,,Mennta börnin burt”? Hvers vegna?



Í ,,þorpunum” í kring má sjá byggðir fólksins. Þetta eru 10-20 kofar fyrir 20-30 manns.  Byggðin er eins og gjörningur. Sundurgerð í klæðaburði er líkt og einhver hafi ímyndað sér sjóveikan sirkús. 

Alls konar ,,nytja” hlutir liggja á víð og dreif eins og eftir vindhviðu af öskuhaugum, en eru þegar nánar er að gætt hluti af ,,skipulagi” sem tekur mið af fábrotnu lífi: Kveikja í pípu, elda graut, sitja á hækjum sér, skræla Djöflakló.

Meira er það nú tæpast.

Á Vesturlöndum gengur fólk í listaháskóla í fjögur ár til að læra að búa til sjónarspil sem þó gæti aldrei nálgast þessa sýningu í ,,óræðum margbeytileika” eins og gangrýnendur segja þegar þeir vita ekki meir.



Svona eru byggðirnar hér. Stefnumót við tímaleysi í gjá milli tveggja menningarheima sem hvergi snertast nema þar sem einhver hefur komið sér upp derhúfu, bensínbrúsa eða íþróttabol.

Þetta er hvorki né heimur. Örugglega ekki veröldin sem var þegar fólkið reikaði um Kalahari mörkina í leit að rótum, dýrum eða vatni. Engan veginn veröld sem rímar við ,,nútíma”; bara fryst í stöðnun þar á milli.

 


Hér norpar fátækin undir dulum sem börnin sveipa um sig í kulinu frá namibiska vetrinum. Atvinnuleysi er stundum sagt 80% en hvernig er það mælt þar sem enginn virðist vinna? San menn voru safnarar og veiðimenn í 20 þúsund ár, þeim er ekki gefið að gerast allt í einu bændur. Edna jarðnæði tæpst til og markaður fyrir afurðir sjálfsagt takmarkaðu.  Samfélögin eru háð matargjöfum sem koma stopult frá stjórnvöldum, sjaldan sést peningur og þeir fáu sem eiga seðla eiga erfitt, slík er ásóknin frá hinum sem aldrei eignast neitt.

Það er ekki einfalt mál að reka skóla á svona stað.

(Fleiri myndir og stærri hér.)

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is