Frumbyggjasáttmáli?



Það er undarlegur samhljómur í þeirri tilfinningu sem maður fær við að koma í búðir hinna fornu ,,Búskmanna” Kalahari merkurinnar og ferðast um ,,verndarsvæði” indíána Norður Ameríku. Hvorir tveggju teljast til frumbyggja þessara ólíku meginlanda. Það sama á við um báða hópa: Fornir lifnaðarhættir eru aflagðir en ekkert tekur við, þeir eru á menningarlegum strandstað tveggja tíma og þýðast hvorki fortíð né nútíð.

Þegar maður ferðaðist um Navahóbyggðirnar í Arizóna blasti þetta við: Atvinnuleysi 80%, alkóhólismi og félagsleg upplausn, menntun lítil og firring ríkjandi. Maður ók um eyðimörkina og börnin báðu um dollar fyrir mynd, lítil húsræskni á víð og dreif og kringum þau sundurleitt drasl. Ég hvarf í minningunni aftur til sama staðar um daginn þegar ég sótti heim frumbyggja Kalahari: San fólkið. Tölur um atvinnuleysi eru marklausar því enginn hefur neitt að gera, það sést ekki peningur í byggðunum, ríkið skaffar mat þegar best lætur og fæst börn klára skóla, ef þau byrja. Í Bandaríkjunum fundu menn þá frumlegu lausn að leyfa frumbyggjunum að reka spilavíti með einkaleyfi til að hópurinn fengi einhverjar tekjur. Örfáir afrísku frumbyggjanna hafa náð að koma á legg verndarsvæðum þar sem útlendir auðkýfingar taka þátt í annars konar spilamennsku: Skjóta fíla gegn gjaldi. En þeir eru löngu hættir að reika um mörkina á lendaskýlu með boga og örvar í leit að dýrum eða jurtum til að eta. Sá lífsstíll entist þeim til menningarlegs sjálfstæðis sem einn merkilegasti mannflokkur sem jörðin hefur alið – í fjörutíu þúsund ár. Síðustu áratugi hefur þetta líf kvatt fyrir annað – sem varla telst sem líf.


Frumbyggjar allra landa

Það er skýrt að Indíánar Norður-Ameríku komu á undan hvíta manninum. Og enginn getur sagst hafa komið á undan Búskmönnum til merkurinnar í Suður-Afríku, Botswana og Namibíu. En líf og örlög mannflokka ráðast ekki af rökunum um hver kom fyrstur. Það eru tvö þúsund ár síðan hirðingjar hófu mikla sókn suður um álfu Afríku og komu sér fyrir á mikilvægum lendum. Þegar hjarðbúskapur og akuryrkja reyndust ábatasamri en lifnaðarhættir veiðimanna og safnara hörfuðu þeir einfaldlega undan. Í dag er ekki nokkur leið að rökræða málið til lykta með þvi að spyrja um tímaröð í aldanna rás. Allra síst vegna þess að nú er talið að jörðina byggi tæplega 400 milljónir manna sem á einhvern hátt teljast frumbyggjar, og það í 70 löndum. Sameinðu þjóðirnar stóðu fyrir áratug frumbyggjans, sem lauk 2004, án þess að takast mætti að gera alþjóðlegan sáttmála um stöðu þeirra. Það mistókst einnig í fyrra, og enn skal reynt, nú á haustþingi Sameinuðu þjóðanna, í september 2007.

Flókin skilgreining

Reynt er að skilgreina frumbyggjarétt út frá því sem við blasir í indíánabyggðunum sem ég lýsti eða aðkomunni í San þorpinu sem ég heimsótti: Út frá kerfisbundinni efnahagslegri og félagslegri útskúfun sem útilokar þetta fólk á sögulegum forsendum frá því að aðlagast nútímanlegum stjórmálum og efnahagsmálum. Menn sjá auðvitað ótal gildrur í þessu. Þess vegna vakti gríðarlega athygli í fyrra þegar hæstiréttur Botswana dæmdi San-fólki í hag og heimilaði því að taka búsetu á einu stærsta verndarsvæði landsins, en áður hafði ríkið flutt fólkið burt til ,,aðlögunar”. Forn réttur til búsetu var viðurkenndur. Mörg nýfrjáls Afríki vinna af skiljanlegum ástæðum gegn ,,ættbálkastefnu”. Gömul og ný dæmi um hörmulegar afleiðingar deilna ólíkra ættbálka eru næg til að réttlæta stefnu sem byggir á sambúð allra án mismununar. Hugmyndir um ,,sjálfræði” einstakra hópa eru því í andstöðu við pólitísk yfirmarkmið ungra ríkja, sem nógu erfitt eiga samt með að fóta sig. Það er líka vandséð hvernig frumbyggjakrafan mun breyta bágri stöðu fólksins ef hún þýðir ekki efnahagslegar bætur eða jákvæða mismunun, sem fjöldi annarra fátæklinga af öðrum uppruna mun líta á sem ögrun. Þá eru einnig margar innri mótsagnir í umræðunni: Er stefnt að félagslegri og efnahagslegri aðlögun, sem vinnur gegn menningarlegri sérstöðu? Eða öfugt: Á að reyna að viðhalda menningarlegri sérstöðu sem á sér engar rætur í nútíma? En engin rökræða breytir staðreyndum sem við blasa, um skipbrot hefðbundinna lifnaðarhátta í samkeppni við aðra og upplausn menningarhópa. Hvernig hinum Sameinðu þjóðum tekst að leysa úr verður ein af fréttum ársins.

Sjá fleiri frásagnir og myndir af heimsóknum til San-fólks hér á vefnum.  T.d þessa grein um San-réttindi. 

(Fyrst birt í Fréttablaðinu júlí 2007)

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is