Þrjár sögur um afríska afreksmenn

Mynd Peters Clarke: Hlýtt á fjarlægan dyn þrumunnar

Köllun. Þetta orð hefur fagran hljóm. Ákall. Kall. Köllun. Einstaklingur með köllun lætur ekki ljón í vegi aftra sér, fer ótrauður sinn veg. Hann er hugrakkur. Einstaklingur með köllun þráir eitthvað nógu mikið til að láta ekki aftra sér. Hann er tilfinningavera. Og einstaklingur með köllun hefur sýn. Hann sér eitthvað annað og stærra en það sem er. Hann er hugsjónamaður. Hugrakkur og tilfinnaríkur hugsjónamaður breytir heiminum.

Ég hafði spurnir af þremur slíkum Afríkumönnum í sömu vikunni.

Fyrst var það bland af slembilukku og gamalli venju: Í heimsóknum á nýja staði fer ég oft á listasöfn til að skoða hvað heimamönnum býðst. Reyndar vorum við á leið í Þrælasafnið í Höfðaborg en komum að þar sem Þjóðarlistasafnið stóð og tröppurnar buðu okkur einfaldlega að koma inn. Þar voru fróðlegar sýningar, ein um Peter Clark.

Myndlistarmaður

Hann er einn af helstu myndlistarmönnum Afríku og sýningin kennd við heiti einnar af þekkstustu mynda hans: Hlýtt á fjarlægan dyn þrumunnar. Í sex áratugi hefur hann málið, rist myndir og klippt saman, ómenntaður hafnarverkerkamaður sem hafði þá köllun að verða listamaður. Fæddur 1929. Þurfti snemma að hefja vinnu til að leggja til með fjölskyldunni, en á kvöldin og um helgar þegar þrældómi við höfnina lauk teiknaði hann og málaði.

Fyrstu skissurnar eru frá því hann var fimmtán ára. Á þrítugsaldri sagði hann skilið við stritvinnu á höfninni og fór upp í sveit til að teikna og mála. Kringum 1960 er hann kominn með myndir inn í galleríin í Höfðaborg og farinn að selja, fyrstu blaðaviðtölin afhjúpa metnað og trú á eigin getu. Enn ómenntaður. En þá taka hjólin að snúast og erlendir skólar bjóða honum styrki og smátt og smátt vex honum ásmeginn.

Myndir hans frá tímum kynþáttaskilnaðar í Suður Afríku sýna alþýðu við margs konar basl og strit en það er oft eins og einhver ógn hvíli yfir. Nokkrar klippimyndir eru pólitískar og í heitum ógnandi litum. Sjá má sýnishorn hér.  Hann er enn á lífi og enn að. Braust til mennta og frama í list sinni vegna köllunar.

Drengurinn sem virkjaði vindinn



Í sömu viku las ég bókina: Drengurinn sem virkjaði vindinn. (The Boy Who Harnessed The Wind). Hún er sjálfssaga malavísks drengs sem líkt og Peter Clark fékk ekki að ganga í skóla vegna fátæktar. William Kamkwamba er sögumaður. En jafnvel á tímum hungursneyðar og fátækar í fjölskyldunni var menntunarþorstinn öllu yfirsterkari. Sagan segir frá sveitalífinu í Malaví, fásinni, fátækt, fordómum gegn menntun og kröfunni um að allir leggist á eitt í daglegu puði. Sem er hreint ekki óskiljanlegt við þessar aðstæður. En sveitarbókasafnið er segullinn sem dregur hann að sér þegar fjölskyldan á ekki fyrir skólagjöldum. Og svo er þarna gamall ruslahaugur frá ónýtri verksmiðju þar sem ótal hlutir kveikja í honum ímyndurnaraflið. Hann kann ekki ensku en getur lesið skýringarmyndirnar í bók um rafmagn og orku.

Innan tíðar hefur hann smíðað módel af vindmyllu og mikil er gleðin þegar útvarpstækið sem hann tengir við rafal sem fengin var af reiðhjóli útvarpar dansmússikk. Loks rís stóra vindmyllan þar sem gamalt reiðhjól er burðarvirki á stóru mastri, spaðarnir eru búnir til úr plaströrum. Og rafallinn..? Þetta er æsispennandi!

Drengurinn sem virkjaði vindinn er nú þekktur víða um lönd og hefur fengið tilboð um nám. Hvers vegna reisti hann vindmyllu? Hann hafði áhuga á rafmagni og orku. Vildi skilja en ekki bara horfa sljór á umhverfið. Og sá fyrir sér að með rafmagni yrði hægt að lesa á kvöldin og dæla vatni á akrana á daginn. Fjölskyldan þyrfti aldrei aftur að svelta vegna þurrka. Einfalt. Og lítið bókasafn og góður bókavörður sem nennti að þýða fyrir hann erfiðu orðin opnuðu lykil að vermætum á ryðguðum ruslahaug.

Langa langafi og þorpið Jerúsalem

Sem ég sagði miðaldra malavískri konu þessar sögur bætti hún þeirri þriðju við. Og hún passar. Langa langafi hennar var höfðingi í þorpi, og yfirhöfðingi fimm annarra þorpa. Mataka var nafn hans og einnig nafn þorpsins.

Einhvern veginn, enginn veit hvernig, lærði hann ensku. Líklega með því að ræða við fólkið í Blantyre þar sem hann seldi jarðepli og annað af ökrunum. Alveg ómenntaður sjálfur. En hann hugsaði um framtíð fólksins í þorpunum. Fór hús úr húsi og hvatti alla foreldra til að senda börnin í skóla. Sagði þeim að læra ensku og læra meira. Átti níu sjálfur og sendi þau öll í gegnum framhaldsskóla og dætur ekki síður en syni.

Gerðist frumkvöðull í jarðnýtingu og ávaxtarækt, fór langan veg til að vinna steina sem hann seldi til bygginga í borgum. Efnaðist og stofnaði verslun í þorpinu, lagði til land undir skóla og kirkju og alltaf ótrauður í að hvetja börn til að læra. Smátt og smátt dafnaði þessi byggðarkjarni langt umfram önnur þorp í grennd.

Fólkið í þorpum langa langafa var annálað fyrir gjafmildi á tímum tíðra hungursneyða. Alltaf fengu allir sem komu í leit að aðstoð. Nú er þessi byggð þekkt sem Jerúsalem. Fólk gaf byggðinni þetta nafn í bæði gríni og þakklætisskyni með tilvísun í Biblíuna. ,,Aha, ertu frá Jerúsalem!” segir fólk við þessa vinkonu mína. Mörg barnanna úr þorpunum eru háttsettir embættismenn, efnaðir athafnamenn og búa vítt og breitt um landið. Þegar barnabarn langa langafa, öldruð kona, dó einn daginn, kom fólk til útfarar úr öllum landshornum og frá þremur þjóðlöndum.

Börnin frá Jerúsalem fengu menntun og tækifæri. Þau koma alltaf heim til að votta forfeðrum virðingu þegar eldri kynslóðin kveður. Og minnast langa langaafa sem trúði á menntun þótt enga hefði sjálfur.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is