Svona býr fólk

Breiður kofahreysanna í Katatura færast ofar í hæðirnar og utar.   Íslendingar sem koma í Katatura, úthverfi Windhoek, fyllast skelfingu, en þetta er einkar ,,gott" fátækrahverfi.

 

Gott vegna þess að það er svo miklu betra en verstu skítahverfi Afríkuborga. Það er svo miklu minna en pestarbælin sem telja milljónir, og maður undrast hve vel fólk er til fara og haldið út úr þessum skriflum. Það eru gæðin. Hér búa um það bil 50 þúsund manns.

Hvernig var ástandið á staðnum sem það kaus að kveðja? Í fyrsta skipti í mannkynssögunni búa fleiri í þéttbýli en dreifbýli.

Það býr fólk í þessum hreysum.  Yfirvöld höfðu lengstum undan að ,,skipuleggja” þessar byggðir, svo götur hefðu að minnsta kosti númer og staurar og vatnsleiðslur lægju eftir kerfi. Nú er það breytt. ,,Flóttinn af landsbyggðinni” er hér eins og annars staðar og eftir því sem fleiri hrófla upp kofa verður skortur á þjónustu tilfinnanlegri: Engir skólar, verslanir, heilsugæslustöðvar – ekkert nema næsti kofi og kamar.

---

Katatura merkir bærinn sem enginn vill búa í. Ekki vegna þess að hér sé svo slæmt, hingað flykkist nú fólk! Verra var þegar skilnaðarstjórn S-Aríku skipaði öllum blökkum íbúum Windhoek að flytja af heimilum sínum og út í hverfið sem þá fékk nafnið Katatura: Þar sem enginn vill búa. Ættbálkar voru flokkaðir í hverfi og húsin merkt með upphafsstöfum og númerum: H26. Herero í húsi 26. Þeir sem neituðu voru skotnir og nú greftraðir í heiðursgrafreit inni í borginni, í hverfinu sem fólkinu var skipað að yfirgefa.


Pappaspjöld eru fyrstu efniviðir, tunnulok koma þarnæst, og eitthvert afbrigði af afrískum kofa rís með greinum, laufum og tiltæku rusli sem fyrsta hreysi á nýjum stað. 

Svo þróast þau með betri efnum. Maður furðar sig á því hvaðan allt þetta bárujárn kemur. En ekki ná allir í slík lífsgæði, járnplötur og útflattar tunnur koma í stað.

Einangrun er engin í húsunum.  Það þýðir að í næturfrosti á vetrum er skítakuldi, í 35 gráðu hita á sumrum er húsið suðupottur. Þegar rignir fer allt á flot og aurinn er í ökla.  Neðst í horninu til hægri má sjá smáhreysi, sveipaðar holur sem kamar.

Og í ,,úthverfinu" er komin kirkja.  Bekkur, stikur, kross sem gnæfir upp úr trénu.  Altari. Þökk sé herranum.

Meira en milljarður manna býr í svona hverfum, ,,borgarstíu” eins og þýða mætti ,,slömm”. Katatura, bærinn sem enginn vill búa í er lifandi þversögn – því hingað flykkist fólk til að búa. Draumurinn um betra líf byrjar hér.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is