Skógur af dauðum trjám

Um það leyti sem Kólumbus fann Ameríku stóðu þessi tré í blóma.  Nú eru þau dauð, líflaus og að breytast í stein, en standa samt.  Það er undarleg þögn og virðing yfir þessum skógi af dauðum trjám, svartir bolir eru furðulega þurrir en sterkir og holur hljómur þegar maður bankar.  Fyrir 600 árum var þessi sigdæld sem þau standa í vökvuð af reglulegum flóðum.  Síðan skriðu sandöldur fyrir og lokuðu vatnið frá.  Nú er þarna harður þurr jarðvegur sem er umkringdur háum sandöldum sem fela þetta undur þar til komið er beint að. 

 

 

Það er eins og maður horfi yfir stórt hringleikahús. Svartir skuggar trjánna skera sig úr umhverfinu. Þau eru dauð. En trén geta ekki rotnað.

Eyðimörkin er of þurr. Nú standa þau á víð og dreif eins og fyrir hálfu árþúsundi og geta ekki annað. Ræturnar bora sig enn niður í harðan sandinn.

Greinarnar skaga til himins, kræklóttar og ógnavekjandi. Í baksýn eru rauðar sandöldur Namibíumerkurinnar.

Yfir er morgunþokan sem smátt og smátt víkur fyrir bláma eftir því sem sólin rekur mistrið burt. Þögn grúfir yfir.

Maður reikar milli trjánna og horfir á löngu liðna tíð heilsa enn einum nýjum degi í eyðimörkinni.

Fleiri myndir  hér.

(Myndir: GKS)

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is