Konur og skraut

Þessar unglingsstúlkur eru af ættbálki Ovazimba (framb. Ovaþimba) í norður Namibíu, vandlega skreyttar eins og þetta fólk er allt.  Eins og gangandi föndurbúð, litfarar ,,perlur" og bönd um allt.  En þær eru ekki einar.  Margs konar hefðir og skraut einkenna hina ýmsu ættbálka landsins og ólíkur klæðaburður er sannarlega augnayndi.  Meira að segja íslenskar konur geta nýtt sér stefnur og strauma í Namibíu eins og sjá má af þessari tískufréttaskýringu.

 


Táningsstúlkur um allan heim eru meðvitaðar um hvað er smart.  Hér eru engar sveiflur í þeim efnum, það sem gengur er það sem alltaf hefur gengið - hjá ,,mínu fólki".  Ovazimba stúlkan til vinstri er með litfagurt skraut síns fólks og ósmurð, en himbastúlkan, frænka hennar, er komin með greiðslu stúlku sem er tilbúin að gefast, og gengur með hinn digra hálshring sem svo mjög einkennir himba, auk leirlitarins.

 


Himbakonur bera af í sjónarspili klæðnaðar, á lendaskýlu einni.  Digrir hringir um hjáls, margfalt skraut um ökla og úlnliði, hárið vandlega smurt og leðurpjatlan á höfðinu gefur til kynna hjúskaparstöðu.


 


Höfðubúnaður segir til um breytilega hjúskaparstöðu.  Sú sem er lengst til hægri er ógift, hinar bera leðurpjötlur á höfði sem sýna að þær eru giftar.  Um ökla bera þær þunga hringa, lendaskýlan er nákvæmlega útfærð til að líta út eins og á að gera, og til eru spariútgáfur til hátíðabrigða.  Þær eru alltaf smurðar þessum leirlit, og framan á sér bera þær þunga skrautmuni úr beini eða málmi.

 

Herero-konur eru tígulegar í fasi.  Sagnir herma að undirpilsin séu fimm og hver kona lítur út fyrir að vera 150 kíló.  Þær eru flottar, með höfuðbúnað sem minnir á hornin á nautgripunum sem Hereroar tigna.  Litfagur búningur og glæsilegur.  Þetta eru dýrir og miklir búningar, geta kostað allt upp í 10.000-12.000 ísl. kr. sem eru margföld mánaðarlaun venjulegs fólks.  Hálfs árs vinna að minnsta kosti.  Litaafbrigðin eru fjölmörg og engin kona eins og önnur.

 

Sagt er að þegar þýsku landnemarnir komu hafi Hereroakonur verið mun léttklæddari, og mikil freisting fyrir hvítu karlana.  Þýsku eiginkonurnar ,,hönnuðu" því fráhrindandi búning með mörgum undirpilsum og þessum ,,hornum" til að fæla frá!  Karlanir urðu minnsta kosti að hafa miklu meira fyrir hlutunum en þegar eftirlátar konurnar (að sögn þeirra sjálfra) sprönguðu um fáklæddar fyrir framan þá.

 

En afbrigði búninganna eru mörg og börnin bara viðbótarskraut þar sem þau eru borin í skuplu.

Ovamba konur ganga í þessum víðu kjólum sem auka vægi og tign hverrar konu.  Hér eru það Arndís Ósk, Valgerður Stefánsdóttir og Margrét Blöndal sem skrýðast Vamba kjólum og skuplum í takt.  Aðalmálið eru ,,púff" ermarnar til að gera þær ennþá breiðari um sig og glæsilegri.  Hver kjóll kostar ca 1000 kr. ísl.

 

Himbakarlar eru skrautgjarnir, digrir hringar um háls, lítill prjónn við eyra, og höttur sem felur hár.  En íslenska konan, Arndís Ósk,  er með annars konar ,,tískuyfirlýsingu":  Ray Ban og eyrnalokka.  Saman er þetta eins og á að vera: Mikið sjónarspil tveggja menningarheima.

 

 

Himbahálsfesti á Guðrúnu K. Sigurðardóttur, úr völubeinum af geit og málmbútum í leðuról.  En til að fullkomna glæpinn eru kínverskar perlur hafðar með til að minna á að undir derhúfu og sólgleraugum lifum við á tímum hnattrænnar menningar!

 

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is