Inngangur
Kafli 1
Kafli 2
Kafli 3
Kafli 4
Kafli 5
5. kafli: Hvernig stjórnmálaafl breytir rétt?
Eigi samfélagsbreyting að verða markverð, meðvituð og
langvarandi, þarf að breyta stofnunum og ramma valdsins. Ungur
stjórnmálaflokkur þarf að geta breytt sjálfum sér, færa vettvang
sinn út fyrir ramma hefðbundinna stjórnmála og endurskilgreina
nálgun til viðfangsefna sem teljast þess verð að í þau sé
ráðist. Stjórnmálin og þar með taldir stjórnmálaflokkarnir verða
að breytast.
Getan til að breyta er ekki fólgin í meirihlutavaldi. Hvorki á
þingi né í sveitarstjónum. Og hún býr alls ekki bara í
stjórnmálaflokkum. Hinar sönnu samfélagsbreytingar sem við
æskjum koma ekki með tilskipunum eða atkvæðamagni. Nútímalegt
samfélag kallar á samskipti, samráð, sannfæringu og viljann til
að taka forystu með góðu.
Eigi markverðar og langvarandi breytingar að eiga sér stað tel
ég að stjórnmálin þurfi að breytast. Okkur nægir ekki að horfa
stolt á nýjan flokk sem nýtur mikils fylgis. Við þurfum að gera
meiri kröfur til okkar sjálfra en svo. Breyttir tímar kalla á
breytt vinnubrögð. Líka í stjórnmálum.
Sum viðfangsefni samfélagsins birtast alls ekki því þau eru
handan veruleika stjórnmála. Dæmi um slík málefni á okkar dögum
væri aukinn áhugi á andlegum málefnum, sókn í heilsuþjónustu
utan ,,viðurkennda“ kerfisins eða leit að gildum sem eru önnur
en þau sem valdastofnanir rækta. Þetta geta verið lausnir á
persónulegum eða félagslegum vanda sem samfélag borgara reynir
að takast á við með ólíkum hætti ,,utan kerfis og umræðu“. Við
ystu brún viðurkenndra stjórnmála má nú greina nokkur slík
málefni: Nokkur varða nýjar leiðir í mataræði, heilsuvernd og
sjálfsrækt. Dæmi eru um samtakamátt borgara sem smátt og smátt
þokar slíkum málum inn á viðurkennd verksvið stjórnmála.
Alkóhólismi og meðferð hans voru felumál sem færðust hægt inn á
hið opinbera svið og urðu ,,viðurkennt“ viðfangsefni stjórnvalda
og stjórnmála. (Þegar nógu margir valda- karl- menn höfðu farið
í meðferð?) Síðar komu felumál eins og sifjaspell, kynbundið
ofbeldi, kúgun samkynhneigðra: Allt mál sem var þröngvað upp á
almannavaldið gegn fordómum þeirra sem með völdin fóru.
Meðal hlutverka jafnaðarmanna er að auka næmi sitt á svona mál,
hlusta eftir grasrótinni þar sem hún er að störfum, virkja hana.
Ekki endilega inn í hefðbundnu flokksstarfi, reyndar alls ekki.
Heldur þar sem hún er að störfum. En það er tæpast nóg. Við
verðum að kunna aðferðina til að breyta. Breyta rétt, breyta í
þágu þeirra sem þarfnast. Nútíma stjórnunarfræði og aðferðir
viðskiptafyrirtækja og framsækinna stjórnunarhátta geta kennt
hefðbundum stjórnmálum margt, og þangað eigum við að sækja vopn
til að beita. Við höfum verið svo upptekin af því að komast til
valda að hitt hefur setið á hakanum: Hvað við gerum og
hvernig, þegar við tökum til við að stjórna.
Eftir því sem þjóðin verður upplýstari og menntaðri, og hinar
ýmsu greinar opinberrar þjónustu, sjálfstæðra félaga og
einkareksturs verða faglegri og skipulegri í vinnubrögðum,
verður átakanlegra að sjá stöðnun stjórnmála. Fólki finnst
einfaldlega pínlegt að horfa upp á þetta. Önnur ástæða þess að
mál leysast seint og illa og lenda í eilífri útideyfu er ekki sú
að þau séu í raun svo flókin, heldur sú að þau er löguð að
átakahefð stjórnmála en ekki lausnamiðuðum leiðum. Gott dæmi er
sú niðurlæging sem stjórnmálaumræða um umhverfismál hefur mátt
þola hin síðari ár. Umhverfismál eru annað orð yfir nýtt
vitundarstig. En það fellur illa að gömlu hefðinni. Sambærilegt
mál frá því fyrir 2–3 áratugum er jafnréttisumræðan. Hún hófst
með því að lítill en öflugur hópur reyndi að innleiða nýtt
vitundarstig í þjóðmálaumræðuna. Og endaði með því að stofna
Kvennalista, sem aldrei fékk viðurkenningu sem ,,alvöru“
stjórnmálaflokkur – til góðs eða ills fyrir hann sjálfan, þótt
fylgi mældist mjög hátt á köflum. Þegar svo Samfylkingin kom í
þennan heim, valtur fyrirburi með stóra drauma um ,,breytingar“
var fróðlegt að sjá hinn gamalkunnu andlit kerfisstjórnmála
hrökkva í þann gír, samtaka og án fyrirhafnar, að skilgreina
þennan nýja flokk á forsendum þeirra sjálfra: ,,Velkominn nýi
flokkur, lengi lifi fjórflokkurinn!” (Eða með öðrum orðum: Láttu
þér ekki detta í hug að þú sért betri en við!)
Látum ekki ginnast: Þetta tókst að mörgu leyti. Vegna þess að
við sjálf vorum ekki með mótaða stefnu og skrá um hvernig nýr
flokkur á nýrri öld hugsar og starfar. Aðeins óljóst hugboð sem
oft var ósagt. En þetta tækifæri er ekki frá okkur farið. Og við
eigum að nýta það. Samfylkingin var ekki stofnuð til að vera
stærri venjulegur stjórnmálaflokkur en venjulega. Hún var
stofnuð til að verða stærri heild en þversumman af þeim pörtum
sem stóðu að henni. Nýtt afl. Því gallinn við hefðbundna
stjórnmálaflokka er að þeir eru gamaldags. Það er valdasókn hins
vegar ekki, hún er klassísk.
Sætleiki valdsins
Um hina machiavellísku afstöðu til valds og valdbeitingar mætti
hafa mörg orð. Tvo nægja: Davíð Oddsson. Við ætlum okkur
mannlegri afstöðu. En við verðum að fá vald. Vald til að breyta
því að aðeins vald dugi til að breyta. Þetta er þversögnin sem
nútímalegir jafnaðarmenn glíma við. Markmiðið með
lýðræðisvæðingu er að leysa þessa þversögn. Rétt eins og
markaðsvæðing á að leysa úr læðingi frumkrafta á markaði, á
lýðræðisvæðing að leysa úr læðingi frumkrafta í samfélagi. Og
gera það á þann hátt að ekki verði aftur snúið til
höfðingjaveldis, fáokunar gegnum valdastofnanir og stöðnunar
hugarfarsins. Nýtt vitundarstig mun eiga von.
Rödd fólksins: Stjórnmálaflokkar spilltastir
Stjórnmálaflokkar eru taldir spilltastir allra stofnana
samfélags í 36 löndum af 62 þar sem könnun Gallup um það efni
fór fram. Stjórnmálaflokkar eru því spilltasta stofnun á
heimsvísu að mati þátttakenda.
[i]
Íslendingar telja að áhrifa spillingar gæti helst í stjórnmálaflokkum og gefa spillingu þeirra gildið 3,1 af fjórum mögulegum. Í öðru sæti er einkageirinn í viðskiptum með gildið 3 og næst á eftir koma fjölmiðlarnir með gildið 2,9.
Tvæ helstu stofnanir lýðræðis á Íslandi eru taldar til þeirra
þriggja spilltustu: Stjórnmálaflokkar og fjölmiðlar.
Almenningur er reyndar ekki óskeikull. En í viðamikilli könnun
sem Siðfræðistofnun, Staðardagskrá 21 hjá Reykjavík og
Félgsvísindastofnun HÍ kynntu árið 2004 kom fram að 86%
landsmanna telja að ,,fáir, valdamiklar einstaklingar ráði of
miklu í íslenskum stjórnmálum“ (mjög eða frekar sammála) og nær
72% þeirra sem afstöðu tóku telja íslenska stjórnmálaflokka ekki
vera í takt við kjósendur sína.
Hver er vandinn við íslenska stjórnmálaflokka? Í fyrsta lagi er
hann ef til vill ekki jafn mikill og þessar tölur gefa til
kynna. Þrátt fyrir allt er mikill áhugi á stjórnmálum og
stjórnmálaumræðu (það sýna kannanir líka), kosningaþátttaka er
meiri hér en víðast. Eigi að síður má nefna nokkra þætti sem
styðja skynjun almennings á stjórnmálaflokkum og lélega ímynd
þeirra.
Vandi þátttöku: Þó svo að fleiri séu skráðir í flokka hér á
landi en víðast er hlutfallið innan við 20% kjósenda, sem þætti
lágt í hvaða því félagi sem krefst ráðandi stöðu á sínu sviði.
,,Samtryggingarflokkarnir“ vilja forrræði yfir stjórnmálum,
samanber endurskoðun stjórnarskrárinnar. Krafa þeirra um slíkt
forræði er ekki studd rökum um mikla þátttöku.
Vandi hollustu: Æ færri kjósendur ljá einum flokki hollustu og
flæði milli flokka í kosningum er umtalsvert, sem lýsir því að
flokkatryggð er lítil.
Vandi ábyrgðar: Fjármál flokka eru dulin og mjög gagnrýnisverð
þrátt fyrir mikla og vaxandi opinbera styrki. Gagnsæi, sem er
lykilorð í stjórnsýslu og viðskiptum, virðist ekki eiga við í
fjármálum stjórnmála. Það ákveða stjórnmálamenn sjálfir. Þetta
er augljóst ábyrgðarleysi hverjum hugsandi manni og forgangsmál
að breyta.
Vandi réttmæti: Samtrygging í umræðuhefð flokkanna segir að þeir
séu í fjölbreytni sinni fulltrúar alls fólksins og gefi með
ólíkum valkostum raunverulegt val í kosningum. Kannanir sýna að
almenningur telur annað. Því er auðvelt að ögra þeirri skoðun
atvinnustjórnmálamanna í flokkum að þeir séu réttmætir valdhafar
og umræðustjórar í lýðræðissamfélagi. Fólkið sem þeir segjast
þjóna hefur bara ekkert álit á flokkastjórnmálum og því er
réttmæti kröfunnar til valdastöðu ekki sterk.
Vandi fulltrúalýðræðis: Umbun og hvati innan hefðbundinna
stjórnmála felst í að þekkja og virða goggunarröð
valdakerfisins. Það, auk einhæfrar kappræðu og ófaglegra
vinnubragða, endurspeglar ekki bestu starfshætti og verklag
fagstétta á öðrum sviðum. Utan stjórnmála er í vaxandi mæli rætt
um verðleika, innan þeirra um valdakerfi.
Vandi viðbragðs: Mikilvæg samfélagsmál fá ekki lausn eða litla
athygli. Dæmi um slíkt er staða innflytjenda sem er farið með
sem ,,vinnuaflsmál” en ekki knýjandi samfélagsmál. Eða málum er
vísvitandi stýrt til að komast ekki í umræðu. Ýkt dæmi er
,,eftirlaunafrumvarpið” alræmda sem átti að keyra í gegnum
Þingið á metttíma til að enginn fengi rönd við reist utan
þess.
Vandi trúverðugleika: Allt sem nefnt er að ofan auk þess
sýndarlýðræðis sem felst í ,,átakapólitík“ eftir hefðbundum
leiðum án tillits til þess að samfélagið og farvegir þess eru
síbreytilegir.
Í þessu umhverfi verða stjórnmálin eins og formúluleikrit.
Stjórnmálamenn á skjánum eru eins og tilraunarottur í búri, sýna
skilyrt viðbrögð við endurteknu áreiti. Við getum kennt hvítum
rottum að drekka vatn ef þær finna lykt og við getum verið 100%
viss um að stjórnmálaleiðtogar landsins segja ,,nei“ ef
tilteknir aðrir segja ,,já“. Hin klassíska ,,ég/þú“ uppstilling
andstæðna er sú að kenna hinum um allt sem aflaga fer og þakka
sjálfum sér það sem vel er gert. Þetta er dæmalaust ófrjótt.
Kannski byggt á 19. aldrar heimspeki um samspil andstæðna sem
hina einu réttu leið að niðurstöðu. Ef andstæðurnar eru ekki til
í raun verður að minnsta kosti að láta líta svo út að einhverjar
séu því ella er engin aðferð til. Stjórnmálin verða
formúluleikrit. Þannig verður til dæmis ,,byggðastefna“ að
eilífu bitbeini stjórnmála með ásökunum og gagnásökunum sem
aldrei tekst að leiða til lykta meðan fólkið leitar suður.
,,Verðbólgudraugurinn“ var slíkt umræðuefni á síðari hluta 20.
aldar eða allt þar til höggvið var á hnútinn. Það tókst með
,,þjóðarsáttinni“, en hún er ein sjaldgæfra aðgerða á pólitískum
vettvangi þar sem brotist er úr viðjum vanans. Lærdómurinn af
henni var einmitt sá að fyrirframgefinn rammi rökræðu og átaka
var færður til. Ný sýn, ný aðferð rauf vítahringinn.
Ímyndum okkur að Háskóli Íslands, grunnskólar Reykjavíkur eða
Ríkisútvarpið fengju ítrekað þá niðurstöðu í könnunum að þessar
stofnanir væru ekki í takt við tilgang sinn að mati ¾ hluta
þjóðarinnar. Að 86% almennings teldu þessar stofnanir reknar af
fáveldisklíku og helmingur þjóðarinnar teldi þær ekki sinna
hlutverki sínu. Væntanlega yrði nokkurt fjaðrafok. En þegar
stjórnmálaflokkarnir fá falleinkunn, lýðræðiskerfið sjálft og
fjölmiðlarnir jafnvel líka verður fátt um svör. Flokkur eins og
Samfylkingin á að horfast í augu við mál af þessum toga og hefur
reyndar haft til þess lofsverða tilburði eins og sjá má af
þingmálum um þessi efni.
Breytingar, og það að breyta
Munurinn er allur, á breytingum – og því að breyta. Mestu
breytingar á samfélagi okkar síðustu áratugi hafa orðið án þess
að vera bein afleiðing opinberrar stefnu sem mótuð er af
stjórnmálamönnum. Sem er gott. Það er einfaldlega svo margt sem
skiptir miklu máli sem er utan áhrifasviðs stjórnmála. Mannlegt
eðli og hátterni er ofan og utan við þá samfélagsverkfræði sem
Alþingi og ráðuneyti telja sig stunda. Við jafnaðarmenn höfum
ekki alltaf viljað horfast í augu við það að takmörk eru fyrir
getu stjórnmála til að móta og breyta lífi fólks. Forsjárhygga
er inngróin í hefð okkar og sögu. Við höfum bæði viljað betur og
vitað betur. Þetta á í raun við flesta þá sem láta sig stjórnmál
varða og ekki löstur á okkur einum. En stjórnlyndi í stað
frjálslyndis elur af sér hættulegar tilhneigingar. Stjórnmál
eiga ekki að gína yfir of miklu, ekki reyna allt, ekki fást um
það sem fólkið getur sjálft ráðið ráðum um. Við eigum að
standast freistingar um íhlutunarsemi. Við, frjálslyndir,
umbótasinnaðir jafnaðarmenn, eigum að setja okkur skilgreint
mark um að verja það sem verja ber, breyta því sem breyta ber –
en láta annað í friði.
Getan til að breyta samfélagi eins og okkar felst ekki í
meirihlutavaldi. Hún býr í samráðsvilja, sannfæringarkrafti og
tjáningarmætti. Fjölþætt og margbrotið samfélag sem ferðast á
þeim ógnarhraða sem við sjáum í dag kallar á sterka sýn um
almenn gæði af hálfu stjórnmálamanna. Ekki verkstjórnarvald, því
það á að fela fólkinu sjálfu. Vissulega verður engu breytt án
áhrifa í valdastofnunum. En eigi breyting að verða markverð,
meðvituð og langvarandi, þarf að breyta stofnunum og ramma
valdsins. Og ungur stjórnmálaflokkur þarf að geta breytt sjálfum
sér. Færa vettvang sinn út fyrir ramma hefðbundinna stjórnmála.
Og hafa dug til að færa til ramma valdastofnana og
endurskilgreina nálgun þeirra til viðfangsefna sem teljast þess
verð að í þau sé ráðist. Á hinn bóginn eru svo stórmál sem kalla
á alla atorku og einbeittan vilja. Grunnþættirnir eru og verða:
réttlátt heilbrigðiskerfi, gott almennt menntakerfi á
heimsmælikvarða, rík sjálfsstjórn borgara eftir lýðræðislegum
leiðum.
[i] Þessar niðurstöður eru úr árlegri könnun á vegum
Gallup International – Voice of the people. Þátttakendur
eru rúmlega 50 þúsund og þeir endurspegla viðhorf og
skoðanir rúmlega miljarðs fólks í meira en 60 löndum.
Sjá
www.gallup.is)
|
![]() |
Rafbókin fæst á aðeins 2990! |
Bókin sem talað er um, á mannamótum og fjölmiðlum:
Egill Helgason í Silfrinu tók ítarviðtal
Kiljan, Þorgeir og Kolbrún: Frábær leiðsögumaður! Frá 6. mínútu.
Sverrir Norland Rás 1: Allur þátturinn Upp á nýtt.
Gunnar Smári: Rauða borðið: 90 mínútur, mest um bókina í síðari hluta.
Þórunn Elísabet, Morgunvaktin: eftir eina klst og 18 mínutur á mælinum.
Gísli Marteinn: Þáttur með góðum gestum.
Rafbókarkaupin eru einföld á síðu Forlagsins og þú færð hana beint í tölvu eða á lesbretti samstundis!

![]() |
Breytum rétt frá 2005 |
Með Hruninu í október 2008 breyttist margt, og margar forsendur þess sem hér er sagt. En meginákallið stenst tímans tönn með afbrigðum vel. Krafa um lýðræðislegar umbætur andspænis auðræði. Margar af þeim hugmyndum sem þarna voru settar fram endurómuðu svo í Búsáhaldabyltingunni og í tillögum stjórnlagaráðs árið 2011.
SJH, 2012.

![]() |
Áttu penna? |

Pennar eru dýrir og skólakrakkar spyrja oft hvort maður megi missa penna. Þau vita líka að það kemur frekar við hjartað á ferðamanni að biðja um námsgögn en peninga eða sælgæti. Í mörgum skólum fá krakkarni ekki borð til að sitja við, þak yfir höfuðið, bók til að lesa né blað til að skrifa á. Og því síður penna. Hlutfall nemanda á hvern kennara er 120:1 í þessari sveit og stunum enn verra.

![]() |
Friðsæld í fiskimannaþorpi |
Laugardagsmorgunn, fólkið lifir lífinu lifandi eftir því sem manni sýnist á göngu meðfram ströndinni. Hér er enginn vegur, engin umferð, varla útvarp og alls ekki sjónvarp, ekki heyrist í farsíma en glaðvær hlátrasköll frá ströndinni benda til að fólkið sé sátt. Myndasýning frá malavískum fiskimannaþopum er hér.

![]() |
Verk í endurskoðun |
Árið 2005 birti ég þessa ritgerð sem eins konar brýningu til jafnaðarmanna. ,,Lýðræðisvæðing er hið sögulega hlutverk jafnaðarmanna" skrifaði ég, andspænis þeirri markaðsvæðingu sem við vorum vitni að í byrjun aldarinnar.
Með Hruninu í október 2008 breyttist margt, og margar forsendur þess sem hér er sagt. En meginákallið stenst tímans tönn með afbrigðum vel.
Þessi ritgerð er nú í endurskoðun.
SJH, 2010.

![]() |
Veftímarit - áskrift |
Veftímaritið kemur til áskrifenda gjaldfrjálst. Skráning hér.
Hér má skoða fyrri tölublöð:

![]() |
Heimilisofbeldi bannað |

Jafnvel þótt húsbóndinn sé latur og heimskur!

![]() |
Blair, við og ,,þau" |

Hvernig réttlætir Tony Blair stríðin í Afgahanistan og Írak? Í athygliverðri grein í Foreign Affairs kemur í ljós að leiðin sem hann kaus með Bush er einmitt ekki leiðin sem hann telur vænlegasta til framtíðar.
Hér er rýni á grein Blairs.
