Breytum rétt
Inngangur   Kafli 1   Kafli 2   Kafli 3   Kafli 4   Kafli 5
4. kafli: Breytum rétt
 
Come senators congressmen please head the call
don´t stand in the doorway don’t block up the hall
-The times they are’a changing, Dylan.
 
 
Hraðfara og stórvirkar samfélagsbreytingar valda því að stjórnmálin virðast daga uppi. Ásamt lýðræðisvæðingu samfélagsins er menntastefna höfuðmál sem hefur forgang á önnur. Þetta tvennt myndar hagrænar undirstöður fyrir auðsköpun í framtíðinni, og félagslegar stoðir fyrir það verðleikasamfélag sem jafnaðarmenn vilja stefna að. Ísland þarf að breytast úr landi sem leggur höfuðáherslu á nýtingu náttúruauðlinda, í land sem byggir á auðsköpun í krafti mennta.
 
 
 
Fræðslustjórinn í Reykjavík segir skemmtilega sögu: Tvær ungar stúlkur ræða stöðu sína og framtíðardrauma. Þær ætla að læra, fá skemmtileg og góð störf, eignast börn, „...með góðum manni sem tekur börnin að minnsta kosti aðra hverja helgi!“
 
Þetta er sönn saga og segir okkur mikið um þær breytingar sem nú eru að verða á íslenskri þjóð. Stundum finnst manni að allt sem er utan við hinn hefðbundna ramma stjórnmála hafi breyst, en þau ekki. Fjölskyldan er marghöfða þurs, sannkölluð fjöl-skylda eftir fyrstu utan-hjónabandsbörnin, næstu-hjónabandsbörnin, skilnaði og endurteknar hjónavígslur og sambúðir og fjarbúðir þvers og kruss með eftir-hjónabandsbörnum og raðkvænistengslum sem skapa amöbu frekar en kjarnafjölskyldu. Stærsta einstaka heimilisformið í Reykjavík er ekki ,,mamma pabbi börn og bíll” heldur eitthvað allt annað en það. Vísitölufjölskyldan er til í hagskýrslum en sem undantekning í lifanda lífi.
 
 
Fleiri samfélagsbreytingar kalla á breytt viðhorf og vinnubrögð: Þjóðin eldist og til verður sterkur neytenda- og þrýstihópur aldraðra sem hefur yfir að ráða umtalsverðum eignum og efnahagslegu valdi. Þjóðin þokast sundur. Gjáin milli landsbyggðar og höfuðborgar birtist víða: menntun er minni á landsbyggðinni, laun lægri, hlutfall kvenna og karla ójafnt (konur flytja burt, yngri og fyrr en karlar), hlutfallsleg dreifing aldursflokka er ,,röng“ miðað við meðaltal, matarvenjur mjög frábrugðnar og lífshættir allir gjörólíkir. Mesta bilið milli núlifandi Íslendinga er væntanlega milli hraðfleygra ungra Íslendinga á aldrinum 15–24 ára á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúa ,,gamla tímans“, eldra landsbyggðarfólks. 6-10% þjóðarinnar flokkast sem fátæk og eiga litla sem enga hlutdeild í bestu dögum Íslands. Einnig fjölgar langtímaatvinnulausum á miklum uppgangstímum í atvinnulífi. Hvað þýðir það að ,,öryrkjar“ eru mörg þúsund fleiri ár frá ári og nemur aukinn kostnaður milljörðum árlega? Er hér að vaxa vísir að því sem enskir kalla ,,permanent underclass“ – og við hin getum alveg kallað hina útskúfuðu? Á sama tíma verður lítill en áberandi hluti Íslendinga ,,ofurauðugur“. Og þjóðin litast. Af ólíkri menningu fólks sem kemur langt að og talar annað tungumál og veit ekkert um Laxness.
 
 
Hvert þessara umræðuefna er nóg í langa ritgerð. En hér nægja þau til að sýna þá ögrun sem nútímalegir og frjálslyndir jafnaðarmenn standa frammi fyrir. Því við sem viljum breyta verðum að skilja þær breytingar sem eiga sér stað – án atbeina stjórnmála og oft gegn því sem þar er talað.
 
 
Ósjálfráðar breytingar
 
Þær samfélagsbreytingar sem ég rakti nokkur dæmi um eru ekki að neinni pólitískri forskrift. Þær eru ekki niðurstaða umræðu og stefnumótunar á Alþingi eða innan stjórnmálaflokka, engum datt þær í hug eða skipulagði, sumar voru jafnvel ekki fyrirséðar fyrir skömmu. En breytingarnar skora stjórnmálamenn á hólm með áður óþekktum hætti. Sumar kalla á ákveðin varnarviðbrögð: Offituvandamál er staðreynd sem mun líklega krefjast aðgerða – en illt er að sjá hverra. Aðrar breytingar kalla á sóknarviðbrögð þar sem hefðbundið hefur verið að beita vörn: flóttinn af landsbyggðinni er staðreynd sem færir höfuðborgarsvæðinu mikil sóknarfæri sem væri synd að sóa. Enn aðrar kalla á endurskilgreint hlutverk stjórnmála þar sem hvorki er um að ræða sókn né vörn, heldur einfaldlega lausnir til að bregðast við aðstæðum sem þegar eru staðreynd þótt orðfæri og athafnir þeirra sem móta samfélagsstefnu taki mið af eldri veruleika. Dæmi um slíkt er ,,staða fjölskyldunnar“.
 
Væri málaflokkur tekinn og grandskoðaður kæmi eflaust í ljós að margir stjórnmálamenn, hagspekingar og aðrir vildu gera fjölskyldumálum ,,hærra undir höfði“. Er ekki ,,fjölskyldan hornsteinn samfélagsins”? Reyndar ekki, miðað við hefðbundna vísitölufjölskyldu. (Mamma, pabbi, 1.9 barn). Fjölskyldan á okkar tímum er laustengt venslanet fólks – í raun margar mismunandi fjöl-skyldur sem tengast með ólíkum hætti. Forræðislausir feður eru yst á jaðri hinna úthrópuðu, einstæðar mæður í kjarna samúðarinnar, fjögurra manna kjarnafjölskyldan í sólarlandabæklingum er goðsögn. Nú tala forseti, forsætisráðherra og biskup í áramótaávörpum um ,,fjölskyldu“ og gott ef við erum ekki búin að flytja inn frá Ameríku orðfærið ,,fjölskyldugildi“ (family values)? Þvert gegn þeirri margbrotnu mynd sem við blasir. Er þessi margbreytni ástæðan fyrir því að aldrei hefur tekist að móta það sem góðviljað fólk kallar fjölskyldustefnu stjórnvalda? Að enginn veit lengur hvað fjölskylda er?
 
Fjölskyldustefna stjórnmálamannanna hefur miðast við kjósendur. Börn eru ekki kjósendur. Þess vegna er fjölskyldustefna ekki barnamiðuð. Ef við hættum að tala um fjölskyldustefnu og skilgreinum þess í stað barnastefnu – værum við hugsanlega á réttri braut. Stefna okkar á að miða við: tryggingu á umönnun barna. Skilgreinum rétt barna, án tillits til þess hvernig ,,fjölskylda“ þeirra hagar lífi sínu og uppeldi þeirra.
 
Börn – nánast hvert sem er litið – eiga undir högg að sækja. Í fjarveru hinnar skilgreinanlegu fjölskyldu verðum við að líta á barnið, réttindi þess og vernd fyrir hugsanlegu klúðri hinna fullorðnu. Þannig gætum við kortlagt fyrstu 18 ár ævinnar sem réttindaskrá, allt frá læknisskoðun í móðurkviði, til ungbarnaeftirlits á fyrstu mánuðum, til dagvistar og leikskóla, grunnskóla og heilsugæslu. Út frá sjónarhóli barnsins. Án tillits til þess hver fer með forræði, framfærslu og uppeldi. Ríkið getur ekki stjórnað því hvernig fólk ræktar sambönd sín. (Og á ekki að taka sökina á sig klúðri fólk þeim). Mótum barnastefnu sem hefur að markmiði: heilsugæsu, góða grunnmenntun og tækifæri til þroska án tillits til þess hvernig fullorðna fólkið hegðar sér. Það er ábyrgð gagnvart þeim sem minna mega sín, það er jafnaðarmennska.
 
Að hugsa upp á nýtt
 
Svona þarf að hugsa mörg mál upp á nýtt: fjölskyldu, búsetu, þjóðmenningu. Og já: pólitískar klisjur eins og ,,aldraðir og öryrkjar“. Jafnaðarmenn tala einatt um ,,aldraða og öryrkja“ sem einn hóp efnahagslega útskúfaðra. Aldraðir eru upp til hópa og í vaxandi mæli auðugt fólk. Fjölgun öryrkja á skrá svo nemur þúsundum á örfáum misserum í botnlausu góðæri og kostar milljarða er ráðgáta. Og hinir ,,ósýnilegu“ eru þeir karlmenn sem engin jafnréttisumræða nær til, sviptir forræði yfir börnum sínum og getu til að takast á við kröfur samfélagsins allt frá fyrstu erfiðleikaárum sínum í grunnskóla.
 
       
Ný hugsun er hluti af því ferli sem nú verður að fara fram, sem er forgangsröðun verkefna jafnaðarmanna. Eigi okkur að takast það markmið að móta til frambúðar samfélag jöfnuðar og tækifæra þarf markmiðssetning okkar að vera skýr. Ég tel að taka megi dæmi af mörgum málum sem nú eru á verksviði stjórnmála og færa út fyrir það. Aðskilnaður ríkis og kirkju er skýrt dæmi. Ríkið og kjörnir fulltrúar eiga ekki að stýra trúmálum landsmanna, þeir eru fullfærir um það sjálfir án afskipta hins opinbera. Það þýðir ekki endilega að ríkið hætti að styrkja trúarlega starfsemi með fjárframlögum þar sem jafnræðis er gætt. Það þýðir hins vegar að stofnanir ríkisins og fulltrúar þess hafi ekki afskipti af rekstri trúarlegra stofnana eða um það að segja hvernig trúarlegur boðskapur er rekinn. Fleiri mál af svipuðum toga má nefna eftir atvikum, aðalatriðið er að skilja að forgangsröðun felur í sér eftirfarandi:
 
– Færa verkefni út af verkstjórnarsvæði stjórnmála og ríkisvalds,
– færa verkefni til innan opinbera geirans (sem mest frá ríki út til burðugra sveitarfélaga og þaðan áfram til notenda nærþjónustu),
– færa tiltekin verkefni ofar en nú er á verkefnalista ríkisstjórnar og festa í sessi sem kjölfestu í samfélagi jöfnuðar og réttlætis.
 
 
Meginbreytingin
 
Samfara lýðræðisvæðingu er umsköpun í hagkerfinu meginbreytingin sem jafnaðarmenn þurfa að beita sér fyrir. 21. öldin kallar á bráðnauðsynlegar hagrænar breytingar sem jafnframt er samfélagsbylting. Ísland þarf að breytast úr landi sem leggur höfuðáherslu á nýtingu náttúruauðlinda, í land sem byggir á auðsköpun í krafti mennta.
 
Þessi breyting er byrjuð. Hlutur sjávarútvegs (veiðar og hrávinnsla) í þjóðarframleiðslu minnkar, sem er gott, hlutur sjávarútvegs sem þekkingargreinar eykst. Hlutur landbúnaðar dregst óhjákvæmilega saman, sem er gott, því landið er lítt til þess fallið að framleiða þá matvöru sem nútímafólk sækist eftir að öllu jöfnu, þótt sérgreinar okkar geti gefið frábærar vörur. Hlutur þekkingariðnaðar og þjónustugreina vex og þarf að vaxa enn.
 
Hlutur mannauðs í þjóðarframleiðsu þarf að aukast, hlutur náttúruauðs að minnka. Það er staðreynd að þau ríki sem einkum byggja á menntuðu vinnuafli og atvinnugreinum því tengdum ná mestum hagvexti. Þær þjóðir sem mest byggja á hrávinnslu náttúruauðæfa eru einkum hækjur fyrir velsæld annarra.
 
Þessi miklu veltiár í upphafi 21. aldar byggjum við á risaorkuveri sem Ítalir, Portúgalir og Kínverjar byggja við Kárahnjúka fyrir bandarískt álver á Reyðarfirði. Þetta er hrávinnsla í sinni nöktustu mynd þó tæknilega sé hún flókin. Íslendingar hafa tekið þá stefnu – meðvitað og að yfirveguðu pólitísku ráði ríkisstjórna – að leggja megináherslu á náttúruauðæfi. Kárahnjúkavirkjun er stærsta dæmið, en í röðum standa aðrir sem vilja nýta sér niðurgreidda orku virkjunarfyrirtækis sem ekki greiðir auðlindagjald né fyrir náttúruspjöll og stenst ekki heldur kröfur um arðsemi fjárfestinga eins og á eðlilegum markaði. Þessi árin bólgnar efnahagur okkar af lánsfé sem streymir í stóriðju, gengið styrkist svo mjög að aðrir útflutningsatvinnuvegir stynja undan eins og fyrir var séð. Nýsköpun í þekkingariðnaði á í vök að verjast, útflutningsfyrirtæki hrekjast frá landi. Framþróun er hamlað á meðan þetta varir, einkum eiga þær atvinnugreinar erfitt sem byggja á mannauði og útflutningi þekkingar og þjónustu.
 
Þetta er það sem var fyrir séð í sambandi við þessa tilteknu stórframkvæmd, vegna þess að við Íslendingar höfum langa reynslu af einmitt þessu ástandi. Ríkið býr til forréttindagreinar í atvinnulífinu sem koma niður á þeim sem standa í að virkja fyrst og fremst mannauð.
Kárahnjúkafórnin er stórtækt inngrip í náttúru Íslands, en líka efnahagsþróun, og mun veita okkur þá tilfinningu að ,,allt sé í lagi“ þegar við erum í raun að dragast aftur úr öðrum þjóðum sem byggja á mannauði og þekkingu. Þess vegna þykjumst við komast upp með það til lengdar að búa við verr menntað vinnuafl en gengur og gerist hjá auðugum þjóðum.
Eigi Ísland að vera samkeppnishæft um dugmikið og skapandi fólk nægir ekki fyrir okkur að vera útnári Evrópu – blanda af verstöð og grjótbræðslu. Við þurfum heimsmenningarlegt ríki með allt það sem nútímafólk sækist eftir. (Þar með ríkuleg náttúrugæði í bland við samfélagsgæði). Okkur nægir ekki að setja markið svo hátt að ,,halda í unga fólkið okkar“ eins og litlu landsbyggðarþorpin kalla það. Við þurfum að setja markið enn hærra og laða að erlent hæfileikafólk og fjármagn með því til að byggja upp nýjar atvinnugreinar. Með fullri virðingu eru hefðbundinn sjávarútvegur og fiskvinnsla, landbúnaður og stóriðja ekki slíkar greinar.
 
Fjárfesting í menntun borgar sig
 
Meira en 40% af vinnuaflinu á Íslandi hefur bara grunnmenntun eða rétt rúmlega það. Og enn er það svo að vel yfir 40% af hverjum árgangi hafa ekki útskrifast með neina framhaldsmenntun við 24 ára aldur. Næstum þriðji hver maður fellur fyrir borð í framhaldsskólunum. Þetta brottfall er skammarlegt. Hlutfall háskólamenntaðra er lægra hér en í þeim löndum sem við berum okkur tíðast saman við. Við erum sem sagt ekki í neinu standi til að efla nýja atvinnuvegi sem byggja á öðru en náttúrunýtingu. Það eru slæmu tíðindin. Góðu tíðindin eru hins vegar þau að þarna liggur stórt tækifæri ónotað og bíður okkar. Fjárfesting sem hefði það að markmiði að minnka brottfall í framhaldsskólum um þó ekki væri nema um helming hefði gríðarlega arðsemi og það er hægt að ná þessu markmiði tiltölulega fljótt. Þetta á að vera forgangsatriði í menntastefnu okkar.
Skýr rök eru fyrir því að aukin fjárfesting í menntun muni skila okkur jöfnum og góðum hagvexti á næstu áratugum. Það er hins vegar ekki sama hvernig þetta er gert. Auðvelt er að sóa miklum fjármunum með óskynsamlegri menntastefnu. Ég hygg að meðal jafnaðarmanna sé einhugur um að leggja fram meira fé til menntamála, en við höfum ekki (frekar en aðrir) forgangsraðað eða sett nákvæma áætlun um skilvirka ráðstöfun aukins fjár. Menntastefna okkar verður að rista dýpra en að lýsa henni með milljörðum. Hún byggir á jöfnum tækifærum fyrir alla einstaklinga, allt lífið. Hún ætti jafnframt að leita eftir leiðum til að minnka miðstýringu, efla sjálfstæði og þróun skólastarfs á öllum stigum, kalla eftir fjölbreyttari kennaramenntun, auknu framboði og vali í gerð námsefnis, þróa umbunar- og árangursmat í samvinnu við fagstéttir og ýta undir notendavald og áhrif – sem leiðir meðal annars til meiri ábyrgðar notenda þjónustunnar á því að hún sé veitt eftir kröfum. Þetta er blanda af mörgu. Krafan um milljarðainnspýtingu í menntakerfið nægir ekki. Þetta er vandasöm fjárfesting sem þarf að byggjast á sams konar verklagi og gerð fjárfestingaáætlana á markaði. Þrátt fyrir skýr teikn um að fjárfesting í menntun borgi sig – er ekkert sem segir að slíkt gerist sjálfkrafa. Sé áætlun okkar um fjárfestingu í menntun skoðuð í samhengi við hugmyndina um að ummynda íslenskt hagkerfi og færa frá náttúrunýtingu til mannauðs sést best hve vandasamt og metnaðarfullt verkefnið er: Það stærsta sem við blasir.
 
Kostir umbótaafls
 
Umbótaafl hefur tvo kosti: að hreyfa sig innan fyrirframgefins ramma, eða breyta rammanum. Við þurfum að hliðra til þeim römmum sem nú eru utan um stefnumótun og afskipti hins opinbera. Byrjum á ráðuneytum. Upp á sport væri gaman að því fyrir nýja ráðherra jafnaðarmanna að innkalla umboð allra nefnda og ráða á vegum ríkisins og krefjast skilagreina. Á einhverju stigi málsins var fullyrt að menntamálaráðuneytið eitt hefði meira en 1100 nefndir starfandi á sínum vegum! Næsta skref væri að leggja niður þjónusturáðuneyti við einstaka atvinnuvegi. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti. Þurfa helstu atvinnugreinar landsmanna slíka viðmælendur af hálfu ríkisvaldsins?
 
Væru opinber afskipti og stefnumörkun miðuð fyrst við almannahagsmuni mætti sjá fyrir sér:
 
– Auðlindaráðuneyti sem sæi um sjálfbæra nýtingu auðlinda landsmanna, skilgreiningu á þeim og vernd, setti samræmdar reglur um not, svo sem um auðlindagjöld, og stefnu um að afla þekkingar, miðla og koma henni á framfæri svo auðsköpun og ábyrgð fari saman.
 
-         Markaðs- og neytendaráðuneyti sæi um samkeppnismál og almennt viðskiptaumhverfi, ekki út frá einstökum fyrirtækjum heldur til að virkja markaðsöfl og veita aðhald út frá hagsmunum neytenda en ekki einstakra framleiðslugreina.
 
-         Velferðarráðuneytið sæi um forgangsröðun félagslegrar þjónustu og samtryggingar í heild sinni út frá skilgreindum grunnþáttum sem varða bæði réttindi og skyldur almennings til þjónustu og aðstoðar.
 
– Ráðherra án ráðuneytis hefði þverfaglegt verkefni á sérsviði sínu: að færa stofnanir og valdboð frá ríki til sveitarfélaga, frjálsra félagasamtaka og í átt til samráðs um hvers konar almenningsþjónustu sem færa ætti út frá miðlægum stofnunum ríkisvaldsins.
 
Og svona má áfram skemmta sér af hæfilegri léttúð.
 
Tilgangurinn er ekki að endurskipuleggja ríkið á einum pappír, heldur benda á þörfina fyrir að endurskilgreina hlutverk ríkisins og stofnana þess, með megináherslu á borgarana í samfélagi, sem neytendur, sem notendur þjónustu, sem ábyrga samfélagsþegna, sem þurfa að fá tæki og verkfæri í sínar hendur til að auka áhrif sín og breyta – eftir þörf – en ekki boðvaldi. Þannig verða afskipti ríkisins af landbúnaði ekki um það hvernig landbúnaðarvörur eru framleiddar og af hverjum, heldur af því hvernig atvinnugreinin svarar þörfum markaðar og stefnu um heilsu og heilbrigði, svo einfalt dæmi sé tekið. Jafnaðarmenn eiga að beita sér fyrir breytingu í þessa átt og setja sér það mark að þar sem forsjár er þörf sé henni ekki beitt í stóru og smáu, heldur aðeins í stóru – með almennum leikreglum sem öðrum er falið að útfæra, markaði eða þriðju aðilum eftir atvikum. 
 
 
 
Viðkvæm mál
 
Með því að færa til ramma sem marka málefnum eða umræðu hefðbundinn bás er hægt að taka á þeim frá nýju sjónarhorni eða með endurskilgreindum hætti. Ég kalla þetta ,,blindgötumál“. Þetta eru ,,viðkvæm mál“ sem þvælast fyrir og taka tíma frá stórum samfélagsbreytingum sem máli skipta. Besta nýlega dæmið sem við höfum í þessum efnum er hvernig einkafyrirtæki taka allt í einu upp á því að verða alþjóðleg en ekki bara íslensk. Á sömu stundu verður eilífðarmál eins og ,,að koma sér þaki yfir höfuðið“ gjörbreytt. Ramminn færist til: Langtímalán á lágum vöxtum eru í boði á kjörum sem enginn, hvorki ríki né markaður, létu sig dreyma um fyrir stuttum tíma. Ástæðan er í raun sú að bankar sem voru ,,heimabankar“ verða ,,útrásarbankar“ og ná efnahagslegri stærð til að koma þessum málum í sambærilegt horf við nágrannalönd. Pólitíska landið vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og kom hvergi nálægt. Önnur mál kalla á pólitískt frumkvæði sem felur í sér að breyta róttækt. Nefna má ýmis mál sem verða óleyst í orðræðuþoku árum saman, ef ekki er tekið af skarið fljótt og vel með afgerandi hætti.
 
Viðkvæmt mál: Lífeyrissjóðir og lýðræði
 
Hvers vegna er lífeyrissjóðum ekki lýðræðislega stýrt? Lögbundin skylduaðild að lífeyrissjóði hefur sannað sig. Hið opinbera krefst þess í nafni almannaheillar að hver og einn leggi til hliðar til elliáranna þegar atvinnuþátttöku lýkur. Þetta er fínt dæmi um að krafan um sjálfsábyrgð á rétt á sér. Þetta er sterk forsjárkrafa, krafa um skyldur sem allir verða að axla til að firra samfélagið tjóni sem hlýst af ráðdeildarlausu lífi. Hvers vegna? Vegna þess að þeir einstaklingar sem ekki safna í sjóð ótilneyddir myndu eigi að síður lenda á forsjá hinna sem það gera. Félagslega kerfið myndi neyðast til að tryggja sólundunarfólki sem ekki borgar í lífeyrissjóð einhverja lágmarksframfærslu á kostnað hinna.
Þetta er dæmi um pólitíska forsjá sem gengur upp, vegna þess að hún skilgreinir skyldur um leið og réttindi. En um leið eitt dæmið um getuleysi stjórnmála.

 
Hér er um að ræða 1000 milljarða króna sem ekki lúta lýðræðislegri stjórn eða kröfum athafnalífsins, heldur lifa eins og ríki í ríkinu undir fámennisstjórn. Sögulega eru færð fyrir því rök að stjórn þeirra sé helmingaskipt milli fulltrúa atvinnurekenda og fulltrúa verkalýðsstéttar og sjóðirnir séu ekki eign neins og lúti ekki eignarrétti þeirra sem leggja fyrir til ellinnar í þeim
En hvert er þá vandamálið? Að þessi ríka pólitíska forsjá gerir ekki ráð fyrir því að stjórn sjóðanna lúti eigendavaldi. Að stefna þeirra sé borin upp meðal almennra félaga. Þetta eru ólýðræðislegrar stofnanir. Því kemur fram frjálshyggjukrafan um að fólk megi velja sjóð og skipta um eftir ósk. Slíkt fyrirkomulag myndi að mörgu leyti vega að samtryggingarþætti sjóðanna og gera kerfið veikara (áhætta dreifist nú betur en ella). Þess vegna á að gera skýlausa kröfu um aukinn rétt félagsmanna til upplýsinga og til að móta stefnu sjóða og velja stjórnir þeirra. Lífeyrissjóðsgreiðslur eru mesta fjárfesting flestra launamanna. Þessi ríka pólitíska forsjá (réttlætanleg skylduaðild) er svo mikil að engin röksemd getur verið fyrir því að svipta fólk íhlutunarrétti um það hvernig sjóður er rekinn og honum stjórnað.  (Og auðvitað stjórnað af körlum í miklum meirihluta!)
 
 
Viðkvæm mál: Skólagjöld
 
 
Háskólasamfélagið er í örum vexti og námsleiðum fjölgar. Þörf er fyrir mikið fé svo það verði hornsteinn í heimsmenningarlegu samfélagi okkar sem laðar hæfileikafólk víða að. Við munum aldrei byggja upp framúrskarandi þjónustu á öllum sviðum háskólamenntunar og eigum að sækja stóran hluta hennar til útlanda. En möguleika eigum við mikla: Ef Kínverja vantar 2000 jarðfræðinga, hvers vegna seljum við þeim ekki námsbrautir? Eða setjum orkunýtingarþekkingu okkar í búning námskeiða í samstarfi við heimsþekkta háskóla? Ótrúlegir möguleikar bjóðast sem fróðlegt væri að heyra skólafólk okkar ræða í stað fátæktar.  Því nefni ég skólagjöld aðeins stuttlega:
 
Skólagjöld munu ekki færa okkur allt það fé sem leggja verður umfram það sem nú er gert til menntunar. Ekki nándar nærri. En þau geta verið hluti af því að færa meira fé til menntakerfisins.
Skólagjöld þekkjast nú á tveimur stigum menntakerfisins: í leikskóla og í sumum háskólum sem njóta ríkisstyrkja. Á næstu árum munu jafnaðarmenn freista þess að gera leikskóla í ríkari mæli gjaldfrjálsan. Það er mikilvægur hluti af menntastefnu Íslands að ung börn nái þroska fljótt og hafi til þess jöfn tækifæri. Þess vegna hefur ríkið skyldum að gegna í þessu efni, í því að færa fé til sveitarfélaga svo þetta megi verða.
 
En gegnir þá ekki sama máli um skólagjöld við háskóla, að fella beri þau niður? Ekki endilega. Það er stefna okkar að auka mjög fé til menntamála. Það er ekki óeðlilegt að gera þá kröfu til einstaklinga sem nýta sér framboð menntunar á háskólastigi að þeir greiði hluta þeirrar menntunar með auknum framtíðartekjum í krafti sömu menntunar.
 
Þetta vegur ekki að jafnrétti til náms ef rétt er á haldið. Glæsilegt dæmi um íslenska framsýni er Lánasjóður íslenskra námsmanna. Hann hefur opnað Íslendingum möguleika á því að að nýta sér það besta á heimsmarkaði í háskólamenntun. Sjóðurinn hefur lánað til framfærslu á meðan á námi stendur og fyrir skólagjöldum sem eru geysihá í virtustu stofnunum mennta og vísinda erlendis. Þess vegna hafa þúsundir góðra menntamanna snúið til landsins með menntun sem íslenska ríkið hefði aldrei haft efni á að veita í eigin stofnunum.
 
Megináhersla í stefnu okkar í háskólamenntun á að vera að hvetja íslenska námsmenn til að afla hennar þar sem hún er best, hvar sem er í heiminum. Ergó: við eigum að vera heimsborgarar á heimsmarkaði, og Lánasjóðurinn á að vera sú vél sem áfram knýr Íslendinga til að sækja sér bestu mögulega menntun þar sem hana er að fá. Án tilltis til efnahags.
 
Þeir sem sótt hafa Háskóla Íslands á undanförnum árum hafa ekki greitt skólagjöld og því skuldað tiltölulega lítið að loknu námi. Þeir Íslendingar sem sótt hafa bestu háskóla heims á tilteknum sviðum, svo sem í Bretlandi og Bandaríkjunum, hafa axlað miklu hærri skuldir en hinir sem heima sitja, bæði vegna meiri framfærslukostnaðar og skólagjalda. Þetta er ekki bara mismunun gagnvart einstaklingum, heldur mismunar menntakerfið í þágu íslenskra háskóla og býr til eins konar ,,verndartolla“ eins og í landbúnaði. Þeir búa því ekki við sömu samkeppni og væri þeim hugsanlega holl.  Innbyggð í kerfið er stundum sú villa að beina frekar íslenskum námsmönnum í heimaskóla en til útlanda.
 
Hefur þá ríkt ,,ójafnrétti til náms“ í því formi að börn auðmanna sæki aðeins bestu háskólana erlendis, en börn lágstéttarfólks háskólana heima? Nei, þökk sé jöfnunarsjóðinum LÍN. Hann hefur gert öllum kleift að sækja um skólavist í dýrum heimsborgaskólum og stunda þar nám þrátt fyrir bágan efnahag. Þessir Íslendingar hafa vakið furðu og aðdáun samtíðarmanna í dýrum skólum, sem hafa ekki átt orð yfir þessa frábæru jafnaðarstefnu á Íslandi.
 
Eina óréttlætið kemur eftir á: Þeir sem sækja dýra erlenda skóla eru oft djúpt sokknir í skuldir og verða að verja mun meira af framtíðartekjum sínum til að greiða námslán heldur en þeir sem heima sátu. Sem betur fer hefur verið séð fyrir þessu vandkvæði að hluta. Það er gert með því að takmarka endurgreiðslu til LÍN við ákveðið hlutfall tekna, sem þýðir að hámenntaðir vísindamenn hafa getað komið heim til Íslands að vinna á lægri launum en bjóðast erlendis. Með öðrum orðum: LÍN hefur að hluta verið styrktarsjóður, því sjóðurinn innheimtir ekki allar skuldir þeirra sem hæstu lánin taka, nema ævitekjurnar verði þeim mun meiri.
 
Tekjutenging endurgreiðslna hefur því leitast við að jafna þann aðstöðumun sem búinn hefur verið þeim sem menntast heima eða erlendis. Það er pólitísk ákvörðun að innheimta lítil sem engin skólagjöld við tiltekna íslenska háskóla, ekki alla. Innleiðing skólagjalda við Bifröst og Háskólann í Reykjavík var ekki fyrsta skrefið í þá átt að knýja íslenska háskólaborgara til að greiða gjöld. Það höfu þeir gert þúsundum saman – erlendis. Sem betur fer, því þrátt fyrir þá efnahagslegu mismunun sem ríkið leiddi yfir þegna sína eftir því hvort þeir lærðu heima eða erlendis, þá voru þeir margir sem kusu fjölbreytni og gæði þrátt fyrir skuldir.
 
Tillaga um skólagjöld við alla háskóla á Íslandi er því tillaga um að jafna mun þeirra sem læra heima og erlendis þar sem skólagjöld eru tekin. Hún er réttmæt, en þá og því aðeins að LÍN starfi áfram á svipuðum forsendum og nú. Hún felur líka í sér að hátekjufólk framtíðarinnar tekur þátt í að fjármagna menntasókn Íslands með því að greiða stærri hluta menntunar sinnar sjálft. Auðvelt er að koma því í kring gegnum leikreglur LÍN að hámenntað lágtekjufólk borgi hæfilega lítið sem ekkert af skólagjöldum í raun – takið eftir, í raun – komi fjármögnun þeirra gegnum LÍN og endurgreiðslukrafan verði hófleg og tekjutengd.
 
Hvað segja jafnaðarmenn við þessu? Þeir vilja jafnrétti til náms númer eitt. Þeir vilja að íslenskir námsmenn sæki bestu fáanlegu menntun þar sem hana er að fá. Þeir vilja hafa innbyggðan hvata í kerfið sem gerir þeim sem menntast erlendis auðvelt að taka lægri laun á heimamarkaði en erlendis vegna þess að endurgreiðslurnar munu ekki drepa þá. Þeir vilja líka að hátekjumenn framtíðarinnar borgi stærri hluta af menntunarkostnaði sínum en lágtekjumenn. Þeir vilja ennfremur að fólk geti valið sér námsbrautir og skóla án þess að þurfa að velta um of fyrir sér kostnaði (þótt það sé eðlilegur hluti af öllum menntunarvangaveltum). Og að réttlætis sé gætt.
 
Skólagjöld við háskóla á Íslandi koma ekki í veg fyrir neitt af þessum markmiðum. Þau munu hins vegar reynast hluti af þeirri stóru fjármögnun betri menntunar sem framundan er, og skoðast sem smávægileg aukning á eigin ábyrgð þeirra sem njóta menntunar.
 
 
Viðkvæm mál: Byggðastefna og borgarstefna
 
Eitt skýrasta dæmi um vanmátt stjórnmála eru þær rústir byggðastefnu sem við nú stöndum á. Hafi einhvern tíma verið til skilgreind markmið um tilgang og leiðir byggðastefnu hafa þau örugglega misfarist. 90% þjóðarinnar búa nú á suðvestur horninu.
 
Allir flokkar geta litið yfir sviðið, allar til þess kallaðar stofnanir, og sagt: Þetta er ekki það sem til stóð. (Hvað það nú var sem til stóð er annað mál). Erfiðast er þetta fyrir fólkið sem bjó einhvers staðar á landsbyggðinni og trúði því í raun að eitthvað myndi fara á annan veg en raunin er. Mikið af því er reyndar komið suður, en gjaldþrot ,,stefnunnar“ er bersýnilegt.
 
Það er mjög óvinsælt í pólitískum hópi að segja þetta svona. Lygin verður að lifa. Hún er stofnanabundin, kerfislæg. Hún er bundin í pólitískum tilverurétti margra kjörinna fulltrúa, hún er bundin í opinberum stofnunum og ráðum sem ekki geta viðurkennt árangursleysi sitt, hún er múlbundin í litlum sveitarfélögum sem hvorki ráða við hlutverk sitt né hafa afl til að breyta. Byggðastefna í íslenskum stjórnmálum er á svipuðum vegi stödd og fjölskyldustefna. Það veit enginn um hvað er talað en á meðan fer þróunin sinn veg.
 
Þessi breyting á íslensku samfélagi felur í sér mikla áskorun fyrir jafnaðarmenn. Í fyrsta lagi verðum við að aðlaga okkur staðreyndum sem þegar eru orðnar og leggja því fólki lið sem skilið er eftir, margt í hlekkjum með óseljanlegar verðlausar eignir og rúið tækifærum. Það er félagslegt úrlausnarefni sem má ekki vanrækja vegna þess að við tökum þátt í að viðhalda þeirri lygi að einhvern veginn einhvern tíma verði aftur til það byggðamynstur sem eitt sinn var.
 
Hitt viðfangsefnið er ekki síðra. Að skilgreina og skilja þau miklu sóknarfæri sem felast í aflinu á suðvesturhorninu. Aldrei í Íslandssögunni hefur svo mikið afl verið komið saman í einum brennipunkti.   Langt í 300 þúsund manns mynda byggðakjarna á tiltölulega afmörkuðu svæði milli Hvítár í Borgarfirði og Hvítár í Árnessýslu. Þetta er einn vinnumarkaður, eitt menningarsvæði með greiðum samgöngum, félagsleg eining sem er burðugri en allt sem við höfum áður kynnst, auðugri en nokkru sinni hefur verið til á Íslandi. ,,Reykjavik – city region“ myndi þetta svæði kallast á máli erlendra þróunarfræðinga, sem er líkast til betra að halda sig við en nefna það ,,borgríki“ vegna þeirra gríðarlegu pólitísku fordóma sem myndu mæta slíku heiti.
 
Mikilvægt er að skilja að það sem eftir er af landsbyggðinni mun njóta þessa afls ekki síður en svæðið sjálft. Sektarkennd yfir töpuðum slag um sálir landsmanna meðfram strönd landsins og inn til dala má ekki koma í veg fyrir að við lítum til framtíðar og nýtum það tækifæri sem orðið hefur til – án þess að nokkur sæi það fyrir! En til að landsbyggðin fái staðist sem efnahagslegt bakland höfuðborgarsvæðisins með auðlindanýtingu sinni og mikilvægur þáttur í félagslegri fjölbreytni þjóðarinnar er eitt atriði forsenda: Sameining smásveitarfélaga. Ekkert pólitískt afl hefur haft þor til að knýja þessa breytingu fram. Sveitarfélögin eru nær 100. Þau ættu að vera 20–30. Þessi dreifði og vanmáttugi fjöldi sveitarfélaga hefur ekkert þrek til að standa uppi í hárinu á miðstýringaráráttu ríkisvaldsins og snýr bónleiður til búðar úr árangurslausum ,,viðræðum“ við háembættismenn um breytingu þar á. Pólitísk forysta jafnaðarmanna tekur á báðum endum málsins: Knýr á um sameiningu sveitarfélaga í burðugar einingar sem geta axlað það verkefni að veita nútímalega þjónustu. Og setur ríkisvaldinu það mark að minnka sig og færa út verkefni þangað sem sveitarfélögin ráða við þau. Þetta tvennt verður að gerast samtímis. Þetta er í raun eina von landsbyggðarinnar til að geta nýtt sér afl suðvesturhornsins.
 
 
Það er auðvitað sprenghlægilegt að í pólitískri umræðu um byggðamál á Íslandi skuli Reykjavík og nágrenni lýst eins og hún sé ,,alltof stór“. Miðað við hvað? Ekki nálæga granna eins og Kaupmannahöfn og Birmingham. Og fáránlegt að halda því fram að Reykjavíkursvæðið þurfi ,,mótvægi“. Mótvægið er alls staðar á EES-svæðinu og mun hvergi hlífa okkur. Nei, höfuðborgarsvæðið er ekki of stórt. Þvert á móti. Nú loksins er að fæðast á Íslandi félagsleg, menningarleg og efnahagsleg eining sem hefur burði til að láta til sín taka á heimsvísu. Auðvitað er 300 þúsund manna kjarni nánast ekki neitt – jafnvel á evrópskan mælikvarða – en við höfum sýnt að smæðin er afstæð í efnahagslegum og menningarlegum skilningi – ef hugarfarið er rétt. Það hugarástand þarf að skapa að Reykjavíkursvæðið allt á suðvesturhorninu öðlist þann sess að vera mesta sóknarfæri sem Ísland hefur átt. Við gætum ef vel er á haldið komist yfir ,,smáþjóðahjallann“ og orðið ,,samkeppnissvæði“ á heimsmarkaði á við líflegar og skapandi milljónaborgir hér og þar í Evrópu. Mesta atgervisfólk Íslands í viðskiptum og menningu hefur þegar sýnt þetta og sannað. Ætlum við að láta stjórnmálin draga okkur niður?
 
 
Viðkvæm mál: Opinber stuðningur við atvinnustarfsemi
 
Ríkisvaldið leggur margs konar atvinnustarfsemi lið með ýmsu móti. Greiðir niður laun sjómanna með skattaafslætti, veitir ábyrgð á lánum virkjana, leggur fram auðlindir án gjalds, niðurgreiðir kostnað þar sem óhagkvæmt er að afla orku, styður landbúnað með milljarðaframlögum og eflaust má áfram telja lengi. Almennt er ekki ágreiningur um að draga eigi úr svona inngripum í efnahagslífið, sem annaðhvort skekkja samkeppnishæfi atvinnuvega eða koma í veg fyrir að nýir skapist. Jafnaðarmenn hljóta að horfa mjög gagnrýnum augum á allar slíkar aðferðir og leggja þær af smátt og smátt, nema þær sem flokkast sem félagsleg þjónusta og á þá að kalla því nafni.
 
Ein er sú atvinnugrein sem við eigum að styðja markvisst og í auknum mæli með skapandi aðgerðum. Menningarstarfsemi.
Fyrir því eru fyrst og fremst þjóðmenningarleg rök. Íslensk menning er eins og eitt eílífðar smáblóm sem hefur spjarað sig merkilega vel, en það er óþarfi að gera því erfiðara fyrir en agnarsmátt málsvæðið gerir sjálft. Ríkið getur dregið úr skattlagningu á þennan atvinnuveg. Landfræðileg einangrun inni á þéttu litlu málsvæði dugði lengi fyrir listamenn okkar og menningariðnað, en mun ekki gera áfram. Þess vegna þarf að styðja menningu og listir með óbeinum aðgerðum: Minnka mjög álögur (t.d. virðisaukaskatt á menningarafurðir), auka skattaafslátt fyrirtækja og einstaklinga sem leggja menningu og listum lið, efna til enn frekara samstarfs opinberra menningarstofnana, fyrirtækja og félaga á þann hátt að hver króna sem lögð er fram til menningarmála margfaldi gildi sitt. Þessi starfsemi er í raun eini atvinnuvegurinn í augsýn sem verðskuldar sérstakan stuðning með fjölbreyttum aðgerðum. Umfram allt ber að hafa þær aðgerðir almennar, ekki sértækar, og lúta gagnsæjum leikreglum, ekki brauðmolastefnu stjórnmálamanna.
 
Fjölbreytt menningarlíf er krafa nútímafólks þegar það velur búsetu, í landi eða á stað. Menningarlíf er því hluti af lífsgæðum landsins. Sem þjóð í hnattvæddu umhverfi verðum við að rækta og hlúa að eigin vitund. Ekki til að vernda í sýningarskáp, heldur sem það síbreytilega bindiefni sem skapar okkur samfélagsvitund. Þá er menningariðnaður í sjálfu sér svo spennandi viðfangsefni fyrir nútímafólk, til að vinna við og græða á, að hann mun reynast öðrum atvinnuvegum stoð í framleiðslu, markaðssetningu og sölu á vörum og þjónustu. Og við munum græða á öllu saman þegar upp er staðið, í glerhörðum peningum, þótt fráleitt verði það í öllum greinum menningar.
 
Meiri opinber stuðningur við menningarlíf (á almennum forsendum) er réttlætanlegur. Menningarstarfsemi er samfélagsleg nauðsyn. Menning uppfyllir því þau skilyrði sem við setjum fyrir því að styrkja eina atvinnugrein umfram aðrar. Best væri að stefna síður að auknum beinum fjárframlögum til einstakra stofnana eða listgreina, heldur aflétta sem flestum álögum og skapa þannig almennt umhverfi sem er hagkvæmt þeim sem vilja láta til sín taka.
 
Að velja sér verkefni
 
 
Ásamt lýðræðisvæðingu samfélagsins er menntastefna höfuðmál sem hefur forgang á önnur. Þetta tvennt myndar hagrænar undirstöður fyrir auðsköpun í framtíðinni, og félagslegar stoðir fyrir því verðleikasamfélagi sem jafnaðarmenn vilja stefna að. Þetta þýðir að flokkur sem vill komast í forsæti ríkisstjórnar verður að forgangsraða mjög skýrt en reyna ekki að vera öllum allt. En það er ekki nóg. Þær miklu breytingar sem við horfumst í augu við kalla á nýja nálgun, hugsun og gagnrýna afstöðu til þess hvernig stjórnmálin fást við hlutina. Og þar á meðal verkefna er það að breyta stjórnmálunum sjálfum.
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is