Inngangur
Kafli 1
Kafli 2
Kafli 3
Kafli 4
Kafli 5
3. kafli: Lýðræðisvæðing
Lýðræðisvæðing hefur að markmiði að setja valdi að ofan skorður. Með henni eru sett almenn markmið um að efla og næra félagsauð á sem flestum stigum samfélagsins. Við viljum færa vald til fólksins, við viljum setja almennar leikreglur um lýðræðislega hætti – en fela borgurum að þróa og útfæra þær aðferðir sem gagnast best. Við viljum ekki pólitíska forsjá sem vinnureglu. Við viljum samræðu- og sáttastjórnmál.
Þriðja ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sýndi glöggt alla vankanta
höfðingjaveldis í íslenskum stjórnmálum. Menn kalla það
foringjaræði. Höfðingjaveldi vísar hins vegar betur í þá
sögulegu hefð á Íslandi sem felst í ættatengslum,
persónupólitík, blokkum í efnahags- og viðskiptamálum sem voru
samofnar valdastjórnmálum. Tvö dæmi sýndu þetta svo um munaði:
Sú ákvörðun eins eða tveggja ráðherra að skuldbinda Ísland á
lista hinna ,,viljugu“ með Bandaríkjunum í árásinni á Írak og
svo hið pólitíska skipbrot sem ákvörðun sömu manna beið í
svonefndu ,,fjölmiðlamáli“ þegar til varð víðfeðm uppreisn gegn
aðferðum stjórnarflokkanna. Sú uppreisn leiddi meðal annars til
endurvakinnar kröfu um endurskoðun stjórnarskrárinnar þegar
þessir tveir höfðingjar sögðu að stjórnarskráin þýddi ekki það
sem stendur í henni.
Endurskoðun stjórnarskrárinnar er óleyst eilífðarmál
stjórnmálaflokkanna, og það sleifarlag aðeins ein ástæða þess að
málið á ekki að vera í höndum þeirra. Stjórnarskráin er
réttindaskrá borgaranna og setur valdastofnunum skorður. Þess
vegna á endurskoðun hennar að fara fram á frjálsum vettvangi
borgaranna en ekki undir formerkjum þeirra valdastofnana sem um
er fjallað. Stjórnlagaþing með þátttöku á breiðum grunni er
tillaga um málsmeðferð sem fram hefur komið og er réttmæt. En
auðvitað kusu stjórnarflokkarnir að skipa enn eina nefndina með
eigin forræði, sem í enduðu forystumenn stjórnmálanna og efndu
um leið til dæmigerðrar deilu sem ekki mun neinn vanda leysa.
Íslendingar eiga nú tækifæri á því að fara í gegnum þá umræðu
sem þeir fengu aldrei þegar kóngur kom með plaggið, og taka út
þann þroska sem margar aðrar þjóðir hafa fengið með því að hugsa
sig í gegnum alla þá dýrmætu þætti sem stjórnarskráin tekur til.
Það mál er of mikilvægt til að vera falið forsjá
stjórnmálaflokka, enda á stjórnarskráin að setja þeim reglur.
Mig greinir sem sagt á við þá sem telja að stjórnmál eigi að
fara fram innan vébanda stjórnmálaflokka og aðeins þar.
Lýðræði á ekki bara við það hvernig kosið er til sveitarstjórna,
þings, skipað í ríkisstjórn, og ríkisvaldið þrígreint með skýrum
hætti. Þar eru þó stór verkefni sem vert er að gefa gaum strax:
Að landið verði eitt kjördæmi, að þingið verði eflt með því að
ráðherrar (framkvæmdavaldið) geti ekki verið þingmenn
(löggjafarvald) á sama tíma, að tryggt verði að dómsvaldið verði
í raun og sanni sjálfstætt með því til dæmis að
hæstaréttardómarar séu ekki skipaðir með geðþótta eins ráðherra.
Þjóðaratkvæði, og miklu meira
Réttur borgaranna til að hafna gjörðum ríkisstjórnar eða
Alþingis með því að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu er svo
eðlilegur að jafnaðarmenn setja hann á oddinn. En eigum við ekki
að ganga lengra og krefjast þess að skipulögð samtök borgara
geti samið frumvarp til laga og safnað fyrir því svo miklum
stuðningi að hægt sé að krefjast atkvæðagreiðslu um það án
atbeina Alþingis?
Augljóst dæmi um þörfina fyrir slíkt kemur í hugann: Úr því
Alþingi mistekst æ ofan í æ að tryggja ákvæði um sameign
auðlinda þjóðarinnar í stjórnarskrá, eiga ekki frjálsbornir menn
að fá að semja um það frumvarp til laga, safna stuðningi og fá
um það kosið? Eða: Úr því að Alþingi mistekst svo hrapallega að
koma á kjördæmaskipan sem vit er í, megum við hin þá ekki leggja
til í krafti fjöldans að landið verði eitt kjördæmi og fá um það
kosið? Rétturinn til þjóðaratkvæðagreiðslu á því að vera
skilgreindur jákvætt. Í stað þess að vera nauðvörn gegn ofríki
Alþingis eða stjórnar (rétturinn til að hafna gjörð), feli hann
í sér tækifæri til að taka frumkvæði um mál og knýja í gegn með
fjöldahreyfingu og samþykki þjóðarinnar. Auðvitað þarf að gera
kröfu um mikið afl fjölda til að hreyfa málum með slíkum hætti.
Hér er ekki gerð krafa um endalausar uppákomur og ábyrgðarlausa
múgsefjun sem stjórntæki. Jafnvægi þarf að ríkja og að öllu
jöfnu er fulltrúalýðræði með Alþingi hinn rétti vettvangur til
að ráða ráðum þjóðar.
Það góða við umræðuna um málskotsrétt forseta Íslands í kjölfar
þess að hann neitaði að samþykkja fjölmiðlalögin í júní 2004 var
ekki síst þetta: Hún leiddi í ljós hve takmarkaður þessi réttur
er, og lítið hald í honum fyrir þjóðina. Það er í raun ekki
lýðræðislegt að einn maður, og aðeins hann einn, geti stöðvað
Alþingi á villigötum. Átakalínan í þessu máli var skýr, milli
hægri og vinstri, þar sem íhaldsöflin héldu því fram að
málskotsrétturinn væri í raun ekki til hvað sem stjórnarskráin
segði, og ef hann væri til ætti aldrei að beita honum, og ef
allt þryti yrði af afnema hann strax. Við segjum á móti:
Málskotsrétturinn er lifandi veruleiki, og hann á að formfesta
og skilgreina og hann á að vera í höndum borgara sem bindast um
það samtökum að hafna vilja Alþingis, ekki bara hjá einum manni
á Bessastöðum. Þetta er hluti af dreifstýringu og hluti af
þeirri hugmyndafræði sem vill færa vald frá kjörnum fulltrúum og
þeim stofnunum sem þeir starfa við, og til fólksins alls.
Þetta þýðir – með fullri virðingu fyrir Alþingi – að ég tel það
ekki hinn endanlega dómara um öll mál er þjóðina varða. Ég tel
að þjóðin megi setja Alþingi stólinn fyrir dyrnar ef og þegar
sérstaklega stendur á, þegar myndast ,,gjá milli þings og
þjóðar“.
Sams konar hugmyndafræði er að baki þess að færa vald frá ríkinu
til sveitarfélaga. Á Íslandi er valdsvið ríkis um 70% af
opinberum afskiptum, sveitarfélaga um 30%. Jafnaðarmenn eiga að
setja sér það mark að í vel skilgreindum áföngum snúist þetta
hlutfall við. En þá þurfa sveitarfélögin auðvitað að hafa til
þess burði. Þetta á ekki bara við um ,,félagsleg
þjónustuverkefni“ eins og þjónustu við fatlaða, heldur til dæmis
löggæslu og framhaldsskóla. Rökin eru þau að vald yfir
nærþjónustu eigi að liggja sem næst þeim sem hana veita – nota,
og greiða fyrir. En það er ekki nóg. Aukin dreifistýring stuðlar
ekki aðeins að því að vald sé fært frá fáum fulltrúum til
margra, heldur gerir þá kröfu á hendur borgurum að þeir axli
ábyrgð. Hún er því rökrétt í samhengi við það sem áður var rætt:
Engin réttindi án ábyrgðar.
Hinn rétti mælikvarði er réttur borgarans
En það eitt að færa verkefni milli stofnana opinbera valdsins
(ríkis og sveitarfélaga) er ekki nóg. Þetta er aðeins fyrsta
skrefið í lýðræðisvæðingu. Stjórnmálamönnum og yfirmönnum
stofnana hættir til að líta á málaflokk eða þjónustu frá
sínum bæjardyrum. Hinn rétti mælikvarði er réttur borgarans,
notandans. Ríkisútvarpið er ekki til fyrir ríkið, og ekki heldur
starfsmenn þess, heldur notendur. Skólakerfið er ekki til fyrir
fræðsluskrifstofur, ekki fyrir skólastjóra eða kennara, heldur
nemendur. Borgarleikhúsið er ekki til fyrir leikara, heldur
listunnendur meðal almennings. Innan allra stofnana og kerfa er
innbyggð hagsmunavörn sem á yfirborðinu samsamar sig hagsmunum
notenda, en gerir það oft ekki í raun, og mun ekki gera nema
notendaaðhald og þátttaka notenda í mótun stefnu séu tryggð, með
einum eða öðrum hætti. Nýfrjálshyggjan segir að þá og því aðeins
sé þetta hægt að komið sé á virku ,,sölu/kaupsambandi“ milli
seljanda og neytanda. Jafnaðarmenn líta til mun fleiri þátta,
svo sem félagslegra, menningarlegra og – ekki síst – pólitískt
hugmyndafræðilegra þátta, er varða jöfnuð.
Valddreifing, eða dreifstýring, á að vera krafa jafnaðarmanna.
– Við viljum lýðræðisvæða samfélagið, þar með talin hefðbundin
stjórnmál, en ekki aðeins þau.
– Við viljum færa vald til fólksins, frá ríki, frá stofnunum,
frá kjörnum fulltrúum sem taka sér of smámunasamt og miðstýrt
vald.
– Við viljum minnka opinbera forsjá og auka réttindi félaga og
einstaklinga og fela þeim aukna ábyrgð, enda sé málum
lýðræðislega stýrt með almannaheill að leiðarljósi.
Að ofan og niður, eða að neðan og upp?
Nútímasamfélag er samsett úr miklu óráðnari og óvissari þáttum
en gamla þjóðríkið. Því er ekki jafn auðstýrt. Gamla þjóðríkið
var með einum þyngdarpunkti fyrir pólitískt og hugmyndafræðilegt
vald, jafnan samspyrt hinu efnahagslega valdi. Goggunarröðin
blasti við. Nú er netvæðing, hnattvæðing, fjölmenning, óreiða og
hvergi einn áreiðanlegur þyngdarpunktur fyrir samfélagið í
heild. Áður lá fyrir skýrt verkefni jafnaðarmanna: að beita
miðlægu ríkisvaldi til að laga og jafna út ágalla á óheftum
markaði. Þetta var velferðarríki. Núna er verkefnið að halda
kostum velferðar, þó svo að ríkisvald, auðvald, boðvald og allt
annað sé úr fyrri skorðum. Velferð án velferðarríkis.
Grunnskólinn er dæmi um hvernig dreifstýring virkar betur en
miðstýring að ofan. Ég lít því svo á að færsla grunnskólans til
sveitarfélaga hafi verið fyrsta skref, en ekki síðasta skref í
átt að lýðræðisvæðingu skólanna. Reykjavíkurlistinn hefur haft á
stefnuskrá að auka faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði skóla, sem
felur í sér færslu á valdi frá miðlægum stofnunum til þeirra sem
starfa í námunda við nemandann, til skólastjórnenda og
starfsfólks. Þegar hér er komið sögu standa hinir kjörnu
fulltrúar frammi fyrir því að þeir hafa fært valdið frá sér, en
verða jafnframt að tryggja notendum þjónustunnar áhrif svo ekki
skapist yfirþyrmandi fagforræði einnar stéttar (starfsmanna
skóla) á mikilvægum þáttum velferðarsamfélagsins. Efla þarf rétt
notandans (nemenda og foreldra) í samstarfi við þá sem
sveitarstjórnarmenn fela þjónustuhlutverk
(skólastjórnendur og kennara). Sett er fram stefna sem kveður á
um ákveðið valfrelsi notanda, um skilgreindan rétt til
upplýsinga, um formlegar leiðir til áhrifa og meira að segja
áætlun um að rækta lýðræðislegan þroska nemenda. Byggja á upp
félagsauð þar sem áður var firring. Þetta þýðir að fjárfesta
verður í félagsfærni foreldra og notenda þjónustunnar, tryggja
þeim rétt til eftirlits, skoðanaskipta og á endanum ákvarðana um
mál sem varða skólahaldið, vellíðan nemenda og menntun. Einstök
foreldraráð, foreldrafélög og samtök þessara aðila verða að hafa
til þess styrk að tala máli notenda við skólastjórnendur og
formlega skilgreindar leiðir sem kveða bæði á um réttindi og
skyldur.
Um þetta síðastnefnda gildir hið sama og áður var á minnst að
ekki má ráða ráðum með ,,múgsefjun fjöldans” eða kúgun
meirihluta; vald vegur salt á móti ábyrgð.
Útfærsla á svona aðferðum er langt í frá þróuð og tekur tíma svo
skapandi jafnvægi náist. En ástæðan fyrir aðferðinni er rík.
Ástæðan er ekki bara ,,lýðræðisvæðing lýðræðis vegna“. Hún er
ekki síst sú að því fleiri forráðamenn barna sem láta sig
menntun og velferð skóla varða, því betri árangur af
skólastarfi. Fjárfesting í félagsauði foreldrasamfélagsins er
því bein fjárfesting í hagkvæmari nýtingu fjár, betri árangri í
menntun – hæfari nemendum.
Dæmið um grunnskólana má yfirfæra miklu víðar. Það hlýtur að
vera hlutverk jafnaðarmanna að færa vald frá miðstýrðu ríki til
sjálfstæðra (fullburðugra) sveitarfélaga, og áfram til borgara.
Lýðræðisvæðing samfélagsins felur því ekki aðeins í sér nýja
útgáfu af ,,verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga“ heldur áætlun
um aukin áhrif og ábyrgð borgara á sem flestum sviðum.
Umbreytingin
Krafa um þessa umbreytingu byggir á því að samfélagið hverfist
ekki aðeins um tvo meginpóla: Hið opinbera og markaðinn. Á milli
þessara póla miðlar hið ,,borgaralega“ svið, sem er vettvangur
félaga, einstaklinga, stofnana og samtaka sem ekki teljast hluti
af stjórnsýslu eða pólitík og ekki heldur hluti af viðskiptum
eða markaði. Í hefðbundnum átökum milli nýfrjálshyggju og
,,ríkishyggju“ er ekki nægur gaumur gefinn að því stóra sviði
borgaralega athafna sem miðlar á milli markaðar og opinberra
stofnana. Þessi ,,almenningur“ (public sphere) er ekki aðeins
vaxandi, heldur mörkin á milli hans og markaðar annars vegar og
ríkisvalds hins vegar alltaf ógleggri. Leiðir skilaboða sem
miðla um þennan ,,almenning“ milli markaðar og opinberra
valdastofnana eru síbreytilegar. Það má því auðveldlega draga úr
ríkisvaldi og miðlægum afskiptum án þess að ofurselja velferð og
lýðræði frumskógarlögmálum kapítalismans.
Nútímalegir jafnaðarmenn taka því kröfu sína um lýðræðisvæðingu
miklu lengra en bara til hins opinbera skilgreinda ríkisvalds,
heldur líka inn á hið borgaralega svið.
Þessi hugsun kallar á margvíslegar leiðir og lausnir sem geta
verið mismunandi eftir atvikum. Leiðirnar sjálfar og lausnirnar
sem eru valdar eru ekki meginmálið, heldur sú grundvallarhugsun
sem er að baki. Mikilvægt að útfæra ekki um of með boðum og
bönnum, fyrirframgefnum reglum. Meginmarkmiðin eru skýr,
útfærsla á að koma heima í héraði, við grasrótina.
Fjárfesting í félagsauði
Nútímalegir jafnaðarmenn sjá ekki möguleikana einkum í því að
opna nýjar stofnanir eða skipa nýjar nefndir innan hefðbundis
valdaramma stjórnmála. Þeir færa verkefni út til félaga og
einstaklinga; tryggja þeim almennan starfsramma og stundum
opinber framlög með, fela þeim að rækja hlutverk sem samrýmist
almannahagsmunum, en skipta sér ekki af því að öðru leyti með
boðum og bönnum. Gott dæmi er hvernig Reykjavíkurborg felur
Leikfélagi Reykjavíkur að reka Borgarleikhús. Ekki gott dæmi
vegna þess að alltaf hafi allt gengið þar svo vel, heldur vegna
þess einmitt að stöðugt hefur þurft að ræða, skilgreina og
útfæra leiðir sem tryggja almenna hagsmuni borgarinnar fyrir því
að rekið sé burðugt leikhús, og hins vegar styrkja þann
félagskraft sem nauðsynlegur er hjá Leikfélagi sem fær mikla
fjármuni frá almenningi. Dæmið um Borgarleikhús er einmitt
heppilegt vegna þess að samstarf hins opinbera (borgar) og
sjálfstæðs félags (LR) hefur staðið svo lengi og vegna þess að
kröfur um eðli samstarfsins hafa þróast. Rekstur í nýju
Borgarleikhúsi féll í fyrstu undir lítt mótað samstarf
fyrirmenna á persónulegum nótum, færðist síðan yfir í
,,félagsvæðingu“ af hálfu borgarinnar með samstarfssamningi við
LR, en breyttist í ,,lýðræðis- og ábyrgðarvæðingu“ samfara
erfiðleikum í rekstri og óskum um aukin fjárframlög. Borgin, sem
leggur til 400 milljónir á ári til atvinnuleikhúss, gerir ekki
aðeins kröfur til að félagið, sem þiggur þann styrk, sé
lýðræðislega rekið, heldur einnig að það ábyrgist fjárhagslegar
skyldur og undirgangist rekstrarlegar kröfur.
Spurningin um opinbera þjónustu snýst því ekki um opinberan
rekstur með tilheyrandi stofnunum eða einkavæðingu. Á
milli eru margs konar skipulagsform þar sem opinbert fé og
kraftur nýtast til að koma á laggirnar þjónustu sem varðar
almannaheill, án þeirra takmarkana sem pólitísk forsjá og
stirðbusalegar stofnanir hafa tilhneigingu til að setja – og án
þeirrar nauðhyggju sem felst í hinni hörðu hendi markaðarins.
Mörg sams konar verkefni bíða jafnaðarmanna víða um samfélagið.
Að færa verkefni frá opinberum stofnunum og undan beinu
smámunasömu eftirliti kjörinna fulltrúa og ráða er ekki hin
hefðbundna pólitíska leið. Hún er hin nýja leið.
Mikilvægt er að huga að því að hér er ekki sett fram krafa um
um afnám fulltrúalýðræðis eins og við þekkjum það. Fjöldi fólks
kýs einmitt að huga að öðru en stjórn á stórum og smáum hlutum
sem varða almannaheill og –þjónustu. Sá fjöldi á að geta treyst
vönduðu fólki til góðra verka. En sá er einmitt mergurinn
málsins: Að hafa leiðir og aðferðir til að treysta fleira góðu
fólki til fjölbreyttari mikilvægra verka – ef svo er talið
þurfa. Dæmi um skóla, elliheimili, menningarstofnanir og fleira
í þeim dúr má einmitt rekja því til stuðnings að vænta má að
krafan um víðtækara og djúpristara lýðræði en við þekkjum nú
muni eiga vaxandi fylgi að fagna.
Nokkrar aðferðir þarf að þróa:
– Færa samskipti þjónustustofnana hins opinbera og
notenda frá ríki til sveitarfélaga og þaðan út í bæjarhluta og
hverfi í stórum sveitarfélögum. Ráðgjafaráð leiðbeina og senda
skilaboð til stjórnenda og kjörinna fulltrúa, íbúaþing eru
fundir þar sem fólkið getur staðið augliti til auglitis við þá
sem eiga að þjóna því mega sín meira en rétturinn til að skrifa
lesendabréf.
– Efla vald þeirra sem nota opinbera þjónustu. Ekki bara
með því að fara markaðsleiðina (tryggja réttinn til að velja eða
hafna) heldur þróa áhrifaleiðir og byggja upp félagsauð sem
gerir fólki kleift að nýta og móta þær leiðir þjónustu
sem krafa er um. Þetta kallar á markvissar aðgerðir. Ég hef
nefnt notendaráð, svo sem skólastjórnir við grunnskóla. Nú
hljótum við að beina sjónum að fleiri opinberum
þjónustustofnunum, svo sem elliheimilum þar sem sjálfstæði og
sjálfræði notenda skiptir miklu máli, en hingað til hefur varla
nokkrum manni hugkvæmst að spyrja, hvað þá leita leiða.
– Auka samskipti hins opinbera og einkarekna (public/private
partnership) sem ganga lengra en að afla fjár og deila út eftir
ólíkum farvegum, heldur leitast við að ná fram stærðarhagkvæmni,
þjónustutryggingu og margfeldisáhrifum fyrir fé til menningar-,
líknar-, og annarra samfélagsmála. Möguleikarnir til að efla
listir og skapandi störf eru sannarlega óþrjótandi.
-Framselja vald til félaga, fyrirtækja, einstaklinga og
stofnana. ,,Útboð á rekstri” eru í raun bara toppurinn á
ísjakanum og sýnir áherslan á þau sorglegar takmarkanir
ímyndunarafls þeirra sem stýra umræðunni. Félagsvæðing er
kostur, þar sem samið er við félög eða sjálfseignarstofnanir um
að veita skilgreina þjónustu til heilla fyrir almenning (svo sem
rekstur íþróttafélaga á leikvöngum eða menningarstarf faghópa).
Áhrifin af svona aðgerðum eru ekki bara fólgin í hugsanlegum
rekstrarávinningi, heldur og í því að með kröfunni um ábyrga
starfshætti og lýðræðisleg vinnubrögð verður til það sem kallast
félagsauður. Með félagsauði er átt við stofnanir, tengsl og
samskiptahætti sem saman skapa gögn og gæði félagslegra athafna.
Þessi auður er undirstaða samfélagsvitundar, honum er ekki lýst
í magni heldur gæðum. Hann er límið sem heldur samfélaginu
saman. Þess vegna er fjárfesting í félagsauði fjárfesting í
samfélaginu og gildum þess.
Það þekkja margir stjórnmálamenn að þá fyrst tekur við einræði
foringja, klíkuræði og valdníðsla ásamt rekstrarlegu
ábyrgðarleysi þegar ,,frjáls félagasamtök“ eiga að taka við! En
það atriði afsannar ekki kenninguna. Þvert á móti: Með
félagsvæðingu hljótum við að gera kröfur um aukna þekkingu,
stjórnfestu, hæfni og getu til að takast á við samfélagsleg
verkefni; til verður félagsauður sem hefur margfeldisáhrif víða
um samfélagið.
Gagnrýni á stjórnvöld er opinber þjónusta
Hugtakið sjálft, ,,opinber þjónusta“ villir mönnum sýn. Í hugum
okkar og umræðu er þetta þjónusta sem hið opinbera veitir.
Almannavaldið er í eins konar framleiðsluhlutverki með stofnunum
sínum gagnvart skattborgurum, kjörnir fulltrúar og starfsmenn í
sölumannshlutverki til að tryggja sér laun og endurkjör. Opinber
þjónusta er víðtækari: Hún felst í starfsemi líknarfélaga,
sjálfboðaliða, hún felst líka í gagnrýni á stjórnvöld, sem í
eigin huga hafa ,,einkarétt“ á að veita opinbera þjónustu.
Í hinu margbrotna samfélagi okkar erum við komin á það stig að
,,gagnrýni á stjórnvöld“ verði sjálfsögð þjónusta sem sömu
stjórnvöld tryggi sér með því að kaupa hana af sérþjálfuðum
aðilum.
Um þetta síðastnefnda má nefna dæmi:
Sárlega vantar styrka félagsvæðingu um umhverfismálin. Hér á
landi starfa veikburða og fá félög og samtök sem veita ríki,
sveitarfélögum og fyrirtækjum of takmarkað aðhald. Aðhald í
formi umræðu, upplýsinga og fræðslu, og aðhald í formi annarrar
sýnar á heiminn en þeirrar sem opinberar stofnanir og fyrirtæki,
eins og Orkuveitan og Landsvirkjun, hafa. Það er því hluti af
lýðræðisvæðingu samfélagsins að styrkja og efla félagasamtök sem
gagnrýna stjórnvöld og stofnanir þeirra.
Sambærilegt dæmi var deilan um framlög til
Mannréttindaskrifstofu á Íslandi haustið 2004. Hún sýndi að
tveir ráðherrar gátu með gerræðislegum ákvörðunum skrúfað fyrir
framlög til ráðgefandi og gagnrýnnar skrifstofu – sem þeim
stafaði hugsanlega hætta af eða höfðu á pólitískan ímugust.
Eitt svið umræðu og aðhalds sem sárlega skortir burði til að
leggja lið í opinberri stefnumótun er neytendavernd.
Markaðsvæðingin hefur fært auðvaldinu tækifæri til að móta og
reka viðskiptastefnu sem er langtum aflmeiri en nokkru sinni
neytendaverndin. Viðskiptastefna auðvaldsins er rekin á markaði
og með áróðri (auglýsingum og óbeinni fréttastjórn fjölmiðla).
Jafnaðarmenn geta ekki látið sér nægja að ræða málefnið á
forsendum samkeppnislaga og þeirra stofnana sem þau gera ráð
fyrir. Öflug neytendasamtök eru hluti af því aðhaldi sem
pólitíska valdið í höndum jafnaðarmanna telur nauðsynlegt að sé
fyrir hendi. Hvers vegna er rétt að efla neytendavald við hlið
stofnanavaldsins? Vegna þess að það er líklegt til að bregðast
fyrr við aðsteðjandi vanda neytenda á markaði en stofnanir og
ráð, og það hefur miklu meiri áhrif á fyrirtæki sem misnota
stöðu sína á markaði þegar neytendur tala af þrótti, en þegar
embættismenn skrifa bréf. Hraði og útsjónarsemi á markaði er
miklu meiri en svo að hægt sé að vænta þess að opinberar
stofnanir sjá allt fyrir eða skynji á eigin skinni hvar eldur
brennur heitast. Það er getur verið skilvirkari nýting opinbers
fjár að fela neytendasamtökum umboð og áhrif en stofnanavæða
eftirlitið úr hófi.
Ekki kerfishugsun eða stofnanavæðing
Umbreyting jafnaðarmanna felur því ekki í sér stofnanavæðingu
eða kerfishugsun, heldur þvert á móti: Aukið afl til fólksins.
Frá ríki, frá sveitarfélögum, frá kjörnum fulltrúum. Ekki bara
gagnvart opinberu valdi, heldur líka gagnvart auðvaldi og
markaðsvæðingu. Það er krefjandi verkefni jafnaðarmanna að færa
vald út til fólksins, með samsvarandi ábyrgð á því að
almannaheilla sé gætt. Slíkt markmið er eitt af
lykilmarkmiðum í lýðræðisvæðingu. Það skilgreinir ekki í hörgul
allar þær leiðir sem til greina koma hverju sinni. Aðeins þau
almennu markmið sem fela í sér réttindi, skyldur, ábyrgð og
aukið áhrifavald fólks á eigið líf og afkomu. Hér skilja leiðir
milli okkar og frjálshyggjumanna sem telja að með aukinni
markaðsvæðingu og vali neytenda sé nægilega fyrir samfélaginu
séð. Svo tel ég ekki vera og vísa í klassískar umræður
jafnaðarmanna og frjálshyggjumanna um það efni.
Samræðustjórnmál, sáttastjórnmál
Það sem einkennir þessar leiðir er væntanlega áherslan á samræðu
í stað valdboðs. Samræðustjórnmál eru ein og sér hugtak sem ekki
skilst nema í samhengi við það sem hér um ræðir.
Samræðustjórnmál eiga sér vettvang í samningum við félagasamtök
um markmið og leiðir í almannaþjónustu, í viðskiptum hins
opinbera við einkarekstur, miklu víðar og í mjög vaxandi mæli út
um allt. Þau eiga sér það einkenni að stýrast af sáttarvilja, en
ekki átakahefð. 19. aldar stjórnmálin (með flokka- og
fulltrúalýðræði) voru nauðsynleg til að leysa stéttaágreining og
halda saman ríkiseiningu þrátt fyrir átök. Stjórnmál 21. aldar
taka mið af því auðsældarsamfélagi sem tekist hefur að byggja
upp og leita sáttaleiða í lýðræðisferli, þar sem jafnvel ferlið
sjálft hefur markmið. Markmiðið er þátttaka, aðkoma, gagnkvæm
ábyrgð og friður til frambúðar.
Þrátt fyrir að hugtakið ,,samræðustjórnmál” hafi náð að festa
sig í sessi er það ómótað. Hér í þessum kafla hef ég farið yfir
margvíslegar leiðir og hugmyndir sem saman gætu fallið undir
regnhlíf ,,samræðustjórnmála”. Við skulum tala hreint út: Við
erum meðvituð um þörfina, við eigum langt í land með að móta
hefðina. Hér er enn eitt stórverkefnið sem bíður jafnaðarmanna
á nýrri öld, við eigum enn eftir að setja kjöt á beinin.
Vald frá kjörnum fulltrúum?
Það róttækasta í þessari hugsun um lýðræðisvæðingu er væntanlega
krafan um að færa vald frá kjörnum fulltrúum. Þvert á móti gætu
margir hallast að því að fjölga bæri slíkum fulltrúum, auka
afskipti þeirra og kalla saman fleiri ráð um almenn málefni. Ég
tel það ekki líklegt til framfara nema e.t.v. á fáum sviðum.
Skilningur okkar á lýðræði ristir dýpra en hefðbundið er á
forsendum 19. aldar borgaralegs samfélags.
Hér er ekki bara óskin um ,,beinar kosningar“ um fleiri mál,
jafn sjálfsögð og hún getur verið. Kosningar um afmörkuð mál ná
aðeins til hluta þessa stóra sviðs sem hið opinbera vald hefur
afskipti af og fjallar aðeins um brot af athöfnum á
,,almenningi“ hins borgaralega samfélags. Aukið notendavald
eykur kröfur til hins opinbera um skilvirkni og árangur og
virkjar mun fleiri til stefnumótunar en bara fagstéttir
atvinnufólks og stjórnmálamanna. Efnahagsleg skilvirkni mun
aukast sé þess gætt að krafan um aukin réttindi sé studd
kröfunni um aukna ábyrgð.
Fyrir jafnaðarmenn er þetta hugmyndafræðilegt átak. Við teljum
okkur þekkja ákveðna grunnþætti samfélagsins sem varða
almannaheill. Því hafa jafnaðarmenn verið óhræddir við að
berjast fyrir pólitískri forsjá stofnana og stjórnmála á þeim
sviðum. Nútímasamfélag er miklu þversagnarkenndara en áður var:
Með markaðsvæðingu, einstaklingshyggju, firringu og
hugmyndafræðilegu ,,þyngdarleysi“ koma ný viðfangsefni
gjörólíkra kynslóða, en samtímis sjáum við meiri menntun, aukna
upplýsingu og fleiri réttmætar kröfur upplýsts almúga um
endurskoðun ríkjandi leiða. Því verða jafnaðarmenn að finna
nýjar leiðir sem virkja almenning til stuðnings við hugsjónir
okkar. Því þær eru gildar, þótt leiðirnar að þeim breytist.
Almenningur mun ekki styðja baráttu okkar fyrir því að verja og
þróa hugmyndina um almannaheill ef hún er ekki samtvinnuð
réttindum fólks til að skilgreina hana á eigin forsendum og taka
á henni ábyrgð. Þversögn lýðræðissinnaðra jafnaðarmanna í stórum
flokki er þessi: Til að verja gildi jafnaðarmennsku verðum við
að treysta fleirum en okkur fyrir þeim!
Við eigum ekki að segja fólki hvað það vill. Við eigum að gera
því kleift að ákveða það sjálft. Ekki á forsendum stéttar,
erfða, kynferðis, tengsla eða fjár, heldur á forsendum lýðræðis
og upplýsingar, ábyrgðar og verðleika. Þar sem allir hafa jöfn
tækifæri.
|
![]() |
Rafbókin fæst á aðeins 2990! |
Bókin sem talað er um, á mannamótum og fjölmiðlum:
Egill Helgason í Silfrinu tók ítarviðtal
Kiljan, Þorgeir og Kolbrún: Frábær leiðsögumaður! Frá 6. mínútu.
Sverrir Norland Rás 1: Allur þátturinn Upp á nýtt.
Gunnar Smári: Rauða borðið: 90 mínútur, mest um bókina í síðari hluta.
Þórunn Elísabet, Morgunvaktin: eftir eina klst og 18 mínutur á mælinum.
Gísli Marteinn: Þáttur með góðum gestum.
Rafbókarkaupin eru einföld á síðu Forlagsins og þú færð hana beint í tölvu eða á lesbretti samstundis!

![]() |
Breytum rétt frá 2005 |
Með Hruninu í október 2008 breyttist margt, og margar forsendur þess sem hér er sagt. En meginákallið stenst tímans tönn með afbrigðum vel. Krafa um lýðræðislegar umbætur andspænis auðræði. Margar af þeim hugmyndum sem þarna voru settar fram endurómuðu svo í Búsáhaldabyltingunni og í tillögum stjórnlagaráðs árið 2011.
SJH, 2012.

![]() |
Áttu penna? |

Pennar eru dýrir og skólakrakkar spyrja oft hvort maður megi missa penna. Þau vita líka að það kemur frekar við hjartað á ferðamanni að biðja um námsgögn en peninga eða sælgæti. Í mörgum skólum fá krakkarni ekki borð til að sitja við, þak yfir höfuðið, bók til að lesa né blað til að skrifa á. Og því síður penna. Hlutfall nemanda á hvern kennara er 120:1 í þessari sveit og stunum enn verra.

![]() |
Friðsæld í fiskimannaþorpi |
Laugardagsmorgunn, fólkið lifir lífinu lifandi eftir því sem manni sýnist á göngu meðfram ströndinni. Hér er enginn vegur, engin umferð, varla útvarp og alls ekki sjónvarp, ekki heyrist í farsíma en glaðvær hlátrasköll frá ströndinni benda til að fólkið sé sátt. Myndasýning frá malavískum fiskimannaþopum er hér.

![]() |
Verk í endurskoðun |
Árið 2005 birti ég þessa ritgerð sem eins konar brýningu til jafnaðarmanna. ,,Lýðræðisvæðing er hið sögulega hlutverk jafnaðarmanna" skrifaði ég, andspænis þeirri markaðsvæðingu sem við vorum vitni að í byrjun aldarinnar.
Með Hruninu í október 2008 breyttist margt, og margar forsendur þess sem hér er sagt. En meginákallið stenst tímans tönn með afbrigðum vel.
Þessi ritgerð er nú í endurskoðun.
SJH, 2010.

![]() |
Veftímarit - áskrift |
Veftímaritið kemur til áskrifenda gjaldfrjálst. Skráning hér.
Hér má skoða fyrri tölublöð:

![]() |
Heimilisofbeldi bannað |

Jafnvel þótt húsbóndinn sé latur og heimskur!

![]() |
Blair, við og ,,þau" |

Hvernig réttlætir Tony Blair stríðin í Afgahanistan og Írak? Í athygliverðri grein í Foreign Affairs kemur í ljós að leiðin sem hann kaus með Bush er einmitt ekki leiðin sem hann telur vænlegasta til framtíðar.
Hér er rýni á grein Blairs.
