Inngangur
Kafli 1
Kafli 2
Kafli 3
Kafli 4
Kafli 5
1. kafli: Við viljum grundvallarbreytingar
Við í Samfylkingunni getum verið stolt af því að vinna
síðustu 10 ára hefur skilað okkur í þá stöðu að geta í raun og
sann boðið okkur fram til þess verks að stjórna þeim umbótum sem
þörf er á. Og við eigum að geta fengið til þess umboð frá
þjóðinni. Draumurinn um hinn stóra flokk hefur ræst, við höfum
breytt okkur, nú breytum við samfélaginu. Til hefur orðið
flokkur sem hefur burði til að axla forystuhlutverk; þetta er
grundvallarmunur á þeirri stöðu sem var og er.
Fáir Íslendingar lifa og hrærast í stjórnmálaflokki. Fólki
finnst þeir á margan hátt fráhrindandi, þeir sem vilja láta til
sín taka í samfélaginu hafa miklu fleiri tækifæri til þess en
áður, og meira spennandi, en ganga í stjórnmálaflokk. Nýr
stjórnmálaflokkur eins og Samfylkingin á að horfa miklu víðar um
samráð og stefnumótun en hefðbundið er í pólitíkinni.
Almenningur skynjar flokka sem gíruga, einráða, gamaldags. Ég
vil örlátan og ráðþægan flokk sem viðurkennir takmörk sín – og
takmörk hefðbundinna stjórnmála. Hann talar minna, hlustar
meira.
Sjálfur var ég ekki orðinn 10 ára þegar ég man að ég var farinn
að fylgjast með stjórnmálum og hafa áhuga á þjóðmálum. Sem
unglingur var ég samfélagslega meðvitaður og duglegur í
félagslífi, forystumaður um eitt og annað og þátttakandi í
mörgu. Áhugi á samfélagsmálum efldist í háskólanámi, við
fjölmiðlastörf og fleira í þeim dúr. En aldrei hvarflaði að mér
að ganga í stjórnmálaflokk. Var samt alltaf, að því er mér
fannst sjálfum, kreddulítill húmanisti og jafnaðarmaður.
Ég var nær miðaldra þegar ég fékk mig loksins til að ganga í
flokk. Nokkrum árum áður hafði ég fyrst tekið þátt í
kosningabaráttu, sem baksveitar- og grasrótarmaður fyrir þá
hugsjón að fólk sem ætti í grundvallaratriðum sömu lífsgildi og
samleið um mikilvæg samfélagsmál ætti ekki að láta gamlar
girðingar flokka og hefða hefta sig frá því að starfa saman
fyrir kosningar. Þetta var Reykjavíkurlistinn. Loksins þegar
nógu margir sammæltust um að málstaðurinn væri forminu æðri varð
til form sem leiddi málstaðinn til öndvegis.
Sigur Reykjavíkurlistans 1994 gerði sundrungina á vinstri væng
stjórnmálanna á landsvísu þeim mun átakanlegri. Aðeins ári eftir
stórsigur samfylkingarafla í höfuðborginni voru boðnir fram til
Alþingis: Kvennalisti, Þjóðvaki, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag
(með öllum þeirra augljósu innanflokkafylkingum). Enda varð
árangurinn eftir því.
Eftir það varð ávinningurinn mikill. Þetta verðum við að muna
því í hinu daglega róti lítum við sjaldnast upp til að horfa á
stóru myndina. Til hefur orðið stjórnmálaflokkur fólks sem kom
úr ólíkum áttum en hefur greinilega fundið samræmt göngulag
fyrir hugsjón jöfnuðar, jafnréttis og félagshyggju.
Draumurinn hefur ræst. Draumurinn um hinn stóra breiða
jafnaðarmannaflokk sem er þess albúinn að veita forystu í stjórn
borgar, bæja og á landsvísu.
Þetta hefur gerst á aðeins áratug.
Árið 1990 mátti sjá: 60% fylgi Sjálfstæðisflokksins í
höfuðborginni, sundurleitt og klofið smáflokkakraðak á vinstri
kanti og miðju; einn lítill jafnaðarmannaflokkur var í
aðstoðarflugmannssæti í landsstjórn með Sjálfstæðisflokki sem
þar með hafði forræði í borg og ríki. En árið 2005? Þriðja
kjörtímabil meirihluta félagshyggjufólks og jafnaðarmanna í
Reykjavík stendur yfir (þrátt fyrir ríkisstjórnaskipti og
flokkabreytingar); til er stjórnmálaflokkur jafnaðarmanna sem í
tvennum kosningum hefur fengið hartnær þriðjung atkvæða á
landsvísu, hefur mest fylgi flokka í tveimur kjördæmum af sex og
stærsta þingflokk jafnaðarmanna frá upphafi, auk þess að vera í
forystu í mikilvægum sveitastjórnum. Samfylkingin mældist í
skoðanakönnunum allt árið 2004 sem annað helsta stjórnmálaafl
landsins og það eina sem getur boðið Sjálfstæðisflokknum
birginn, (og mælist jafn stór Sjálfstæðisflokknum á góðum dögum)
Það fólk sem áður var landlaust í pólitík eða hraktist úr einu
smávíginu í annað getur nú stolt borið höfuð hátt.
Þetta er gerbreyting. Hún var gerð með þrautseigju og vinnu,
ekki af tilviljun. Hún var gerð í krafti skilnings á sögulegri
nauðsyn. Sá þungi straumur sem skóp þá atburðarás sem við
þekkjum tel ég vera hið ósagða – það sem ekki er
nógsamlega haldið á lofti af okkur sjálfum, það sem við verðum
að minna okkur stöðugt á. Við ætluðum að breyta. Og það
gerðum við. En stóra breytingin er eftir og um hana er þessi
ritgerð.
Sá kraftur sem skapaði forsendur fyrir þau sóknarfæri sem nú
blasa við er miklu víðtækari en svo að honum séu gerð skil í
pólitískri orðræðu sem tekur mið af dagsins önn, kröfu
fréttatímanna og spjallþáttanna. Sá kraftur er viljinn til að
knýja á um grundvallarbreytingar, bæði hjá okkur sjálfum og í
samfélaginu í heild: Vilji jafnaðarmanna hvar sem í flokki þeir
stóðu og utan flokka til að endurskoða rækilega hugmyndir sínar,
skoðanir, gildi og stefnu, og taka upp undir nýjum formerkjum.
Stofnun nýs flokks var ein forsenda fyrir því að þetta gæti
gerst. En ekki hið endanlega markmið. Þarna kann mig að greina á
við suma félaga sem telja næsta stóra markmið jafnaðarmanna að
komast í ríkisstjórn. Það tel ég ekki vera. Næsta stóra markmið
jafnaðarmanna er að kalla sjálfa sig til ábyrgðar um leið og
gerð er krafa um ríkisstjórnarþátttöku. Og það felur í sér að
flokkur jafnaðarmanna verður að gerast ábyrgur á raunsannari
hátt en flokkar hafa almennt talið sig þurfa. Ábyrgur fyrir
siðvæðingu, samfélagsgildum, auðsköpun – og lýðræði. Og opinn
fyrir eigin ágöllum, sem meðal annars eru hið takmarkaða umboð
sem gamaldags stjórnmálaflokkar hafa. Hverfast ekki um sjálfan
sig heldur opna út, þvert á hefðbundnar línur flokkastjórnmála
og skilgreina sig ekki eftir forsendum ,,þingsins” heldur
þjóðarinnar, sem er tvennt ólíkt.
Nei, það er ekkert sérstakt markmið eitt og sér að komast í
ríkisstjórn, þótt það sé mikilvægt. En verði spurt eftir 30 ár:
,,Hvað gerðist í raun frá 1994 til 2005 og tíu næstu ár
þar á eftir?“ Þá myndi ég vilja að svarið yrði: ,,Til varð
hreyfing fólks og flokkur sem endurskoðaði og útfærði hugsjónir
jafnaðarmennsku á 21. öldinni, breytti viðteknum starfsháttum og
venjum stjórnmála, vann þvert á hefðbundnar skotgrafir og línur
úreltra flokka, náði að samhæfa og samþætta ólík öfl, félög,
einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir til að sameinast um skýrt
skilgreind lykilmarkmið.“ Síðan myndi ég vilja sjá bætt við:
,,…og hefur nú í 30 ár verið einn helsti hvati æskilegrar
samfélagsþróunar og áhrifavaldur í opinberu lífi“.
Eru þetta ekki merkilegri ummæli en: ,,Tók þátt í samstjórn
tveggja flokka árin 2007–2011 og aftur 2015–19”?
Skýr lykilmarkmið
Aftur til jarðar. Sé horft til hins langa valdaferils
ríkisstjórna Davíðs Oddssonar má sjá eitt skilgreint
lykilmarkmið: Markaðsvæðing. Með Þjóðarsáttinni kringum 1990
tókst að binda enda á langa efnahagsóstjórn. Þetta samkomulag,
þessi aðferð, sýndi hvernig hægt er að vinna. Vinnubrögðin urðu
samt ekki til eftirbreytni í ríkisstjórnum Sjálfstæðisflokksins
þar á eftir. En niðurstaðan, Þjóðarsáttin, var forsenda þess að
skilgreint lykilmarkmið Sjálfstæðismanna náði fram að ganga.
Þetta var markaðsvæðing Íslands. Sé litið um öxl og staðan metin
kalt þá var þetta pólitísk og söguleg nauðsyn. Vinstri menn
höfðu ekki afl til að innleiða margvíslegar mikilvægar
umbreytingar á hagkerfinu undir eigin formerkjum, þótt
jafnaðarmenn hafi lagt margt mikilsvert til þeirrar þróunar sem
leiddi til aukins frjálslyndis í markaðsmálum. Margt af því sem
hægrimenn innleiddu er gagnrýnisvert og hefur nú leitt okkur
aftur á þann pólitíska byrjunarreitt sem eitt sinn hét:
,,Hverjir eiga Ísland?“ En þessi efnahagslega breyting var
nauðsynleg, þótt sníða verði af vankanta. Við höfnum því samt
að nakið markaðsvald leysi samfélagshugsun af hólmi og við
bendum á að hið norræna velferðarkerfi hefur staðist tvö
mikilvæg próf: Skapað fyrirmyndarsamfélög þar sem manngildi er
í öndvegi, og samtímis búið til ríkidæmi sem öðrum þjóðum er
öfundarefni. Markaðsbúskapur og velferð eiga saman.
Næsta stóra skrefið
Á sama hátt og hægri menn markaðsvæddu Ísland er stærsta mál
jafnaðarmanna nú á dögum að taka markvisst og af sama krafti til
við að lýðræðisvæða Ísland. Markaðsvæðingunni er lokið. Nú tekur
lýðræðisvæðingin við. Hún er hið sögulega hlutverk
jafnaðarmanna. Það hlutverk getum við rækt vegna þess að vel
hefur tekist til með endurskipulagningu á hinum pólitíska væng.
Ábyrgð okkar er mikil. En við getum verið stolt af því að vinna
síðustu 10 ára eða svo hefur gert okkur kleift að bjóða okkur
fram til þessa verkefnis og eigum að geta fengið til þess umboð
frá þjóðinni. Við höfum breytt okkur, nú breytum við
samfélaginu.
|
![]() |
Rafbókin fæst á aðeins 2990! |
Bókin sem talað er um, á mannamótum og fjölmiðlum:
Egill Helgason í Silfrinu tók ítarviðtal
Kiljan, Þorgeir og Kolbrún: Frábær leiðsögumaður! Frá 6. mínútu.
Sverrir Norland Rás 1: Allur þátturinn Upp á nýtt.
Gunnar Smári: Rauða borðið: 90 mínútur, mest um bókina í síðari hluta.
Þórunn Elísabet, Morgunvaktin: eftir eina klst og 18 mínutur á mælinum.
Gísli Marteinn: Þáttur með góðum gestum.
Rafbókarkaupin eru einföld á síðu Forlagsins og þú færð hana beint í tölvu eða á lesbretti samstundis!

![]() |
Breytum rétt frá 2005 |
Með Hruninu í október 2008 breyttist margt, og margar forsendur þess sem hér er sagt. En meginákallið stenst tímans tönn með afbrigðum vel. Krafa um lýðræðislegar umbætur andspænis auðræði. Margar af þeim hugmyndum sem þarna voru settar fram endurómuðu svo í Búsáhaldabyltingunni og í tillögum stjórnlagaráðs árið 2011.
SJH, 2012.

![]() |
Áttu penna? |

Pennar eru dýrir og skólakrakkar spyrja oft hvort maður megi missa penna. Þau vita líka að það kemur frekar við hjartað á ferðamanni að biðja um námsgögn en peninga eða sælgæti. Í mörgum skólum fá krakkarni ekki borð til að sitja við, þak yfir höfuðið, bók til að lesa né blað til að skrifa á. Og því síður penna. Hlutfall nemanda á hvern kennara er 120:1 í þessari sveit og stunum enn verra.

![]() |
Friðsæld í fiskimannaþorpi |
Laugardagsmorgunn, fólkið lifir lífinu lifandi eftir því sem manni sýnist á göngu meðfram ströndinni. Hér er enginn vegur, engin umferð, varla útvarp og alls ekki sjónvarp, ekki heyrist í farsíma en glaðvær hlátrasköll frá ströndinni benda til að fólkið sé sátt. Myndasýning frá malavískum fiskimannaþopum er hér.

![]() |
Verk í endurskoðun |
Árið 2005 birti ég þessa ritgerð sem eins konar brýningu til jafnaðarmanna. ,,Lýðræðisvæðing er hið sögulega hlutverk jafnaðarmanna" skrifaði ég, andspænis þeirri markaðsvæðingu sem við vorum vitni að í byrjun aldarinnar.
Með Hruninu í október 2008 breyttist margt, og margar forsendur þess sem hér er sagt. En meginákallið stenst tímans tönn með afbrigðum vel.
Þessi ritgerð er nú í endurskoðun.
SJH, 2010.

![]() |
Veftímarit - áskrift |
Veftímaritið kemur til áskrifenda gjaldfrjálst. Skráning hér.
Hér má skoða fyrri tölublöð:

![]() |
Heimilisofbeldi bannað |

Jafnvel þótt húsbóndinn sé latur og heimskur!

![]() |
Blair, við og ,,þau" |

Hvernig réttlætir Tony Blair stríðin í Afgahanistan og Írak? Í athygliverðri grein í Foreign Affairs kemur í ljós að leiðin sem hann kaus með Bush er einmitt ekki leiðin sem hann telur vænlegasta til framtíðar.
Hér er rýni á grein Blairs.
