Dagbók hundseiganda

Kúka pissa snuðra naga. Að frátöldum svefni hefur tímafrekasta iðja mín síðustu viku verið að standa yfir hundi sem vill ekki kúka á réttum stað. Freyja kom fyrir viku.

Átta vikna Rhodesian Ridgeback tík sem er ansi efnileg. Þetta kyn er það eina sem ræktað hefur verið sérstaklega hér í Afríku, og þá einkum til að elta uppi ljón til að veiða. Hér á hún að gegna sama hlutverki og Sámur hjá Gunnari á Hlíðarenda. Hann var talinn svo öflugur að væri sem Gunnar færi við annan mann með hundinn í för, og almælt að Gunnar yrði ekki með vopnum sóttur meðan Sáms nyti við. Það eru sem sagt miklar vonir bundnar við Freyju. Hún á að gæta húss og hjúa gegn innbrotsþjófum og illþýði. En hún er nú varla komin með burð í slíkt strax.

Freyja hefur forstofuna fyrir sig. Meinaður aðgangur að húsinu en hefur stóran pappakassa sem skjól inni í rúmgóðri forstofunni þar sem hún kann vel að meta að kúra á teppi og naga bein. Hún skældi herfilega fyrstu nóttina, skilin frá móður og systkinum í Mósambik; heimilið var hérna rétt handan við landamærin og frúin sem kom henni til okkar greinilega frekar slök gagnvart því að setja hundum sérstakar reglur. Freyja lá fullkomlega afslöppuð í kjöltu mér þegar ekið var heim og tók gleði sína í garðinum þegar þangað var komið; seinna tók hún hraustlega til matar síns. Fékk að kynnast hænunum og svo í háttinn. Hljóðin voru átakanleg þegar kyrrð átti að leggjast yfir húsið. Skerandi vein. Ekkasog. Ýlfur og nag. Handbókin segir að ekki megi verðlauna slíka háttsemi með heimsókn, klappi eða atlæti. Við sátum með hvíta hnúa á stólbríkinni og héldum fast meðan lætin gegngu yfir. Næstu nótt það sama. En svo ekki meir. Freyja lærði að þegar ljósin eru slökkt á hún bara að skríða í kassann og hafa góðar draumfarir. Hún skeit og meig út um allt fyrstu þrjár næturnar, en svo virtist hún hafa lært að halda í sér yfir nóttina. Það stóð ekki lengi, en nú velur hún alltaf sama puntinn fyrir góðgætið. En ekki vill hún gera sín ágætu stykki þar sem valinn var staður í garðinum. Eitthvað fór öfugt í hana í þeim efnum. Þeir segja í þjálfunarfræðunum að maður þurfi ,,bara” að vera nógu þolinmóður og fara ,,nógu oft” og standa ,,vel og lengi”. Jæja. Fyrsta vikan er liðin og ekki hefur margt áunnist. En hún er búin að læra að hún má ekki inn fyrir þröskulda, þótt hún geri það gegn betri vitund þegar lítið ber á. Það stendur til bóta. Held ég. Við fórum í bíltúr áðan og hún var stillt.

Ég er sem sagt kominn með hund. Í æsku átti ég enga ósk heitari en hvolp. Og í sveitinni var gaman að hafa þá Orra og Mosa með í för. En Freyja er allt annað dæmi. Nú ber ég ábyrgð á því að þessi efnilega tík vaxi í Sámshlutverkið sem henni er ætlað. Henni finnst frekar fúlt að ganga með mér við ól, en hlýðir vel þegar ég segi henni að setjast og horfa á þegar hænurnar koma út úr kofanum á morgnana. Ég hef tvisvar staðið hana að því að setja sig í Ljónshundastellingar og ætla að elta hanana á spretti en tekist að stoppa það með valdi. Vona að hún skilji. Kisi er hins vegar alveg búinn að setja henni loppuna fyrir dyrnar. Gengur valdsmannslega framhjá henni með rófuna upp í loftið og Freyja bara situr hjá og veltir vöngum. Friður?

Næsta vika verður spennandi. Handbókin segir: Nú verður þú að átta þig á því að næstu 12 árin er það fyrsta sem þú gerir á morgnana og það síðasta sem þú gerir á kvöldin er að láta hund kúka.

Bara að það verði nú á réttum stað.

Sjá.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is