Sumarsagan r

I vor óskaði hið virta fræðirit Landnámshænan eftir því að ég segði frá hænsnabúskap mínum í Malaví.  Greinarhöfundur varð svo upp með sér af því að vera pistlahöfundur fyrir Landnámshænuna að hann snyrti ekki skegg sitt í viku og fór í köflótta sveitamannaskyrtu til að virka sannfærandi á lesendur.

Hér er sumarsagan árið 2008:

Fyrsta hænan og sú sem markar upphaf þess að stórir daumar mínir rætast um að gerast loks hænsnabóndi verður auðvitað að fá nafn sem hæfir. Nafnið stendur undir wagnerískri stóróperu í fullri lengd; ég nefndi hana Frau Brúnhild.

Gæti verið söguhetja í Niflungahringnum. Frau Brúnhild kom til með þeim hætti að ég fékk hana afhenta í kokteilboði. Svona gerast hlutirnir í Afríku. Konsúllinn í höfuðborg Malaví hélt boð til að fagna nýjum umdæmisstjóra Þróunarsamvinnustofnunnar og kveðja þann gamla, Skafta Jónsson. Skafti fékk álnavöru með merkjum landsins, ég fékk stálpaða hænu. Í Malaví er gestum ávalt fagnað með því að slátra hænu og nú buðust húsráðendur til að taka af henni hausinn svo ég gæti soðið mér súpu og fundist ég velkominn í landinu. Ég hélt nú ekki. Tjáði þeim að ég væri gamall hænsnahirðir frá því í sveit á Máná á Tjörnesi og hefði sagt sjálfum mér og öllum sem vildu heyra þegar ég flutti í snoturt smáhýsi í Lilongwe að garðurinn þar byði upp á mikla hænsnarækt. Og nú væri sú fyrsta komin.

Ég ætlaði mér stóra hluti. Þeim kom nokkuð á óvart að jakkafataklæddur kokteildrekkandi fulltrúi sendiráðs skyldi taka við hænu eins og ekkert væri og auk þess sveifla henni til áherlsuauka í þakkarræðu, en Brúnhild fór í böndum í skottið á bílunum og heim. Fyrstu dagarnir liðu í stórum pappakassa í forstofunni, en ásamt húskörlum mínum var haldið til aðfanga.

Ég held húskarla eins og Njáll á Berþórshvoli og Gunnar á Hlíðarenda, en helst mun betur á mínum en þeir. Patrekur og Godfrey lögðu fram staðbundna þekkingu á vöruvali og því hvernig bæri að undirbúa hænsnarækt í heimahúsi. Keyptur var krossviður, vírnet, listar og hjarir á lúgur, kornskammtari og vatnsþró við hænsnahæfi. Hér í bæ er hænsnarækt ekki sérviska heldur nauðsyn. Allt til reiðu, og að lokum fórum við í hænsnamiðlun og pöntuðum félagsskap fyrir Frau Brúnhild.

Við hlið mér í götunni býr háembættismaður sem rekur í garði sínum mikið hænsnabú og má glöggt heyra hve knáir hanar eru þar á bæ skömmu fyrir sólarupprás hvern dag. Handan götunnar býr norskur strákur sem sagður er all nokkur glaumgosi en hann er með fjölda hænsna, auk þess perluhænur af villimörkinni, kalkúna, geit og hunda og ketti. Frau Brúnhild er því með líflega nágranna. Húskarlar mínir plægðu upp matjurtagarð og sáðu í, nú angar þar allt af kryddi og salati og tómatplöntur teygja sig til himins; Frau Brúnhild vappar um þetta allt og tínir upp í sig korn sem á vegi verða. Svo heppilega vildi til að í skoti við útihús mátti stúka af hæsnakofa með neti og krossviði, við fengum hefilspæni á stéttina og nú verpir hún þessum fínu eggjum í poka sem lagður var til sem hreiður.

Og það sem meira er. Í kró skondra nú um átta litlir ráðvilltir kjúklingar, nokkurra vikna. Þessi hópur er eins og tæpur borgarstjórnarmeirihluti, tístir bara ámátlega og kroppar smáræði, en ég hef þegar fundið á þau þjóðleg og góð íslensk nöfn sem enginn fær verðlaun fyrir að geta uppá hver eru. Búgarðurinn tekur því á sig mynd.

Frau Brúnhild hefur fitnað svo mikið síðustu vikur að ég fæ vatn í munninn þegar hún kemur að eldhúsdyrunum á morgnana til að spjalla meðan ég hita kaffi, og hún vill alltaf vita hvað ég hef í morgunmat – eftir að ég gaf henni fitubita af skinku um daginn. Góði dátinn Sveik hefði svo gert úr henni flotta súpu. Hún er hins vegar ósnertanleg sem formóðir mikillar hænsnaræktar á garði mínum. Við gerðum áægtan samning með eggin: Hún verpir en ég sýð, ég fæ hvítuna en hún fær rauðu og skurn, enda kólesteróllögreglan hennar megin í því efni.

Á sunnudögum fæ ég spælt egg með rauðu ofan á ristað brauð. Þetta eru frábær egg, þau bestu sem ég hef fengið lengi, en ég skynja að henni finnist fúlt að fá ekki fitu af skinku í uppbót fyrir rauðuna á sunnudögum. En í heildina erum við sátt. Svo er bara að sjá hvernig þeir litlu spjara sig.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is