I vor óskaði hið virta fræðirit Landnámshænan eftir því að ég segði frá hænsnabúskap mínum í Malaví. Greinarhöfundur varð svo upp með sér af því að vera pistlahöfundur fyrir Landnámshænuna að hann snyrti ekki skegg sitt í viku og fór í köflótta sveitamannaskyrtu til að virka sannfærandi á lesendur. Hér er sumarsagan árið 2008: Fyrsta hænan og sú sem markar upphaf þess að stórir daumar mínir rætast um að gerast loks hænsnabóndi verður auðvitað að fá nafn sem hæfir. Nafnið stendur undir wagnerískri stóróperu í fullri lengd; ég nefndi hana Frau Brúnhild. Gæti verið söguhetja í Niflungahringnum. Frau Brúnhild kom til með þeim hætti að ég fékk hana afhenta í kokteilboði. Svona gerast hlutirnir í Afríku. Konsúllinn í höfuðborg Malaví hélt boð til að fagna nýjum umdæmisstjóra Þróunarsamvinnustofnunnar og kveðja þann gamla, Skafta Jónsson. Skafti fékk álnavöru með merkjum landsins, ég fékk stálpaða hænu. Í Malaví er gestum ávalt fagnað með því að slátra hænu og nú buðust húsráðendur til að taka af henni hausinn svo ég gæti soðið mér súpu og fundist ég velkominn í landinu. Ég hélt nú ekki. Tjáði þeim að ég væri gamall hænsnahirðir frá því í sveit á Máná á Tjörnesi og hefði sagt sjálfum mér og öllum sem vildu heyra þegar ég flutti í snoturt smáhýsi í Lilongwe að garðurinn þar byði upp á mikla hænsnarækt. Og nú væri sú fyrsta komin. Ég ætlaði mér stóra hluti. Þeim kom nokkuð á óvart að jakkafataklæddur kokteildrekkandi fulltrúi sendiráðs skyldi taka við hænu eins og ekkert væri og auk þess sveifla henni til áherlsuauka í þakkarræðu, en Brúnhild fór í böndum í skottið á bílunum og heim. Fyrstu dagarnir liðu í stórum pappakassa í forstofunni, en ásamt húskörlum mínum var haldið til aðfanga. Ég held húskarla eins og Njáll á Berþórshvoli og Gunnar á Hlíðarenda, en helst mun betur á mínum en þeir. Patrekur og Godfrey lögðu fram staðbundna þekkingu á vöruvali og því hvernig bæri að undirbúa hænsnarækt í heimahúsi. Keyptur var krossviður, vírnet, listar og hjarir á lúgur, kornskammtari og vatnsþró við hænsnahæfi. Hér í bæ er hænsnarækt ekki sérviska heldur nauðsyn. Allt til reiðu, og að lokum fórum við í hænsnamiðlun og pöntuðum félagsskap fyrir Frau Brúnhild. Við hlið mér í götunni býr háembættismaður sem rekur í garði sínum mikið hænsnabú og má glöggt heyra hve knáir hanar eru þar á bæ skömmu fyrir sólarupprás hvern dag. Handan götunnar býr norskur strákur sem sagður er all nokkur glaumgosi en hann er með fjölda hænsna, auk þess perluhænur af villimörkinni, kalkúna, geit og hunda og ketti. Frau Brúnhild er því með líflega nágranna. Húskarlar mínir plægðu upp matjurtagarð og sáðu í, nú angar þar allt af kryddi og salati og tómatplöntur teygja sig til himins; Frau Brúnhild vappar um þetta allt og tínir upp í sig korn sem á vegi verða. Svo heppilega vildi til að í skoti við útihús mátti stúka af hæsnakofa með neti og krossviði, við fengum hefilspæni á stéttina og nú verpir hún þessum fínu eggjum í poka sem lagður var til sem hreiður. Og það sem meira er. Í kró skondra nú um átta litlir ráðvilltir kjúklingar, nokkurra vikna. Þessi hópur er eins og tæpur borgarstjórnarmeirihluti, tístir bara ámátlega og kroppar smáræði, en ég hef þegar fundið á þau þjóðleg og góð íslensk nöfn sem enginn fær verðlaun fyrir að geta uppá hver eru. Búgarðurinn tekur því á sig mynd. Frau Brúnhild hefur fitnað svo mikið síðustu vikur að ég fæ vatn í munninn þegar hún kemur að eldhúsdyrunum á morgnana til að spjalla meðan ég hita kaffi, og hún vill alltaf vita hvað ég hef í morgunmat – eftir að ég gaf henni fitubita af skinku um daginn. Góði dátinn Sveik hefði svo gert úr henni flotta súpu. Hún er hins vegar ósnertanleg sem formóðir mikillar hænsnaræktar á garði mínum. Við gerðum áægtan samning með eggin: Hún verpir en ég sýð, ég fæ hvítuna en hún fær rauðu og skurn, enda kólesteróllögreglan hennar megin í því efni. Á sunnudögum fæ ég spælt egg með rauðu ofan á ristað brauð. Þetta eru frábær egg, þau bestu sem ég hef fengið lengi, en ég skynja að henni finnist fúlt að fá ekki fitu af skinku í uppbót fyrir rauðuna á sunnudögum. En í heildina erum við sátt. Svo er bara að sjá hvernig þeir litlu spjara sig. |
Rafbókin fæst á aðeins 2990! |
Bókin sem talað er um, á mannamótum og fjölmiðlum:
Egill Helgason í Silfrinu tók ítarviðtal
Kiljan, Þorgeir og Kolbrún: Frábær leiðsögumaður! Frá 6. mínútu.
Sverrir Norland Rás 1: Allur þátturinn Upp á nýtt.
Gunnar Smári: Rauða borðið: 90 mínútur, mest um bókina í síðari hluta.
Þórunn Elísabet, Morgunvaktin: eftir eina klst og 18 mínutur á mælinum.
Gísli Marteinn: Þáttur með góðum gestum.
Rafbókarkaupin eru einföld á síðu Forlagsins og þú færð hana beint í tölvu eða á lesbretti samstundis!
Innsetning |
Melónur og grasker, sett upp af listfengi við þjóðveginn til að örva sölu. Það gerist ekki betra í listaháskólum ef farið er út í form og liti. Hér má glöggt sjá að enginn ávöxtur er þar sem hann er fyrir tilviljun.
Umferðarskilti í Zimbabawe, handverk |
Þau hafa sterkan persónulegan svip, ekki þessi stöðluðu skilti sem eru eins um allan heim, heldur dregin skýrum dráttum hagleiksfólks sem túlkar atriði úr umferðarmenningunni með penslum sínum. Ekkert skilti alveg eins og það næsta. Hér er það gangbraut, en skoðið hér hvernig varað er við ,,máluðum hundum".
Götufólk í listasmiðju |
Húsnæðislaust fólk í Höfðaborg notar afríska skreytihefð til að búa til lisræna muni til sölu. Verkstæðið og galleríið eru hér, góða skemmtun!
Ljóð |
Kennslugögn í skólanum eru af skornum skammti svo kennarar búa til spjöld til að lesa af og ræða um. Þessi spjaldaröð í einum skóla er eins og ljóð: Fegurð, börn, lyf.
Gule Wamgulu |
Í flestum þorpum er til leyniregla grímu- og skrautbúinna karla sem fara á stjá stöku sinnum og láta eins og óbilgjarnir jólasveinar. Þetta er ,,galdraregla" sem oft er ónæði af því þeir heimta mat og viðurgjörning og hrekkja fólk. Oftast eru þeir þó bara hafðir til gamans á hátíðum og þá dansa þeir og skemmta og þiggja smápening fyrir. Þetta eru leifar frá gamalli tíð og enn stafar af þessum hópum nokkur ógn. Enda galdratrú almenn og Gule Wamgulu reglur þykjast ráða yfir öndum sem þeir tengjast. Búningarnir eiga að tákna andana. Enginn á að ,,vita" hverjir eru í reglunni en ætli það sé ekki á almennu vitorði? Hér eru þeir á skemmtistund og við eigum lifandi mynd af dansi þeirra þar sem fjörið var mikið.
Er það svona? |
,,Er það svona sem lífsglatt fólk lítur út?" spurði kona á Fésbók eftir að hafa skoðað myndir á afríkusíðunni. Já, það er svona. Og er þá ekki gert lítið úr heilsubresti, barna- og mæðradauða, vannæringu, menntunarskorti og almennri fátækt. En þetta viðmót er einkennandi fyrir malava.
Tunglskin |
Þögn, logn, myrkur og tungið enn ofar. Vatnið lýgur engu um það sem hvíslað er.
Heimilisvinur |
Græna engisprettan var forvitinn um heimilishagi hjá okkur og skreið um eldhúsgólf og bekki.
Skrautfugl |
Efni: Járn og bein. Væntanlega gamall bílskrjóður genginn í endurnýjun lífdaga og efsti hlutinn af bavíana, hvítþveginn á árbakkanum. Þessi innsetning er frá Botswana.
Annríki |
Regntíminn er blómatíminn og lífríkið allt tekur kipp, nærast og frjóvgast, út á það gengur þetta.
Fríður flokkur |
Felumynd: Hver er knapinn?
Monkeyman!
Töff hárgreiðsla |
Þessi mósambíska stúlka er sannarlega hárprúð í besta skilningi orðsins.
Rólegt |
Það er rólegt í grímudeildinni hjá þessum. Ef einhver hefur áhuga fæst þessi mannhæðarháa gríma útskorin úr kjörviði aðeins ca 50 þúsund krónur. ,,Umsemjanlegt" segir kappinn.
Sveppir sveppir |
Regntíminn færir okkur sveppauppskeru. Sveitamenn fara um skóga og merkur og tína þetta til sölu á mörkuðum. Þessir hefðbundu sem við þekkjum eru á stærð við barnshöfuð, en hinir sem eru okkur framandi eru í alls konar lita- og lögunarafbrigðum. Ljúffengir? Já, stundum, sérstaklega ef manni tekst að skola úr þeim sandinn!
Fyrirmynd? |
Stórmyndin Avatar skartar fagurlega hannaðri náttúru með tölvugrafík. En mann grundar stundum að fyrirmyndirnar hafi verið sóttar til sköpunarverks Móður náttúru sjálfrar. Muniði eftir svífandi blómunum? Þau eru hér.
Slátrarinn á horninu |
Haus og húð af nauti á jörðinni, skrokkur af geit uppi í tré. ,,Mældu rétt strákur" vog á samanreknu fjalaborði. Slátrari í lagi. Heilbrigðiseftirlitið er fjarri, en flugurnar ekki.
Myndlist |
Myndilist í Malaví birtist einkum í útskurði á harðviði en alltaf eru nokkrir sem spreyta sig á pensli og lérefti með misjöfnum árangri. Listamaðurinn sem málaði myndina hér að ofan hefur hlotið talsverða viðurkenningu enda með persónuleg stíl og leikni með liti og form auðsæ. (Sjá stærri mynd hér) Engir sýningasalir að heitið getið eru í landinu, eitt gallerí í höfuðborginni sem vit er í, eða tvö, og minni spámenn róa því á önnur mið og halda sölusýningar á götum úti. Þeirra list er ákaflega stöðluð að smekk ferðamanna sem vilja fá ,,afrísk" mótív!
Blómahaf |
Garðarnir í Lilongwe koma vel undan regntímanum, nú stendur allt í blóma og uppskerutíminn hafin. Höfgur ilmur rósa og annarra blóma liggur yfir heimagörðum og litadýrðin er stórkostleg. Rósirnar spretta eins og fíflar í túni heima ef vel er um þær hugsað. Sjá fleiri blóm neðar á forsíðu, skrunið niður.
Páskagestur |
Hann flaug á rúðu og vankaðist um hríð. Um stund leit út fyrir að komið væri frábært efni í fluguhnýtingar en loks stóð hann í lappirnar og tók svo flugið. Það verður því ekki úr því að maður hnýti nýtt afbrigði af Blue Charm í bili.
Perluhænur |
Perluvinir virðast þessar perluhænur. Þær sjást víða í vegköntum i sunnanverðri Afríku, einkar fagrar að sjá og ekki síðri undir tönn. Ef menn geta ímyndað sér kjúkling með villibragði og örn dekkra kjöti en af alifuglunum þá komast menn nærri um bragðið af perluhænu.
Lúdó að hætti heimamanna |
Borðspil heimamanna í Malaví er skrautlegt og virðist veita krökkum sem fullorðnum hina bestu skemmtun. Í Malaví er nokkuð um skrautlega steina og hér hefur fjöl verið holuð og steinvölur fara hratt á milli hólfa þegar atgangur er mestur. Hvort einhver er ,,rekinn heim" er ekki ljóst.
Sólarlag |
Ekki ,,Manhattan skyline" heldur ekta afríksk sveit við sólsetur. Hin fögru og reisulegu tré úti á mörkinni skapa kostulegar kynjamyndir eins og tröll sem teyja sig til himins. Skógareyðing er gríðarlegt vandamál í Afríku vegna þess að eldiviður sem fólk safnar er oft eini orkugjafinn sem það hefur efni á. Nýlega setti ríkisstjórn Malaví útflutningsbann á harðviðarvörur, úrskorna muni fyrir ferðamenn. Þetta er ein af örfáum útflutningsvörum landsins og skapar atvinnu fyrir marga í landi þar sem ríkir 30-40% atvinnuleysi. En náttúruauðlindir ber að vernda fyrir komandi kynslóðir segir ríkisstjórn þessa eins fátækasta lands í heimi. Þess vegna fá menn ekki lengur að sækja í harðviðarskógana. Og það jafnvel þótt að kosningar séu að ári!
Uppskerutími |
Rigningar voru góðar um sunnanverða Afríku í ár og tómatar að sönnu bústnir. Þetta eru ekta tómatar með bragði af jörð, sól og vatni. Ekki plastbakkatómatar eins og fást í kjörbúðum Vesturlanda. Heldur hinir einu sönnu.
Töffari |
Maður veit ekki alveg hvernig þeir fara að því lengst úti í sveit að nálgast svona skartbúnað, en töffari er og verður töffari og þeir finna alltaf leið þessir gaurar sem eru ofursvalir.
Gjöf sem gleður |
Það er haft á orði þegar gesti ber að garði í Malaví að flótti bresti á kjúklinga og hænur þar á bæ. Þau vita að einn úr hópnum mun hverfa á dularfullan hátt. Gestakoma er tilefni til að setjast niður, ræða málin og elda hænu og fara sér að engu óðslega. Vel gild hæna er góð vinagjöf og það fékk ég að reyna í hófi sem haldið var mér til heiðurs við komuna til Malaví. Grill og drykkir, ræður og skemmtiatriði, og loks hápunkturinn: Hæna að gjöf. Mótshaldarar buðust til að slátra henni á staðnum en það vildi ég ekki, reisti kofa í garðinum og keypti korn, nú er Brúnhild hæstánægð og verpir daglega dýrlegum eggjum. Búinn að panta kjúklilnga henni til samlætis svo þetta verður laglegur hópur.
Heimilisvinur |
Það er allt morandi í villdýrum úti um allt, en þessi er einkar hlýlegur þegar hann kemur í heimsókn.
Ef ekki fæst lúða |
Þegar maður fær ekki íselenska stórlúðu á grillið er túnfiskur besta val. Uppskrift að fínum grillrétt er á síðunni um mat og list.
Draugakastali? |
Eins og draugakastali í eyðimörkinni. En er 5* hótel fyrir þá sem koma vopnaðir fimmtíuþúsundkalli fyrir eina nótt með kvöldverði fyrir 2.
Fögur sandalda |
Sandöldurnar í suðurhluta Namibíueyðimerkurinnar eru heimsfrægar. Eftirlæti ljósmyndara og draumaland náttúruunnenda. Sandurinn kemur langan veg. Fyrst frá Kalahari eyðimörkinni í Suður Afríku með Orange ánni sem rennur til sjávar á landamærum ríkjanna. Sandurinn berst til hafs og skolast með köldum straumum norður með strönd Namibíu. Þarna hreinsast hann af leir og drullu og er borin að landi á ný. Öldurnar bera sandinn að landi og staðvindar úr suð-vestri feykja sandinum upp á ströndina. Þar hefst ferð sem tekur milljónir ára. Vindar færa sandinn inn í landið þar sem hann hleðst upp í öldur sem geta orðið yfir 300 metra háar. Smátt og smátt sest eins konar mýrarrauði á sandkornin sem nú eru orðnir ævagamlir gestir í mörkinni og þess vegna verða fornar sandöldur rauðar.
Góða skemmtun á þessum stað! |
Namibíumenn fá útrás fyrir sköpunargleðina í nafngiftum fyrirtækja og staða. Hér gefst manni tækifæri til að svala þorstanum á Taliban Entertainment Bar, en þeir sem drekka yfir sig geta fengið útfararþjónustu hjá ,,Wheels to heaven funeral service". En fyrst koma menn við á ,,Happy Snoopy take away" til að fá sér snarl, nú eða ,,This is the place" - hvað svo sem nú er í boði þar? Tölvufyrirtæki auglýsir prentara svofellt: ,,Happy news printers" sem auðvitað eru betri en aðrir.