Í fjarveru lúðu af Íslandsmiðum

Túnfiskur með ananas

Já, ég viðurkenni það, það er ekki margt sem ég sakna að heiman þó ég búi í Afríku. Ég sakna góðra vina, náttúru, og lúðu.
Guð var í góðu stuði þegar hann skóp lúðuna, það hef ég alltaf sagt.
Lúða suðurhafanna er túnfiskur. Þessir ólíku fiska eiga það sameiginlegt að brúa bílið á milli fisks og kjöts með óaðfinnanlegum hætti. Þykk stórlúðusteik á grillið er margfalt betri en T-bein steik af nauti. Og það er vandfuninn sá vöðvi af nauti sem stendur framar lund af túnfiski.

Hér í Namibíu kom ég mér í sambönd. Ég fæ sms-skeyti hvenær sem nýr túnfiskur kemur í bæinn, því lúða er víst sjaldséð.

Þá er það fyrsta uppskrift.



Maður steikir ekki túnfisk lengi. Hann er skorinn í hálfs þumlungs sneiðar. Aðeins þynnri en stærsta stórlúða í fiskbúðum heima.


Lundin er best.

Síðan er hann grillaður örsnöggt á hvorri hlið, á háum hita.
Allt er þetta afstætt, fer eftir fiski og hita hve lengi, en á háum hita myndi ég ekki grilla hann lengur en 3 mín. á fyrri hlið og 2 á seinni. Hann á ekki að vera gegnsteiktur, heldur rauður í miðjuna.

Eins og með nautakjötið er ekki gott að hafa mikið meðlæti.

Mikið af fiski, lítið af hinu.

Létt salat og litla sósu.

Þess vegna fór ég í smiðju hjá Nigellu Lawson.

Fann sósu sem ég skáldaði upp úr henni og er svona:

1) Búnt af koriander eða myntu eða blöndu saman í blandara. Hnefafylli.
2) Hvítlauksrif, tekið utan af.
3) Limóna (lime), börkur tekinn af.
4) 5-6 msk. af jarðhentuolíu.
5) Pínulítill sykur.
6) Smá salt.

Látið vélina skera allt í tætlur áður en olíunni er bætt við hægt og hægt.

Látið standa meðan hitt er grillað. 

Nú skal skera ferskan ananas.

Skerið þvert á enda fyrst svo ananasinn geti staðið.
Skerið svo utan af svo börkurinn hverfi.
Skerið þá utan af kjarnanum svo þið hafið 4-5 sneiðar á langhlið.

Skellið ananassneiðum á grill.

Þetta má vera gasgrill, kolagrill eða grillpanna.
Hafið háan hita og snúið einu einni eftir að dökkar rákir koma í ávöxtinn.
Hann á að vera mjúkur í gegn.

Setjið á diska með salatblöðum og hríslið smá ólívuolíu yfir, ekki miklu.

Nú er grillið tilbúið fyrir sneiðar af túnfiski.

Steikið eins og kjöt. Fyrst á háum hita á einni hlið, svo á hinni, 3+2 mín eða aðeins meira ef vill, - helst aðeins minna.  Ekki í gegn!

Færið á diskinn við hliðina á salatinu með ananasinum.

Maukið sósu yfir svo rétt hylji fisksneiðarnar.

Bingó! Snilldarmatur á leiðinni á borðið.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is