22.4.2011
Dagbækur: Apríl-maí 2011



Einn morguninn er aðeins svalt að fara framúr um sexleytið og svo enn svalara næsta dag, liggur við að maður rúlli niður ermunum fyrst í stað á morgungöngu með hundinn; granni minn brunar framhjá eins og venjulega á reiðhjólinu sínu og hrópar að þessu sinni: Góðan daginn - nú er vetur! Hann er í flísvesti og stuttbuxum. Kappklæddur á malavíska vísu.

Veturinn kominn: hitastigið dettur niður undir 10 gráður


síðla nætur og hífir sig jafnvel ekki yfir 20 þegar fysta dagskíma kemur óvenju seint um sexleytið en ekki fimm; það er ekki fyrr en á hádegi að 30 gráðu múrinn er rofinn. Vetur. Jú, daginn styttir óðum, ef maður tekur síðdegisgönguna þarf henni að ljúka áður en svarta myrkur skellur á klukkan sex, lengri verður hin afríska vetrarnótt tæpast en 12 tímar. Þetta er vetur. Eftir nokkrar vikur þarf maður að nota hlýja sokka á kvöldin og fara í peysu!

Jakkaveður? Varla

Við erum rétt við hvarfbaug syðri, á 12 breiddargráðu suðlægrar, sem samsvarar stöðu Eþíópíu á norðurhveli jarðar. Ísland á sinni 66 gráðu eða svo upplifir því miklu meiri mun dags og nætur eftir árstíðum. En hér eru árstíðir eigi að síður og fólk kallar það ,,vetur” það sem gerist hér í júní og júlí. Þá verður svalt, fer jafnvel niður undir frostmark í fjöllum síðla nætur. En höfuðborgin er í aðeins 1100 metra hæð og því aldrei svo kalt hér. Oft er þungbúið vikum saman og þar sem hús eru ekki upphituð fá loftkælingarnar loksins frí, skrifstofudömur í höfuðborginni sveipa sig sjölum og skrifstofukörlum finnst ekki lengur fráleitt að bregða yfir sig jakka. (Þetta síðastnefndar er reyndar menningarbundið: hérlendir skristofumenn í háum stöðum hjá hinu opinbera eru ALLTAF í dökkum jakkafötum með bindi, þótt skandinavar og aðrir norður Evrópumenn leyfi frjálslyndi í klæðaburði að ná yfirhöndinni og spari jakka fyrir formleg tækikfæri.

Jakka og sjalaárstíðin nefnist því vetur og er miklum mun hlýrri árstíð en sú sem kallast ,,sumar” á Íslandi á sama tíma. En hér er ekkert sem kallast haust eða vor. Eftir vetrarmánuðina kemur sumar. Svo einfalt er það og þá er alltaf heitt, getur slegið vel upp undir 37-8 gráður og skríður í 40 þegar verst lætur. Sumarið stendur sem hæst í september, október og nóvember og þá er allt skrælnað og tré lauflaus. Sviðin jörð og gróðurvana er því ,,sumarleg”. Svo kemur regntíminn í desember og út mars, og þá er svo aftur kominn vetur. Í lok regntímans kemur nokkurra vikna milibilsástand sem er dásamlegur tími, allt í blóma og ilmandi, fuglasöngur og uppskera og mann langar að kalla þetta ,,vorlegt” en það er ekki hægt, því röklega séð ætti þessi tími að heita haust, en er bara alls ekkert haustlegur. Á mælikvarða okkar norðurhjaramenna.

Svona standa hlutir á haus.

Vatnavegir

Nú er uppskerutími. Maísjurtirnar sölna hratt og þorna, sem er gott, því stönglarnir eiga að vera orðnir fullþroskaðir. Þeir þufa nokkra góða þurra daga í lok regntímans svo hægt sé að hirða þá og skafa af þeim kornið til að fylla körfur og tunnur. Regntíminn var góður víðast hvar í ár. En á starfssvæði mínu niður í Mangochi er ekki jafn bjart yfir mönnum og enn sunnar blasa við auðir akrar: Enn einu sinni þurrkar og kunningi minn sagði um daginn: Nú verður hungur. Hér og þar eru skallablettir þar sem þúsundir manna hafa ekkert til að eta næstu mánuði. Malaví hefur framleitt meira en nóg síðustu ár en því er ekki að neita að mörgum finnst dreifingin ójöfn á þessum lífsins gæðum. Því verður enn um nokkuð að deila þegar kornhlöður ríkisins fyllast en magar fólksins á þurrkasvæðum tæmast.

Þessi árstími er dásamlegur í sunnanverðri Afríku. Vatn vatn vatn. Hin hrjóstruga Namibía, sem er eitt þurrasta og strjálbýlasta land í heimi er nú klædd grænni slikju. Og fór á yfirfall í norðurhlutanum í nokkrar vikur með eigna og manntjóni. Jafnvel eyðimörkin lifnar. Nyrst í Namibíu sígur vatn úr fjöllum Angóla niður á hin miklu fljótamót þar sem risaárnar Zambesi og Okavango og fleiri slíkar eru bólgnar milli bakka. Þarna mætast vötnin ströng, mikilfenglegastir Viktoríufossarnir á mótum Zambíu og Zimbabwe.

Skipulag


Rauði punkturinn sýnir Viktoríufossa og fljótamótin þar sem fimm ríki koma sama.


Nýlendurherranir sem skipulögðu Afríku sáu til þess að vatnsflaumurinn gagnaðist fimm ríkjum sem mætast í sama puntki: Angóla, Zambía, Zimbabawe, Botswana og Namibía eiga þarna öll aðgang og hlunnindi. Það þurfti sérstakt hugmyndaflug til að tengja Namibíu við þennan fljótaveg, hreinlega teikna handfang á landlið, langan gang sem teygir sig þarna inn í miðja Afríku.  Heiðurrinn af þessum vatnsbúskap fyrir Namibíu á þýskur hershöfðingi.

Svo skipast vötnin ströng: hluti rennur vestur til Atlandshafs á mótum Namibíu og Angóla, hluti rennur sem Zambesi áin gegnum Zambíu og Zimbabwe og síðan til austurs gegnum Mósambik út í Indlandshaf. Ókavangó áin rennur í suður og inn í Kalahari eyðimörkina í Botswana þar sem óshólmar og fenjalönd fyllast í nokkra mánuði uns fljótið gufar upp og nær aldrei til sjávar. Þetta er stórkostleg hönnun til að nýta vatnið sem best. Og nú er tími vatnavaxta í sunnaverðri Afríku.

Litla Malaví verður bara að reiða sig á regnið. Og nú gæti maður freistast til að kalla það fegursta land í heimi. Meðan tilkomumiklir skýjabólstrar rísa háir til himins leika skuggar og sólstafir um fagurgrænt landið, fjöllin rísa úr akurlendinu, brött og svipmikil með tignarlegum klettabeltum og hvössum tindum, en niður af hásléttunni dansar skuggaspil um akra og engi alla leið þar sem vatnið fagurblátt leikur við hvítar strendur.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is