Ferðalangar í Namibíu
|
Namibía er sannarlega ,,Afríka fyrir byrjendur” þegar horft er á með augum ferðamannsins. Beint flug frá Evrópu, frábærir vegir, góð gisting, auðvelt að fá samband við ferðaskrifstofur sem skipuleggja ferðir, netið með fjölda möguleika, engin malaría svo heitið getið, pöddur í lágmarki og náttúrufegurð í hámarki. Verðlag? Fyrir Evrópubúa er það lágt miðað við það sem gengur og gerist heima, en búist ekki við gjafverði. Hlaðborð á sveitahóteli gæti kostað 1200 kr., vínflaska með eitthvað minna, og þeir sem vilja gin og tónik munu ekki finna mun á buddunni fyrir og eftir, og eru það ekki allt áhrif frá áfenginu sem vega þar. Miðborg Windhoek, höfuðborgarinnar, er einkar vestræn og fjöldi ,,afrískra” listmunaverslana, safarifötin ódýr, öll lyf og búnaður fæst þar, meðal annars ljósmyndavörur. Stutt er í fátækrahverfin frá miðborginni, þar sem allur almenningur býr og birtist ferðamanni þá hydýpið í samfélaginu, milli ríkra og fátækra. Borgin er í miðju landinu. Auðvelt er að leigja góða bíla og aka af stað samkvæmt korti sem oftast er rétt. Sumir leggja niður á strönd og skoða Swakobmund og Walvis bay, strandbæina sem oft eru meira þýskir en afrískir. Eyðimörkin þar í kring og strandlengjan bjóða upp á ótal möguleika til að hrífast. Hálfs dags ferð er í Ethosa, norður á bóginn, eftir góðum vegum. Nauðsynlegt er að panta gistingu og enginn ætti að staldra skemur við en 2 nætur. Upplifun er endalaus. Bestu mánuðir eru ágúst og fram í nóvember því þá er mörkin þurr og dýrin safnast saman við vatnsbólin. En segja má að alltaf sé eitthvað að sjá í Ethosa. Fólk verður að virða reglur og njóta lífsins sem gestir í heimi dýranna. Gisting er góð á þremur stöðum í garðinum og hægt að kaupa allar veitingar, þeir sem ferðast á ódýrari klassa tjalda innan svæða og elda sjálfir. Ekkert mál. Suður á bóginn halda þeir sem vilja sjá sandöldurnar í kringum Soussusvlei (enginn ber þetta fram í fyrstu atrennu). Einn langur morgun fer í að skoða Soussusvlei og Dauða skóginn, og gott að koma sér niðureftir daginn áður til að vera við hliðið á garðinum í bítið. En í kring er margt að skoða og gaman að fara í skipulagaðar ferðir um Sesriem gilið eða í merkurferðir ýmis konar. Sólarlagstúrar eru frábærir. Gisting er með öllu móti þarna niðurfrá. Ævintýragjarnir gista í tjöldum og hlusta á gaggið í sjakölunum en hinir velja um ágæta gististaði sem kosta mismikið. Það er drjúg fimm tíma keyrsla frá Windhoek og niður í Sesriem/Soussusvlei og gott að fá sér hádegismat á hinum einstæða gildaskála í Solitaire, ekki missa af eplakökunni. Nyrst í landinu er allt annars konar landslag, í Caprivi. Hér er miklu vætusamara, landið liggur meðfram landamærum Angóla og við mikið fljót. Hér eru skógar og vötn og mýrar og fjölskrúðugt dýralíf með flóðhestum og krókódílum og reyndar öllum dýrum merkurinnar ef út í það er farið. Á kortinu er auðvelt að finna Caprivi, þetta er ,,handfangið” á Namibíu. Norður og vestar eru himbalönd, út frá Opuwo. Bærinn er stórkostlegt sjónarspil af fjölbreyttu mannlífi, og hollt fyrir fólk að skoða hve lífsbaráttan er hörð. Þetta er Afríka. Hér skiljum við eftir eins mikið af peningum og við getum í höndum sölumanna á götum sem vilja láta okkur fá alls konar himbamuni og skraut. Hægt er að bóka ferðir í himbaþorp með gagnkunnugum leiðsögumönnum og eindregið mælt með því. Til Opuwo er stíf 9 tíma ferð frá Windhoek, en ágætt að taka Ethosa fyrst og fara síðan áfram uppeftir og gista 2 nætur til að skoða himbana og Opuwo. Frábær gisting er á Opuwo Country Lodge og kostar lítið miðað við aðrar lúxusgistingar í landinu. En hér er líka mælt með Mopane tjöldunum rétt utan við bæinn þar sem maður sefur í uppsettum tjöldum og horfir á stjörnurnar á kvöldin. Fjölmargt annað er til skoðunar í Namibíu. Ferðin hefst á bókasafninu eftir að þessi vefur hefur verið þaulkannaður. Fólkið er vinalegt með afbrigðum, ferðamannaglæpir fátíðir og auðvelt að fara með börn um landið. Dagleiðir eru stundum langar í bílum, en oftast hægt að stoppa og snarla og taka bensín með reglulegu millibili. Í landinu eru auk þess sem hér hefur verið talið fjöldi sérstakra ,,dýragarða” sem eru risastórar lendur sem hafa verið afgirtar og leiðsögumenn þekkja vel til dýraslóða og fara með mann þar um. Þetta er ,,skipulagðara” en Ethosa, og meira í lagt, en fyrir þá sem eru á hraðferð er þetta kostur. Einn slíkur gaður er rétt utan við borgina. Etsjo er í 2.5 klst fjarlægð frá Windhoek og hefur þann kost að bjóða upp á kvöldverð með ljónum auk annarrar dýraskoðunar. Namibíumenn hafa farið þá leið að greiða stórlega niður flugfargjöld með ágætu flugfélagi sínu, Air Namibia, sem flýgur beint frá London og Frankfurt. Þá hafa þeir byggt upp keðju af lúxushótelum (NWR) um allt land, jafnvel ,,spa” hótel með nuddi og pottum. Gisting á þeim bestu kostar yfir 50 þús. krónur nóttin fyrir tvo, en hægt er að komast af með mun minna, allt niður í 10-12 þús. fyrir tvo og það stundum með mat í mjög frambærilegum gistirýmum. Þá er átt við hótel sem Íslendingum finnst góð, en auðvitað fer maður enn ódýrara um landið og hægt að gista fyrir nokkur hundruð krónur. Margir leigja safaribíla með öllu og kosta ekki mikið, tjald og búnaður fylgja og maður er alveg á eigin vegum. Íslendingar sem ætla að koma til Namibíu og ferðast um ættu að gefa sér 12-14 daga að minnsta kosti, en það er nóg að gera mánuðum saman ef menn vilja! Ferðabók sem mælt er með: Lonely Planet, Namibia og Botswana. Til að komast í ferðastemmingu til Namibíu er hér myndasyrpa af ferðalöngum víðs vegar að. Vonanadi fyrirgefa þeir mér sýninguna, en eins og Bítlarnir sögðu, ,,a jolly good time was had by all”. Allir skemmtu sér vel. |
Til baka |