Nú hefur verið ákveðið að bora eftir vatni og koma upp vatnsbólum á 33 stöðum í Himbalandi í norð-vestur hluta Namibíu. Þar eru nú þegar leikskólar sem Íslendingar styrkja.
Fréttin um þetta mál hljómar svona frá Þróunarsamvinnustofunun:
“Himbar eru mikið á faraldsfæti með nautgripahjarðir að leita uppi vatn og beitilönd og vatnsbólin munu auka lífsgæðin og gera hirðingjunum fært að hafa lengur fasta búsetu en nú er,” segir Stefán Jón Hafstein verkefnastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Stjórn ÞSSÍ hefur samþykkt að ráðast í að bora fyrir 33 nýjum vatnsbólum í heimkynnum Himba í norðvesturhluta Namibíu.
Stefán Jón segir að í héraðinu sé byggð strjál og hún einkennist af dreifðum þyrpingum húsa þar sem sækja verði vatn um langan veg. Ennfremur sé margs konar þjónusta af skornum skammti. “Fasta búsetan er forsenda fyrir því að hægt sé að efla leikskólastarf meðal Himba,” segir Stefán Jón, “en ÞSSÍ hefur þegar komið upp fjórum leikskólum í tjöldum til að gefa börnum Himba tækifæri til að taka fyrstu skrefin á menntabraut. Engin hefð er fyrir slíku meðal hirðingja. Hugmyndin er að útvíkka leikskólaverkefnið þegar vatnsbólin verða tilbúin.”
ÞSSÍ er í samvinnu við ráðuneyti landbúnaðar- og vatnsmála í Namibíu um þetta verkefni. Ráðuneytið sér um að bjóða út verkið og gera forkönnun. Það skilar fullbúnum brunnum í hendur heimamanna, sem tóku þátt í staðarvali. Stefán Jón segir að heimamenn á hverjum stað fái þjálfun í viðhaldi brunna og tilsögn í því að reka framkvæmdanefnd fyrir hvert vatnsból. Vatnsbólin verða því í eign og umsjá heimamanna í framtíðinni og viðhald á þeirra ábyrgð.
Starfsmenn ÞSSÍ í Namibíu, þeir Vilhjálmur Wiium umdæmisstjóri og Stefán Jón Hafstein verkefnisstjóri, sáu með eigin augum þörfina fyrir bætt vatnsból þegar þeir voru á ferð á þessum slóðum fyrr á árinu. Regnvatni hafði verið safnað í dæld til að brynna nautgripum. Stórar hjarðir stóðu út í vatninu, en jafnframt sóttu konur þangað vatn til að nota til heimilishalds og elda graut handa börnum í nærliggjandi leikskóla. Á öðrum stað mátti sjá hvernig ein borhola sem ÞSSÍ lét gera í fyrra skilaði tæru og fersku vatni bæði til dýra og manna.
Ætlunin er að verkefninu ljúki á árinu 2010. Að sögn Stefáns Jóns verður samtímis leitast við að efla leikskólastarfið og bjóða upp á fullorðinsfræðslu, en eftir því hefur verið leitað.