(Birt í Kjarnanum 17.júní 2015)
17.júní árið 2050 er enginn smáhátíðisdagur. Öldin bara hálfnuð! Og þetta fæ ég að lifa, elllihrumur á lokandartökum míns næstum aldarlanga lífs. Með gömlu vinina og vinkonurnar tvist og bast, ofan jarðar og neðan og efst í huga að einhvern veginn tókst okkur að klára dæmið og bjarga okkar ástkæra Íslandi þótt stundum væri vandséð hvernig. Þrjátíu ár frá því herrans óreiðuári 2015 og þá gat mann ekki grunað að færu í hönd mikilvægir tímar sem öllu myndu ráða um framtíð Íslands í hinni fallvöltu veröld.
Óreiðan
Hrunið er í söguskrám með Móðuharðindum, Tyrkjaráni og landeyðingu - sem börnin þurfa að læra um og þekkja, en við sem lifðum þá tíma munum miklu frekar óreiðuna eftir þann dag sem Guð var beðinn blessunar landi okkar og þjóð. Hvernig Hrunið afhjúpaði endanlega þá sögufölsun að öll værum við ,,á sama báti” og ,,þá vegnaði Íslendingum best er vér snérum bökum saman”, heldur sýndi að græðgin þekkir engin mörk og hagsmunir eigin vambar eru ofar öllum öðrum - þjóðarhagsmunum einnig. Auðvitað teiknuðust upp hagvísar smátt og smátt eins og kuldabláleggjaðir skátastrákar á stuttbuxum við fánahyllingu Sumardaginn fyrsta, en Litla Hrun árið 2018 þegar öllu átti að vera borgið sýndi að þetta var allt saman á fölskum forsendum.
Sömuleiðis pólitíkin: Eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2009 fékk gamla kerfið gula spjaldið þegar kjósendur í öllum stærstu sveitarfélögum heimtuðu ,,bara eitthvað allt annað” og héldu því áfram út í gegn næstu árin með flokkafylgi sem feyktist eins og krumpað og sinnepskámað bréf utan af hálfétinni pylsu í Hafnarstræti hvern þjóðhátíðardag sem reynt var að ræsa upp gamlar minningar um forna frægð. Maður sá ekki hvernig þetta gæti endað. Ég sé það nú, en greindi það ekki jafn glöggt þá, að forsetakosningarnar 2016 og Þingkosningarnar ári síðar lögðu grunn að góðu.
Gamli aðalvaldaflokkurinn þríklofinn og ótal hreyfingar og samtök með ýmsum nöfnum mynduðu svo óskýrt landslag að fáir sáu yfir. Félagshyggjukraðakið þyngra en tárum taki. EN: Þungamiðjan sem áður hafði verið í valdakerfi landsins gufaði upp! Þar með fóru forsendurnar fyrir gamaldags og spilltum úthlutunarkapítalisma sem nærðist á samkrulli pólitískra valdablokka og efnahagslegra hagsmuna sem alltaf höfðu getað tryggt aðstöðubröskurum greiðan aðgang að auði landsins.
Menn urðu að semja upp á nýtt utan rammans! Ég var spurður að því á fyrirlestrarkvöldi þarna rétt um áramótin 2014/15 ,,hvaðan byltingin kæmi?” og ég svaraði beint frá hjartanu: ,,Hún kemur úr öllum áttum og enginn þekkir hana í sjón þá það gerist”. Fáir sáu að íslenska útgáfan af spillingarkapítalisma yrði fyrsta fórnarlamb óreiðunnar en þannig hlaut það að vera, eftir á að hyggja, hann hafði nærst á ,,stöðugleika óstjórnar” stærstan hluta Lýðveldistímans - stöðnunarstöðugleika - og nú var botninn úr og braskið með. Úthlutunarnefndir flokkanna voru verkefnalausar. Samið þvert á línur
Þegar semja varð þvert á línur og yfir nokkra vængi af ólíkum toga innan Þings og utan gat enginn gert tilkall til ,,herfangsins”. Og enginn úthlutað útum bakdyrnar. Þetta skapaði alveg nýjar forsendur fyrir því sem ég hafði haldið lengi að hlyti að gerast en var orðinn úrkula vonar um: Uppreisn frá miðju. Ég kallaði það TÁA-hópinn sem var klaufaleg skammstöfun á merkilegu fyrirbrigði sem var ,,Traustir ábyrgðarmenn almannahagsmuna” þvert á flokka og fylkingar.
Fólki var einfaldlega nóg boðið. Þarna kenndi ég suma sem ég reiknaði aldrei með að yrðu samverkamenn, aðra sem fyllst höfðu sama viðbjóði á ,,ástandinu” og ákváðu loks að fórna sínu rólega einkalífi fyrir málstaðinn, enn fleiri sem lengi höfðu verið innan og utan raða hinna ýmsu flokka en komu nú undir hina breiðu regnhlíf um ,,lýðræði, borgaraleg réttindi, auðlindir þjóðarinnar og ábyrgð á umhverfinu”. Hvað varð það fyrir utan hið gamalkunna stef sem ég rakti í viðtali við Ævar Kjartansson á Rás 1: We are not going to take this anymore? Þarna voru nokkar grundvallarforsendur sem ég skil núna hvernig breyttu öllu.
Lýðræði fékk vængi
Gamla fulltrúalýðræðið, gamla stjórnarskráin, gamli þingforsetinn sem var bara bötler hjá framkvæmdavaldinu, gamli forsetinn sem sagði alltaf að stjórnskipanin ,,stæðist álagið”, allt var þetta búið að vera. Lýðræðiskrafan fékk vængi: Þjóðfundir, atkvæðagreiðslur, Stjórnlagaráð, svikin stóru og allir ómöguleikarnir sem fylgdu, afsagnir ráðherra á færibandi og nýstirnin á Þingi sem hröpuðu eins og loftsteinar til jarðar, fiskurinn sem enginn man lengur hvað heitir en átti að fara á veðsetningarbál bankanna í gegnum sægreifana - svona var það bara: Fólki ofbauð.
Við börðum í gegn ákvæði í stjórnarskrá um að fólkið fengi vald umfram náðarvald forsetans og þar með var fyrsti steinninn í þessum gamla múr tekinn úr. Góða Hrunið gat hafist. Hvað eftir annað urðu frekjuhundarnir að hopa undan ógninni um þjóðaratkvæðagreiðslu. Auðvitað varð úr þessu smá lýðræðissvall í byrjun og dellufólk fékk aðeins of mikið svigrúm fyrir minn smekk, en allt margborgaði það sig. Alltaf var sagt að ,,traust” á stofnunum og flokkum væri horfið. En þessi stuttskrefa lýðræðisbreyting sem smám saman setti mark á þjóðlífið bjó til annað traust: Sjálfstraust. Við trúðum loks á sjálf okkur.
Sjálfstætt Alþingi
Loksins tókst að skilja að framkvæmdavald og Alþingi, meðal annars með því að þingflokkar hættu að velja ráðaherra úr eigin röðum og lágmarkskröfur um hæfi voru samþykktar. Virðing Alþingis sem alltaf var verið að tuða um fólst þá í því að verða sjálfstætt! Ráðherrar kallaðir á teppið og urðu að standa fyrir máli sínu í stað þess að fá allt stimplað sjálfkrafa á næturfundum.
Alþingi með aðhald frá fókinu varð miðpunktur lýðræðis í landinu. Nú gapir unga fólkið þegar sögur frá því í ,,gamla daga” fara af stað: ,,Ertu að segja mér að einu sinni hafi nefndarfundir á Alþingi verið lokaðir? Hvers vegna mátti ríkisvaldið neita að gefa upplýsingar? Út á hvað gengu meiðyrðamál?” Gáttir opnuðust og fólk gat ekki bara farið að tala saman - það varð að tala saman. Þátttökulýðræðið nýja virkaði með því að setja valdi skorður og opna inn á gafl.
Breyttir farvegir
Þegar farvegir umræðunnar breytast, breytist umræðan. Þetta rann smátt og smátt upp fyrir manni og feginleikatilfinning tók við af örvæntingunni sem áður hafði verið snara um háls hvers hugsandi manns. Við hættum að tala um að ,,taka upp nýjan gjaldmiðil” og nógu margir (þið munið uppreisn frá miðju) lýstu sig tilbúna að taka upp nýja hagstjórn. Sem dygði til að taka upp nýjan gjaldmiðil, þegar og ef… Og það var gert.
Það var líka eitthvað óendanlega frelsandi við að leggja niður ,,velferðarstofnanakerfið” með sínum vaxtabótabótaniðurgreiðsluflokkum og aumingjagæskuleiðréttingum og taka bara upp eina og einfalda afkomutryggingu. Gömlu vinstri vinir mínir voru alltaf að ,,verja velferðarkerfið” í stað þess að endurskapa. Nei, engar barnabætur, nei, engar niðurgreiðslur á steinsteypu, enginn afsláttur af skuldum eða skyldum, bara þessi eina sanna góða trygging fyrir því að allir fái lifað mannsæmandi lífi og taki ábyrð á sjálfum sér þar með. En auðvitað lifir velferðarstofnanakerfi landbúnaðarins áfram.
Straumhvörf
Leiti maður að einstökum atburðum sem mörkuðu straumhvörf tel ég að sigurinn í baráttunni um hálendið hafi ráðið mestu. Við eigum nú stærstu ósnortnu víðerni í Evrópu, reyndar þau einu. 40.000 ferkílómetra af friði og ró. Sandfoki, gæsagargi, hrauni og ruðningum - einstaka perlu sem við köllum Hjarta Íslands og stytturnar af Ómari Ragnarssyni, Sigríði í Brattholti og Guðmundi Páli Ólafssyni það eina manngerða sem þar fær að tróna með táknrænum hætti í Vonarskarði.
Þessi barátta gerði ekki bara það að tryggja okkur þessa fögru auðn um aldur og ævi, sem þó var ærið verkefni í hugum marga. Sigurinn knúði allan orkugeirann til að endurhugsa gömlu góðu leiðina. Þessi deild í íslenska rányrkjubúinu neyddist til að hætta að kreista sífellt fleiri megavött úr landinu og finna leiðir til að kreista fleiri dollara úr megavöttunum. Þetta hljómar einfalt, en var það svo sannarlega ekki. Um leið varð til ný hugsun.
Orkumöguleikarnir voru ekki endalausir og nýting varð kjörorð. Rafvæðing á öllum samgöngum landsins á landi og sjó var miklu ábatasamari en stóriðja, alþjóðleg útboð á lausri orku snarhækkuðu verðið til atvinnuvega sem engin atvinnuveganefnd hafði látið sér detta í hug; með hlýnandi veðri jókst afkastageta vatnsaflsvirkjana í tvo heila áratugi og sturtaði peningum í Auðlindasjóð Íslands sem þar með stóð undir uppgreiðslu allra skulda ríkisins. (Ég reyni ekki að lýsa því hvernig staðbundnir verkalýðs- og héraðshöfðingjahagsmunir hömuðust fyrir niðurgreiddri stóriðju). En þetta tókst að lokum vegna þess að Hjartavernd (við stálum nafninu) vann slaginn um hjarta landsins.
Ég kalla þennan sigur Straumhvörf því sigurinn um hálendið markaði annað fráhvarf Íslendinga frá rányrkjustefnu síðan land byggðist - hitt var þegar við hættum að reyna að drepa alla fiskana í sjónum.
Menntastefna er hin nýja sjálfstæðisstefna
Rányrkjubúið var á þroskabraut yfir í Þekkingarbú. Nú eru sex ár síðan við fögnuðum 100 ára afmæli lýðveldisins á hinum niðurníddu Þingvöllum sem eru þjóðarskömm í huga okkar sem munum Paradísarmissinn sem Alþingi stóð fyrir með nýju monthúsi sínu. 2044 var stórt ár því það var lokaárið fyrir innkall á fiskveiðiheimildum.
TÁAar í mörgum flokkum (traustir ábyrgðarmenn almannahagsmuna) sáu einfaldlega að gjafakvótakerfið var fyrir neðan allar hellur og 2024 var loks byrjað að innkalla og bjóða út aftur. Enn veiða Íslendingar samt fisk og stórgræða á. En af því að ég er fjörgamall kall og blæs úr nös yfir því böli að bæra varir með bón um enn einn kaffisopa leyfi ég mér karlagrobb af svæsnustu sort. Það var árið 2005, þremur árum fyrir Hrun og fyrir næstum hálfri öld í dag að ég skrifaði þetta í ritgerð og birti: ,,Hraðfara og stórvirkar samfélagsbreytingar valda því að stjórnmálin virðast daga uppi. Ásamt lýðræðisvæðingu samfélagsins er menntastefna höfuðmál sem hefur forgang á önnur. Þetta tvennt myndar hagrænar undirstöður fyrir auðsköpun í framtíðinni og félagslegar stoðir fyrir það verðleikasamfélag sem jafnaðarmenn vilja stefna að. Ísland þarf að breytast úr landi sem leggur höfuðáherslu á nýtingu náttúruauðlinda, í land sem byggir á auðsköpun í krafti mennta.” (Breytum rétt, 2005).
Þetta finnst mér ennþá dáldið gott, og að mörgu leyti hefur þetta gengið eftir hin síðustu ár og yfir því gleðst ég hér á langa ganginum þar sem mér verður bráðum rúllað út með tærnar upp í loft.
Til móts við umheiminn
Það tekur meira en mannsaldur að blása lífsanda í stjórnsýslu og stjórnarráð og nú hafa ,,fagleg vinnubrögð” fullkomnað sig í ,,skilvirknisgreiningum” sem komast að fyrirframgefnum pólitískum ráðningum með skorkortum og kynja- búsetu- aldurs- og kynhneigðarkvótum þar sem samfélagið er eins og rúðustrikað blað. ,,Jú neim it, ví geim it” sagði litli Capacent maðurinn.
Við héldum að ,,gagnsæi” myndi bjarga öllu en íhaldið er okkur runnið í merg og bein og á alltaf mótleik. Annað fauk til fjandans hraðar en með hugsanaflutningi. Ungu rótttæklingarnir og ,,stöðuítrekunarleikjafræðingarnir” lögðu niður hið gamla internet á Íslandi á augnabliki og gerðu ,,Þráðlaust Ísland” að veruleika á skemmri tíma en það tók að rífa niður eitt GSM mastur. Nú er ekki til sá fjárhúsakofi sem ekki er beintengdur við Sjanghæ í þrívídd og tvöfaldri tímaspönn. Ein algjörlega ófyrirsjáanleg afleiðing var að háskólar á Íslandi hurfu. Hurfu - af yfirborði jarðar og upp í eilífðarljósvakann. Hér hófst menningar- og menntabylting sem jafngildir afrekum Sögualdar.
Fimm nördar (eins og það var kallað) fóru um jarðarkúluna á jafn mörgum mánuðum og gerðu samninga fyrir Ísland um ókeypis aðgang að fimmtíu bestu háskólum heims gegnum þráðlausu þrívíddina. Allt í einu skráði sig enginn vestur á Melum - og Hvanneyri bara lokaðist. Hvar er best að læra finnsku? Hönnun og hugmyndafræði? Hvar lærir maður Mandarín? Hvar er alvöru verkfræði? Og svarið var: Úti í heimi þar sem fæst besta nám sem völ er á - frá Egilsstöðum eða Súðavík En heimasmíðuð námskeið í íslenskum sögum, norrænum fornleifum og Norðurslóðafræðum sem boðin voru á móti af íslenskum menntamönnum fylltust af Egyptum, Amazon frumbyggjum og kínverskum afurðum þriðju menningarbyltingarinnar.
Nú hafa 30 milljónir manna tekið íslenska gráðu í ,,heimspeki norræna goða” - milljón manns á ári í þessu þrívíða eilífa orkuveri sem kallast mannshugur og hefur verið gerður stafrænn - nema ástin og sálin. Ég hef sjaldan verið jafn stoltur og þegar birtar voru tölur um sigur næstu kynslóðar: Fleiri meistarar og doktorar yfir sjötugu á hverja þúsund íbúa en nokkurs staðar í heiminum. Og allir við ráðgjafastörf, fræði eða kennslu í ómælisvíddum þekkingarnets án landaamæra.
Rifist til einskis
Þegar stóri ,,Atlandshafssamningurinn” var staðfestur datt Ísland inn á lokametrunum, ég veit ekki hvort það var árvekni örfárra manna eða bara slembilukka - en við fengum greiða leið inn um stærsta glugga veraldar að menntun og menningu, aðhaldi, regluverki, viðskiptum, hugmyndum og möguleikum; Ísland var ekki lengur eyja og unga fólkið í dag skilur ekki hugtakið einangrun.
Við vorum stálheppinn að lokast ekki úti eins og hvert annað Jan Mayen með Ísbjarnarblús fyrir ferðamannaskip heldur dælum við út frábæru atgervisfólki á færibandi um allan heim og tökum við þjónustugreiðslum í glerhörðum Júan. Við sem vorum að þrefa um ,,skagfirska efnahagssvæðið”!
Auðtakið
Sumt lafði og lafir enn. ,,Endurreisn bankanna” var svo farsæl að þeir mergsjúga samfélagið enn, það er ekki hægt að kaupa sér karamellu í þessu landi án þess að þeir heimti sneið. Tryggingafélögin, innheimtu- og veðsetningarþjónustan og rafræna auðkennamafían blóðmjólka okkur vegna þess að á óreiðutímunum með varð ekkert afl til sem gat snúið niður gamla klíkukapítalismann. Hann missti pólitíska aflið en herti auðtakið. ,,Nýja” fólkið og ,,nýju öflin” höfðu bara ekki burði til að slást við peningamarkaðsklíkurnar. Ég er búinn að tuða um þetta í þrjátíu ár - en auðvald er auðvald er auðvald og ekkert nema einbeittur vilji og óhuganleg orka geta brotið það á bak aftur.
Auðvitað verður hver kynslóð að gera sín mistök, eins og við okkar. Hér á næsta gangi á gamalmennasamvistarleikskólanum er svipþungur fyrrum blaðamaður með stórt og mikið skegg og lætur barnabörnin sín reikna og reikna. Hann fann út um daginn að arðrán bankanna frá fyrra Hruni jafngildi samtals allri land- og gróðureyðingu á Íslandi frá upphafi byggðar. Þau hefðu betur hlustað á mig: Að sigra er að sigra fullkomlega. Ekki krúttlega.
Viljinn til að breyta
Nú man maður ekkert nema stóru línurnar og miklu hvörfin og aðallega það að okkur tókst að bjarga Íslandi. Ekki í þeirri mynd sem nokkur gat ímyndað sér heldur í þeim möguleikum sem enn eru og áfram verða til staðar. Þannig á það að vera. Mín kynslóð skeit á sig en skeindi sig aftur með hjálp yngri handa og nú getum við gufað upp sátt. Maður brýtur niður múrinn einn steinn í einu og svo bresta gáttir þegar síst varir og ljósið flæðir inn um þröngar rifur og fyllir rýmið aftur úr allt annarri átt en mann óraði fyrir. Ég man ekki í hvaða skólaljóði það var sem við fórum með í sjötta ÞB í Vogaskóla í fornöld, en einhver sagði: ,,Vilji er allt sem þarf”. Viljinn til að breyta.
Og með það get ég kvatt sáttur hér af þessum auða gangi því eigi er rúm inni á stofunum og sofnað svefninum langa undir brjóstmynd af stofnanda og eiganda að þessum einkarekna gámi.
|