Hvers vegna ég skrifaði ekki undir áskorun á forseta

Stefán Jón Hafstein (28. feb. 2012)

Núverandi forseta hefur um margt tekist vel í embætti. Til marks um það er undirskriftastabbi 31 þúsunda kjósenda, um 13% þeirra sem eru á kjörskrá, sem biðja hann að hætta við að hætta. Mörgum þætti það góður stuðningur eftir 16 ára setu, oft á umbrotatímum.

Þeir 208 þúsund kjósendur sem ekki skrifuðu undir áskorun á forseta höfðu sig lítt í frammi meðan söfnun stóð. Þar sem ég er hluti af þeim meirihluta vil ég gera grein fyrir atkvæði mínu, sem ekki túlkast sem hjáseta.

En fyrst: Ég samgladdist forseta þegar hann sagði í áramótaávarpi sínu að hann væri hættur og ætlaði sér enn stærri hluti laus úr embættishlekkjum. Taldi hann vel að því kominn, því margir kostir forseta geta nýst annars staðar.

Kjósum forseta Nýja Íslands

,,Þjóðin velur forseta” hefur verið haft að orði með réttu og nú er krafa tímans að við veljum forseta Nýja Íslands. Forsetakosningarnar í sumar eru fyrsta tækifæri þjóðarinnar eftir Hrun að segja skýrt og milliliðalaust að nú verði endurreisn í raun. Hið Nýja Ísland er tákn endurfæðingar eftir Hrunið, merki siðbótar gegn spillingu, stuðningur við bætta stjórnmálamenningu og aukið lýðræði; bein krafa fólksins í landinu um að raunverulegar breytingar verði á kerfinu sem leiddi lýðveldið unga fram af brún hengiflugs haustið 2008.

Nú þarf hugsun okkar að snúast um stöðu, hlutverk og áhrif forseta Nýja Íslands.

Hvers vegna ekki endurnýjað umboð núverandi forseta?

Þessari grein er ætlað að minna á hið raunverulega hlutverk okkar í sumar: Segja skilið við sögu og arfleið sem núverandi forseti er hluti af.

Í fyrsta lagi varð forsetanum illilega á með stuðningi sínum við útrásargengið og það gjörspillta samfélagsástand sem hann var hluti af og hvetjandi í. Það eitt nægir. Þó svo að finna megi því stað að forsetinn hafi beðist afsölkunar með einum eða öðrum hætti, stendur óhaggað það sem hann sagði sjálfur, að embættið var misnotað meðan hann var á vakt. Fleiri orð þarf ekki. Ekki kemur til greina að blása lífi í þann hrapalega dómgreindarbrest.

Í öðru lagi hefur forsetanum mistekist að gera raunverulega yfirbót þegar tækifæri gafst. Hann lagði í snúinn leiðangur til að komast hjá því að taka til greina ábendingar í Rannsóknarskýrslu Alþingis um að forsetaembættinu yrðu settar siðareglur. Hann átti að taka forystu þegar ákall um siðbót í samfélaginu heyrðist úr öllum áttum, en brást. Lagði í staðinn meira eitur inn í stjórnmálamenninguna og stóðst ekki þá freistni að sparka útundan sér, algjörlega að ósekju.

Í þriðja lagi vinnur forseti nú mikið ógagn þegar hann hindrar innihaldsríka umræðu um framtíð Íslands með því að láta eins og hún snúist um sig. Þetta sýnir að komi til framboðs hans þrátt fyrir allt mun það breyta kosningabaráttunni til hins verra með því að svörtu blettirnir á ferli forseta eitra umræðu.

Í fjóðra lagi, og það leiðir af framansögðu, getur forsetinn aldrei orðið leiðarljós til betri hátta á Íslandi. Það væru því söguleg mistök hjá þjóðinni að kjósa áframhaldandi setu þess manns sem öðrum fremur dregur dám af þeirri stjórnmálamenningu sem við nú verðum að hafna. Að kjósa forseta Gamla Íslands enn eftir sextán ár er hin fullkomna uppgjöf, að kyssa vöndinn og gefast upp.

Hvernig forseta viljum við?

Líkast er borin von við ríkjandi kringumstæður að forseti verði sameiningartákn þjóðarinnar. En forseti getur orðið samvinnutákn þjóðarinnar. Tákn fyrir þau brýnu verkefni sem blasa við.

Á næstu misserum reynir á þjóðina, stjórnmálin og stjórnkerfið að bæta lýðræði í landinu. Endurvinna traust, setja leikreglur sem halda; feta óvissa slóð til betri hátta en þeirra gömlu þar sem spilling, gerræði og fúsk réðu ríkjum.

Enginn einn kraftaverkamaður eða -kona leysir þetta verkefni. En forseti sem vill vinna vel og hefur til þess atgervi getur reynst drjúgur liðsstyrkur. Horft verður til þess að forseti er nú óumdeilanlega áhrifamaður á framvindu þjóðmála eins og núverandi forseti hefur sýnt, bæði til hins betra og verra. Þá áhrifastöðu verður að rækja af myndugleik. Og erindið vera skýrt.

Því þarf að ræða málin og skerpa sýn á framtíðarhlutverk embættisins, jafnvel þótt það kunni að vera til skamms tíma á viðkvæmu mótunarskeiði Nýja Íslands. Þjóðin verður að axla þessa ábyrgð.

Síðan má ræða persónur þeirra sem til greina koma, því víst skiptir persóna forseta máli þegar allt kemur til alls. Að lokum munum við svo kjósa nýjan forseta, fyrir því hef ég sannfæringu, og skiptir engu hvað undan feldinum á Bessastöðum kemur á næstu dögum. Valdið er hjá þjóðinni.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is