Frjálshyggja eða spilling?

Stefán Jón Hafstein svarar (19.okt 2011) Jóni Baldvini Hannibalssyni og Stefáni Snævarr sem báðir skrifa á eyjuna.is í október 2011 þar sem þeir gagnrýna ýmislegt í grein SJH um ,,Rányrkjubúið" í TMM (sept 2011).

Inngangur: „„Nýfrjálshyggja er ekki um ráðdeild í ríkisrekstri. Hún er um að einkavæða auðlindir þjóða og almannagæði, lækka skatta á fyrirtæki og auðkýfinga og að girða fyrir afskipti ríkisins af efnahagslífi og fjármálamörkuðum,“ segir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, í aðsendri grein á Eyjunni þar sem hann andmælir grein Stefáns Jóns Hafstein í Tímariti Máls og menningar og þeirri niðurstöðu Stefáns Jóns að ekki eigi að kenna frjálshyggjunni um hrunið hér á landi. Eyjan hefur í tveimur fréttum (hér og hér) sagt frá málflutningi Stefáns Jóns í þeirri grein.

 Hér má hlýða á útvarpsviðtal SJH við Ævar Kjartansson og Jón Orm Halldórsson um þetta málefni.

SJH skrifar: Þeir jafnaðarmennirnir Jón Baldvin Hannibalsson og Stefán Snævarr geta mín í umsögnum um grein sem ég skrifaði í Tímarit Máls og menningar, og nefnist: Ráyrkjubú (Sept 2011). Þetta eru kraftmiklir talsmenn jafnaðarstefnu og heiður að fá andsvar frá þeim. Held ég reyndar að lítið beri á milli. Enda bera þeir grein minni almennt góða söguna. En þeim finnst ég gefa frjálshyggjuhugmyndafræðinni of lítinn gaum í greiningu á Hruninu á Íslandi. Það er rétt.

Greinin er að kjarna til tilraun - tilraun- til að skilgreina Hrunið út frá langvarandi spillingu og óráðssíu á Íslandi, allan lýðveldistímann. Þeir mótmæla ekki að svo megi líta á. Ég tel að sú tilhneiging að skella skuldinni á ,,frjálshyggju” einvörðungu sé of billleg leið og komi í veg fyrir að menn ráðist að rótum vandans sem er stærri og flóknari en svo. Sjálf samfélagsgerðin.

Í grein minni nefni ég frjálshyggju frá sjónarhóli ,,leikmanns”. Segi að út frá skilgreiningum frjálshyggjunnar standist aðgerðir íslenskra stjórnmálamanna á fyrsta áratug 21. aldar ekki skoðun sem afsprengi hennar. Leiði að því rök að gamalgróin spilling hafi verið færð í ,,frjálshyggjubúning” til að færa gjörðum stjórnmálamanna lögmæta hugmyndafræðilega nálgun þegar nær væri að líta á þær sem rökrétt framhald arðráns og ,,höfðingjaveldis” í íslenskum stjórnmálum.

Með öðrum orðum: Ég geri greinarmun á frjálshyggju og þeim sem kenna sig við hana og sigla oft undir fölsku flaggi. (Gamlir sósíalistar kannast við).

Það er mála sannast að ekki staldra ég lengi við frjálshyggjuna í grein minni, skilgreini hana ákaflega snubbótt og bendi á að íslensk stjórnmál og hagstjórn hafi ekki mótast af tilteknum grunnþáttum frjálshyggjunnar hvað sem hver segir. Stefán Snævarr og Jón Baldvin vilja setja Íslandshrunið í víðara samhengi við alþjóðlega strauma (sem ég geri reyndar sjálfur í framhjáhlaupi) og negla við frjálshyggjuna. Það er ágætt svo langt sem það nær, en ég tel að þurfi að setja smásjána á íslenskt samfélag sérstaklega til að rýna þetta svakalega Hrun okkar niður í kjölinn. Enda var það stórasta Hrun í heimi (miðað við fólksfjölda og landsframleiðslu).

Mistök í grein minni voru að skilgreina ekki nákvæmlega hvað ég ætti við með ,,frjálshyggju” (ég átti við hreina og tæra hugmyndafræðilega nálgun) og benda á í fljótheitum að íslenski valdaflokkurinn stæðist ákaflega fáar kröfur frjálshyggjunnar ef út í það er farið. Hann væri - fyrst og fremst - tækifærissinnaður valdaflokkur sem notaði það sem er hendi næst hverju sinni til að halda völdum og maka krókinn. Frjálshyggju núna. ,,Stétt með stétt næst”. Eða hvaðeina.

Í stuttu prívatskrifi til JBH tók ég dæmi: Fáum dettur í hug að skella skuldinni á Krist fyrir kaþólsku kirkjuna. Ekki gerði Kristur uppskrift að þeirri forsmán sem virðist viðgangast í nafni kaþólskunnar. Í sinni hreinustu mynd er frjálshyggja hugmyndafræði sem vert er að gefa gaum, en ekki meir, því að mati okkar jafnaðarmanna eru takmarkanir frjálshyggjunnar of miklar til að verðskulda samfélagstilraunir í hennar anda. Við vitum að markaðurinn sér ekki um að leiðrétta sig sjálfur og að maður setur ekki minkinn til öndvegis í hænsnakofanum.

Í neðanmálsgrein í ,,Rányrkjubúinu” nefni ég ,,Krataávarp” Stefáns Snævarrs (TMM 2010) frjálslyndri jafnaðarstefnu til stuðnings og get tekið undir margt af því sem hann segir í andmælagrein á eyjunni.is um eftirlitslausa fjármálalýðinn sem rústaði hagkerfið. Að því er varðar uppgang klíku- og glæpakapítalisma á ofanverðrri 20. öldinni má segja hreintrúarmönnum á frjálshyggjukantinum til hróss að þeir boðuðu aldrei spillingu. Þeir gerðu sér bara ekki grein fyrir að hún yrði líkleg niðurstaða af einfeldningsskap þeirra þar sem aðstæður bjóða uppá.

Jeffrey Sachs ætlaði aldrei að innleiða mafíukapítalisma í Rússlandi þótt sú yrði niðurstaðan. Goldaman Sachs í Bandaríkjunum er samkvæmt kvikmyndinnin Inside Job siðlaus fjármálamaskína, og líkast til glæpsamleg í þokkabót, en ekki er hún ,,frjálshyggjuboðun” . Miklu frekar holdgerving dauðasyndarinnar ,,græðgi”.

Á Íslandi voru sérstaklega slæmar aðstæður til að innleiða svonefndar frjálshyggulausnir því spillingin var svo samofin þjóðinni (félagsauði, stjórnmálum, stjórnsýslu, hagkerfi). Verslunarráð Íslands birti sína villtustu frjálshyggjudrauma í ársskýrslu 2006 sem er góður vitnisburður um þá klikkun sem réði ríkjum í hugarheimi elítunnar, en það er nokkur vegur frá því og koma þessu brjálæði öllu í verk. En gott og vel, vanmetum ekki viljann og þökkum bara JBH og SS fyrir áminninguna.

Frjálshyggjan var notuð sem hugmyndafræðileg réttlæting fyrir alls konar samfélagslegum misyndisverkum. Hún var reyndar alls ekki almennt notuð sem réttlæting fyrir innleiðingu sægreifaveldisins á Íslandi. Það hefði verið feimnismál því svo klikkuð var íslenska þjóðin ekki að hún vildi einkavæða fiskimiðin. (Alvöru frjálshyggjumenn hefðu boðið upp veiðiheimildir en ekki gefið). Og frjálshyggjan var ekki notuð sem réttlæting fyrir stórspilltu og rugluðu landbúnaðarkerfi. Þvert á móti,, Sjálfstæðisflokkurinn varði alltaf og ver enn landbúnaðarkerfið sem ,,félagslega lausn” (þótt orðfærið sé annað, (byggðavernd eða hvaðeina). Og ekki var frjálshyggjan forsendan fyrir því að selja orkuauðlindir á spottprís með veði í skattfé almennings þegar markaðsforsendur voru engar: Kárahnjúkavirkjun var ríkissósíalísk aðgerð. Netop.

Það er enginn leikur að finna heiðarleg dæmi um markaðsvæðingu á Íslandi. En eins og ég rek í grein minni eru ótal dæmi um klíkuvæðingu og einkavæðingu spillingar. Og af því að Ísland er svo dásamlega persónulegt í öllu þarf auðvitað yfir okkur að koma að helsti hugsuður frjálshyggjunnar á Íslandi er líka afkastamesti ríkisspenatottari sem sögur fara af. Þarf að segja meira?

Alvöru frjálshyggjumennirnir lentu sífellt í vandræðum með JBH og hægrikrata þegar þeir reyndu að útskýra niðurgreiðslukerfið í landbúnaði, sægreifakerfið í sjávarútvegi og innflutningsbann á kalkúnalærum. Því dæmið gekk aldrei upp og gerir ekki enn. Nema menn skoði það frá þeim sjónarhóli sem ég geri í grein minni, fyrst og fremst sem frumstætt samfélag sem aldrei náði að móta lýðræðislegar hefðir og markaðslegt aðhald. Vinstri menn vilja auðvitað ekkert við það kannast núna að einn vandi Íslands var skortur á markaðslegu aðhaldi þar sem það átti við.

Frjálshyggjan sem hugmyndafræði er takmörkunum háð, en það er í útfærslunni hjá spilltum fjárglæframönnum og stjórnmálamönnum sem hún verður fyrst tilræði við almannahagsmuni. Einkavæðing útaf fyrir sig þarf ekki að vera spillt. Að sölsa undir sig almannagæði er spilling.

Spilling er líka fólgin í ábyrgðarleysi – sem er algjörlega andstætt hugmyndinni um agaðan markað og ábyrgð einstaklingsins á gerðum sínum. Þeir sem lánuðu fátækum bandaríkjamönnum 99.9% í húsnæði sem þeir gátu aldrei borgað tóku enga ábyrgð: Lánin voru sett í vafninga og seld burt. Þeir sem keyptu lánavöndlana seldu þá áfram enn lengra burt – án ábyrgðar – og keyptu tryggingu sem fólst í að taka stöðu gegn afurðinni sem þeir seldu. Matsfyrirtækin sem keyrðu svínaríð upp gefa enn ,,einkunnir” - án ábyrgðar eða viðurlaga. Niðurstaðan: Enginn tekur ábyrgð – nema á endanum ríkið sem verður að bjarga þessu galna sýstemi.

Inni í hringiðunni miðri eru stjórnmálamenn af öllum stærðum og gerðum samsekir og sam-ábyrgðarlausir.

Ég held að við jafnaðarmenn deilum ekki um þetta. Sökin er samofin mörgum þáttum. Hjá okkur á Íslandi fór einstaklega illa af því að við vorum og erum vanbúin á mörgum sviðum: Félagslega, menningarlega, lýðræðislega og efnahagslega. Í áramótagrein sem ég skrifaði 2008/9 í Fréttablaðið lýsti ég aðdraganda Hrunsins sem ,,uppsöfnuðu vanhæfi”. Guðni Th. Jóhannesson gerir þau orð að lokaniðurstöðu bókarinnar sem hann skrifaði um Hrunið. Ég held ég standi við þá lýsingu enn.

Í grein minni í TMM vildi ég fyrst og fremst beina sjónum að spillingunni og mörgum fylgifiskum hennar. Í því felst engin syndaaflausn fyrir frjálshyggjuboðendur. Sé látið staðar numið við að kenna frjálshyggjunni um Hrunið (sem hugmyndafræði, sem pólitísku verkfæri), þá munu menn ekki taka á spillingunni. Er það ekki einmitt það sem nú gerist? Ekki bara á Íslandi, heldur hvarvetna?

Grein minni um Rányrkjubúið var einkum ætlað að að brýna fólk og varpa á það ljósi að ,,business as usual” er ekki markmið. Við sjáum þess víða merki nú að menn vilja láta nægja að endurreisa Gamla Ísland og taka til við að tvista. Innlegg mitt var til þess hugsað að hjálpa til við að byggja Nýja Ísland.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is