Félagsleg ábyrgð eða félagsleg fyrirtæki?



Friðarverðlaunahafi Nóbels, Muhammad Yunus telur að framtíð kapítalisma og skilvirkrar þróunaraðstoðar feli í sér nýja tegund fyrirtækja sem gagnist þróunarlöndum vel. Þessi fyrirtæki fá merkimiðann ,,félagsleg fyrirtæki” (social business) andstætt fyrirtækjum sem rekin eru með hámarksgróða í huga. En þau nýti marga kosti markaðskerfisins og drifkraftinn sem einkenni vel rekin gróðafyrirtæki. Þessi hugmynd á rætur í örlánabankanm Grameen sem löngu er heimsfrægur, og Yunus vill nú yfirfæra á margs konar starfsemi til þróunar í fátækum samfélögum. Hann hafnar hugmyndinni um ,,félagslega ábyrgð” einkafyrirtækja, sem t.d. Sameinuðu þjóðirnar hafa talað fyrir, því hún nái ekki nógu langt. Í þessari ritgerð eru bornar saman þessar tvær ólíku leiðir og leitast við að greina kosti og galla í þeim báðum, en einkum i leið Yunusar.




I. Einkarekstur

Ekki þarf að deila um að vel rekin einkafyrirtæki og öflugur markaður fyrir vörur og þjónustu skiptir þróunarríki miklu. Slíkur rekstur getur lagt grunn að auknum hagvexti og hagsæld, skapað störf og möguleika á að nýta mannauð og náttúruauðlindir þróunarríkja. Þetta var í raun kjarninn í þeiri leið, hagvaxtarleiðinni, sem Alþjóðabankinn og alþjóðasamfélagið lagði upp með samkvæmt ,,Washington leiðinni” (Washington consensus) og nýfrjálshyggjustefnunni á áttunda, níunda og fram á tíunda áratug 20. aldar. Uppgjörið við þá stefnu er ekki viðfangsefni hér, heldur ber að hafa í huga meginniðurstöðuna sem felur í sér að nýfrjálshyggjuleiðin hafi brugðist í mörgu efni og alls ekki snert líf og kjör þeirra fátækustu í Afríku til bóta. Eins og Stigliz (2004) og Önis og Senses (2005) rekja með dæmum gekk þessi kenning ekki upp. Eftirmæli Washinton stefnunnar eru orðuð svo hjá Stigliz (2004): ,,Það er enginn fræðilegur fótur fyrir því að á fyrstu stigum þróunar leiði markaðsöflin sjálfkrafa til skilvirkrar niðurstöðu” (bls. 4). Hin hulda hönd Adams Smiths nægir ekki ein.

En einkarekstur og markaðsöfl gegna eigi að síður mikilvægu hlutverki í því mikla og ólíka gangverki sem knýr sum þróunarlönd áfram, þótt önnur sitji eftir og dragist jafnvel afturúr (Collier, 2007). Meðal þess sem kynnt er til sögunnar til að yfirstíga vankanta markaðsvæðingar í þróunarmálum er félagsleg ábyrgð einkafyrirtækja (corporate social responsibility). Í stað þess að þau leitist við að hámarka gróða sinn með hverri þeirri leið sem lögleg og siðleg telst, taki þau sjálfum sér tak í þágu almannahagsmuna og samfélagsmála. Hugmyndin felst í raun í þversögn. Ef ,,hin hulda hönd” markaðarins sem knúin er ef sérhyggju og gróðasókn leiðir ekki sjálfkrafa til hinnar bestu fáanlegu niðurstöðu fyrir alla, eins og Adam Smith kenndi, eru þá einkafyrirtækin sjálf best til þess falinn að leiðrétta sig í þágu almannahagsmuna? Hví skyldu þau vera það? Þessari spurningu hefur hinn pólitíski vettvangur svarað neikvætt frá árdögum kapítalisma; almannavald verður að gæta hagsmuna almennings, og þar í felast t.d. leiðir til þróunar í fátækustu löndunum. Þessu sjónarmiði um mikilvægt hlutverk almannavaldsins hefur svo óvænt vaxið fiskur um hrygg á síðustu misserum á hinum ,,þróuðu” Vesturlöndum þar sem hver nýfrjálshyggjumaðurinn á fætur öðrum áttar sig á því að vanþróaðir fjármálamarkaðir sem hrynja eins og spilavíti í stórbruna þurfi regluverk að ofan. En það takmarkar ekki umræðuna um félagsleg ábyrgð einkafyrirtækja heldur færir hana enn ofar á listann yfir viðfangsefni í þróun.


2. Félagsleg ábyrgð einkafyrirtækja

Hugmyndin um að einkarekstur bæti upp eigin ágalla með samfélagslegri ábyrgð er ekki ný. En að einkafyrirtæki skuldbindi sig og gangi sjálfviljug undir eftirlit í þessum efnum, jafnvel á alþjóðlegan mælikvarða, er nokkuð sem ekki hefur verið reynt áður á sama kvarða og má sjá í átaki Kofis Annans fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna (2008) í Global Compact. Þar eru fyrirtæki hvött til þess að gangast sjálfviljug undir 10 grundvallarreglur um siðferði og góða hætti og þær tengdar beint við samþykktir og regluverk S.Þ. Hnattræn skuldbinding eins og S.Þ vilja fá fyrirtæki ti að samþykkja, þarf ekki að vera jafn stórbrotin í staðbundnum tilvikum. Skuldbinding getur verið á landsvísu í samtökum margra fyrirtækja, eða bara falist í einhliða yfirlýsingu eins fyrirtækis. Eðli málsins samkvæmt getur stefnuskrá fyrirtækis falið í sér ólíka þætti. Siðferðisleg skuldbinding getur falið í sér framlög til mála eða starfsemi sem ekki er auðveldasta gróðaleiðin hverju sinni, en talin samfélagslega æskileg; hún getur falið í sér samþykki við því að fara ekki svæsnustu arðránsleiðir hverju sinni, svo sem í samskiptum við ódýrt vinnuafl, og hún getur snúist um umhverfisstefnu sem skilgreind er eftir mismunandi leiðum. Þá getur félagsleg ábyrgð fyrirtækis falist í framlögum til mannúðarmála eða verið vítæk yfirlýsing um starfshætti sem jafnvel ganga í berhögg við skjótfengin gróða. Dæmi um stórt átak í þessum efnum á íslenskan mælikvarða er þátttaka Baugs Group í Hunter-Clinton þróunarsjóðnum.

Höfundarnir Garsten og Jackobsson (2007) benda á ákveðinn veikleika í þessum ólíku formum ,,ábyrgðar”. Hún er einfaldlega ekki ábyrg (accountable). Ábyrgð felur í sér nokkra þætti samkvæmt skilgreiningu. Hún er ekki bara ætlunarverk. Eins og Wenar (2005) rekur skýrt felast í ábyrgð ákveðnir grundvallarþættir: Gangsæi, svo hægt sé að ganga eftir því að stefnuskrá sé fylgt, formlegum leiðum utanaðkomandi aðila til að ganga eftir að aðgerðir séu í samræmi við yfirlýsta stefnu, og viðurlögum (sanction) einhvers þriðja aðilja fari ekki saman orð og athafnir. Í öllum þessum efnum er ,,ábyrgð” einkafyrirtækja takmörkuð, þó svo að verkefni eins og Global Compact leitist við að taka á gagnsæisvandanum með útfærðum skilgreiningum á ábyrgð sem fyrirtæki undirgangast að virða. Veikleikin felst í því að jafnvel þótt leitast sé við að skilgreina félagslega ábyrgð fyrirtæja í einkarekstri með víðtækum hætti, og þau fengin til að gangast undir þá kvarða með þvingun eða sjálfboði, er ekki hægt að beita neinum viðurlögum komi til brota. Það er hér sem Garsten og Jackobsson telja að hlutverk pólitíska armsins í borgaralegu samfélagi sé ótvírætt og verði að efla andstætt auðvaldinu sem fari sínu fram. Í raun sé hugmyndin um félagslega ábyrgð fyrirtækja alls ekki félagslega ábyrg, heldur fyrst og fremst kaldrifjuð leið til að koma sér undan almannavaldinu. Til að koma sér hjá kröfu um tiltekna hegðun, sem skerði gróða, taki fyrirtækin upp ,,ábyrga” stefnu og losi sig þar með við óþægindi sem felist í gagnsæisreglum og þar með möguleikanum á viðurlögum með dómsvaldi eða sektum. Hnattrænn markaður sé svo langt utan seilingar einstakra ríkja að fjölþjóðleg fyrirtæki fari í raun sínu fram. Engin ,,heimsstjórn” hafi yfirsýn eða fylgi eftir almannahagsmunum á veraldarvísu; einstök ríki séu sjálfum sér sundurleit og hið pólitíska vald brotkennt andspænis sameinuðum heimsyfirráðum auðvaldsins (bls 144). Hvers konar regluverk sem reynt sé að innleiða gjaldi fyrir það að engin geti fylgt því eftir með lögmætu valdi. Global Compact S.Þ. sé undir þessa sök selt eins og önnur svipuð verkefni.

Um gagnrýni höfundanna má segja að þessi ábending sé rétt, en ekki endilega greining þeirra á ,,sáttastjórn” fyrirtækja og almannavalds (consensus). Þær telja að hugmyndin um að hvorir tveggju, almannavald og einkafyrirtæki, geti hagnast (í breiðum skilningi) samtímis sé einfaldalega óráð (illusion). ,,Átök eru undirstaða stjórnmála” (bls 150). Þessi fullyrðing á sér djúpstæðar rætur í hugmyndasögu Vesturlanda, allt frá forn Grikkjum til Hegels, Marx og fram á okkar daga. En höfundarnir veita því takmarkaða athygli hvers eðlis þau átök eru sem þau telja eigi að síður svo mikilvæg. Átökin í heiminum í dag eru ekki um andstæða grundvallarskipan. Kapítalismi er módelið sem lang flest ríki jarðar hafa undirgengist; þau sem gera það ekki eins og Kúba eða Simbabwe lenda í ógöngum. Hvort sem höfundunum líkar betur eða verr. Átökin í heiminum, bæði á vettvangi viðskipta og stjórnmála, snúast um útfærslur af kapítalisma, þar sem leiðir eru ótrúlega ólíkar, allt frá norræna velferðarmódelinu til hins furðulega blendings sem kínverski einsflokkskapítalisminn er. Ekki er bent á aðra kosti sem hafa burði til að ógna þessu módeli að heiti geti. Við þessar kringumstæður spyr maður: Er betri kostur til en sá að knýja eða hvetja fyrirtæki sem ella gerðu ekki neitt í þeim efnum til að axla einhvers konar skuldbindingu um almannaheill? Og beita síðan auðvitað þeim tiltæku ráðum sem til eru til að fylgja þeim eftir. Þar hefur ríkisvald margar mismunandi leiðir, ríkjasamtök líka sem og alþjóðlegar stofnanir á borð við ILO. Hótun um pólitíska aðgerð liggur alltaf í loftinu brjóti fyrirtæki illa af sér. Ekki má gleyma því losaralega og síbreytilega afli sem heitir almenningsálit og mótast mjög af hnattrænum upplýsingakerfum sem síður en svo eru alltaf í þágu auðvaldsins. Höfundarnir komast því ranglega að mínu mati að niðurstöðu sem felur í sér ,,afnám stjórnmála” (absence of the political) andspænis sáttastjórnmálum (consensus). Svo er í reynd ekki eins og sýna má fram á með dæmum um fyrirtæki sem orðið hafa að breyta hegðan sinni, þótt það sé i sjálfur sér utan ramma þessarar ritgerðar. Og þá gera höfundarnir sig seka um grófar alhæfingar um lýðræði og borgaralegt samfélag sem einsleitt afl til mótvægis við auðvald; viðhorfið er nánast 19. aldar rómantískt hjá þeim þar sem virðist undirliggjandi hugmynd að á ,,markaðstorgi hugmyndanna” fái skynsemin alltaf ráðið að lokum, eins og John Stuart Mill taldi. Við vitum betur. Stjórnmálin eru ekki svo glæst. Þrætubókarlist andstæðustjórnmálanna sem litast af þröngum sérhagsmunum eða jafnvel spillingu er alls ekki alltaf besta svarið við sáttum um meginleiðir, þótt þær sættir feli í sér samninga við auðvaldsfyrirtæki. Þetta ber að hafa í huga þó svo að höfundarnir hafi mikið til síns máls um yfirburði markaðsvæðingar á hnattvísu í samanburði við ósamstætt almannavald í ólíkum ríkjum og fjölþjóðlegum stofnunum. Réttmæti ábendinga þeirra felst í því að hið pólitíska þurfi afl og styrk til að fylgja eftir kvöðum um ábyrgð; en þannig hefur það alltaf verið og sjaldan jafn ljóst og nú þegar milljónir milljóna eyðast á ógagnsæjum fjármálamörkuðum. Það væri því nær að knýja fram svipaða afstöðu og kemur fram hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur (2008) utanríkisráðherra Íslands sem réttilega greinir að félagslega ábyrg fyrirtæki séu viðskiptadrifin, og þurfi því aðhald frá almannavaldinu:

,,Ef félagslega ábyrg fyrirtæki eru viðskiptadrifin, hvert er þá hlutverk ríkisvalds til að knýja á um málefni sem varða siðferði, umhverfi og sjálfbærni í einkarekstri? Það hlutverk er lykilatriði til að koma þessum málum á dagskrá og hvetja fyrirtæki til að taka þau alvarlega.”
Þetta er ekki afnám stjórnmála, heldur þvert á móti, íhlutun stjórnmála.

3. Félagsleg fyriræki (social business).

Inn í þessa klassísku umræðu um að vinna með eða móti auðvaldinu kemur Muhammad Yunus (2008) og segir hana úrelta. Heimurinn sé ekki byggður upp af mannfólki sem sé annað hvort vondir kapítalistar með einkagróða í fyrirrúmi og hins vegar fólki sem þurfi að berjast gegn þeim á vettangi stjórnmála (svo myndin sé einfölduð). Yunus skipar sér í raðir þeirra fjölmörgu hugsuða sem reynt hafa að skilgreina ,,þriðju leiðina” (sem hann nefnir þó ekki því nafni) og breski Verkamannaflokkurinn undir fyrrum forystu Tonys Blairs á engan einkarétt á. Yunus setur traust sitt á að til sé fjöldi fólks sem sé reiðubúið að vinna samkvæmt mörgu því besta sem einkaframtak hefur kennt, en án kröfunnar um að gera það fyrir hámarksgróða. Við fyrstu sýn virðist hann vera á nákvæmlega sömu slóðum og Robert Owen forsprakki samvinnuhreyfingarinnar í Bretlandi á sínum tíma, og viðurkennir það að hluta. En hann gengur lengra í vilja sínum til að virkja einkaframtak og markaðsleiðir, þótt hann sæki greinilega mikið til hugmyndafræði sósíalisma og samvinnustefnu, enda leiðin kennd við ,,social” og ,,business” í senn. ,,Ný tegund atvinnulífs” (A new kind of business) er sá merkimiði sem Yunus gefur félagslegum fyrirtækjum sinum.


Yunus gagnrýnir ýmis form þróunaraðstoðar sem hann telur að hafi mistekist af mörgum ólíkum ástæðum (bls. 6-19). Rikisvaldið hafi galla, en hlutverk þess sé að skapa meginramma, utan um t.d. öryggis- og fjármálakerfi og tengjast öðrum ríkjum í alþjóðlegum regluverki. Meginþungi í gagnrýni hans á ríkisvaldið er að það sé alls ekki alltf reiðubúið að bregðast við þörfum þeirra sem höllustum fæti standa; það sé silalegt, skrifræðishlaðið, oft spillt og gangi fyrir sjálfu sér. Frjáls félagasamtök og líknarfélög eru gölluð líka, of háð sveiflukenndum framlögum, í raun ekki sjálfbær og skipulagslaus í allri fjölbreytni sinni. Þau eyða mikilli orku í að safna fé og þurfa alltaf nýja innspýtingu, auk þess sem ábyrgð þeirra gagnvart gefanda og þiggjanda sé óljós. Fjölþjóðlegar alþjóðastofnanir eins og Alþjóðabankinn þjáist af sömu sjúkdómseinkennum og ríkisstofnanir auk þess sem mælikvarðar þeirra á þróun séu svo einfaldir og grófir (t.d. hagvaxtartölur) að þeim yfirsjáist það sem gerist í raunverulegu lífi fólks, enda batni það sjaldnast fyrir þeirra tilverknað. Þær stofnanir fá falleinkun í ljósi reynslunnar. Hann tekur undir margt í gagnrýni Carstens og Jackobsens (2000) um félagslega ábyrgð fyrirtækja (Corporate Social Responsibility). Kapítalismi sé í raun hálf bökuð kartafla. Aðalástæðan er ekki ágallar markaðsfyrirkomulagsins, (sem eru augljósir), heldur sú að kerfið byggist á hugsanavillu (conseptualization failure) – um það hvers konar skepna maðurinn er. Fólk er ekki einnar víddar í sjálfsábatahugsun, sem á að vera drifkraftur kapítalisma. Fólk er almennt margra vídda. Víddir eins og samúð, samstaða, vilji til að hjálpa og félagsleg ábyrgð varða marga þætti samfélags og samskipta, svo sem þróunar. Einföld kapítalísk hugsun virkjar þessar víddir ekki. Kapítalismi getur ekki gagnast þeim sem erfiðast eiga.

Félagsleg fyrirtæki (social businesses), aftur á móti, leyfa þessum mörgu víddum mannlegs samfélags að njóta sín í þágu þróunar (bls. 21-40). Einkum miðast þau við að gefa atvinnurekendum og fjárfestum með hugsjón tækifæri til að spreyta sig í þekktu viðskiptaumhverfi og með viðurkenndum aðferðum rekstrar til að bæta hag þeirra verst settu. Félagsfyrirtækin eru eins upp byggð og venjuleg gróðafyrirtæki (profit-maximizing businesses) en hafa önnur markmið. Ef þau græða er gróðinn ekki tekinn út úr starfseminni, því ekki er greiddur arður. Félagsleg fyrirtæki eru markmiðsdrifin en ekki gróðadrifin. Markmiðið er umbætur fyrir fátækasta fólkið. En félagsleg fyrirtæki bera sig; þau endurheimta stofnkostnað og rekstrarkostnað og tapa því ekki fé eigenda, þótt þau ávaxti það ekki heldur, nema þá í þeim tilgangi að endurfjárfesta í þágu markmiðsins. Stofnfé er alltaf til staðar sem eign, og hægt er að endurgreiða það ef óskað er eða samkvæmt samkomulagi að loknum tilteknum uppbyggingartíma. Félagsfyrirtækin eru því sjálfbær, byggja ekki á gjöfum eða líkn. Þótt félagsfyrirtækin geti verið í margbreytilegri eigu, víkja þau ekki frá meginmarkmiðinu.

Félagsfyrirtækin eru líka samkeppnisdrifin. Þau keppa sín í milli, og við ríki og einkafyrirtæki um að ná sem mestri hagkvæmni og arðsemi – en bara ef arðsemin er mæld í árangri fyrir þá fátækustu. Þannig nýta þau kosti markaðsfyrirtækja og einkaframtaks án þess að lúta valdi gróðamarkmiðs og ávöxtunar á markaði. Yunus hafnar því þeirri kennisetningu sem hefur verið afar ráðandi í þróunarumræðu að ekki megi ,,keppa” við einkarekstur með þróunarverkefnum. Hann telur þvert á móti að samkeppni á þessari ,,markaðshillu” sé af hinu góða (bls. 26).

Svona fyrirtæki fylla upp í eyður í samfélaginu sem ábatadrifin fyrirtæki skilja eftir. Fjárfesting í kapítalísku kerfi á alltaf að leita uppi hámarksávöxtun. Út á það gengur kerfið. En lágmarksávöxtun eins og Yunus boðar er markmið félagslegra fyrirtækja sem taka að sér verkefni sem markaðurinn hafnar af því að fjárfestingafé leitar annað í von um meiri ávöxtun. Verkefni sem enginn hefðbundinn fjárfestir lítur við eru því tekin upp á arma félagslegra fyrirtækja, því þau sækjast bara eftir að bera sig til að leysa af hendi þjónustu. Þannig varð til örlánabankinn frægi, Grameen. Hann fyllti upp í eyðu sem markaðsbankar litu ekki við. Sex milljarðar dollara hafa verið veittar að láni frá upphafi, endurgreiðsluhlutfall er 99% og bankinn hefur fjármagnað sig sjálfur frá 1994.


III. Tvær grundvallarforsendur: Maðurinn vill gera gott og fátækir geta


Önnur grundvallarforsendan sem Yunus gefur sér er að til sé nægilegur fjöldi eignafólks sem vill leggja fé í fyrirtæki án gróðavonar. Efasemdum svarar hann á einfaldan og sannfærandi hátt: Lítið á allar líknarstofnanirnar og mannúðarsjóðina. Myndi fólkið sem styður þessi verkefni ekki alveg eins vilja leggja fé í starfsemi með sama markmið, en miklu meiri líftíma og þátttöku þeirra sem helst eiga að njóta? Svarið virðist blasa við og varla þurfa rökstuðning. Hin grundvallarforsendan er sú að líta hvorki á fátæka sem þolendur né þiggjendur, heldur gerendur.

Síðari forsendan þarfnast fremur rökstuðnings en sú fyrri. Hefðbundin þróunaraðstoð hefur mótast af skilgreiningum á verkefnum út frá skorti. Hún hefur líka mótast af mismunandi valdahlutföllum gefanda og þiggjanda þar sem sá síðarnefndi hefur í raun ekki nein úrræði gagnvart þeim fyrrnefnda nema vona það besta um að gjafmildin haldi áfram. Í versta falli er gjöfin auðmýking. Yunus telur að þróunarverkefni eigi að skapa á forsendum fátæka fólksins með því að veita því möguleika til að nýta tækifærin í nærsamfélaginu og virkja eigið atgervi í samræmi við þau. Bandaríski hagfræðingurinn Jeffrey Sachs (2007) tekur í svipaðan streng með hugmynd sinni um ,,Þúsaldarþorp” þar sem uppleggið er smávægileg innspýting, oft í formi áburðar eða útsæðis, til að rjúfa vítahring fátæktar. Á svipuðum slóðum er Hernando de Soto (2001) sem telur einnig að kapítalisminn hafi brugðist fátæku ríkjunum vegna þess að fólkið geti ekki leyst kapítalið allt í kringum sig úr læðingi. Sachs, Soto og Yunus eru því samstíga um margt með áherslunni á kapítal, fjármagn, þótt leiðir þeirra til að útvega það séu ólíkar. Soto leggur áherslu á að skapa lagalega og viðskiptalega umgjörð til þess að umtalsverðar eignir sem liggja bundnar í landi, húsnæði og kvikfé almennins verði veðhæft. Sachs lánar áburð til endurgreiðslu í maís, svo dæmi sé tekið. Yunus vill útvega þá peninga sem vantar með því að stytta leið og lána án veðkröfu. Örlán leggi grunn að þróunarverkefnum sem nái þar með miklu meiri árangri en verkefni sem vanræki þessa hlið:


Það kann að virðast undarlegt að telja fjármálahliðina í formi smálána grundvallarforsendu til að takast á við ólíka þætti þróunar. Hvað með menntun? Þjálfun? Lýðræði? Læsi? Svar Yunusar er einfalt: Með peningum getur sá fátæki virkjað afl sitt og tækifæri sem enginn þekkir betur en hann eða hún; síðan kemur allt hitt. Örlán leggi grunn sem öll önnur þróunarverkefni byggi á (bls. 75). Hann telur að þarna hafði áherslan í þróunarmálum síðustu áratuga verið á villigötum með því að skilgreina fátæka út frá skorti en ekki tækifærum, alls staðar séu dugnaðarforkar albúnir að stofna eigin rekstur og þurfi bara smáaura til þess. Félagsfyrirtæki geti komið mörgu góðu til leiðar, allt frá örlánum til námslána. Markaðsfyrirtækin hafi greinilega brugðist með hagfræðilegri blindu þar sem aðeins hámarksgróði er markmið. Hann gagnrýnir ómarkviss verkefni eins og þjálfun og menntun (capacity building) þar sem þau snúist oftar en ekki um annað en brýn og aðkallandi verkefni fólksins sjálfs; þjálfunin leysi í raun ekkert úr læðingi því hún er marklaus ef fjötrar fátæktar eru ekki rofnir.

Kenningin um félagsrekstur er ekki bara spennandi vegna þess að hún vekur upp klassíska umræðu um markað og einkaframtak í samhengi við þróunarmál, heldur einkum vegna þess að hún er reynd. Grameen örlánabankinn er aðeins eitt dæmi félagslegra fyrirtækja á vettvangi þróunar (bls 78-79). Grameen fyrirtæki eru á annan tug og taka að sér mismunandi hlutverk með mismunandi árangri, all frá fjarskiptum til jógútframleiðslu og námslána. Þessi þróun hefur verið hæg í yfir tvo áratugi og stendur enn. Yunus segir að aðferðin hafi ekki orðið til alsköpuð á fyrsta degi heldur hægt og hægt. Yunus getur því talað af reynslu, og hann getur státað af árangri, sem oft er betri en ,,hefðbundnar” leiðir í þróunarmálum geta sýnt fram á.

IV. Mótsagnir og viðfangsefni sem þarfnast betri skýringa.

Eitt þeirra dæma semYunus rekur í bókinni, og er höfuðsönnun þess hvernig hægt er að láta þessa hluti ganga upp, ásamt Grameen örlánabankanum, er jógúrt fyrirtæki í samvinnu við Danone auðhringinn franska. Það var sett upp í Bangladesh. Markmiðið var að framleiða og markaðssetja næringu sem væri mikilvæg fyrir fátæk börn og fátækasta fólkið hefði efni á. Fyrirtæki var sett upp með samskonar viðskiptaáætlun og venjulegt gróðafyrritæki (en án gróða), gerð áreiðanleikaprófun, vöruþróun og markaðsáætlun eins og vera ber. Félagslegu markmiðin settu Danone ákveðnar skorður: Verksmiðjur urðu að vera litlar og staðbundnar, nýta framleiðslu af svæðinu og sölukerfi kvenna í sveitinni. Öll þessi mál voru leyst. Dæmið sýnir að setji hefðbundnir rekstrarmenn sig í þær stellingar að svara félagslegum kröfum en ekki bara ávöxtunarkröfu geta þeir fundið lausnir sem ganga upp. Fyrirtækið gengur vel, en það fullnægir reyndar ekki kröfunni um frumkvæði að neðan, hugmyndin kom frá Yunusi sjálfum að ofan. Þátttaka á vettvangi kom einungis á síðustu stigum. Annar veikileiki í dæminu er sá að Danone fer í verkefnið sem samfélagslega ábyrgt einkafyrirtæki, en er að meginstofni er hágróðafyrirtæki, nákvæmlega af þeirri tegund sem Yunus telur ekki vænlegt til þróunarverkefna. Hann gerir sér grein fyrir þessri mótsögn og veltir fyrir sér hvernig framkvæmdastjórar Danones geti réttlætt framkvæmdina fyrri hluthöfum. Það geta þeir í raun ekki út frá hefðbundnum aðferðum. Niðurstaðan er sú að Grameen jógúrt sé svo lítill hluti af heildarstarfsemi Danones að hluthafar sætti sig við ,,tapið” af því að leita ekki hámarksgróða. En það er auðvitað ekki leiðin sem Yunus telur farsælasta.

Þetta vísar á annað viðfangsefni. Hvaðan á fjárfestingarfé í félagsleg fyrirtæki að koma? Höfundurinn viðurkennir að enn gangi of hægt að afla þess, og fer ekki beint út í þá sálma sem þó virðast augljósir: Verkefnin eru háð því að auður (surplus) sé skapaður annars staðar í hinni hefðbundnu kapítalísku starfsemi og hluta hans veitt í samfélagslega miðaðan rekstur, annað hvort beint frá fyrirtækjunum eða gegnum skattheimtu almannavaldsins. Hann horfir reyndar í tvær aðrar áttir líka: Annars vegar á fé sem rennur til líknarmála og ætti betur heima í sjálfbærum rekstri, og hins vegar fé þróunarsamvinnustofnana sem betur verðu fjármunum sínum í svona verkefni en þau sem hafa ekki hinn nauðsynlega grunn sjálfsbjargarviðleitni til að standa á. Í þessum tveimur síðarnefndu uppsprettum fjárfestingafjár má segja að Yunus hitti naglann vel á höfuðið, því um gríðarlegt fjármagn er að ræða á hnattvísu; þróunaraðstoð alls heimsins nálgast 100 milljarða dollara árlega og aðeins örlítið brot fer í verkefni á borð við Grameen fyrirtækin.

Enn eitt álitamálið í þessum rekstri er krafa hugsuðanna um að fyrst og fremst sé komið til móts við þarfir þeirra fátækustu. Það er félagsleg göfugt, en skerðir tekjumöguleika. Meðal þess sem Yunus leggur til er tvöfalt eða þrefalt verðlagningarkefi á vörum og þjónustu, þar sem hinir efnameiri borgi meira en þeir fátækustu. Allir sem komið hafa nálægt félagsþjónstu og greiðsluformum fyrir hana vita hve erfitt er að koma á slíku verðleikaprófi (means-test). Enda eru hugmyndir höfundarins næsta hálfbakaðar með tilvísun í velferðarkerfin sjálf, en þau eru götótt og illa skipulögð, ef þau eru þá til þar sem helst er þörf á. Þarna er höfundurinn greinilega á illa kortlögðum slóðum.

Meðal þess sem einnig þarfnast nánari umhugsunar í dæmum höfundar er ósk hans um að fyrirtæki séu sem mest í eign þeirra sem njóta þjónustunnar. Viðskiptavinir Grameen bankans eiga hann. En hér er komið að klassísku viðfangsefni sósíalisma, um annars vegar eignarhald fjöldans og hins vegar rekstrarlega ábyrgð og þekkingu. Í tilfelli Grameen bankans og fyrirtækjanna kemur sú þekking að ofan og er veitt af Yunusi sjálfum og nánustu samverkamönnum, vel menntuðum. Í fátækum sveitahéruðum þar sem hvorki hæfni né þekking er til staðar á því sem Yunus vill gera hlýtur stjórnviskan að koma utan frá. Og það gerir hún einmitt; um er að ræða framboðsdrifna þróun eins og í dæminu af jógúrtsölunni sem Yunus sjálfur kom á með franska fyrirtækinu eftir fund í París. Grameen móðurfélagið er reyndar orðið svo öflugt að það býður fram þjónustu sína í mörgum þróunarlöndum til að flytja inn rekstrarmódel og þekkingu í einum pakka, sem heimamenn geti síðan smátt og smátt yfirtekið. Hann er því ekki feiminn við frumkvæði og forystu að ofan þótt hann tali lika fyrir því sama að neðan. Til dæmis veitir örlánabanki hans ekki aðstoð í viðskiptahugmyndasmíð heldur telur slíkt hlutverk viðskiptavinarins. Fræðilega séð eru því skilaboðin blönduð, en Yunus er fyrst og fremst fyrir það að láta verkin tala eins og hann viðurkennir fúslega sjálfur. Það sem virkar best er best.

Það má líta svo á að félagsleg fyrirtæki eins og Yunus vill koma sem víðast á séu háð félagslega ábyrgum gróðafyrirtækjum að umtalsveru leyti, en lausnin gæti legið í breyttri stefnu alþjóðlegra stofnana og þróunarsamvinnustofnana einstakra ríkja sem komi í vaxandi mæli til móts við svona rekstur. Umræðan er því komin yfir á þann hinn pólitíska vettvang, það sem snýr að almannavaldi. Möguleikar Yunusar og fólks sem deilir með honum skoðunum á þeim vettvangi sýnast umtalsverðir, a.m.k. er Grameen bankinn Nóbelsverðlaunahafi og fyrirtæki sem líkja eftir honum skipta þúsundum í öllum álfum. Módel hans er reynt og hefur sannað sig í Afríku jafnt sem Asíu og Suður-Ameríku. Hann viðurkennir samt að enn sé margt ólært og óútfært. Fjármögnun sé vandamál og áður er vikið að stjórnunarþættinum, nokkuð sem hann telur að leysist með því að háskólar taki upp viðskiptafræðikennsu í félagsrekstri. Hann er líka með hugann við flæði fjármagns innan félagsgeirans og vill koma á laggirnar alþjóðlegum hlutabréfamarkaði fyrir félagsfyrirtæki. Vandinn er auðvitað augljóst: Hvernig verðmetur maður hluti í fyrritæki sem sækir virði sitt í huglægt mat á félagslegum markmiðum? Það eru reyndar fleiri en hann sem glíma við þetta verkefni, svo sem sjá má af rannsóknum austan hafs og vestan til að þróa viðskiptamódel fyrir félagslegar eignir í rekstrareiningum.

Þegar heildarhugmyndafræðin er dregin saman má ætla að það muni helst standa í þrautþjálfuðum kennismiðum þróunarfræða að samþykka þá fullyrðingu höfundarins að örlán til fátækra eigi að hafa forgang á allt annað. Að þetta sé fyrsta verkefni og með því standi og falli önnur þróunarverkefni. Hann rökstyður þessa fullyrðingu ekki fræðilega í neinum smáatriðum, en notar dæmin af Grameen fyrirtækjunum einkum til að styðja skoðunina, og þá einum dæmið af Grameen bankanum. Margir myndu ugglaust vilja bæta við grunn heilsugæslu og menntun á verkefnalista samtímis örlánastarfsemi sem ætlað er að efla smávöxt (sem er hugtak sem ég nota hér til að sýna mótvægi við höfuðáherlsuna á hagvöxt).



VI: Styrkur, að neðan.

,,Fátækt er margra vídda fyrirbrigði og snýst um líf og framfæri fólks. Til að frelsa fólk frá fátækt þarf að taka á öllum þáttum í lífi þess í einu, frá hinu staðbundna til hins hnattræna, frá hinni efnahagslegu vídd til þeirrar pólitísku og félagslegu, tæknilegu og sálfræðilegu. Þetta eru ekki aðgreind viðfangsefni heldur samofin” (Yunus, 2008, bls. 75).


Höfuðstyrkur í máli Yunusar er að kenning hans er ekki kenning heldur lifandi raunveruleiki. Á meðan viðfangsefni í hinum stóra kapítalíska heimi virðast stundum snúin er sigur hugmynda Yunusar bersýnilegur næst grasrótinni, og í því liggur styrkur þeirra einkum. Það er til dæmis athyglisvert að númer eitt í huga hans þegar upp er lagt, er að skilgreina fátækt með framkvæmdahlið málsins í huga (operational definition) miðað við staðbundnar aðstæður sem geti verið mjög breytilegar. Grameen bankinn er til dæmis með allt aðrar skilgreiningar á fátækt en lesa má hjá stórum opinberum stofnunum, og miða við raunverulegt líf við raunverulegar aðstæður. Þær aðstæður eru skilgreindar í 10 útfærðum liðum (bls. 111). Þegar lífsskilyrðum fólks hafi verið breytt í samræmi við þær teljist fátækt hafa verið útrýmt. Þessar skilgreiningar varða næringu, heilsu, menntun og daglegt líf. Gamla aðferðin sem mælir barar ,,tekjur á mann” dugar því hreint ekki. En það er ekki nóg. Grameen fyrirtæki leggja ákveðnar lífsreglur sem miða að því að lánin sem veitt eru tengist beint breyttum og betri siðum í lífi og starfi (bls. 59). Þessi boðorð eru gjörólík kvöðum venjulegra banka, og varða svo ólika þætti sem að rækta eigið grænmeti, sjóða neysluvatn, mennta börnin og nota kamar. Með bæði skilgreiningunni á fátækt út frá lífskjörum eins og þau eru, og þeim boðorðum sem bankinn leggur öllum á herðar, má segja að fyrstu skrefin til þróunar séu tekin samtímis því að fjárfest er í verkefnum. Þótt Yunus nefni það ekki þeim orðum má segja að í láninu felist félagslegur samningur. En það sem meira er, og gæti ef til vill verið lykillinn að velgengni bankans, er kvöðin um sjálfsábyrgð undir félagslegum þrýstingi. Bankinn tekur ekki veð í eignum. Það sem skýrir hátt endurgreiðsluhlutfall er sá félagslegi þrýstingur sem felst í því að aðrir lántakar gangast í ábyrgð fyrir einstaklinginn. Myndaður er hópur eða hringur lántakenda sem sækja félagslegan styrk hver til annars. Það er hin félagslega skömm sem felst í óreiðufjármálum sem heldur endurgreiðslum gangandi. Í raun tekur Grameen bankinn veð í félagslegri stöðu lánþega. En samtímis eflir hann félagsvitund og styrkir félagslega stöðu lántaka. Dæmið gengur því sannanlega upp.

Hvort þessi þvingun sé ekki óeðlileg svarar Yunus því til að enginn þurfi að semja við bankann. En þeir sem njóti kjara hans verði að uppfylla skilyrði sem eru miklu víðtæari en bara þau að borga aftur. Þau felast í margs konar breytni sem varðar hæg en örugg skref í átt til samfélagsbóta, öðru nafni þróunar.

V. Niðurstaða

Niðurstaða er sú að Yunus nálgast þróun bæði út frá allt annari grundvallarhugsun um stöðu mannsins í hagkerfinu heldur en hefðbundin er. Hugmyndin um félagsleg fyrirtæki stendur daglegu lífi fátæks fólks miklu nær en hugmyndin um félagslega ábyrg einkafyrirtæki. Hugmyndinni um félagslega ábyrg einkafyrirtæki er alls ekki hafnað hér, og þeirri skoðun mótmælt að hún hljóti einatt að vera yfirvarp til að losna undan kvöðum pólitíska valdsins. Hún gengur samt miklu skemur en Yunus, sem skilgreinir verkefnið út frá vilja og getu þeirra fátækustu til að taka skref til úrbóta á eigin forsendum og útvega þeim tæki og tól til þess. Það er öfugt við þá sem vilja sýna umhyggju fyrir þeim fátæku og hjálpa þeim, eða trúa markaðnum fyrir því að leysa málið. Yunus viðurkennir að umgjörð svona reksturs, hugmyndafræðilega, lagalega og viðskiptalega sé komin tiltölulega stutt. Enn er óútfærð hugmyndin um hlutabréfamarkað félagslegra fyrirtæki. En Yunus bendir á að reynslan sem þegar hafi verið aflað sé ólygnust. Um fjármögnun verkefna í félagslegum rekstri getur hann með sterkum rökum bent á hið gríðarmikla fé sem þegar rennur til líknar- og þróunarverkefna, að verja megi því með nýjum hætti. Hann svarar með viðskiptamódeli sínu kröfunni um sjálfbærni miklu betur en flestum hefur tekist til þessa. Og hugmyndir hans um þróun snúa bæði að sjálfsábyrgð einstaklingsins og félagslegri stöðu hans samtímis þegar tekin eru smá, en markviss skref til samfélagsbóta.







Heimildaskrá:

Carsten, Christina, og Jacobson, Kerstin (2007). Coporate Globalization, Civil Society and Post-political Regulation – Whither democracy? Development dialogue no. 49: 143-153.

Collier, Paul (2007). The Bottom Billion, Oxford, New York: Oxford University Press

Sameinuðu þjóðirnar. (2008). Global Compact. Tekið af: http://www.unglobalcompact.org/AboutTheGC/TheTenPrinciples/index.html 10. maí 2008.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (2008). Samfélagsleg ábyrgð íslenskra fyrirtækja, ávarp. Tekið af http://www.utanrikisraduneyti.is/frettaefni/Forsiduraedur/nr/4252
10. maí 2008.

Sachs, Jeffrey (2005). The End of Poverty, London: Penguin Books.

Soto, Hernando De, (2001). The Mystery of Capital, London: Black Swan.

Stigliz, Josep (2004). Post Washington Consensus Consensus. Initiative for Policy Dialogue. Sótt 10. nóvember 2007 af http://www0.gsb.columbia.edu/ipd/programs/item.cfm?prid=18&iyid=13&itid=553

Wenar, Leif (2005). Accountability in International Aid. Tekið af http://www.cceia.org/resources/articles_papers_reports/5211.html
10.febrúar 2008.

Yunus, Muhammad (2008). Creating a World Without Poverty, Social Businesses and the Future of Capitalism, New York, Public Affairs.


Önis, Ziya, og Senses, Fikret (2005). Rethinking the Emeerging Post-Washinton Consensus. Development and Change (36)2: 263-290.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is