Uppreisn í Orkuveitunni

Eigum við ENN að trúa?

Eða:

,,Það er mjög auðvelt að missa forystuna og við höfum engan áhuga á því."
(Guðlaugur Þór Þórðarson).

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins er í himinhrópandi andstöðu við orð sín og gerðir með ákvörðun sinni um að selja hlut OR í Reykjavik Energy Invest. Uppreisin í Orkuveitunni er fyrst og fremst uppreisn gegn borgarstjóra. Þar er hagsmunum Reykvíkinga fórnað til að knýja fram niðurstöðu sem í öllu er andstæð því sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur stutt í OR.


Eða ætla uppreisnarmennirnir á d-listanum að halda því fram að þeir hafi ekki vitað hvað var að gerast í OR á mörgum liðnum árum? Ekki einu sinni undir forystu Guðlaugs Þórs Þórðarssonar? Þetta gerðist á síðastliðnu ári:



1) Enex í Kína. Fyrir tæpu ári stóð ég sem þáverandi stjórnarmaður í OR við hitaveituhús í Xian Yang í Kína, þarna stóðu fjárfestar frá Íslandi ásamt fyrirmennum Orkuveitunnar og ráðherra frá Íslandi þegar ný hitaveita var vígð og áform um miklu meiri framkvæmdir kynnt. Kína yrði mesta hitaveituland í heimi með íslensku hugviti Orkuveitunnar og í samstarfi við fjárfesta.

Mogginn skrifaði leiðara um þennan atburð (5.des 2006) sem er í algjörri mótsögn við línu ritstjóra blaðsins undanfarna daga:

,,Bæði kunnáttuna og fjármagnið hafa íbúar Xian Yang nú fengið frá Íslendingum. Hitaveitan er samstarfsverkefni heimamanna og EnexKína en að því fyrirtæki standa Orkuveita Reykjavíkur, Glitnir og Enex, vettvangur íslenzkra þekkingarfyrirtækja í orkuvinnslu… Í þeirri þróun sem hafin er með þessu verkefni í Xian Yang geta falizt gífurleg tækifæri fyrir íslenzk fyrirtæki.”

Engin mótmæli urðu í Ráðhúsinu og því síður innan veggja Orkuveitunnar þar sem Guðlaugur Þór Þórðarsson hélt uppi merkjum útrásar Reykjvíkurlistans.



2) Mars 2007: Guðlaugur Þór stofnar Reykjavík Energy Invest: ,,Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur ákveðið að leggja allt að tveimur milljörðum króna til nýs útrásarfyrirtækis orkuþekkingar – Reykjavik Energy Invest. Auk nýs hlutafjár verða eignarhlutir Orkuveitu Reykjavíkur í Enex, Enex Kína og öðrum útrásarfyrirtækjum lagðir inn í nýja félagið. Reykjavik Energy Invest er alfarið í eigu Orkuveitunnar. Guðlaugur Þór Þórðarson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir í fréttatilkynningu markmiðið að viðhalda forystu fyrirtækisins í útflutningi þekkingar á umhverfisvænni nýtingu orkulinda, sérstaklega jarðhitans.” (mbl.is)

Engin mótmæli í Ráðhúsinu.

3) En hvað með kjarnastarfsemi? Háskóli Orkuveitunnar stofnaður.

Nú étur hver eftir öðrum að OR eigi að halda sig við kjarnastarfsemi, útvega vatn og rafmagn til borgarbúa. Fyrir rúmu ári stofnaði OR orkusjóð til að styrkja rannsóknir og síðan stofnaði OR háskóla (já, háskóla).

Aftur var það Guðlaugur Þór sem útvíkkaði skilning á kjarnastarfsemi:

,, STEFNT er að því að bjóða upp á meistara- og doktorsnám í orkufræðum í alþjóðlegum háskóla Orkuveitu Reykjavíkur árið 2008 með aðild Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík… OR verður faglegur og fjárhagslegur bakharl námsins, sem þýðir að OR leggur fram 100 milljóna kr. stofnkostnað … Á ensku nefnist hinn nýi orkuháskóli "Reykjavík Energy Graduate School of Sustainable Systems". Námið mun fara fram í húsakynnum OR og samstarfsháskólanna tveggja. Að sögn Guðlaugs Þórs efast fáir um að Íslendingar standa í fremstu röð á sviði umhverfisvænnar orku… Hagur OR er augljós… Það er mjög auðvelt að missa forystuna og við höfum engan áhuga á því." (Morgunblaðið).

Enginn mótmælti í Ráðhúsinu þegar rektor HR sagði þetta nýjasta skrefið í útrásinni.



4) Apríl 2007: Og Bandaríkin líka

,,ORKUFYRIRTÆKIÐ Iceland America Energy, sem er að mestum hluta í eigu íslenska fyrirtækisins Enex, hefur samið um smíði og rekstur á 50 MW gufuaflsvirkjun í Kaliforníu”

Enex= OR



5) Reykjavik Energy Invest nær fótfestu í Indónesíu

Þessi frétt er ekki frá síðustu viku, heldur síðasta mánuði, og þá hreyfði enginn andmælum í Ráðhúsinu: ,

,Reykjavik Energy Invest (REI), nýtt alþjóðlegt fyrirtæki í virkjun jarðhita, og Pertamina Geothermal Energy (PGE) hafa gert með sér samkomulag um samstarf þessara aðila að þróun jarðhitaverkefna í Indónesíu… REI er fjárfestingarfyrirtæki á sviði jarðvarma þar sem Orkuveita Reykjavíkur er kjölfestufjárfestir. Indónesía, sem er fjórða fjölmennasta ríki heims, er það land sem talið er búa yfir mestum jarðhitaauðlindum í veröldinni.” (Vefur OR).

6) 12 sept: OR er kjölfestufjárfestir

,,Stefnt er að því að REI verði leiðandi á heimsvísu í fjárfestingum í jarðvarmavirkjunum... Á blaðamannafundi í gær kom fram að stefnt er á að nýtt hlutafé í félaginu verði gefið út og að Orkuveita Reykjavíkur verði kjölfestufjárfestir í því með um 40% hlutafjár. (Mbl).

Enn engin mótmæli í Ráðhúsinu.



7) 29. sept: Og nú til Afríku!

,,GUÐMUNDUR Þóroddsson, forstjóri Reykjavík Energy Invest (REI), Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, kynntu í gær þá ákvörðun REI að fjárfesta í jarðvarmaverkefni í Afríku á næstu fimm árum við lokaathöfn árlegs fundar Clinton Global Initiative. Reykjavík Energy Invest (REI) skuldbindur sig samkvæmt samkomulaginu til að fjárfesta að lágmarki 150 milljónir Bandaríkjadala eða níu milljarða króna á næstu fimm árum.” (Mbl).

Eins og við munum var þá ákveðið að OR yrði kjölfestufjárfestir í REI með 40%. Og nei. Enn heyrast engin mótmæli í Ráðhúsinu.

8) Október í fyrra: Guðlaugur Þór vígir Hellisheiðarvirkjun.

 Hellisheiðarvirkjun selur orku til erlendrar stóriðju, talið er að verkefnið muni skila miklum hagnaði til OR, og verða til þess að ábati af starfsemi aukist mjög. Enginn talaði um að þessi orkusala á samkeppnismarkaði væri andstæð hagsmunum Reykvíkinga, og utan kjarnastarfsemi. Þvert á móti. Sjálfstæðisflokkurinn studdi hana eindregið og vill auka orkusölu til fleiri erlendra álvera, hefur m.a. undirritað samning um sölu til Helguvíkur.

Reyndar hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið áfram að láta OR greiða arð í borgarsjóð, en í tíð Reykjavíkurlistans hét það ,,að fegra stöðu borgarsjóðs”. Greiðslurnar eru vel á annan milljarð króna árlega og við umræður um fyrstu fjárhagsáætlun Sjálfstæðisflokksins spurði ég hvort einhver borgarfulltrúa vildi ræða þess ,,fegrun” sérstaklega. Það vildi enginn.

Eigum við ENN að trúa því að það hafi verið fyrst í síðustu viku að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fengu veður af öllum útrásarverkefnum OR um alla jörð?



9) Efla tengslin við Orkuveituna.

Eftir að hafa missst af þessu öllu vilja borgarfulltrúar d-lista efla tengslin við Orkuveituna með því að einn af þeim fari í stjórn í stað Hauks Leóssonar.

Hver er hinn stjórnarmaðurinn á d-lista? Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri.

10) Hvað segir Guðlaugur Þór nú?

Það vitum við ekki því hann svarar ekki.

En spurt er:Á nú að kasta fyrir róða öllu því sem áunnist hefur, fyrst og fremst fyrir tilstilli þess hve Orkuveitan er þekkt og vel metið fyrirtæki um allan heim?

Eigum við borgarbúar að missa þekkingarauðinn sem býr í fyrirtækinu og við höfum byggt upp með starfsfólki til að svala fró í innanflokksdeilum í Ráðhúsinu?

Markaðsstarf, viðskiptavild, þekkingarauður, mannskapur og geta til að mala gull í þágu borgarinnar – allt burt?

Eins og Guðlaugur Þór sagði mörg hundruð sinnum á stuttum stjórnarformennskuferli sínum:

,,Það er mjög auðvelt að missa forystuna”

Nú hefur verið samþykkt að kasta henni.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is