Lengjum skólaskylduna
Umræðan um gjaldfrjálsan leikskóla tekur nú á sig þá mynd að hefja beri skólaskyldu við fimm ára aldur. Ég hef boðað sveigjanlegri skil milli leik- og grunnskóla og meðal annars bent á kosti þess að hafa millistig, 5-8 ára barna. Það færi eftir þroska og vilja hvenær barn færðist úr ,,leik" skóla í ,,grunn"skóla, en mörkin þar á milli væru mun sveigjanlegri en nú. Það er því vel athugandi að færa skólaskylduna fram um eitt ár. En hvers vegna ekki lengja hana líka til 18 ára?



Allir vita að sextán ára unglingur sem hættir námi eftir grunnskóla á ekki marga kosti í lífinu. Enda reyna flestir við framhaldsskóla, með misjöfnum árangri eins og brottfallstölur sýna. Þetta hvarf frá námi er dýrt fyrir einstaklinginn, því það rýrir lífsgæði hans og möguleika síðar á lífsleiðinni, og það er dýrt fyrir samfélagið í mörgu tillliti.

Með því að lengja skólaskylduna upp í sjálfræðisaldurinn, 18 ár, viðurkennir samfélagið formlega að því ber skylda til þess að bjóða öllum unglingum á framhaldsskólastigi viðunandi úrræði í verk-, list- eða lesgreinum.

Þessi lengda skóla,,skylda" er því í mínum huga samfélagsskylda. Þeir sárafáu einstaklingar sem alls ekki geta hugsað sér nein menntaúrræði eftir að 10.bekk grunnskóla lýkur myndu fá lausn sinna mála í viðurkenndri starfsþjálfun.

En fyrir allan fjöldann væri þetta engin breyting, nema til batnaðar hvað það varðar að samfélagið viðurkennir rétt allar einstaklinta til náms við hæfi lengur en nú er.

Námsgögn og námsleiðir yrðu gjaldfrjáls í þessu kerfi.  Og auðvitað þarf að gera skilin milli skólastiga sveigjanleg, eins og ég hef áður barist fyrir.

Það er öllum til góðs.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is