Mistkst sameining vinstrimanna? J, fyrir lngu.
 
Kostulegt var að lesa Moggann helgina 15.apríl þar sem miklu púðri er eytt í að sameining vinstrimanna sé í þann veginn að mistakast vegna slakrar stöðu Samfylkinarinnar í skoðanakönnunum. Þeir fornu fóstbræður, Jón Baldvin Hannibalsson og Styrmir Gunnarsson, halda enn uppi fjörinu. Jón skrifar ágætis grein um meinta rótttækni Vinstri Grænna í Lesbók, og að venju leggur Mogginn útaf í ,,fréttum” og svo hinu virðulega Reykjavíkurbréfi. Þar í bréfi er spáð í orð JBH um að sameining vinstrimanna sé að mistakast með öllum þeim afleiðingum sem ritstjórinn ímyndar sér í kjölfarið. Ég spyr nú bara eins og táningarnir: Herramenn, where have you been? Og hvað nú, þegar skoðanakannanir eru allt í einu gjörbreyttar Samfylkingunni í hag?Sameining vinstrimanna mistókst árið 1999Í bók Magrétar Frímannsdóttur, ,,Stelpan frá Stokkseyri”, er lýst baksviði þeirra viðburða sem leiddu til þess að sameining vinstrimanna tókst ekki – fyrir kosningar árið 1999. Steingrímur J, Hjörleifur og Ögmundur spiluðu póker með sameiningarhugsjónina alveg fram á síðustu stundu þegar þeir stukku til og stofnuðu ,,róttækan” flokk. Við sem unnum baki brotnu að því að stofna nýjan og breiðan flokk jafnaðarmanna vissum því alveg hver staðan var þann góða sumardag þegar stofnfundur Samfylkingarinnar var haldinn með glæsibrag í Borgarleikhúsinu árið 2000. Þegar Sighvatur, Margrét og Guðný Guðbjörns gengu fram á sviðið vissu allir hverjir voru fjarverandi. Það aftraði engu okkar frá því að ala í brjósti þá von að upp risi frjálslyndur og umbótasinnaður flokkur jafnaðarmanna sem setti mark sitt á þróun íslensks samfélags á nýrri öld. Eins og Adda Bára sagði við þetta tilefni: Loksins, sameiningarflokkur alþýðu! Hvílíkur munur frá því fyrir örfáum árum áður þegar Alþýðuflokkur, og klofningsframboð hans í Þjóðvaka, Kvennalisti og hinar ýmsu fylkingar brotins Alþýðubandalags níddu skóinn hvert af öðru. Enda töldu allir aðrir flokkar að þessa nýja fylking væri helsta ógnin við sig og gerðu að megin skotspæni sínum fram á þennan dag. Steingrímur J. þreyttist ekki á því við slík tækifæri að dásama seigluna í gamla ,,fjórflokknum”.


En var þá stofnun Samfylkingarinnar mistök?


Þessi gamla frétt um að ekki hafi tekist að sameina vinstrimenn er því tæpast tilefni umræðu núna um stöðu Samfylkingarinnar. Samfylkingin hefur gengið í gegnum þrennar kosningar frá stofnun. Í þingkosningunum 2003 fékk hún stærsta þingflokk jafnaðarmanna frá upphafi, oddvitasæti í tveimur kjördæmum og hartnær þriðja hvert atkvæði. Í tvennum sveitarstjórnarkosningum fékk hún annars vegar rúmlega 30 próent og hins vegar tæplega 30 prósent yfir landið allt. Gefa þessar staðreyndir tilefni til þess að gefast upp í miðri kosningabaráttu og afskrifa allt okkar erfiði, hugsjónir og drauma vegna þess að skoðanakannanir eru óhagstæðar? Það fólk sem áður var landlaust í pólitík eða hraktist úr einu smávíginu í annað ætlar ekki aftur í það far.


Hvert er sögulegt hlutverk Samfylkingarinnar?


Ég skrifaði ritgerðarkorn árið 2005 sem ég birti á netinu og heitir: ,,Breytum rétt, leið jafnaðarmanna til móts við 21.öldina”. Þá var staðan betri í könnunum. Eigi að síður minnti ég sjálfan mig og aðra á, að hlutverk okkar væri annað og meira en bara það að komast í ríkisstjórn. Með nýjum flokki hefðum við skapað tæki til sóknar, en sóknin sjálf væri eftir. Í þeirri sókn yrði að birtast ,,...(v)ilji jafnaðarmanna hvar sem í flokki þeir stóðu og utan flokka til að endurskoða rækilega hugmyndir sínar, skoðanir, gildi og stefnu, og taka upp undir nýjum formerkjum. Stofnun nýs flokks var ein forsenda fyrir því að þetta gæti gerst. En ekki hið endanlega markmið.” Og vegna yfirvofandi kosninga leyfi ég mér að rifja upp þetta: ,,... kann mig að greina á við suma félaga sem telja næsta stóra markmið jafnaðarmanna að komast í ríkisstjórn. Það tel ég ekki vera. Næsta stóra markmið jafnaðarmanna er að kalla sjálfa sig til ábyrgðar um leið og gerð er krafa um ríkisstjórnarþátttöku. Það felur í sér að flokkur jafnaðarmanna verður að gerast ábyrgur á raunsannari hátt en flokkar hafa almennt talið sig þurfa. Ábyrgur fyrir siðvæðingu, samfélagsgildum, auðsköpun – og lýðræði. Og opinn fyrir eigin ágöllum, sem meðal annars eru hið takmarkaða umboð sem gamaldags stjórnmálaflokkar hafa. Hverfast ekki um sjálfan sig heldur opna út, þvert á hefðbundnar línur flokkastjórnmála og skilgreina sig ekki eftir forsendum ,,þingsins” heldur þjóðarinnar, sem er tvennt ólíkt.” Með þessum orðum vildi ég beina athygli félaga okkar að því langtímamarkmiði sem við hljótum að hafa fyrir augum. Ég taldi ekki þá, og tel ekki nú, að það sé hrun hugsjónar jafnðarmennsku á Íslandi að fá slæma útreið í skoðanakönnunum. Og jafnvel þótt úrslit einna kosninga verði vonbrigði væri lítill veigur í því fólki sem gæfist upp við svo búið.Framtíðarsýn eða skammtímaveiklun?Ég vona að lesendur hafi skilið að tilgangurinn með því að rifja upp tveggja ára skrif mín um eðli og tilgang Samfylkingarinnar er fyrst og fremst sá að sýna fram á að ég er ekki að finna upp afsökun eða réttlætingu fyrir tapi í kosningum sem enn eiga eftir að fara fram. En aðalatriðið er í mínum huga þetta: Hvernig sem þessar kosningar fara eigum við brýnt og mikilvægt erindi. Það er fráleitt að hverfa aftur til gamalla tíma. Ég held að ég hafi verið nokkuð nærri lagi þegar ég skrifaði í ritgerðarkorni mínu: ,,Nei, það er ekkert sérstakt markmið eitt og sér að komast í ríkisstjórn, þótt það sé mikilvægt. En verði spurt eftir 30 ár: ,,Hvað gerðist í raun frá 1994 til 2005 og tíu næstu ár þar á eftir?“ Þá myndi ég vilja að svarið yrði: ,,Til varð hreyfing fólks og flokkur sem endurskoðaði og útfærði hugsjónir jafnaðarmennsku á 21. öldinni, breytti viðteknum starfsháttum og venjum stjórnmála, vann þvert á hefðbundnar skotgrafir og línur úreltra flokka, náði að samhæfa og samþætta ólík öfl, félög, einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir til að sameinast um skýrt skilgreind lykilmarkmið.“ Síðan myndi ég vilja sjá bætt við: ,,…og hefur nú í 30 ár verið einn helsti hvati æskilegrar samfélagsþróunar og áhrifavaldur í opinberu lífi“.

Eru þetta ekki merkilegri ummæli en: ,,Tók þátt í samstjórn tveggja flokka árin 2007–2011 og aftur 2015–19”?


Engin framtíð eftir 12. maí?


Samfylkingin á enn möguleika á mun betri útkomu en kannanir sýna. En hvernig sem fer hefur erindi frjáslyndra jafnaðarmanna ekkert breyst. Ég trúi því staðfastlega að sé rétt á málum haldið geti orðið til sá burðugi flokkur sem gerir með réttu kröfu um forystuhlutverk í stjórnmálum á forsendum jöfnuðar og félagshyggju. Þar skipum við fremst þessum áherslum:
- Með markaðsvæðingu samfélagsins hafa losnað úr læðingi frumkraftar í atvinnulífi sem geta orðið mjög til góðs. En á móti verður að koma lýðræðisvæðing sem gætir almannaheilla gagnvart auðvaldi. Við eigum að fjárfesta í félagsauði andspænis auðmagni. Þessi lýðræðisvæðing er hið sögulega hlutverk jafnaðarmanna.
- Forsendur jafnaðarstefnu eru breyttar. Hún sprettur úr samfélagi stéttaátaka og örbirgðar alþýðu, en lifir nú í auðsæld og upplýsingu þar sem gera verður vaxandi kröfu um ábyrgð og samábyrgð borgara í stað ríkisforsjár. Hlutverk ríkisvaldsins er breytt, það færist minna í fang en áður þótti ástæða til, færir meira vald til borgara. Jafnaðarmenn vilja velferð, en velferðarríkið er ekki hinn endanlegi áfangastaður á þeirri leið.
- Samtímis félagslegum baráttumálum af þessu tagi leggjum við áherslu á hagrænar breytingar sem felast í því að Ísland þróist í átt til þekkingarhagkerfis en sé ekki jafn háð náttúrunýtingu og áður. Forsenda þess er menntastefna sem hefur að markmiði að hér bjóðist menntað vinnuafl sem er samkeppnisfært við það besta í heiminum.
- Síðast en ekki síst verða stjórnmálin sjálf að þróast frá skotgrafahernaði átakastjórnmála til samráðs og sáttastjórnmála. Til að breyta samfélaginu til góðs með markverðum hætti verðum við líka að breyta stjórnmálunum og því hvernig stjórnmálaflokkar starfa.

Þessari vegferð lýkur ekki í maí. Hvernig sem fer.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is