Tony Blair, vi og ,,au

(Maí 2007)
 
Um þær mundir sem 10 ár eru liðin frá því að Tony Blair var kosinn forsætisráðherra Breta neyðist hann til að tilkynna hvenær hann víkur úr embætti.  Ekki sjálfviljur, því fjögur af þessum 10 árum varði hann til að berjast í Írak.  Sá leiðangur varð honum dýrkeyptur.  En hver er réttlæting Tonys Blairs og hvernig lítur hann á stöðuna?  Í nýlegri grein í Foreign Affairs, (jan-feb 2007) fer hann yfir rök sín.  Þau eru mekrileg, vegna þess að í sömu grein bendir hann á að leiðin til framtíðar er einmitt EKKI sú sem hann kaus sjálfur.

Mér finnst þess virði að rýna í rök Blairs, ekki síst vegna þess að ég vil gjarnan vera í sama liði og hann, svo ósammála sem ég er leiðinni sem hann kaus.


,,Í baráttunni gegn hryðjuverkum vinnst aðeins sigur ef við getum sýnt fram á að gildismat okkar sé sterkara, betra og réttlátara en þeirra sem við berjumst gegn." segir Blair.  Þessu mótmæla fáir. Hugsjón sem byggir á manngildi, grundvallarvirðingu fyrir mannréttindum og lýðræði, er þess virði að berjast fyrir henni. Það er því nauðsynlegt að staldra við og hugleiða orð ,,stríðsherrans” frá Afgahanistan og Írak, vígfúsa forsætisráðherrans sem fylgt hefur Georg W. Bush við hvert fótmál um hina blóði drifnu slóð. Grein Blairs heitir ,,A Battle for Global Values – Our Values and Theirs” . Blair byrjar á því að undirstrika að stríðin í Afgahanistan og Írak snúist ekki um öryggismál heldur gildismat. Okkar gildismat og ,,þeirra”.


Virðing fyrir Islam

Blair gerir rétt í því að útlista virðingu sína fyrir Islam og siðaboðskap Kóransins og aðskilja frá því ,,fanatíska hryðjuverkaneti” öfgatrúarmanna sem baráttan er gegn. Og hann segir alveg réttilega að hryðjuverk séu ekki afleiðing af árásinni á Írak eða stríðinu í Afgahanistan. Árásin á Tvíburaturnana var orsök árásar á Afgahanistan, ekki öfugt. Og hann er sannfærandi þegar hann bendir á að öfgamenn vilji í raun ná yfirráðum í heimi hófsamra múslima. Til þess búi þeir til skotspón í Vesturlöndum, til að sameina sem flesta undir sínum merkjum. Þessari baráttu megi ekki tapa. Um þetta getum við mörg verið sammála. Og líka því að gildi ,,okkar” eru ekki bara gildi Vesturlandamanna. Blair flaskar ekki á því að tala um ,,vestræn” gildi. ,,Við” í þessu dæmi er allt gott fólk, kristnir, múslimar, gyðingar og hindúar, sem vilja trúarlegt umburðarlyndi, opið samfélag, lýðræði, mannréttindi og réttlát lög. Það er því þeim mun grátlegra að Tony Blair og félagi hans í Hvíta húsinu hafa gert þessum sameiginlegu gildum og baráttunni fyrir þeim meira ógagn en ég hygg að okkurn óri fyrir nú. Ekki síst vegna þess að í greininni vísar Blair vísar einmitt á gæfuleiðina sem hann hefði átt að velja, en gerði ekki.

Afgahanistan, svik við ,,okkar gildi”.

Blair er á villigötum þegar hann talar um innrásirnar í Afgahanistan og Írak sem tvær greinar af sama meiði. Hann réttlætir bæði stríðin í nafni þeirra gilda sem eru grundvallarþátturinn í grein hans. Innrásin í Afgahanistan var að lang flestra mati fullkomlega réttlætanleg sjálfsvörn eftir árásina á Tvíburaturnana. Talibanastjórnin skaut skjólshúsi yfir árásarmennina og veitti þeim friðhelgi til að athafna sig og fremja voðaverk um allan heim. Þetta var óþolandi. Árásin heppnaðist að því leyti að ógnarstjórn Talibana var velt, stríðsherrar um landið vítt og breitt urðu að draga sig í hlé og hryðjuverkamenn fóru í felur. Eftirleikurinn misheppnaðist gjörsamlega. Vesturveldin og heimsbyggðin brást Afgönum við uppbyggingu landsins. Öllum var ljóst að eftir áratuga hörmungar og stríð yrði uppbygging gríðarlega kostnaðarsöm. Hófsamir múslimar - ,,okkar” fólk svo notað sé orðalag Blairs - marg gekk eftir því við leiðtoga Vesturveldanna að landið yrði ekki svikið einu sinni enn. Þetta fólk tók áhættu með því að skipa sér í sveit með ,,okkar gildum”. Hér var prófsteinninn kominn á baráttuþrekið, sigurviljann og staðfestuna í baráttunni fyrir gildum okkar gegn gildum ,,hinna” í sinni svænsnustu mynd. Allt brást. Afgahnistan er nú á fallanda fæti, stríðsherrar vaða uppi, Al Quada liðar fara frjálsir um baklönd Pakistans og Afgahanistans á meðan Talibanar styrkja stöðu sína i mörgum héruðum. Afganskir félagar í baráttunni fyrir ,,okkar gildum” eru ekki í vafa um hvað leiddi til þessa ástands: Bretland og Bandaríkin snéru sér að Írak og gleymdu Afgahanistan. Ástandi í Afgahanistan er nú hroðalegt, eins og lýst er í grein í sama hefti Foreign Affairs og Blair skrifar um ,,ávinninga” innrásarherjanna í lýðræðismálum.

Írak: sýnikennsla í því sem við viljum ekki.

Árásin á Írak var í andstöðu við Sameinuðu Þjóðirnar. Eins og allir vita voru notaðar falsaðar tylliástæður til að réttlæta hana. Fundin var upp réttlæting sem kallast ,,fyrirbyggjandi” stríð. Þetta er hugmynd sem hvaða vitleysingur í hópi blóðþyrstra þjóðarleiðtoga getur gripið til eftir hentugleikum. Írak var sannanlega ekki hluti af því alþjóðlega neti hryðjuverkamanna sem Tony Blair segir að teygi nú anga sína til 30-40 ríkja heims. Írak var ekki ofið í net Al Quaeda. Saddam Hussein var harðstjóri. En hann var ekki alls ekki sá eini og fráleitt sá síðasti í hópi rikisleiðtoga. Baráttan gegn hryðjuverkjum var notuð sem skálkaskjól Bandaríkjanna til að sölsa undir sig eitt olíuauðugasta ríki heims og komast til áhrifa í þessum hernaðarlega mikilvæga heimshluta. Þess vegna er Tony Blair ótrúverðugur þegar hann segir að árásin á Írak hafi verið í nafni þeirra gilda sem allt gott fólk vill efla. Að hann og Georg W. Bush skyldu hafa svo rangt við gagnvart eigin umbjóðendum í lýðræðisríkjum er nóg til að efast megi um hollustu þeirra við þau sömu gildi og baráttan er sögð byggjast á. Þegar svo bætast við lögleysan og mannréttindabrotin ofan í blóðbaðið sem engan endi tekur er ljóst að inrásin í Írak er árás á þau gildi sem henni er að sögn ætlað að heiðra. Okkar gildi.

Rökin halda ekki hjá Blair

Hægt er að elta Blair uppi með mörg þau rök sem hann notar. Ef alþjóðlegt net hryðjuverkamanna reynir nú að sölsa undir sig áhrif í 30-40 ríkjum heims, hvernig ætlar hann að sigra það með árás á Írak? Ef það sem nú blasir við í Afgahistan og Írak er sigur lýðræðis, eins og hann segir, hvaða afskræming af lýðræðisgildum okkar er sú ógnaröld? Þessu svarar reyndar fyrrum forsætisráðherra Singapúr, Le Kuan Yew í sama hefti Foeign Affairs. Hann bendir á að ákveðnar samfélagsforsendur þurfi að vera til staðar fyrir lýðræði í raun. Þær séu fráleitt til staðar í Afgahanistan eða Írak. Kosningar í þessum löndum einar og sér segi nákvæmlega ekkert um lýðræði. Blair er því á villigötum þegar hann heldur því fram að það ,,lýðræði” sem nú blasi við í hernumdu löndunum tveimur sé ,,áfall” fyrir öfgasinnaða múslima. Le Kaun Yew varar þvert á móti við því að sá árangur sem andspyrnan hafi náð í báðum ríkjum sé innblástur fyrir alla blóðþyrsta vígamenn. Þessu til viðbótar blasir nú við hverjum manni að bæði Talibanar og Al Quaeda liðar hafa fengið að búa um sig í friði í Pakistan, sem leikur tveimur skjöldum. ,,Samvinna” herforingjanna í Pakistan í baráttunni fyrir ,,okkar gildum” gegn ,,þeirra” er sérstakur kapítuli sem leiðtogar hinna vestrænnu ríkja vilja sem minnst um ræða. Al Quaeda var aldrei í Írak, en alltaf og er enn í Pakistan.


En veigamestu rökin gegn Blair í þessari ritgerð eru auðvitað þau sem lengi hafa blasað við: Blair, Bush og allir hinir ,,vígfúsu” hafa brugðist þeim grunngildum sem þeir þykjast verja. Fanganýlendan í Guantanamo er bara eitt dæmið; kveinstafirnir þaðan enduróma um heimsbyggðina. Þessi mannréttindabrot afhjúpa boðbera ,,okkar gilda” sem verstu hræsnara sem nú eru uppi. Og gefa mestu óþokkum heimsins réttlætingu fyrir ríkisreknum hryðjuverkjum í skjóli þessarar fyrirmyndar. Á meðan eru stuðningsmenn ,,okkar gilda” í Afríku, Suður-Ameríku og Asíu ráðalausir. Eðlilega hika þeir við að samsama sig því sem nú gerist í Írak og Afgahanistan. Hvað þá ganga fram fyrir skjöldu og leggja lið í baráttunni ,,sem ekki má tapast”. Það sem Blair segir að hafi verið meginmarkmið innrásanna hefur því gjörsamlega mistekist. Hans eigin orð: Markmiðið var ekki bara að skipta um ríkisstjórnir heldur skipta um gildismat og gildi. Gerir maður það svona?

Erfitt að sannfæra almenning

Blair skellir skuldinni að hluta á almenning á Vesturlöndum. ,,Kaldhæðnin er sú að hryðjuverkamennirnir átta sig betur á því sem er í húfi en margir á Vesturlöndum”. Kann að vera rétt. Það er mikið á sig leggjandi fyrir manngildishugsjón. Meðal annars það sem Blair kallar eftir, að við séum ,,stórhuga, samkvæm sjálfum okkur og fylgjum eftir af staðfestu í baráttunni fyrir þeim gildum sem við trúum á”. Í mínum huga hafa þeir Blair og Bush brugðist í öllum þessum atriðum, og einkum í því sem mestu skiptir: að vera samkvæmur sjálfum sér. Þess vegna eiga þeir erfitt með að sannfæra almenning og alla aðra sem vilja leggja lið í baráttunni fyrir góðum gildum.


En í grundvallaratriðum hefur Blair rétt fyrir sér


Það væri lítið varið í að rekja það sem að framan greinir, ef ekki væri að finna í ritgerð Tonys Blairs ákall um annað og betra. Hann hefur nefnilega rétt fyrir sér í meginatriðinu. Baráttan fyrir lýðræði, frelsi og mannréttindum má ekki tapast. Og leiðin til þess er einmitt ekki sú sem hann fór, heldur hin sem hann bendir á: Að sýna í verki að ,,okkar leið” sé betri en ,,þeirra”. Blair segir: ,,Ef við trúum á réttlæti, hvernig getum við liðið að 30.000 börn deyi daglega, þegar við vitum að hægt er að koma í veg fyrir það?” Og með því að koma á friði í Palestínu væri hægt að sýna fram á í reynd að ólík trúarbrögð og ólíkir menningarheimar geta búið í sátt. Það væri sýnikennsla í því að ,,okkar gildi” duga best. Í Afríku þarf að berjast gegn fátækt, hungri, sjúkdómum og stríði með því að auka aðstoð. Og alþjóðlegt samkomuleg um verslun þarf að hjálpa þriðja heiminum til bjargálna, með því til dæmis, að verndarstefna Evrópu verði aflögð. Og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum eru líka hluti af þeirri ,,hnattrænu íhlutun” sem Tony Blair boðar og trúir á. Í þeim efnum dugar ekkert nema það ,,hnattræna bandalag” sem hann kallar eftir. Réttilega varar hann við því að einangrunarhyggja verði ofaná í Vesturheimi. Þar eru hann og mannúðarrsamtökin bresku, Oxfam, sammála. Í nýrri skýrslu Oxfam er einmitt rakið hvernig aðgerðir Breta og Bandaríkjamanna í Afgahanistan og Írak kunni að leiða af sér pólitískt bakslag. Aðgerðarleysi á öllum þeim sviðum sem Blair vill taka á af ,,stórhug” verði í raun niðurstaðan af því klúðri sem leiðangur þeirra Bush og Blairs leiddi af sé.

Lærdómurinn?


Grein Tonys Blairs er skrifuð í undanfara þess að menn minntust því að fjögur ár voru liðin frá innrásinni í Írak. Fjórar milljónir manna eru landflótta, landið í rúst og borgarastyrjöld framundan sem enginn sér fyrir enda á. Átján árum eftir að Berlínarmúrinn féll reisa Bandaríkjamenn nýjan borgarmúr, í Bagdad, sem er sönnun þess að ,,okkar gildi” hafa tapað í Írak. Annar múr hlykkjast um lönd gyðinga til varnar ,,guðs útvöld þjóð” og bannar Palestínumönnum allar bjargir undir nýrri tegund aðskilnaðarstjórn. Sönnun þess ,,íhlutun” okkar dugar ekki og,,okkar gildi” tapa. Í Afgahanistan sér heimsbyggðin að það þýðir ekkert að vera í ,,okkar liði”, því við bregðumst og ,,hinir” eru í sókn. Auðvitað eru þetta engin endalok. Hvað sem líður því bölvaða svartnætti sem kallað hefur verið yfir okkur höfum við ekki tapað í baráttunni fyrir manngildi. Við getum enn gert það sem Tony Blair langar að gera: Breytt hugsjón í ,,realpolitik”. En á þeirri leið þurfum við fyrst að endurheimta það sem mestu varðar og við nú tapað. Það er traust.


Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is