Sveigjanleg skil skólastiga


Aukin afköst og árangur í námi á öllum skólastigum ættu að vera kjörorð umræðu um menntamál. Tillögur um ,,styttingu” framhaldsskólans taka alls ekki á meginkjarna málsins, sem er: Samþætting allra skólastiga, mikið brottfall framhaldsskólanema og takmarkað námsframboð til þeirra, þróun nýrra námsleiða og kennsluaðferða til að koma til móts við nemendur á öllum aldri.

Grunnskólinn hefur lengst – og eflst

Á undanförnum árum hefur grunnskólinn í raun lengst um rúmlega tvö ár að mati þeirra sem stýra því skólastigi, án þess að ný markmið um árangur og afköst hafi verið sett fyrir landið í heild. Skólaárið hefur lengst, skóladagurinn einnig; samtals nemur þetta meira en tveimur árum. Reynsla okkar í Reykavík sýnir að umtalsverður hópur nemenda getur flýtt fyrir sér með því að taka einingar á framhaldsskólastigi þegar í 9. og 10. bekk grunnskólans. Sú er nú raunin og markmið okkar að fjölga enn í þessum hópi.

Reykjavíkurborg er fyrir sitt leyti fyllilega reiðubúin að gera samning við ríkið um að taka fjölda framhaldsskólaáfanga inn í grunnskólann og auka námsframboð sitt til grunnskólanema og ,,flýta” fyrir þeim eftir mætti og getu hvers og eins. Þannig gæti hugsanlega ein önn eða meira færst frá framhaldsskólunum til grunnskólanna, en eftir sem áður fengu dugmiklir nemendur að hraða sér enn meira.

Brottfallið er áfellisdómur

Brottfallið er brýnasta vandamál framhaldsskólanna og er í raun birtingarmynd þess að skólinn bregst þörfum unga fólksins. Hér er framhaldsskólinn almennt á eftir þróun grunnskólans.
Fjölmörg verkefni á grunnskólastigi sýna að bráðgerir nemendur geta tileinkað sér meira nám en ,,staðalmyndin” gerir ráð fyrir; hægfara nemendur njóta sín einnig betur í verkefnum sem eru sniðin fyrir þá; þeim líður betur og auka afköst sín. Þetta er afsprengi stefnu sem nú er í innleiðingu og kennd við einstaklingsmiðað nám og aukna samvinnu nemenda. Þessa reynslu grunnskólanna ætti að færa yfir á framhaldsskólanna. Í stað þess að telja framhaldsskólanámið í árum og hugsanlegri ,,styttingu” á að mæta nemendum með afkastahvetjandi námsaðferðum – bæði fyrir þá sem eru hraðfara, og eins hina sem mest hættan er á að verði brottfalli að bráð.


Fyrsta skólastigið – leikskólinn

Krafan um fjölbreyttara námsframboð við hæfi á líka að hljóma á fyrstu stigum menntakerfissins. Á dögunum hitti formaður fræsluráðs Reykjavíkur 18 ára stúlku í Tékklandi, hún talaði góða ensku, enda lært það tungumál í 11 ár. Sama dag átti ég samtal við borgarfulltrúa frá Zagreb í Króatíu, þar byrja börnin að læra ensku sex ára. Í Reykavík tökum við nú fyrstu skrefin í þá átt að samtvinna grunnskóla og leikskóla; það er mitt mat að leikskólarnir hafi þróast vel á liðnum árum og séu fyllilega til þess bærir að útfæra meira nám á sínum forsendum og veita áhugasömum nemendum aukin tækifæri, ekki síst fimm ára. Við eigum líka að gefa þeim nemendum yngstu bekkja grunnskólans sem vilja bæta við sig í námi tækifæri til. Samkvæmt könnunum okkar í Reykjavík telja um 40% nemenda að grunnskólinn sé ekki of erfiður, og ætla má að a.m.k. 20% geti bætt við sig námi. Örugglega gæti enn stærri hópur aukið afköst í námi umfram núverandi kröfur. Hvað mælir gegn því að setja sér það markmið að senn verði tiltekið hlutfall grunnskólanemenda læsir á fyrsta ári og á fyrstu árum grunnskólans verði boðið upp á tungmálanám með aðferðum leikskólans: Nám með leik? Ódýrasta og hagkvæmasta aðferðin til að ,,stytta” framhaldsskólann er að gera það neðan frá.

Viðmið eiga að vera þroski og hæfni ekki ártal

Með því að ræða málið á þeim forsendum sem hér er lagt til snýst það ekki um árafjölda í skóla. Leikskólinn hefur þróast hratt úr ,,dagvist” í menntastofnun og á mikil sóknarfæri; grunnskólinn er í mikilli gerjun og margt af því besta sem þar gerist vísar veg fyrir framhaldsskólann. Hann situr eftir og virðist ekki taka mið af breyttum kennsluháttum neðri skólastiga og háskóla. Framhaldsskólaárin snúast eins og allir vita um svo miklu meira en um eiginlegt nám sem ráðuneytið skilgreinir. Samfélagsvitund, menningarlíf og félagsþroski verða að fá sitt rúm. Þessum þætti framhaldskólalífsins verður að veita athygli. Ég er því ekki einvörðungu að tala um að ,,hraða á færibandinu” eða ,,stytta það” til að skila fólki einu árinu fyrr út á vinnumarkaðinn, heldur meðal annars leggja til að aukin framleiðni og afköst í námi á öllum skólastigum geti nýst til að skapa svigrúm til að mennta fjölhæfa og vel þroskaða einstaklinga. Útskrift miðist við þroska og hæfni en ekki árgang.

Ekki bara spurning um skóla – heldur líf

Í Danmörku búa menn sig nú undir að stór hluti vinnuafls helstu fyrirtækja þurfi að vera jafnvígur á enska og danska tungu. Hvernig ætlum við að mæta slíkum kröfum með 33% brottfall úr framhaldsskóla og 30-40% vinnuafls sem hefur grunnskólapróf eða minni menntun? Hin pólitíska forysta Reykjavíkurborgar hlýtur að horfa mjög gagnrýnin á frammistöðu framhaldsskólakerfsins. Hvernig samrýmist geta framhaldsskólanna því markmiði okkar að Reykjavík verði alþjóðleg heimsborg þar sem framsækin fyrirtæki sækjast eftir að starfa? Ætli borgin að bjóða upp á nútímanlegt líf með öllum þeim tækifærum og möguleikum sem krefjandi störf bjóða uppá verðum við einfaldlega að gera miklu meiri kröfur til skólakerfisins. Umræðan um ,,styttingu” framhaldsskólans er því alltof þröng og tekur alls ekki á meginmálinu.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is