12.12.2010
Dagbækur: Allir litir heimsins eru grænir


Eins og guðirnir hafi keypt alla grænu litinna í næstu vatnslitaverslun og notað á Malaví. Þungbúin regnský eru penslar sem þeir draga eftir himninum og eldingarnar ímyndunarafl sem á sér engin takmörk. Þrumurnar andvörp guðanna af feginleik þegar þeir sjá landið grænka og gænka og grænka. Nokkrar slettur af gulu og þeir eru með þetta: Mangóin lýsa á trjánum eins og jólastjörnur áður en þau falla til jarðar og fylla körfur fólksins.

Það stefnir í fín regntímajól. Akrar standa fagurlega skreyttir beðum fyrir maísfræ sem bændur sá um leið og sýnt er að rigningar séu hafnar af krafti. Tréin laufbúast og grasið hækkar um marga sentimetra daglega. Það er dásamlega svalt milli skúra, bara 25 gráður í staðin fyrir bökunarofninn sem stilltur var á 40 fyrir nokkrum vikum.

Útskurðarmeistarar við vegarbrún selja jólavarning, og bregaðst við aukinni eftirspurn með því að bjóða upp á Maríu og Jósep með jesúbarnið í harðviðarútgáfunni. Allt á að seljast. Líka lyklakippur, skálar og óróar. Á leið upp fjallaskarð eru endalausar raðir af mangófötum og –bölum. Full fata kostar 150 kall (ef maður er vitlaus útlendingur sem kann ekki að prútta). Eitthvað er eftir af tómötum og laukum frá því fyrr á árinu en kartöflur virðast hægt og bítandi hverfa af mörkuðum. Í hönd fara ,,mörsugur” og aðrir slíkir mánuðir, þeir kallast svo vegna þess að maísbirgðir heimilanna frá því fyrr á árinu fara þverrandi og nú hefst biðin eftir næsta árs uppskeru. Hún verður í mars. Jólin marka því upphaf svengdartímans.

Sunnudagur á aðventu: Prúðbúin hjón ganga til kirkju klukkan átta. Lítil hnáta er komin í sunnudagskjólinn sinn, heiðbláan með kögri. Slánar hanga við bensínstöð en annars er rólegt meðan við Freyja varðhundur höldum út í skóg í göngu. Svona eiga sunnudagsmorgnar að vera: Við fögnum þungbúnum skýjum sem hrannast upp yfir korngeymslum ríkisins úti við sjóndeildarhring, það fer svalur gustur um laufgaðar greinar og hvarvetna ryðjast úr moldu grænir sprotar og drekka í sig sólstafi sem brjótast í gegn. Áin er bólgin og kolmórauð eftir rigningar síðustu daga. Yfir göngustíginn liggur svart strik: Þúsundir og aftur þúsundir maura hafa tekið sig til og ákveðið að nú séu fardagar, þverhandarþykkur straumurinn beljar fram út úr holu í moldarbarði og liggur þvert yfir stíginn og rakleiðis inn í aðra holu þar sem þeir hverfa undir sölnuð lauf og sprek. Mörg eru dags augu sagði skáldið.

Það er skrítið: Í Suður-afríska gervihnattasjónvarpinu eru spilaðar jólastiklur og kynningar á því sem framundan er í nafni frelsarans: Allt er á kafi í snjó í þeim heimi! Hamingjusamar blökkumannafjöskyldur fara í jólainnkaup einhvers staðar í Jóhannesarborg eða Durban og hundslappadrífan leikur um þær syngjandi sælar! Og jólasveinninn í þessum auglýsingum er auðvitað spikaður Kólasveinn og kolsvartur í hríðarmuggunni sem búið er að teikna inn á myndirnar. Glingló og bjöllur og gott ef hreindýr sést ekki skjótast fyrir horn. Maður hefði haldið að Sveinki hér ætti antilópusleða...sleða? Þar sem ekki hefur snjóað í 50 milljónir ára – nema í sjónvarpinu. Ímynd jólanna er snjór, líka hjá þeim sem aldrei hafa séð neitt annað en græn jól.

Annars er fátt sem minnir á jól. Nema í ,,stór”verslunum þar sem vel stæða fólkið verslar. Starfsfólkið hefur sett upp rauðar skotthúfur og komnir kalkúnar í frystikistur, og innflutt súkkulaði hefur rutt sultukrukkum úr vegi í öndvegishillunni. Menn sóa ekki rándýru rafmagni á jólaseríur, kerti og spil eru munaðarvara sem fæstir leyfa sér. Þeim sem vel vegnar í lífinu mun auðnast kjúklingur og hrísgrjón á jóladag. Aðrir halda sig við hinn eilífa maísgraut – nzima. Bara að magarnir væru nú jafn fullir og kirkjurnar á jólunum.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is