25.10.2010
Dagbkur fr Afrku: Sept-okt 2010


Götulistamenn í Maputo sýna listaverk til sölu.  Afrísk myndlist hefur þróast um þúsundir ára!

Fornleifafræðingar vilja vernda steina og hellaristur í Sahara eyðimörkinni, listaverk sem eru mörg þúsund ára gömlul og vitnisburður um löngu liðna menningarheima. Víða um Afríku má líta svona steinamyndir og þær einkar fagrar víða, svo sem í Namibíu þar sem Twyfelfontain steinamyndirnar eru sýndar þúsundum ferðamanna árlega, enda á heimsminjaskrá:

Í heimalandi mínu, Malaví. eru slíkar ristur víða um land og eru á heimsminjaskrá UNESCO. En þetta eru vel varðveitt leyndarmál, mörg hundruð steinamyndir frá liðinni tíð sem fáir vita hvar er að finna. Landið hefur ekki efni á að varðveita og gæta myndanna, svo þær eru best geymdar þar sem fæstir vita um.

En það er öllum opinbert í Mósambik að ,,frelsi" í símkortum hefur verið afnumið. Nú þarfað skrá alla farsíma á eigin nafn. Eftir óeirðir fyrr í haust (vor hér) berast böndin að ónafngreindum SMS sendendum sem smöluðu á mótmælafundi. Þessar steinaristur samtímans þurfa að vera öllum kunnar og höfundarnafnið ljóst í skjalasafni stjórnvalda svo nú geta mennn ekki keypt ,,frelsi" á götum úti, áfylling er á eigin kennitölu og allar sendingar rekjanlegar. Enda mikil menningarverðmæti á dögum hækkandi brauðverðs.

Mósambik er merkilegt land. Standlengjan ótrúleg, hvítar stendur liggja marflatar fyrir hlýjum brimöldum Indlandshafs. En hér er töluð portúgalska. Þessi arfleiðfð nýlendutímans er ekki beint skiljanleg. Í landinu eru á annan tug heimatungumála og innan við 40% tala ríkismálið, mál hinna gömlu gráðugu og illu nýlenduherra sem fóru afskaplega illa með landið.

Fátækt fólk í sveitum sem talar sitt gamla móðurmál þarf að strita við að læra að lesa á portúgölsku! En svo man maður að enska er ríkismál í Malaví, Namibíu, Botswana og Suður Afríku þótt í þeim löndum tali heimamenn önnur mál - og Swahili næst því að vera sameiginleg tunga. En enska er þó skárri hvað það varðar að nota má hana víðar um lönd en þessa undarlegu portúgölsku sem bara er töluð í afskekktri sveit í Vestur-Evrópu og svo í Brasilíu. Hvað er Mósambik að púkka upp á Portúgal og Brasilíu ef það er bara gert með harmkvælum?  Fólkið í fullorðinnafræðslunni talar sitt heimamál, en þarf að læra að lesa á tungu nýlenduherranna.

Fengitími froskanna er hafinn í Malaví, það heyrist ekki mannsins mál í húsinu á kvöldin og eina nóttina var einn af þessum hávaðasömu náungum kominn inn í svefnherbergi í leit að ástfroski. Þeir eru á stærð við appelsínu en hávaðinn í hverju dýri eins og í skipasmíðastöð í Póllandi. Fréttatíminn hjá BBC kafnar í látunum þegar karldýrin rífa hurð af hjörum með ástarköllum sínum, kvendýrin flykkjast á vettvang og pornóið getur byrjað.

Haustlitirnir hafa náð hámarki, þetta eru reyndar vorlitir hér, því þegar þurrkur hefur staðið mánuðum saman ákveða tréin að fella lauf þótt daginn lengi og hitar aukist, sú er vörn þeirra gegn uppgufun. Hitinn fer vel yir 34-5 gráður á dag, þegar heitast er, og morgungangan þarf að hefjast milli 05-06 til að nota svalar 20 gráður eða svo. Mollan hvílir svo yfir þangað til í nóvember, þá má fyrst sjá ský á himni sem breyast til volduga bólstra sem eru efni í miklar þrumur og eldingar. Þangað til keppast bændur við að erja akra sína og gera all klárt fyrir sáningu. Þetta eru ,,sumarstörfin".

Hér háttar svo á sumrum að gróður er laufvana, jörðin sviðin og hörð, allt þurrt og skrælnað eftir ,,haustlitavor". Frá desember og fram í mars rignir svo hressilega nokkrum sinnum á dag og ef allt gengur eftir þjóta maísplönturnar úr jörðu til að fóðra 13 milljónir Malava sem eiga lifibrauðið undir því að þetta dæmi gangi upp.

Og samt, lífið er aðeins flóknara. Þótt fólkið borði maís og aftur maís selur landið tóbak til útlanda. 70% af útflutningstekjum eru frá tóbakssölu. Og nú ætlar Alþjóða heilbrigðisstofnunin að banna tóbak þeirrar tegundar sem Malavar rækta. Þetta er blendingstóbak sem hentar vel í margar tegundir af sígarettum til að milda bragð og draga úr remmu. Einkar gott? Nei, því alls konar hliðarverkanir eru slæmar og gera vondar sígarettur verri, fyrir utan að mörgum finnst bara ágætt að naglarnir í líkkistur reykingamanna séu sem verstir á bragðið. Þetta litla fátæka land sem hefur sett svo mikið truast á tóbaksfíkn heimsins hefur því miklar áhyggjur. En lengi er von á einum: Kínverjar segjast ætla að auka innkaup sín.   Það er þó tæpast nóg.  Ekki mættu íslendingar við þorskátsbanni um víða veröld eins og nú háttar og því auðvelt að setja sig í spor þeirra Malava sem hugsa baráttumönnum gegn reykingum þegjandi þörfina.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is