30.4.2010
Dagbkur: Aprl-Ma 2010

Namibískt grunnskólabarn í skólabúningi.

Þá er það komið: Hverjum manni dugar ein kona. Þetta segir ráðherra jafnréttismála og barnaverndar í Malaví og vill banna fjölkvæni í landinu. Múslimir telja þetta aðför að trú sinni og venjum, og ekki bara þeir, ýmsir ættbálkar líka. Rök ráðfrúarinnar eru þau að karlmaður eigi að einbeita sér að því að elska eina konu og gæta sameiginlegra barna en ekki dreifa kröftum sínum um of. En fjölkvæni er algengt í Afríku og kristnir þjóðarleiðtogar eiga ekki alltaf auðvelt með að breyta rótgrónum venjum. Forseti Suður-Afríku, Zuma, er til dæmis á þriðju eiginkonu samkvæmt Zulu venju og þá ekki taldar fyrrverandi, né hjákonur allar.

Rökin fyrir fjölkvæni eru ekki af verri endanum: Í Malaví eru kynjahlutföll ójöfn, 53% íbúa eru konur sem þýðir að aðeins 47% karla standa til boða í einkvænishjónabönd. Hvað á að gera við afganginn af konunum? er spurt. Og ákafur talsmaður fjölkvænis taldi óhikað að þær myndu leiðast út í vændi. Og viðskiptavinirnir yrðu þá væntanlega giftir karlar sem betur hefðu þær bara að eiginkonu númer 2 eða 3 í staðinn fyrir að þjóna fýsnum á afviknum stöðum. Í himbalöndum Namibíu er fjölkvæni algengt og alls ekki fráleitt að digur bóndi eigi 6 eiginkonur. Börnin geta því skipt tugum, en til að standa undir slíkri útgerð þarf hann auðvitað að eiga talsverðan fjölda nautgripa.

Eitt sinn átti ég tal við vel kvæntan bónda sem sagði sex konur ágætt fyrirkomulag og spurði hve margar við Íslendingar mættum eiga. ,,Við megum eiga sex eiginkonur” svaraði ég að bragði, ,,en bara eina í einu”. Honum fannst það alls ekki galið fyrirkomulag þótt hitt væri betra, það yki samheldni í stórfjölskyldunni að hafa alla saman. Hvers vegna sundra fjölskyldum þegar hægt er að sameina?

Eftir ferðir um sunnanverða Afríku á þessu hausti (já, hausti á suðurhveli jarðar) eru fréttir bara nokkuð góðar. Nautgripir eru feitir og fallegir í himbalöndum í norð-vestur Namibíu og gróður með besta móti, vatnsból gefa vel og geitur róa í spikinu. Merki um að regntíminn hafi verið góður. Það rigndi enn um páskana í Kalahari eyðimörkinni í Botswana og blómahafið stórkostlegt, mörkin samfelld grænka og gripir í góðum holdum.

Í Okavangó óshólmunum var nægt vatn og flóðin frá Angóla rétt að byrja að vökva svæðið, fiskar feitir í vötnum og antilópur fráar á fæti í klofháu grasi. Í Suður-Afríku er allt að verða klárt fyrir fótboltaveisluna miklu í júní, vellir vel þjappaðir og götuskreytingar með afbrigðum líflegar, stórir uppblásnir boltar sveima yfir görðum í Jóhannesarborg og bolir prýða verslanir, á mjög svo uppsprengdu verði því allir ætla að græða. Verst að lið heimamanna er aðhlátursefni, engin hefur trú á að Bafana Bafana sveinarnir hafi roð við aðkomumönnum.

Loksins gat alþýða í Suður-Afríku keypt miða í söluskálum og kom ekki til af góðu: Mun færri Evrópumenn hafa keypt miða en ætlað var. Einhvern tíman var búist við 500 þúsund Evrópumönnum en þeir verða víst helgmingi færri.  Heimamenn kættust þegar FIFA lét af vestrænum söluvenjum (netsala með greiðslukorti) og setti þúsundir miða á markað heimamanna sem gátu greitt út í hönd eins og þar er venja; greiðslukortamenningin hefur ekki náð inn í fátækrahverfin enn. Flugvöllurinn í Jóhannesarborg er eins og gljáfægð postulínsskál frá Bing&Gröndal svo spegilfagur - splunkunýtt er allt. En það verða martraðir á þeim velli í sumar er marka má nýlega reynslu: Margfaldar biðraðir við endalaust eftirlit.

Verða þetta Afríkuleikar?  Tæplega.  Einhver sagði að einungis væri búið að selja 11 þúsund aðgöngumiða í ríkjum Afríku utan landsins sem heldur HM.  Það er rándýrt að ferðast milli landa í Afríku, og ekki stór sú stönduga millistétt sem þarf til að fylla svona mót af áhorfendum.  Aðgöngumiði á leik getur kostað 25 þúsund eða jafnvel miklu meira í betri sæti, hótel og gististaðir hafa sprent allt upp og flugfélögin líka.  Nei takk segir sá milljarður sem býr í Afríku og má teljast heppinn að ná leikjum á gervihnattasjónvarpi, en áskrift að því kostar nú líka sitt.

Hér í Malaví rignir enn svo merkilegt sem það nú er, mánuði eftir að allt á að vera þurrt og aðeins farið að verða svalara snemma morguns og síðla kvölds. Daginn styttir. En nú eru allir litir heimsins grænir í Malaví: Gróðursældin slík. Og það lítur út fyrir fína uppskeru á flestum stöðum svo fáir verða svangir á útmánuðum.

Brúðkaup aldarinnar var haldið með pompi og pragt, Bingu forseti (75) á hvítum smóking og nýbökuð eiginkona, Madam Callista (ca 53) voru upp á sitt besta þegar bíla- og mótorhjólalest lagði upp frá forsetahöllinni árla morguns (28 bílar og mótorhjól) á íþróttaleikvang þar sem fjögurra klukkutíma athöfn stóð, með alls 50 söngvum úr ýmsum áttum.

Nýinnflutt ofurlímósína flutti svo brúðhjónin eftir krókaleiðum um höfuðborgina svo sem flestir mættu augum líta og leiddi til þess að hádegisverðarboðið sem átti að hefjast klukkan 13 var fyrst að fara í gang þegar flestir bjóða upp á síðdegiskaffi. En hlaðborð svignuðu undna geitastúfi, grjónum, maísstöppu, steiktum fiski og nautakássu. Ekki skorti drykki heldur og flugeldasýning lýsti kvöldhiminn undir dynjandi dansmússik, slík púðurskot eru mjög fátíð hér um slóðir og vöktu undrun og ánægju heimamanna í lágreistum byggðum höfuðborgarinnar. Gjafir voru gefnar: Peningar í förmum, geitur, naut, grjónapokar og Land Rover frá örlátum gesti.

Og nú er Ísland á allra vörum. Það er ekki auðvelt að útskýra eldgos undir jökli hér þar sem fæstir hafa séð snjókorn og eldur í jörðu er álíka framandi og líf á Mars. ,,Ímyndaðu þér stórfljótið okkar hér í Malaví, en ekki sem vatn heldur flæðandi kol úr grilli” sagði ég við garðyrkjumanninn og hann átti ekki orð. ,,Ímyndaðu þér svo ísinn sem við setjum í drykkina okkar og gerðu úr honum fjöll”. Það var upphrópun í lagi. ,,Ímyndaðu þér svo eldstrók sem rís til himna eins og svörtustu skýjabólstranir um regntímann og lætin eins og þrumurnar okkar hér í Malaví dúndri allan daginn í marga mánuði”. Honum var öllum lokið.

Hvernig er hægt að búa í slíku landi?

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is