6.2.2010
Hvað segir fáni um þjóð?

Malavíski fáninn fer bærilega í því landslagi sem hann á heima í, og táknin skýr:  Græni liturinn táknar náttúruna í hinu ,,Heita hjarta Afríku" eins og landið nefnir sig.  Rauði liturinn táknar blóðfórnir Afríkubúa og Malava þegar þeir brutust til frelsins.  Svarti liturinn táknar hinn svarta kynstofn.  Og rísandi sól skýrir sig sjálf: Ný dögun í Afríku.  En þarf að breyta þessu tákni?  Malavar ræða nú hvort ekki sé kominn tími til að að sýna sól í fullri stærð.  ,,Við erum komin svo langt á þróunarbrautinni" sagði einhver, rísandi sól segði ekki nægilega vel hvernig staðan er, hún ætti að vera hátt á himni!  Einhver myndi segja að varla væri tímabært að setja sólina alla upp í sinni miklu dýrð því spottakorn væri eftir á þróunarbrautinni.  Helmingur landsmanna er undir fátæktarmörkum, fjórðungur barna vannærður, 33% ríkisútgjalda eru styrkjafé, 6% íbúa með rafmang, og hagkerfið eins og hjá smáfyrirtæki á alþjóðamarkaði.  En samt, þeim finnst mörgum að svo miklu hafi verið áorkað að tímabært sé að hækka framfaramerkið og hefja upp á hinn svarta himinn.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is