27.10.2009
Hverja mínútu deyr kona af barnsförum


Malavísk móðir: Sextán konur deyja daglega af barnsförum í landinu.

Heilbrigðisráðherrar fjölmargra ríkja komu saman á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Addis Ababa 26.október til að ræða eitt brýnasta heilbrigðisvandamál heimsins: Dauða kvenna af barnsförum. Hverja mínútu deyr kona af barnsförum í heiminum. Flestar í Afríku sunnanverðri. Margar konur búa við örkuml eftir að hafa alið barn vegna þess að þær hafa ekki aðgang að sjúkrahúsum með menntuðu starfsliði til að fá nauðsynlegar aðgerðir.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands styrkir nú einmitt verkefni í einu af fátækustu héruðum Malaví þar sem tekist er á við þetta vandamál á hverjum degi. Árangur er bersýnilegur.

Hvað veldur því að konur deyja miklu frekar af barnsförum í þróunarlöndum en í ríku löndunum? Fyrst og fremst skortur á grunnþjónstu. Vanfærar konur fá ekki greiningu á vanda sem kann að skapast á meðgöngu. Þegar kemur að fæðingu er oft óravegur á næsta sjúkrahús eða heilsugæslu þar sem þjálfað starfsfólk getur aðstoðað við erfiða fæðingu. Afleiðingin er að konur í Malaví og öðrum þróunarlöndum láta lífið miklu oftar en þar sem heilsugæsla er góð. Í Malaví er mæðradauði tíðari en í nokkru öðru landi – að þeim löndum slepptum þar sem ríkir stríðsástand. Í landinu deyja 16 konur daglega af barnsförum. Talið er að fjórtánda hver fæðing endi með dauða móður í Malaví. Þegar haft er í huga að hver kona í landinu fæðir að meðaltali sex börn sést hve ógnin er skelfileg.

Hægt er að koma í veg fyrir lang flest þessara dauðsfalla með lágmarks grunnþjónustu og aðferðum sem eru vel þekktar. Samt deyr hálf milljón kvenna árlega af barnsförum. Eitt af þúsaldarmarkmiðum S.Þ. er að minnka þessa dánartíðni um ¾ fyrir árið 2015.

Heilsugæsluverkefni ÞSSÍ í Mangochi ræðst beint að þessum vanda. Sjúkrahúsið við Apaflóa hefur verið byggt upp til að efla grunnþjónustu. Nú rís á spítalalóðinni glæný fæðingardeild sem mun bæta þjónustuna með byltingarkenndum hætti. Í fyrra var tekin í notkun skurðstofa þar sem keisaraskurðir og aðgerðir á konum eru meginþáttur starfsemi. Enginn vafi er á að þessi þjónusta hefur bjargað mannlífum, og gerir áfram, í hverjum mánuði.

Þróunarsamvinnustofun hefur og reist heilsugæslustöð í Nankumba, sem er jaðarbyggð í héraðinu, þar sem fæðingardeildin er stöðugt í notkun. Í nærliggjandi byggð, enn lengra frá alfaraleið, er ætlunin að byggja upp litla fæðingardeild fyrir þá sveit, enda eiga konur langan veg að sækja þegar kemur að fæðingu. Sjúkrabílarnir sem ÞSSÍ gaf og rekur komast ekki um héraðið yfir regntímann og oft hamla vegleysur því að hægt sé að sækja konur í barnsnauð.

Svonefndnar ,,yfirsetukonur” (Traditional birth attendants) eru í hverju þorpi. Þótt ÞSSÍ hafi staðið fyrir námskeiðum fyrir þær dugar það skammt. Þetta eru oftast konur sem læra af sér eldri hvernig á að bera sig að, skilja á milli og svo framvegis, en þær geta ekki greint aðsteðjandi vanda eða veitt hjálp eins og fagfólk. Því hafa stjórnvöld nýlega bannað þeim að taka á móti börnum á hefðbundnum bastmottum í leirkofa í heimaþorpi, og krafist að þær vísi konum til heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa. Vandinn við þá ráðstöfnun er bersýnilegur: Ekki er til nægt starfsfólk né aðstaða til að allar konur í Malaví geti fætt undir eftirliti. Helmingur kvenna í landinu fæðir börn utan formlega heilbrigðiskerfisins. Jafn æskilegt og það er að konur fæði við kjöraðstæður með aðstoð fagfólks er það óraunhæft á næstu árum. Þess vegna beinist verkefni Þróunarsamvinnustofunar að þessu stóra vandamáli með beinskeyttum hætti. Í byrjun næsta árs verður opnuð stór og rúmgóð fæðingardeild, og dugi framlög til næstu tvö ár er ætlunin að styðja litla heilsugæslustöð í fjarlægri sveit til að koma upp fæðingarrúmum. ÞSSÍ útvegaði vatnsból við þessa stöð í síðasta mánuði og þjálfað starfsfólk er þegar til reiðu.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is