23.6.2009
Íslendingar gefa skóla

Munurinn á því að vera í skóla með góðri aðstöðu og skóla þar sem ekkert er fyrir hendi getur skipt sköpum. Þetta er inntak í grein Sunnudagstímans í Malaví. Þar er bent á tvær stúlkur sem ganga í ólíka skóla í Mangochi: Annar er nýr, þróunaraðstoð frá Íslendingum og þar er Hawa Mateuy að undirbúa samræmdu prófin fyrir framhaldsskóla. Skólinn hennar er glæsilegur. Hin er Joanna, hennar skóli er þaklaus með hálfhrundum veggjum, 450 nemendur um tvo kennara.... örlög hennar eru slæm.  Tveir ólíkir skólar, tvær ólíkar framtíðir segir blaðið.


Þróunarsamvinnustofnun hefur byggt eða endurgert á þriðja tug skóla í héraðinu. Stundum fylgja með í pakkanum kennarahús, sem er ein af frumforsendum þess að fá kennara til að setjast að í svona fátæku sveitahéraði. Og búnaður þarf líka að vera með: borð og bekkir.

St. Augustine skólinn skartaði sínu fegursta þegar haldin var vígsluathöfn þar sem fyrirmenni úr héraði, foreldrar og embættismenn ráðuneytis fögnuðu ásamt fulltrúum ÞSSÍ. Fjörið var í umsjá nemenda sem sungu og dönsuðu og fluttu skörulegar ræður svo glumdi í nýjum hvítkölkuðum skólaveggjum inni á lóðinni.

Í héraðinu eru 300 þúsund börn á grunnskólaaldri, helmingur þeirra lærir ekki í skólastofu heldur í forsælu undir tré. Þau sem þó komast í skólabyggingu eru oftar en ekki í sporum Joönnu, húsið að hruni komið og vanbúið í alla staði. Og svo vitum við ekki hvort kennarar eru í vinnu þar.

Kennararnir í St. Augustine voru mjög ánægðir með sína aðstöðu og tóku þátt í fagnaðarhátíðinni.

,,Við höfum næstum allt í skólanum, kennara, námsefni til að skila árangri” segir Hawa. Sumum þætti þó fjöldi nemenda á hvern kennara ansi mikill: 70:1. Hér sjást teikn á lofti um að góð aðstaða vinni gegn alltof háu brottfalli nemenda. Skýrslur frá Mangochi tala sínu máli um það.  Og samt eru borðin 40 í hverri kennslustofu.

Til að gera góðan skóla betri þarf vatn og hreinlætisaðstöðu. Þegar rennt er tilbaka frá St. Augustine förum við hjá Namazizzi skólanum sem var fyrstur í röð skóla sem ÞSSÍ byggði. Krakkar standa í röð við dælu og þvo sér um hendur eftir karmarsferð, eða fyrir skólamáltíð sem World Food Programme stendur fyrir. Vatn og hreinlæti – þetta þarf að vera til staðar í skóla. Og bókasafn. Og kennarar.

Í öðru héraði hittum við fulltrúa félagasamtaka sem standa fyrir kennaraþjálfun í fallegum skóla. Námið er tvö og hálft ár og er sérstaklega ætlað þeim sem vilja kenna í sveitaskólum eins og í Mangochi. Kennaranemar læra að búa til námsefni sjálfir, nýta það sem er til staðar í umhverfinu, og laga það sem betur má fara með eigin höndum. Hluti af náminu er að læra félagsfærni og frumkvöðlastarf til að drífa með sér foreldra í skólasamfélaginu. Þessir skólar eru nokkrir, eru sérsniðnir að þörfum Malaví og nemendur koma þaðan útskrifaðir í að bjarga sér við erfiðar aðstæður. Kennaraefnin eru galvösk þegar þau sýna alls konar verkefni sem þau hafa búið til og henta sem námsefni þar sem ,,ekkert” er til.

Þótt skólarnir sem Ísland byggir í Mangochi þættu ekki merkilegir í samanburði við þá sem fyrrverandi formaður menntaráðs Reykjavíkur afhenti í hverfum borgarinnar við svipuð tækifæri eru þeir samt ótrúlegt framfaraskref. Um það vitnar Joanna sem situr við hruninn vegg þar sem ekkert er þak. Og þegar ekið er um sveitina má sjá stóra krakkahópa sitja á jörðinni undir trjákrónu og stakan skugga af kennara sem stendur við töflu úti á víðavangi. Ef það er þá tafla. Hér er af nógu af taka fyrir þá sem vilja mennta fátæk börn.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is