10.5.2009
Forsetinn endurkjörinn


Bingu forseti sýnir sig á spjaldi við aðalgötu í Lilongwe með frjósama maísakra í bakgrunni, því það er tákn velsældar í landinu. 

Fyrsti kjósandi sem ég hitti var gömlu kona, hún stóð í kjörklefa sem var sérhannaður úr stífum pappa undir tré. Með kjörseðil í hendi. Ákaflega hrukkótt og skorið dökkt andlitið eins og Ódáðahraun, hún var með marglitt sjal sveipað um lendar eins og títt er um kvenfólk hér, á hvítri blússu og með skræpótta skuplu um höfuð sem einnig er vandi kvenna í Malaví. Í annari hönd hélt hún um gildan lurk til að styðjast við, í hinni samanbrotinn kjörseðill á leið í kassann. Við hlið hennar ungur maður sem studdi síðan á braut. Ein sex milljóna manna sem voru á kjörskrá.


Kosið undir tré: Ekki mátti mynda nema úr fjarlægð

Þessi gamla kona hefur áreiðanlega ekki kosið oft þrátt fyrir háan aldur, þetta voru fjórðu almennu kosningarnar í Malaví eftir að einræðistímabilinu lauk 1994.

Úrslitin lágu svo fyrir daginn eftir að við Íslendingarnir tókum þátt í kosningaeftirliti: Muthurika forseti gjörsigraði andstæðingana sex. Höfuðandstæðingurinn Tembo ásakaði stjórnvöld um kosningasvik en fáir tóku undir, hvorki eftirlitsmenn fjölþjóða stofnana og sendiráða né höfuðandstæðingur forsetans hin síðustu ár, fyrrverandi lagsbróðir og forseti og Muluzi.

Þeir kjörstaðir sem við skoðuðum í nágrenni Apaflóa voru til fyrirmyndar. Jú, langar raðir af fólki, en skipulag gott, röð og regla á öllu. Kjörskrá var gerð í fyrra og þá fengu allir sérstakt plastað kort með mynd til að framvísa þennan stóra dag.  Nú voru kjörstjórar með myndir af þessum kortum til samanburðar. Að fenginni staðfestingu fór fólk til að dýfa fingri í blekbyttu til að merkja sig, fyrst vísifingri annarar handar, og þaðan til að fá kjörseðil og kjósa til þings. Að þeirri ferð lokinni fór það aftur og setti nú vísifingur hinnar handar í byttuna og fékk þá kjörseðil til forsetakosninga.

Þetta voru tvær aðskildar kosningar en allt fór skipulega fram, mig undraði hve þolinmóðir starfsmenn voru að útskýra kjörseðla fyrir ólæsum. Þeir sem ekki vildu krossa með penna á seðli gátu sett þumal í stimpilpúða og merkt þannig í reit með fingurfari sínu.

Við vorum með gátlista fyrir eftirlitsmenn og í samstarfi við fleiri sendiráð í landinu.  Ég hringdi í Bandaríkjamennina um miðjan dag þar sem samhæfð stjórnstöð sá um að taka við skilaboðum:  Allir sammála, engin vandræði sagði röddin uppi í Lilongwe.

Stjórnmálin í Malaví hafa verið pikkföst í klemmu síðastu ár. Muthurika forseti var handvalinn af þáverandi flokksbróður sínum Mululzi forseta sem ekki mátti bjóða sig fram í þriðja sinn. Allir sögðu að nýji forsetinn ætti að vera strenjabrúða þess gamla. En sá var ekki á því, sagði skilið við gamla flokkinn og stofnaði nýjan ásamt nokkrum fjölda þingmanna. Þó ekki nægilega mörgum til að ná meirihluta í þinginu, það þýddir þrátefli forseta og þings í stóru og smáu, dómsmál, kærur og klögur sem satt að segja mörgum fannst vera orðin ansi þrúgandi.

Gamli forsetinn ætlaði svo að bjóða sig fram einu sinni enn enda búinn að sögn að afplána ,,pásu” frá forsetastóli. Það var ein deilan. Því stjórnarskráin segir að forseti megi aðeins sitja tvö kjörtímabil samfellt; sem sumir vildur túlka að hann mætti aðeins sitja tvö og ekki meir, en hann sjálfur að endurkoma væri lögleg eftir hlé. Á endanum var úrskurðað núna skömmu fyrir kosningar að hann mætti ekki bjóða sig fram. Síðbúið kosningabandalag við annan gamlan stórnmálaref, Tembo, sem forsetaefni, reyndist ekki falla í kram kjósenda.

Þótt kosningarnar hafi farið fram með tæknilega réttum hætti telja erlendir skoðunarmenn að ýmislegt hafi bjátað á. Sérstaklega að ríkisútvarp og sjónvarp voru mjög einhliða með forsetaflokknum og birtu helst ekki neitt um aðra frambjóðendur síðasta árið. Þar sem útvarp er höfuðfjölmiðill landsmanna er ljóst að þeir fengu mjög skakka mynd af framboðunum gegnum ríkismiðlana. Aðrar útvarpsstöðvar og blöð hafa ekki viðlíka útbreiðslu.

Ef lífið er saltfiskur á Íslandi er maís það sama í Malaví. 85% landsmanna stunda sjálfsþurftarbúskap í sveitum og rækta einkum maís sem er grunnfæða allra. 13 milljónir manna búa í landinu, en aðeins helmingur með atkvæðisrétt í kosningum enda hinn helmingurinn undir 18 ára aldri! Rafmagn hafa 6% landsmanna og helmingur þeirra býr við eða undir opinberum fátækarmörkum Alþjóðabankans.

Það sem Muthurika státar af er hagvöxtur og góð maísuppskera sem margir þakka því að hann harðneitaði ráðgjöf erlendra bankamanna og hóf stórfellda niðurgreiðslu á áburði til ræktunar á maís. Þar sem lífið er maís er það líklegt til vinsælda og endurkjörið trúlega þessari stefnu að þakka.



Kosningaúrslitin þótttu merkileg. Flokkur Muthurikas náði meirihluta í þinginu og sigraði í mörgum kjördæmum og héruðum þar sem hinir flokkarnir töldu sig örugga. Kjósendur kusu ekki eftir ,,héraðshöfðingjalínum”, ættbálkum eða öðru slíku eins og í fyrri kosningum. Í Afríku þykir þetta merkilegt, því margir segja ættbálkastjórnmál og svæðaríg einu stjórnmálin. Fyrir kosningar átti maður erfitt með að átta sig á hugmyndafræðilegum mun á flokkunum. Eftir kosningar líka, nema að sigurvegarinn skoraði þvert á allar hefðbundnar línur og þakka menn hagvexti og bættum efnahag. Fólk kaus maís en ekki ætttbálk eða hérað.  Þetta telja menn þroskamerki.

Nú hefur forsetinn annað kjörtímabil og þingmeirihluta sem hann hafði ekki áður. Hinn raunverulegi umbótavilji getur því komið í ljós.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is