1.3.2009
Dagbækur frá Afríku: Jan-Mars 2009


Færandi varninginn heim

Dagbækur frá Afríku, janúar-febrúar-mars 2009


Nú styttir óðum upp. Þrumuskýunum yfir höfuðborginni fækkar, skýin eru strjálli og hiti vex. Regntíminn senn búinn. Rigningatíminn er í senn, hábjargræðistími og hungurtími í sunnanverðri Afríku. Ef rignir vel sprettur á ökrum, en á meðan bíður fólk með síðustu leyfar uppskeru fyrra árs og þreyir þorrann og góuna. Já, þorrinn og góan voru áður harðindamánuðir á Íslandi og það eru þeir með öðru nafni hér í Malaví líka, því ,,stabbinn” frá í fyrra minnkar óðum. Hér eru það korngeymslurnar sem tæmast á síðustu metrunum, áður en uppskera hefst á ný og þær fyllast – vonandi. ,,Hungurmánuðir” heita fyrstu mánuðir ársins einu nafni.



Ár flæða yfir bakka sína í Namibíu og hugsanlega ná þær að streyma alla leið til sjávar núna, eins og árferðið er. Það gerist á 10 ára fresti að meðaltali að Swakobmund áin nær að strönd Atlandshafsins, venjulega eru rigningar í fjöllum Namibíu ekki nægilegar til að senda hana alla leið. En í ár horfir vel. Hér í austanverðri Afríku, í Malaví bera flestir sig vel, það tognar úr maísnum á ökrum og nú styttist í að hirða megi ,,í hús", sem eru reyndar oftst ofnar körfur. 

Þetta er stóra ,,auðlindaspursmálið” hjá sjálfsþurftarbændum ár hvert.


Nýtt manntal leit dagsins ljós í Malaví 2008 og sýndi að íbúar eru ríflega 13 miljónir, þar af nær helmingur undir 18 ára aldri. Að flatarmáli er Malaví á stærð við Ísland. Fólksfjölgun er hröð í landinu og veldur miklu og vaxandi álagi á landskosti þar sem meira en 80% íbúa eru sjálfsþurftarbændur.

Landið er eitt hið fátækasta í heimi og í neðasta flokki ríkja sem mæld eru á velferðarvísitölu Sameinuðu þjóðanna. Hins vegar hafa orðið framfarir á efnahagssviðinu á liðnum árum, hagvöxtur verið með því hæsta sem um getur í Afríku og útflutningur aukist, einkum á tobaki og annarri hrávöru.

Eigi að síður á Malaví langt í land með að standa á eigin fótum, og þiggur mikla og margvíslega þróunaraðstoð. Mat helstu styrkjaríka er að langt upp undir helmingur af ríkisútgjöldum sé styrkjafé. Eru þá ótalin fjölmörg þróunarverkefni á vefum þróunarstofnana, félagasamtaka og einstaklinga í landinu.



Meginuppistaða í matvælaöflun landsmanna er maísrækt, bregðist hún er vá fyrir dyrum. Flestir núlifandi landsmenn hafa upplifað hungursneyð, talið er að fjórða hvert barn sé vannært og langt í helmingur barna þjáist af vaxtarhömlun vegna lélegrar fæðu.

Malaví hefur því leitast við að styrkja og efla maísrækt og ríkisstjórnin niðurgreitt áburð til bænda. Þessi ákvörðun var mjög gagnrýnd í upphafi, einkum af þeim sem telja markaðslausnir vænlegar fyrir þróunarlönd. Á síðari hluta ársins 2008 hljóðnuðu þær raddir nokkuð þar sem sýnt er að maísrækt hefur heppnast betur en áður með aukinni notkun áburðar.

Þá hafa öll helstu styrkjaríki Malaví sjálf beitt miklum ríkisstyrkjum heimafyrir til banka og annarra fyrirtækja vegna heimskreppunnar og því ekki í stöðu til að gagnrýna ríkisstyrki nú frekar en áður, enda niðurgreiða þau flest eigin landbúnað.

Margir telja ,,malavísku leiðina” til fæðuöryggis til fyrirmyndar fyrir önnur ríki Afríku. Á móti er hins vegar bent á að niðurgreiðslunar séu óhemju dýrar og leggi mikla byrðar á ríkissjóð. Einnig hefur framkvæmd verið gagnrýnd vegna spillingar við úthlutun skömmtunarseðla. Því er hins vegar ekki að leyna að miklu fleiri þættir en áburðarnotkun skera úr um uppskeru og stendur þar rigningatíminn uppúr. Undanfarin ár hafa farið saman aukin áburðarnotkun og góðar rigningar í landinu.

Þetta er eitt stærsta mál í efnahag og stjórnmálum Malaví og mikið til umræðu í undirbúningi kosninga 2009. Þær verða 19. maí ef allt gengur eftir.

Þótt Malaví hafi gengið ýmislegt í haginn á efnahagssviðinu, svo sem gott verð fyrri tóbak og hrávöru, koma aðrir þættir á móti, t.d. hækkandi vöruverð á ýmsum sviðum. Þá hefur þrátefli á stjórnmálasviðinu orðið landinu til trafala, og einkenndist árið 2008 mjög af þrætum stjórnmálamanna og var þingið nánast óstarfhæft langtímum saman.

Helstu deilendur eru núverandi forseti, Muthurika, og fyrrum forseti, Muluzi. Muthurika klauf sig frá helsta stjórnmálaflokknum þar sem þeir tveir voru áður samherjar og hefur aldrei gróið um heilt. Staðið hafa deilur um lögmæti aðgerða þeirra tveggja á báða bóga og þegar Malavar halda inn í mikilvægt kosningaár 2009 stendur árið á undan eftir í minningunni sem mikið þrætuár.

Erlend ríki hafa fylgst vandlega með kosningaundirbúningi Malava. Kjörskrá var gerð 2008 og þótti takast vel. Kjörstjórn hefur starfað og þótt standa sig ágætlega að mestu leyti, en helstu styrkjaríki fjármagna kosningarnar og undirbúning þeirra.

Aðdragandi kosninganna hefur að mestu þótt takast vel ef frá eru skildar eilífar deilur helstu leikenda, og ljóst að mörgum innanlands og utan þykir mikið í húfi að vel takist til, ekki síst í ljósi ófremdarástands í nálægum ríkjum eins og Simbabwe og Keníu.

Á undanförnum árum hefur Malaví notið vaxandi velvildar ríkja sem veita þróunaraðstoð. Það helgast af því að þrátt fyrir deilur í pólitík hefur efnahagur verið stöðugur og hagvöxtur all hár, auk þess sem greina má ákveðin skref í átt til bættra stjórnarhátta.

Hlutur þróunaraðstoðar í efnahag landsins er áfram gríðarlega hár og verður um fyrirsjáanlega framtíð því engum dylst sem lifir og starfar í Malaví að þar er mjög mikið óunnið til að tryggja íbúum lífvænleg kjör, heilbrigði og menntun. Á sumum sviðum þokast Malaví í átt til þess að ná Þúsaldarmarkmiðum S.þ. en á öðrum verður markinu ekki náð í fyrirsjáanlegri framtíð.

Á árinu 2009 verða 20 ár liðin frá því að Ísland hóf þróunaraðstoð í Malaví og var landið stærsti þiggjandi íslenskrar aðstoðar árið 2008.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is