15.12.2008
Jlabrnin r

Jólaguðspjallið í ár kemur úr skýrslu UNICEF, um jólabörnin í ár, helming malavísku þjóðarinnar.  Já, helmingur malavísku þjóðarinnar er börn undir 18 ára aldri - nærri sjö milljónir. Af þeim er ein milljón munaðarlaus.

Tölur um líf barna í þessu landi sem er á stæð við Ísland eru:

• Eitt af hverjum átta börnum í Malaví deyr fyrir 5 ára aldur
• Lungnabólga, niðurgangur, malaría og sjúkdómar sem má rekja til HIV-veirunnar eru aðaldánarorsakir barna
• Um helmingur allra þeirra sem greinast með HIV/alnæmi er ungt fólk á aldrinum 15-24 ára
• 46 % barna undir 5 ára aldri þroskast ekki eðlilega af völdum vannæringar
• Í Malaví er dánartíðni kvenna í tengslum við meðgöngu og fæðingu ein sú hæsta í heiminum eða 984 konur af hverjum 100.000 lifandi fæðingum
• Nærri fjórða hvert barn er vannært.


Um fjórar milljónir barna í Malaví lifa í fátækt sem grefur undan vexti og þroska þeirra. Undanfarin ár hafa þó horfur á lífsafkomu barna batnað og dregið hefur úr dánartíðni. Ef Malaví heldur áfram á sömu braut þá eru góðar líkur á því að landið nái Þúsaldarmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um að lækka tíðni barnadauða (undir 5 ára aldri) um tvo þriðju fyrir árið 2015.

Þrátt fyrir þennan árangur deyr samt eitt af hverjum átta börnum, aðallega úr sjúkdómum sem mætti auðveldlega koma í veg fyrir, s.s. lungnabólgu, niðurgangi, malaríu og sjúkdómum tengdum HIV. Útbreiðsla vannæringar er áfram mikil og má rekja u.þ.b. helming allra dauðsfalla barna til hennar.

Krónísk og útbreidd fátækt er enn vandamál og þættir eins og ört vaxandi fólksfjöldi, takmarkað ræktunarland, árvissar náttúruhamfarir, fæðuskortur, vannæring, HIV/alnæmi og há tíðni malaríu hamla framþróun landsins. Börn og konur eru sérstaklega berskjölduð þar sem eiginleiki þeirra til að ná sér á strik eftir slík áföll veikist.


Vannæring

Vannæring hefur hörmulegar afleiðingar og er ein aðalorsök barnadauða í Malaví. Það hefur ekki orðið nein breyting á næringarástandi barna síðan árið 1992 og vannæring er áfram mjög útbreidd. Hún hamlar þroska um 46 % barna yngri en fimm ára, 21 % barna eru undir kjörþyngd og 4 % barna eru alvarlega vannærð.

Mæður í hættu

Í Malaví deyja fleiri konur af barnsförum en víðast annars staðar í heiminum eða 984 konur af hverjum 100.000 lifandi fæðingum. Meðal ástæðna að baki þessari háu dánartíðni eru sjúkdómar eins og malaría og HIV, næringarskortur og slæm félags- og efnahagsleg staða kvenna í malavísku samfélagi. Þessar háu tölur gefa sterklega til kynna hversu takmarkaðan aðgang konur hafa að góðri heilsugæslu og fæðingarhjálp.

Grunnmenntun slök

Einungis 26 % barna ljúka grunnskólanámi, þar af ekki nema 16 % stúlkna. Þrátt fyrir að grunnskólamenntun hafi verið ókeypis í Malaví frá árinu 1994 þá eru meira en 10 % barna á grunnskólaaldri sem ekki ganga í skóla. Tíðni skráninga, bæði stúlkna og drengja, er há fyrstu tvö skólaárin en brottfall er að meðaltali í kringum 15 % og helmingur barna hættir áður en þau ná í 4. bekk. Samkvæmt börnunum þá eru margar ástæður þess valdandi að þau detta úr skóla, m.a. fátækt, skólarnir eru langt í burtu frá heimilum þeirra, ótímabærar barneignir og léleg gæði menntunar.

Skólaumhverfið fælir oft börn frá því að stunda nám. Yfirfullar kennslustofur, engin svæði til að stunda íþróttir eða leiki, skortur á kennsluefni og ritföngum, lélegur vinnuandi meðal kennara og skortur á vatni og aðskildri salernisaðstöðu fyrir stúlkur og drengi skapa ekki námsumhverfi sem börn þrífast í. Við þetta bætist svo að líkamlegt ofbeldi, sérstaklega einelti og líkamlegar refsingar, ásamt kynferðislegu ofbeldi viðgengst og ógnar þar með öryggi og virðingu barna. Malaví hefur náð töluverðum árangri í að jafna kynjabilið í grunnskólum en hins vegar er brottfall stúlkna úr skólum mun hærra en drengja sem má m.a. rekja til þess að félagsleg gildi og viðhorf styðja ekki menntun stúlkna.

Könnun sem gerð var árið 2001 sýnir að meirihluti vinnandi barna þræla frá morgni til kvölds við þjónustu á heimilum. Einnig eru mörg börn yngri en 10 ára í fullri vinnu við hlið foreldra sinna á tóbaksökrum.

Það er margt sem bendir til þess að kynferðisleg misnotkun, misþyrmingar og verslun með börn fari vaxandi.

Það er UNICEF sem kynnir þessar staðreyndir í skýrslu sinni, Ásdís Bjarnadóttir vann samantekt fyrir ÞSSÍ.

Hvað gerir Ísland?

Við Apaflóa við Malavívatn, í 100 þúsund manna byggð er spítali byggður af Íslendingum, fæðingardeild og skurðstofa fyrir keisaraskurði.  Við rekum sjúkrabíla og veitum margs konar stuðning við lýðheilsugæslu.

Í sama héraði gerum við brunna og vatnsból og kennum hreinlæti; markmið er að enginn þurfi lengra en 500 metra í hreint vatn.

90 leshringir veita fullorðinsfræðslu.

Við höfum byggt eða endurgert yfir 20 barnaskóla.

Við vinnum að verkefni til að bæta útgerð báta og þróa veiðarfæri til að sækja afla á dýpri mið.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is