22.11.2008
Dagbkur: Okt.-nv. 2008


Upprennandi súpermódel


,,Í okkar fjölskyldu er enginn svo ríkur að við gætum tapað nokkru” sagði íslensk húsmóðir feginsamlega þegar bankahrunið gekk yfir. Nokkurn veginn þannig varð manni hugsað til Afríku. Hér hafa flestir staðið utan við skuldavafninga, bankar ekki haft efni á að yfirkeyra sig og heimilin vissulega ekki með milljarða á milljarða ofan í yfirdráttarskuldir. Flest fólk bara reynir að eiga fyrir maís út árið. En svo kom auðvitað í ljós að Afríka líður fyrir heimskreppuna og sumir segja meira en aðrir.


Árið byrjaði illa. Matvælakreppan skaut verði á lífsnauðsynjum upp í hæðir sem aldrei höfðu sést áður og tal um ástand á ,,mörkuðum” var um þessa fátæklegu klúta og bastmottur sem breiddar eru út með söluvarningi, eða hrófatildur með ,,afgreiðsluborði” þar sem hægt er að fá matarolíu og maís. Í vor var áætlað að 100 milljónir manna til viðbótar milljarði dyttu inn í fátækarskilgreininguna sem er vísitala vannæringar. Munar ekki um kepp eða tvo í sláturtíðinni kynni einhver að segja, því rúmlega milljarður manna er þarna við hungurmörkin. En 100 milljónir manna eru lifandi persónur af holdi og blóði og tákna í hagtíðinum þann ávinning sem náðst hefur á liðnum árum í baráttu við fátækt. Nú fór það allt tilbaka á nokkrum vikum, flestir þeirra fátæku í Afríku.  Þetta er hrun á markaði mannvirðingar.

Fjármálakreppan er öðruvísi, hún snertir ekki daglegt líf í þorpunum. En Afríkuríki sem barist hafa fyrir því að koma sér í stöðu sem gjaldgengur viðtakandi fjárfestinga standa nú frammi fyrir að detta fyrst uppfyrir í niðurskurði lausafjárkreppunnar. Þau hafa mörg hver náð árangri og markaðssett sig meðal alþjóðlegra fjárfesta sem næsti vænlegi kostur eftir Asíuuppsveifluna. Draumar um innstreymi fjármagns eru nú óðum að gufa upp samkvæmt áhyggjum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Heimsendir peningar til Afríku frá farandverkamönnum í ríka heiminum eru einnig verðminni en áður, upphæðir lækka vegna gengishruns og atvinnumissis. Enn er Afríka fyrst að finna fyrir. Og svo er það þróunaraðstoðin. Íslendingar hafa lýst yfir niðurskurði, það hafa fáir aðrir gert opinbert en áhyggjurnar eru sannar: ,,Ríku þjóðirnar stóðu ekki við loforðin í góðæri, hvernig haldið þið að þetta verði í kreppu?” spurði einn þjóðarleiðtogi og við vitum að minnsta kosti svarið frá einni þjóð.

Daglegt líf er litríkt og fallegt í Malaví, regntíminn byrjaður og þá grænka fjallshlíðar og frjóangan liggur í lofti. Friðsamt fólk gengur til verka um gjörvallan suður hluta álfunnar og býr sig undir að erja akur, sá og rækta mat sem verður að duga út næsta ár. En því miður hefur skelfingarástand hertekið mörg lönd álfunnar. Simbabve stefnir í fullkomna upplausn og komi ekki matargjafir til 500 þúsund manna alveg á næstunni verður ástandið alvarlegra en nokkru sinni fyrr. Af þeim fimm ríkjum sem Matvælaaðstoð S.Þ. telur að séu í brýnni þörf eru 4 í Afríku. Fregnir berast stöðugt af sjóránum undan strönd Sómalíu, því lánlausa ríki sem nú er sundurskotið í stríðsherrakvalræði sem allt ætlar að drepa. Ríkið er löngu sundurbrotið mélinu smærra og endalausar skærur koma í veg fyrir allt venjulegt líf, svo sem að rækta mat. Sómalía er yfirgefið land, og hefur verið í 20 ár, óráðandi öllum bjargráðum af hinu alþjóðlega samfélagi. Eins með Kongó sem allt í einu kemst í fréttirnar aftur þegar skærur verða svo miskunnarlausar að ekki er lengur hægt að líta undan. Draugar frá þjóðarmorðunum skelfilegu í Rúanda ganga þar aftur í líki ,,uppreisnarmanna” sem berast á banaspjóti sín í milli og við vonlausan her Kongó. 5000 friðargæslumenn frá Sameinuðu þjóðunum eiga að stilla til friðar í frumskógafjallendi sem er á stærð við Vestur Evrópu. Þetta svæði er talið efni í Paradís á jörð, einn fegursti þjóðgarður veraldar með fjallagórillunum ógurlegu og endalausum möguleikum til að rækta mat. Drengjum er stolið úr þorpunum og neyddir til að berjast. Matvæli hverfa ofan í skæruliðaflokka sem hirða allt lauslegt og má telja vel sloppið ef morð og nauðganir bætast ekki ofan á ránin. Sem oftast er raunin. Hræðilegustu sögur Afríku koma frá Kongó, einu sinni enn.

Takið eftir þessu: Undanfarin áratug eða svo hafa FIMM MILLJÓNIR manna misst lífið í átökum í Kongó. Í þjóðarmorðinu í grannríkinu Rúanda voru 800 þúsund manns brytjuð niður á nokkrum mánuðum meðan umheimurinn hafði annað að hugsa. Alþjóðasamfélagið með grátstafinn í hálsinum eftirá og baðst afsökunar. En morðin héldu áfram af sömu eyðandi fylkingum handan landamæranna og nú með svartnættispólitík lífstíðarstríðsmanna sem endalaust halda áfram ,,baráttu”. Fyrir hverju? Ættbálkaveldi, en fyrst og fremst auðævum landsins sem endalaust má stela og koma í verð fyrir vopn. Auður landsins fóðrar stríð meðan fólkið sveltur.  Eins og í Sómalíu getur enginn hreinsað lýðinn út. Eins og í Darfur...

Hin blíða Afríkusól rís yfir bláum öldum Indlandshafs og heldur inn yfir álfuna heitu hvern morgun sem guðirnir gefa.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is