9.3.2008
jgarurinn EthosaEf einhver frasi í íslenskri umhverfisverndarumræðu er þreyttur og fótum troðin er það sá sem segir að ,,náttúan njóti vafans”. Ekki man ég hvenær það gilti síðast. En ég hrífst af því sem hið ,,vanþróaða” ríki Namibía gerir á mörgum ferðamannastöðum sínum og þjóðgörðum. Namibía þiggur þróunaraðstoð frá Íslendingum; en við getum margt lært af hérlendum um þessi mál.

Myndasaga um dýrin hér.


Nýlegt dæmi er staðurinn Twyfelfontain sem samþykktur var á heimsminjaskrá UNESCO, enda eru þar mörg þúsund ára myndskreytingar frumbyggja á steinum í eyðimörkinni. Svæðið er afgirt og bílastæði í nokkurri fjarlægð. Allir greiða aðgang í litlu aðkomuhúsi þar sem er smekkleg sýning og útskýringar á því sem markvert er á staðnum. Húsið er fallega hannað, gert úr náttúrulegum efnum sem falla í umhverfið og hægt að rífa það án ummerkja ef einhvern tíman verður þörf fyrir. Allt afturkræft. Enginn fer inn á svæðið nema í fylgd með leiðsögumanni og aldrei fara fleiri saman en átta í einu í hópi. Allt er skipulegt og þess gætt að einungis tiltekinn fjöldi ferðamanna sé á svæðinu hverju sinni.

Annað merkisssvæði í landinu er Ethosa þjóðgarðurinn sem átti 100 ára afmæli í fyrra. Það var stórkostleg framsýni sem lá að baki þess að svæðið var friðað: Þarna eru dásamlegar villidýralendur sem teljast með því besta í Afríku. Upphaflega friðlandið var á stærð við Ísland, en því miður hefur verið gengið á það á liðinni öld; eftir er svæði sem er á stærð við fjórðung Íslands. Á stærð við miðhálendið okkar.

Hvað ef við varðveittum okkar land svona?

Ég gat ekki varist því að hugsa um hálendi Íslands þegar ég heimsótti garðinn nokkrum sinnum í fyrra. Auðvitað gilda þarna reglur sem mótaðar eru af því að í garðinum eru grimm villidýr og hættuleg fólki. En draga má ákveðnar samlíkingar.

Ethosa er vandlega afmarkað svæði og þangað fer enginn inn nema um ákveðnar leiðir gegnum skráningarhlið. Ökutæki og fjöldi farþega er skráður, einnig ætlaður dvalartími. Hvergi má gista nema á afmörkuðum svæðum sem tekin eru frá, þar bjóðast góð hótelhebergi með þægindum og þjónustu sem og tjaldstæði. Þessi þjónustusvæði eru aðeins þrjú í garðinum öllum, þar eru matsölustaðir, gisting og leiðsögn. Athygli vekur að 100 ára afmælið var notað til að gera upp þessa staði og það gert í látlausum en fallegum stíl sem er samhæfður; greinilegt að fólk með smekk kom að. Engar kofaþyrpingar, að hruni komnir bensínskúrar eða gámar á víð og dreif eins og íslenski stíllinn segir til um. Allir verða að vera í náttstað fyrir sólsetur. Umferð er algjörlega bundin við ákveðna slóða, annars staðar er merkt að ekki megi aka, og auðvitað hvergi utan vega. Merkingar eru látlausar og falla vel að umhverfi, allir fá vandað kort sem sýnir það helsta og hvar má fara. Enginn má fara út úr bílnum nema á afmörkuðum hvíldarsvæðum og útsýnisstöðum. Hluti af garðinum er lokaður ferðamönnum nema í fylgd leiðsögumanna. Ströng viðurlög gilda ef reglur eru brotnar. Hófleg gjöld standa undir hluta kostnaðar. Náttúran nýtur ekki vafans, hún á réttinn. Dýr, gróður, vatn – allt sem gerir garðinn að því undri sem hann er nýtur forgangs; maðurinn er gestur.

Ef svona gilti um hálendi Íslands?

Namibíumenn búa að þeirri framsýnu ákvörðun að gera Ethosa að þjóðgarði fyrir öld. Fólk flýgur í sólahring og ekur dagleið til að komast frá Evrópu til Ethosa að skoða. Það er núna fyrst að við Íslendingar silumst til þess að búa til Vatnajökulsþjóðgarð, og hálendið er stjórnlaust. Hálendisþjóðgarður Íslands væri í 2-3ja klst. fjarlægð frá helstu heimsborgum Evrópu. Auðvitað höfum við ekki villidýrin afrísku. En margt annað sem er einstætt og fagurt svo undrun sætir. Jökla, eldfjöll, hveri, auðnir og þögn sem gott væri að gefa forrréttindi á Íslandi, svo margir fái notið um framtíð. Við gætum leyft fjölbreytta og frjálsa fjallamennsku í bland við skipulagða þjónustu við þá sem slíkt vilja kaupa. En í stað þess að fylgja fordæmi Namibíu er draslaramenning á hálendinu, fífldjörf ævintýramennska, skipulagslaus og ljót þjónustusvæði og eftirlitslaus umferð. Náttúran nýtur nauðgunar og á lítinn rétt sem enginn gætir af trúmennsku enda engin heildarstefna í gildi. Þingvellir komust á heimsminjaskrá, en í stað þess að gera eins og Namibíumenn við Twyfelfontain, leggjum við hraðbraut í gegn. Kannski við ættum að biðja um þróunaraðstoð frá Namibíu?

Myndasaga um dýrin hér.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is