20.6.2007
Viltu kaupa regnskóg?

Regnskógarnir eyðast hratt af mannavöldum og leggja því ekki lið í sama mæli og áður í baráttunni við að vinna á gróðurhúsalofttegundum.  Íslendingar vilja ,,kolefnisjafna" sig með því að borga afgjald fyrir akstur og flugferðir.   Nú á að gróðursetja tré gegn mengun.  Norður við heimskautsbaug.  Hví ekki kaupa regnskóga til verndar?

(Fyrir Fréttablaðið 19. jún 2007, biti einnig viðbrörgð við greininni.)

Forseti Ekvador hefur boðið heimsbyggðinni regnskóg til sölu. Landið er fátækt og þarf á nýjum tekjum að halda. Miklar auðævi leynast undir þjóðgarði í landinu, sem nú er ógnað vegna áforma um að vinna olíu sem þar er að finna. Nýkjörinn forseti, Rafael Correra, vill hætta við olíuvinnsluna. En hann telur, sjálfsagt með réttu, að landið geti illa unað við tekjutapið. Svo í staðinn fyrir að vinna olíu í þjóðgarðinum með tilheyrandi skógareyðingu býðst hann til að vernda skóginn fyrir 350 milljónir dollara næstu 10 árin. Það er helmingurinn af væntanlegum tekjum af olíusölunni.

Nú til Íslands. Sú fína hgmynd hefur skotið álitlegum rótum að Íslendingar kolefnisjafni sig. Það þýðir að fólk borgi í skógræktarstjóð fyrir að aka bíl eða fljúga milli landa. Búið er að reikna hvað bíltúr eða flugferð kostar í gróðurhúsalofttegundum og hvað þarf að gróðursetja mörg tré fyrir austan fjall til að vinna á móti. Stórfyrirtækin eru með og við eigum öll að vera það líka. Bíltúr á Þingvöll kostar tré.

Á fínni heimasíðu, www.kolvidur.is, segir: ,,Markmið Kolviðar er aukin binding kolefnis í gróðri og jarðvegi í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti....Kolviður mun þannig hvetja Íslendinga til þess að verða fyrsta þjóð heims til að kolefnisjafna útblástursáhrif samgöngutækja sinna með skógrækt. Þeir sem lesið hafa náttúrfræðina sína vita a tré binda kolefni (C) en leysa súrefni (O2), út í andrúmsloftið. Við eru því að tala um andsvar við helstu umhverfisógn mannkyns, hlýnun andrúmslofts.


Þetta framtak er fagnaðarefni. En ég verð því miður að taka þá áhættu að móðga allt skóræktarfólk á Íslandi með því að efast um aðferðina. Í mínum bókum, sem eru venjulegar leikmannsbækur, er Ísland ekki mjög heppilegt land til skógræktar með yfirlýst markmið Kolviðar í huga. Tré vaxa vissulega á Íslandi, en mjög hægt og laufgunartími þeira er stuttur, þau eru því ekki ,,í vinnunni" fyrir Kolvið nema fáar vikur árlega. Þau fara í vetrarfrí frá CO2 vinnslu 9-10 mánuði á ári.

Mörg önnur lönd eru heppilegri til að rækta skóg ef markmiðið er að vinna gegn gróðurhúsaáhrifum. Það mætti því ná miklu meiri árangri í kolefnisjöfnun með því að nýta það fé sem Kolviður fær aflar á t.d. regnskógasvæðum, eða hjá fátækum bændum í Afríku. Raunar þarf alls ekki að planta nýjum trám. Einfaldast er að kaupa núverandi skóga til verndar, en þeim er ógnað daglega. Mat vísindamanna er að árleg eyðing regnskóga sé nemi rúmlega hálfu Íslandi.

Áður þöktu regnskógar 14% af þurrlendi jarðar en nú aðeins um 6%. .

Á Vísindavefnum segir: ,,Talið er 20% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amazon-skógum Suður-Ameríku og sennilega á bilinu 30-35% á regnskógasvæðum jarðar í heild. Ef þetta er raunin þá hefur eyðing regnskóganna áhrif á möguleika jarðar til að mynda nýtt súrefni og getur þar af leiðandi aukið á gróðurhúsaáhrif miðað við þá losun sem er á gróðurhúsalofttegundum í dag. (www.visindavefur.hi.is)


Mengun er ekki vandamál einstakra þjóða og verður ekki leyst á þjóðlegum nótum. Þetta veit forseti Ekvador þegar hann biðlar til heimsbyggðarinnar um að vernda með sér regnskóginn. Ég veit satt að segja ekki hve mikið vit er í þessu hjá honum, en það má spyrja. Og eins má spyrja Kolvið, hversu mikið vit er í því að nota söfnunarfé til að berjast gegn gróðurhúsalofttegundum með því að gróðursetja tré noður við heimskautsbaug þegar svonefnd ,,lungu jarðar” (regnskógarnir) berjast við krabbamein?

Reyndar hef ég spurt. Ég sendi framkvæmdastjóra Kolviðar fyrirspurn og fékk ágætt svar, svo langt sem það nær. Í því kemur ekkert fram sem bendir til að Ísland sé gott land til skógræktar í samanburði við þau lönd þar sem best eru skilyrði. Reyndar kemur fram í svarinu að Kolviður hyggi á útrás í ,,öðrum fasa” verkefnisins. Hvers vegna ekki strax? Baugur Group hefur auglýst að það fyrirtæki kolefnisjafni sig með styrk við fátæka bændur á vænlegum skógræktarsvæðum.

Athugasemd mín varðar auðvitað ekki afstöðu til skógræktar á Íslandi. Hún varðar það hvernig við náum æskilegu markmiði um að kolefnisjafna neyslu okkar. Það er ljóst að við getum bundið meira kolefni fyrir hverja krónu með því að gera það þar sem tré vaxa hratt og eru í ,,fullri vinnu” allt árið. Slíkt framlag er góð þróunaraðstoð, með því að ráða fátækt fólk til skógræktar, stuðlar að fjölbreytilegu lífkerfi sem nú er ógnað og leggur því lið að frumbyggjar regnskóga fái áfram að búa í heimkynnum sínum. Hnattrænn vandi kallar á hnattræna hugsun. Enginn er eyland. Ekki einu sinni Ísland.

 

Á vísi.is var bloggað um þessa grein:

19. júní 2007 kl. 18:04
malsvariframfara@visir.is
Áhættudreifing
Sammála Stefáni um að þörf sé á að virkja möguleika á kolefnisjöfnun með skógrækt sem víðast í heiminum, ekki síst í hinum fátækari löndum í suðri, með fjárhagslegum stuðningi hinna ríku Vesturlandabúa. Og mikill fengur væri að því að geta verndað lífríki jarðar með uppkaupum, verndun og endurheimt á regnskógum hitabeltisins.

En á hinn bóginn er nauðsynlegt að benda á að í úrkomusömum hitabeltislöndum, þar sem tré vaxa hraðast og eru í "fullri vinnu" allt árið, er fólksfjölgun jafnframt hvað hröðust og ásókn í jarðnæði til jarðræktar og beitarbúskap mest. Og í slíkum löndum er lagaumhverfi og stjórnkerfi oftar en ekki í molum og spilling landlæg. Og í þeim sömu löndum þar sem ásóknin í jarðnæði er mest, er mest gengið á skógana og minnst um nýrækt skóga.

Því er e.t.v. öruggast fyrir Kolvið að binda kolefnið sem víðast og þá bæði í innlendum sem erlendum kolviðarskógum.
19. júní 2007 kl. 18:06
malsvariframfara@visir.is
Skoðun Eizenstats
Vitna hér að lokum til Stuart Eizenstat, fyrrv. samningamanns Clintonsstjórnarinnar í Kýótoviðræðunum 1996-97.

The Econonist, Sep 28th 2006:

SIR – You rightly pointed out that politics is the biggest impediment to any meaningful collective action on tackling climate change. This is as true today as it was in 1997 when I was the lead American negotiator on the Kyoto protocol. However, one area provides a key opportunity for a way out of the political impasse: forestry. As you noted, deforestation is the second-largest source of anthropogenic greenhouse-gas emissions, accounting for some 18% of the world's total; yet forestry has been entirely left out of policy equations. This makes no sense.

For example, expanded credits for forestry-based offsets, including reforestation, afforestation and avoided deforestation, would give the rural poor a critical source of income to manage and sustain their landscapes. Such credits would also provide incentives to developing countries to consider binding commitments under any future international regime.

This approach would give a much needed boost to America's re-engagement on the issue. Companies striving to meet their emissions targets would benefit from additional flexibility and farm communities could be mobilised to support long overdue action to address the problem.

Stuart Eizenstat,
Washington, DC
http://en.wikipedia.org/wiki/Stuart_Eizenstat

Og vinkona úr vísindaheiminum bætir við:

Var að lesa greinina þína:

Eins og talað út úr mínu hjarta. Var einmitt að lesa einhversstaðar grein þar sem bent er á að það sé ekki sama hvar kolefnisjafnað er - til viðbótar við regnskógana víða um heim mætti benda á leiruviðarskóga (mangrovees) í Asíu, sem vaxandi þéttbýli mylur undir sig.
Kannski verðug framtíðarverkefni?

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is