13.5.2007
Sigurvegarar

Sjálfstæðisflokkurinn er sigurvegari kosninganna hvernig sem á málið er litið. Eftir langa stjórnarsetu fær hann aukið umboð og fleiri þingmenn, meðan samstarfsflokkurinn fær refsingu.

Það er því ekki hægt að segja að niðurstaða kosninganna sé beinn og afdráttarlaus áfellisdómur um stjórnina.

Það er engin leið að horfa framhjá því að þjóðin vill fela Sjálfstæðisflokki forystu í ríkisstjórn.

Þótt sigur VG sé líka stór, er engin slík krafa á bakvið. VG hirðir stjórnarandstöðuvinninginn - sem andstöðuflokkur fyrst og fremst.

Spurningin sem Framsókn spyr sig nú er: Hvers vegna við en ekki þeir? Þetta er líka spurningin sem Samfylkingin stendur frammi fyrir: Hvers vegna vinnur VG í stjórnarandstöðu en ekki hún?

Ég hef mína kenningu um það. Ég held henni hins vegar fyrir mig á meðan mitt fólk veltir vöngum, ræðir sín í milli og dregur lærdóm. Það er engum til gagns að hrapa að niðurstöðu eða fella sleggjudóma. Þetta er lærdómsferli sem þarf að vanda.

Léttir, en samt.

Ég skynjaði létti hjá Samfylkingarfólki á kosninganótt, sérstaklega meðan fylgið virtist sveima í kringum 30%. Mikil vinna og samstaða hafði skilað sér og stórslysi forðað. Fólki var létt og það átti skilið að fá að brosa eftir þrotlausa vinnu við að snúa taflinu við. En samt hljómaði í eyrum mér það sem gamall stjórnmálarefur sagði við mig fyrir viku: ,,Það er ekkert sem heitir varnarsigur fyrir stjórnarandstöðuflokk”.

Nú, þegar sólarhringurinn er að líða frá úrslitum er auðvitað ljóst að hugsa þarf málið mjög vandlega.

Við töpuðum fylgi í stöðu sem við fyrstu sýn virðist kjörstaða jafnaðarflokks í stjórnarandstöðu.

Tæp 27% nú, ári eftir að við fengum sama hlutfall í borgarstjórnarkosningunum, er einfaldlega ekki viðunandi.

Að tapa tveimur þingmönnum meðan VG bæta við sig fjórum er líka slæmt.

Samfylkingin getur ekki verið ánægð með niðurstöður kosninganna. Ég verð að vera samkvæmur sjálfum mér. Fyrir ári lýsti ég vonbrigðum með 27% í borgarstjórn. Það sama á við núna. Þetta er flokkur sem með réttu á að standa samsíða Sjálfstæðisflokknum.


Eigi að síður: 18 manna þingflokkur er auðvitað stærð sem enginn kemst hjá að virða. Líka, komi til stjórnarmyndunarviðræðna.


Stærsti taparinn

Kosninganóttin sýndi enn og aftur hvers konar ruglkerfi það er sem kosið er eftir. Þegar þulir Rúv tilkynntu seint um nóttina að stjórnin félli ef B bætti við sig atkvæðum í NV kjördæmi var maður endanlega hættur að botna í kerfinu og var þó nóg komið eftir endalausa rúlettu ,,jöfnunarþingsæta” þar sem vonlaust var að fá botn í regluna. Það þjónar greinilega engum tilgangi að segja manni af eða á fyrr en úrslit liggja fyrir hver sé inni og hver ekki. Þegar svo upp var staðið var Samfylkingin með 2 jöfnunarsæti í R norður en ekkert í R suður út á sama vægi atkvæða. Þar með er ég tilbúinn að kveðja þetta kerfi. Og fagna ég því þó mjög að Ellert B. Schram sé kominn á þing.

Í fyrsta lagi er kjördæmaskiptingin galin. Gjörsamlega galin, á það var bent um leið og henni var komið á og hefur verið hamrað á síðan.

Reikninreglan kann að vera mjög góð – fyrir stærðfræðinga. Fyrir lýðræðisvitund og réttlætiskennd almennings er hún fáránleg.

Eina rétta leiðin er að gera landið að einu kjördæmi, jafna þar með vægi atkvæða og gera kerfið skiljanlegt öllu fólki.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is