9.5.2007
Tilhæfulausar ásakanir í Fréttablaðinu


Vegna mjög svo óviðeigandi ummæla Júlíusar Vífils Ingvarssonar í minn garð í Fréttablaðinu er rétt að fram komi:

Það er með öllu tilhæfulaust að ég ,,hafi nýtt" mér ,,,aðgang að netföngum starfsmanna Reykjavíkurborgar" eins og Júlíus Vífill fullyrðir. Ég veit ekki hvernig það er gert, dytti það ekki í hug og hef aldrei gert.

Staðreynd málsins er sú að ég sendi fréttapóst úr tölvu eins og ég hef gert reglubundið í mörg ár á hóp sem var ávarpaður í bréfinu sem ,,Kæru vinir og félagar". Meginefni var að þessa endurnýjaðu heimasíðu, auglýsa eftir týndum ketti og velta vöngum um nýjar skoðanakannanir. Fyrir vangá mína var pósturinn líka sendur á tvo aðra hópa af mörgum í póstskrá minni sem ég hef byggt upp úr margvíslegum samskiptum á sex árum.

Af þeim einstaklingum sem óvart fengu bréfið hafa fjórir haft samband og frábeðið sér slíkar sendingar með kurteisum og málefnalegum hætti. Það fólk hef ég beðið afsökunar á mistökunum og útskýrt. Ég hygg að það sé ekki í fyrsta skipti á Íslandi að tölvupóstur er sendur á rangan hóp viðtakenda, svo leitt sem það nú er.

Þetta hefði ég getað sagt blaðamanni Fréttablaðsins, sem segir að ekki hafði náðst í mig við ,,vinnslu" fréttarinnar. Ég skal ekki rengja að reynt hafi verið að hringja þótt sími minn og talhólf sýni þess engin merki. Vinnslan var nú ekki meiri en svo að hægt er að hafa upp á netföngum mínum á að minnsta kosti þremur vefsíðum á Íslandi. Þar á meðal þeirri vefsíðu sem kynnt var í umræddum pósti og hefur nú verið endurnýjuð undir sama veffangi og ég hef haft síðustu sex ár: stefanjon.is.

Stefan Jón Hafstein.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is