Fílarnir halda hópinn

Fílamamma leiðir kálfinn sinn að vatnsbólinu. Kvendýrin halda hópinn og ættmóðirin stjórnar hjörðinni.  Systur og frænkur hjálpast að við að ala upp ungu dýrin og sýna þeim mikla umhyggju án tillits til þess hver ber.  Þegar karldýrin komast á kynþroskaskeiðið eru þau hrakin frá hjörðinni og verða að sjá um sig sjálf.  Því má oft sjá unga tarfa einn eða tvo saman.  Eldri karldýrin eru á sveimi kringum hjarðirnar og gæta þess að sinna mökun þegar kvendýrin kalla.  Kvendýrin hallast miklu fremur að því að maka sig með eldri törfum sem sannað hafa getu sína og stöðu í samfélagsstiganum.  Það er því frekar einmanalegt að vera ungur tarfur meðal fíla!

Samstaða!  Gömlu fílamæðurnar og frænkurnar standa vörð um ungu dýrin.  Dýrin geta orðið 60-80 ára og kálfarnir vega rúm 100 kíló þegar þeir eru bornir í heiminn.  Fílar eru taldi gáfaðar skepnur og hafa ríka tilfinningagreind.  Þeir þurfa að læra flest það sem gerir góðan fíl að fíl meðal fíla, því fæst af því er eðlislægt.  Raninn, þetta stórkostlega líffæri, er til að mynda tæki sem ungur fíll þarf að læra að temja.  Það gerir hann með því að fylgjast með eldri dýrunum.  Það er ekki sjálfgefið hvernig fíll sýgur vatn með rana og sprautar svo upp í sig og fyndið að fylgjast með þeim ungu sulla niður hvað eftir annað þegar þeir æfa ranann.



Sú stóra uppi í horninu til vinstri leiddi hjörðina að vatnsbólinu, hún er ættmóðrin og ræður öllu í hópnum.   Afríkufíllinn á sér enga náttúrulega óvini þótt vitað sé til þess að ljón nái stundum kálfum eða ráðist á gömul dýr.  Afríkufíllinn er hins vegar illa þokkaður meðal bænda sem líta á hann sem skaðvald á ekrum og í skógum, þeir velta niður stórum trjám, grafa upp vatnsleiðslur og slíta sundur, og árlega lætur fjöldi manna lífið undir fílslöppum.   Talið er að árásir fíla á menn fari vaxandi nú þegar þrengir að dýrunum og telja menn óræk merki um að dýrin þjáist sums staðar af streitu vegna manna.  Fílarnir svara því fyrir sig.  Árlega eru nokkrar sögur um árásir fíla á bíla ferðamanna í þjóðgörðum.

Nú eru um 500 þúsund fílar í Afríku, hefur fækkað úr mörgum milljónum.  Þeir eru verndaðir og bann við sölu á fílabeini í heiminum með örfáum tímabundnum undantekningum.

 

Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is