Sveitakonur koma í bæinn


Þetta er ekki sagan um ,,tvær úr Tungunum" en framandi eru þær í hringiðu höfuðborgarinnar, sveitakonurnar frá hjarðlendum Himba norður í landi.  Staðarblöðin birtu myndir og fréttir af þessum hópi kvenna sem kom á ,,borgarmarkaðinn" til að selja skrautmuni sína.  Ætla að hafa viðdvöl í nokkrar vikur og selja varning innan um hina handverksmennina.

Þær tylla sér undir pálmatré við aðalgötuna þar sem fjölmargir aðrir handverksmenn eiga griðarstað til að selja ferðamönnum varning.  Sú til vinstri er mamma, hin er yngri ekki jafn hörð að rukka fyrir myndatöku. 

Við semjum um kaup á hálsfesti sem er meðal annars gerð úr nautgripatönnum og myndataka er innifalin.

Kirkjan í baksýn er tákn miðborgarinnar, þetta er eins konar ,,Skólavörðuholt" Windhoek.

Liturinn á Himbakonunum er merkilegur.  Þær smyrja sig frá hvirfli til ilja með blöndu af smjöri, okkur lit og leir, hárið er vandlega kembt með þessum áburði og allt niður í táneglur.  Himbakonur eru sveipaðar lendaskýlu einni fata en bera jafnan skrautmuni sem þær búa til sjálfar.


Það spurðist út að þær væru komnar berbrjósta í bæinn um hávetur og má til tekna þeim sem lásu að næsta dag voru þær komnar með ullarteppi um sig miðjar um svalasta tíma dagsins!  En við hittum á þær í hádegissólinni og förum heim með band sem á eru þræddar tvær tennur úr nauti og blý til skrauts.

Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is