Veitt me flhestum


Kaffi á brúsa, hvíslað í myrkri svo enginn vakni, gengið niður að bakka með stangir og kaffibrúsa - hljómar kunnuglega. Nema að á leiðinni niður að árbakka var flóðhestaskítur um allt, ný spor og svo heyrðist frísað og stunið ekki langt frá. Þeir voru enn á beit.

Þeir voru enn á beit. Flóðhestar fara inn á graslendur á kvöldin og standa á beit um nætur; í gærkvöld kom einn heim undir verönd á gistihúsinu og mátti sjá útlínur hans í 5 metra fjarlægð og glöggt heyra tennurnar klippa sundur kafgresið meðan hann gekk um eins og lifandi sláttuvél. 3,5 tonn að þyngd.

Dan leiðsögumaður ræsti flatbytnu með 40 hestafla mótor, við sátum á sólstólum um borð og það passaði því nú kom sólin upp og litaði himinn rauðan milli tráa meðan við þutum um fenjalandið, há grösin voru tvær mannhæðir með bökkum og við fórum krákustíga til að komast að aðalánni.Við erum í Caprívi, norð austur hluta Namibíu á mörkum þeirra miklu óshólma og fenjalanda sem Namibía og Botswana skipta með sér. Nú hefur rignt meira en í 40 ár á undan, allt er á kafi, meira að segja nærliggjandi þorp hefur verið yfirtekið af krókódílum en íbúar af kyni Homo sapiens orðið að flýja, einn með gauðrifnar gallabuxur eftir að króksi glefsaði óvænt.Hér gilda sömu afsakanir og heima: áin bólgin, lituð, og fiskurinn dreifður en ekki á hefðbundnum tökustöðum. Við erum með Thomas and Thomas stangir fyrir línu 6 og 8, og flugurnar stórar straumflugur, ívið stærri en Rektor númer 2, sem væri gaman að prófa hér. En af því að hér getur maður átt von á tígrisfiski hefur maður vír í stað girnis fremstu 20 sm. Því tennur fisksins sarga allt annað sundur. Hér er von fjölda fiska af ýmsum tegundum. 100 fiskitegundir lifa á vatnasvæðinu, 5 til 6 eru góðir sportfiskar sem taka flugur og spúna, ekki síst Rapala. Flugur okkar eru gular í átt við Mickey Finn, rauðar og svartar eins og Dentist, eða dökkar með hvítu í átt við Sun Ray. Aðrir nota fjólubláar og bleikar og mér dettur í hug að hér væri gamana að nota Flæðarmús.Meðan birtir sjáum við flóðhestana hlaupa af grösugu flæðilandinu til vatnsins, þeim líður illa á þurru landi ef nokkur ógn er sjáanleg, þeim nægir báturinn til að sækja út í ána. Flóðhestar eru mannskæðustu dýr Afríku á eftir moskítóflugunni sem ber malaríu með sér; hér er nóg af báðum þessum skaðræðisdýrum. En stóru dökku skepnurnar skella með skvampi í vatnið og stara svo á eftir okkur með nasir og augu ein uppúr ef frá eru talin sperrt eyrun.Á góðum tígrisfiskastað má sjá nýlega slóð gegnum fenjagrasið, eins og tunna hafi verið dregin í gegn. Undan landi sést svo röst undir yfirborði og loks kemur upp rák með tveimur stórum öndurarholum: Krókódíllinn er fúll yfir svona rúmruski, en hefur sig á brott.

Morgunstundin líður fljótt. Við köstum á bæði borð, með landi og út í á, fiskarnir erum oft á bilinu 3-4 pund og vitað er um 14-16 punda tígrisfiska í ánni, sem annars staðar í Afríku ná hæglega 20 pundum. Þeir minna á urriða í tökum, hrifsa fast í og stökkva strax, strauja svo á spretti og sprengja sig á undan til dæmis laxinum. En í dag tekur enginn. Alltof mikið vatn, erfitt að finna fisk, við könnumst við það. En á leiðinni heim kemur an uppá. Farvegurinn er girtur flóðhestahjörð sem lokar okkur frá heimleið. Röð af forvitnum andlitum gónir á okkur og einn og einn fnæsir önuglega svo upp gýs strókur. Maður ógnar ekki þessum köllum. Dan finnur bakleið um þröngan farveg og við komumst fyrir horn framhjá hópnum sem starir á eftir okkur. Við förum upp á litla eyju og skoðum tré, fugla og dýraslóðir, blóm og hlustum á fóðhesta rymja bak við næsta hól. Í trjánum hanga ofnar körfur fugla, þetta eru hreiður vefarans sem þeir gera sér í ,,fuglaþorpi”, mörg saman í krans.

Þessi á er hluti af stóru vatnakerfi Zambesi og Kvangó ánna auk nokkurra fleiri sem renna úr hálendi Angóla yfir til Namibíu og Zambíu. Kavangó áin rennur beina leið yfir til Botswana þar sem Kalahari eyðimörkin tekur við henni; á gervihnattamyndum má sá hvernig hún hríslast um óshólma og fenjalönd full af fiski, fugli og fílum auk annarra afríkudýra uns hún gufar smám saman upp í eyðimörkinni. Þetta er stórkostlegt náttúruundur.

Daginn áður fórum við út á Kavangó og köstuðum fyrir tígrisfisk. Tvær hressilegar tökur sannfærðu mann um að þetta væri verðugur andstæðingur, en ekki festi hann sig til að hægt væri að landa og skoða. Besti veiðitíminn þarna uppfrá er í september-október þegar vatnið sjatnar og fiskurinn bunkar sig. Maður kannast við það. Og þá er allt krökkt í villidýrum á árbakkanum vegna þess að merkur hafa þornað og lífsbjörgina er að finna í ánni. Nú sjáum við hóp af öpum, antilópur sem hafa aðlagað sig fenjasvæðinu og mergð fugla sem syngja dýrðaróð til flóðanna. Áin ber okkur heim að frábærum gististað aftur, flóðhestur liggur á sandrifi þar sem við leggjum að og depar varla auga, þetta vatn kallar á flugu! Það má mikið vera ef maður hlýðir ekki því kalli við aðra sólarupprás einhvern tíman síðar.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is