Mannlegi tturinn. PISTLAR.

Hér er textaútgáfa af pistlunum mínum í Mannlega þættinum á Rás 1 í byrjun 2017.  Pistlanir voru vikulega og hér eru þeir helstu:

 

Kynning
Pistlar gerðir fyrir útvarp 2017, undir safnheitinu: Mannlegi þátturinn.  Fyrst fluttir í samnefndum útvarpsþætti undir stjórn Guðrúnar Gunnarsdóttur á Rás 1, Ríkisútvarpsins 2017Fyrsti kafli. Um mannlega þáttinn.

Góðir hlutstendur

Það er við hæfi að hefja þessa pistlaröð frá Afríku í Mannlega þættinum á Rás 1 - á mannlega þættinum.

Það vill svo til að hér,  þar sem ég sit á svölum íbúðarinnar í Kampala, höfuðborg Úganda, er útsýni á ótrúlegar söguslóðir mannlega þáttarins.  Þessi athugun mín byrjaði reyndar með stuttri heimsókn til ættingja okkar, simpansanna, sem eru ekki langt undan inni í regnskógum.Simpansar og menn eru nánast alveg eins, erfðafræðilega séð, við erum með 98% sama erfðaefnið.

Aðeins lengra í vestri, í fjöllunum þar sem koma saman landamæri Úganda, Rúanda og Kongó eru aðrir nákomnir ættingjar okkar, síðustu górillurnar í heiminum, Það eru 800 einstaklingar eftir.

En það er nokkur hundruð kílómetra í austur sem ég horfi núna, yfir landamærin til Keníu. Það er talið vel mögulegt að þar hafi verið formóðir manna og simpansa fyrir fimm milljónum ára.  Og rétt þar hjá er alveg stórmerkilegt svæði, Turkana vatn, sem teygir sig í átt að landamærum Eþíópíu.  

Þar hafa menn fundið milljóna ára sögu manna.

Við erum stödd við vöggu mannkyns og þar ætlum við að byrja mannlega þáttinn í dag.

Hérna rétt hjá bjuggu margar ólíkar tegundir manna sem þróuðust hægt og bítandi innan um öll hin dýrin og lífríkið allt í sinni ótrúlegu mynd.  

Ég man þegar ég sá eina merkilegustu beinagrind allra tíma á þjóðminjasafninu í Addis Ababa, hana Lucy, sem var uppi fyrir meira en 3 milljónum ára.

Það var einstaklega skáldlegt að horfa á eitthvað sem tilheyrði dýri sem var náskylt okkur og bjó hér fyrir óratíma.  

Það er erfitt að ímynda sér aðeins eina milljón ára, þúsund sinnum þúsund ár.

Og því getum við ímyndað okkur hvað hrærðist í vísindamönnum þegar Turkana drengurinn fannst, en hann var heillegasta beinagrindin sem þá hafði fundist.  Hann var einnar og hálfrar milljóna ára gamall og sýndi að gríðarlegar breytingar höfðu orðið frá því að formóðir bæði apa og manna hafði verið uppi.  

Hér var kominn Erectus, eða upprétti maðurinn, sem gekk á tveimur jafnfljótum en studdist ekki við hnúana á höndunum eins og vinir mínir simpansarnir gera ennþá.

Þarna sáu vísindamenn að mannkyn hafði ekki þróast í einni beinni línu heldur voru ólíkar tegundir af ættkvíslinni Homo uppi samtímis.  Já, samtímis.  Drengurinn var Homo erectus, þarna voru líka Homo Habilis og fleiri sem dreifðust frá Afríku og norður úr fyrir tveimur milljónum ára.

Ég vona að mannfræðingar og sagnfræðingar gnísti nú ekki tönnum yfir ónákvæmni minni í viðkvæmum vísindum.  Ég er bara að reyna að leiða að því sem ég varð svo forvitinn um þegar ég heimsótti simpansana:  Hvernig skildust leiðir og hvað greinir okkur að?

Ef 98% af erfðaefninu er það sama?

Leiðirnar sem hinir ýmsu menn fóru þróunarbrautina voru fleiri en ein.  

Í dag er bara ein tegund manna,  Homo sapiens.  Áður voru þær nokkrar samtímis, og margar þar á undan.  

Við vitum að hinar ýmsu tegundir manna höfðu þroskað með sér æ stærri heila, lært að gera tól og drepið stór dýr sér til matar og tekið í það margar milljónir ára.  

En það eru nú ekki nema 300-400 þúsund ár síðan maðurinn beislaði eldinn.  Eins og gerst hafi í gær.

Og skömmu síðar, fyrir aðeins 200 þúsund árum, sjást fyrstu ummerki um Homo Sapiens, og sá kunni fljótlega að elda mat.

Enn þann dag í dag eru simpansarnir í matarstússi eftir berjum, ávöxtum, skordýrum og smáöpum í níu til tíu klukkustundir á dag.   Við eldum okkur mat og gleypum hann í okkur á smástundu og fáum næga orku til að knýja miklu virkari heila en þeir hafa.

Heili mannsins er með miklu fleiri virka taugaenda og langtum orkufrekari en apaheili.

Þarna er munurinn.  Okkar heili þarf 25% af allri orku sem við innbyrðum til að virka og þessa orku er hægt að útvega fljótt og vel með því að elda mat.  

Þarna voru því komnar forsendur fyrir því að kynda hressilega undir heilastöðvunum og virkja þær til heimsyfirráða.

Ákveðin stökkbreyting gat átt sér stað.

Það var svo fyrir 70 þúsund árum -  bara 70 þúsund árum- hugsið um það, að Sapiens gerði sína fyrstu byltingu: Byltingu hugans.  Vitsmunir urðu einkenni hans, enda kallaði hann sig Sapiens, hinn viti borna mann.

  Það er ekki vitað nákvæmlega hvað gerðist, kannski varð stökkbreyting í erfðaefnum sem breyttu heilanum.

  Heimild mín um þessi efni er með öðru bókin Sapiens, stutt saga mannkyns, eftir Youval Noah Harari.  Hann fer mikinn í þessari bók um sögu mannsins.  Og rétt að taka fram að í endursögn minni er skautað hratt yfir og sumt umdeilt.

Af mörgum manntegundum var ein sem þróaði lipurt tungumál: Sapiens.  

Fleiri dýr en hann gera tól og þau gera sig skiljanleg og skilja margs konar hljóð.  Simpansanir geta öskrað til félaganna: komið hingað hér er matur - eða passið ykkur: ljón að koma.

En Sapiens gat sagt yfir hópinn:  Ég get ímyndað mér að það séu antilópur þarna bak við hæðina, og ef við skiptum liði og komum að þeim úr fjórum áttum verður hægt að ráðast á kálfana og slátra þeim.  

Og það gerðu þeir.

Svo settust menn niður, steiktu kjötið og slúðruðu sín í milli.  Nú höfðu þeir frítíma, ekki þurfti að verja öllum deginum í matarleit.  Samt fékk heilinn nægt eldsneyti.  Í slúðrinu var mikilvæg þróunarathöfn og ekki ótrúlegt að þar hafi menn fundið upp húmor og sagnagleði og byrjað að ímynda sér væntingar og þrár um óorðna framtíð.  

Þetta gátu engir aðrir menn eða apar.  

Og hvað gerði Sapiens við þennan mikla mátt?  

Hann bara drap alla hina.  Og lagði undir sig heiminn.

Fram til þessa höfðu apar og menn aðeins samskiptahæfni til að lifa og hrærast í smáhópum.    Þegar Sapiens lagði á sína sigurför gat hann skipulagt mun stærri hópa og þar af leiðandi miklu skilvirkari veiðar og stríð gegnum öðrum mannverum.  

Hverjar voru þessar mannverur?  

Þarna var Neanderdalsmaðurinn sem var í sunnanverðri Evrópu, gat saumað klæði til að verjast kulda, gert hellamyndir og fleira.  Þarna var Erectus ennþá. Austar í Asíu voru menn sem voru líka Homo og höfðu lagað sig að lífsháttum í regnskógum.  Mjög smávaxnir menn voru á enn annarri eyju og urðu sjaldan hærri en metri á hæð.Í Síberu og Kína hafa fundist leifar af enn fleiri tegundum manna.  

Þess vegna eru uppi kenningar um að í reynd hafi mannkyn þróast í ólíkum heimshornum samtímis.  Fleiri rök hníga til þess að upphaflega hafi frummenn komið frá Afríku en þróast eftir aðstæðum hver með sínu lagi.

Einhver kynblöndun varð þegar Sapiens lagði af stað, en mestan part yfirtók hann bara jörðina. Þessi fjölskylduharmleikur Homo systkinanna stóð stutt miðað við þróunarsöguna alla. Fyrir 100 þúsund árum voru nokkrar ólíkar tegundir manna á jörðinni, á örfáum þúsundum ára var bara ein eftir.

Og ekki nóg með það.  Landnám hófst í stórum stíl.  Á svona 50 þúsund árum var Sapiens búinn að taka Ástralíu, Asíu og Ameríkurnar báðar.

Sapiens eyddi ekki bara öðrum tegundum manna heldur stráfelldi dýrategundir og útrýmdi. Þið munið sjálfsagt eftir mammútum frá Síberíu, loðfílum sem var útrýmt. Úti um allt jarðríki var ótrúlegur fjöldi dýra af ólíkum toga sem nú hurfu. Jörðin öll var eins og samsafn af ótal Galapagos eyjaklösum sem hver hafði sitt líffræðilega sérkenni sem var ólíkt öðrum.  En nú var dýrunum eytt að stórum hluta.

Sapiens voru veiðimenn og safnarar í nokkra tugi þúsunda ára.  Í litlum flokkum sem voru ákaflega ólíkir innbyrðis, eins og reyndar sjást leifar af allt fram á okkar daga, þegar mannfræðingar finna einangraða ættbálka sem lokast hafa inni í regnskógum og sumir aldrei séð aðra menn.  

Á jörðunni voru aðeins nokkrar milljónir manna.
Það var svo þegar akuryrkja hófst fyrir svona 12.000 árum að önnur bylting tók við. Nú tók gróðurþekja jarðar að láta verulega á sjá.  Það sem Sapiens hafði gert öðrum mönnum og dýrum, gerði hann nú gróðurlendinu.  Nú er búið að eyða meira en 99% af þeim skógum sem eitt sinn þöktu jörðina. Og síðustu regnskógarnir munu hverfa á þessari öld.

Í raun má segja að fyrir stóran hluta af lífríki jarðar sé Homo Sapiens - Homo bölvaldur.

Borgir risu.  Fólki fjölgaði.  Stórveldi komu og fóru. Yfirstéttir sölsuðu undir sig auð og goðsagnir mynduðu grunn að trúarbrögðum.   Vísindabyltingin varð svo fyrir 500 árum, iðnbyltingin fyrir 200 árum og nú stendur samskiptabyltingin  yfir.
Eftir því sem byltingunum fjölgar verður skemmra á milli þeirra og breytingarnar örari og stórkostlegri.
Á örfáum árum í þróunarsögunni hefur Homo sapiens fjölgað sér ógnarlega og nær senn 10 milljörðum manna.
Til eru þeir sem hallast að því að næsta stökkið í þróun mannsins sé innan seilingar með samskipta- erfða og tæknisamruna og Homo ofur verði til sem sérstök tegund.

Og nú erum við hingað komin.  Við eyddum nokkrum tegundum manna, drápum dýrin, ruddum gróðurlendi undir akra og nú er bara eitt eftir: Menga svo andrúmsloftið að hér verði gjörsamlega ólíft af völdum hamfara sem munu fylgja. Það mun bara taka 100 ár í viðbót eða svo.  

Þar með lýkur örlagasögu Homo Sapiens hér á jörð.   

 


Annar kafli: Simpansar


 
Við heyrðum öskrin í fjarska. Fimm ferðamenn með vopnuðum skógarverði sem rann á hljóðið, þetta gekk vel, stundum líður dagurinn án þess að leyfisskyldir ferðamenn nái fundi við þessa frændur sína. ,,Þetta eru matarboð” sagði vörðurinn. Í dagrenningu skríða þeir úr hreiðrum sínum sem þeir flétta úr greinum og laufum til að sofa langt ofan við skógarbotninn þar til gaulandi garnir heimta morgunverð.
 
Öskrin bárust úr ýmsum áttum, þarna voru greinilega fjórir eða fimm hópar á svæðinu, af þeim 130 sem eru í Kibale garðinum.  Hér lá einn simpansi undir tré og horfði á okkur, hljóp svo burt í hvelli og hvarf í þykknið.  Ég bjóst við þeim stærri. En þeir leyna á sér, hlaupa um á fjórum fótum og eru álútir en þreknir um herðar og brjóst.
 
Skógurinn er ansi þéttur og hár, vafningsviður flækist utan um mann og greinar slást til og frá, sólin nær ekki þarna niður, en nú runnu nokkrir apar niður langan trjástofn og komu alveg að okkur. Erindið var nú ekki að heilsa mannfólkinu. Við vorum í frjósemisathöfn.
 
Apaynja var greinilega komin með ástríðurnar í hágír, afturendinn rjóður og slefandi, ótvírætt tákn um egglos. Þeir sem komu nú á góðu flugi niður á eftir voru engir aukvisar. Tvö karldýr, annar er varaforseti flokksins, næstur á eftir Alfa-foringjanum, hinn hvorki meira né minna en Titto sjálfur, ungur og upprennandi pólitíkus meðal flokksins, aðeins um hálfþrítugur en búinn að færast ofurhratt upp metorðastigann. Þeir ætluðu sér báðir að ná í egglosið.
 
Nú lagði af stað halarófa sem elti rjóðann afturendann á henni, fyrstur varaforsetinn, þá ungi metnaðarapinn og loks við, fimm bleiknefir í halarófu ásamt verðinum.
 
Simpansadama með egglos lætur vita af sér með hjóðum og þessum táknræna bjarma sem af afturendanum stafaði. Það er kappsmál fyrir karlana að komast að. Sá fyrsti sem kemur sæði sínu upp á áfangastað vinnur. Hjá simpönsum hefur náttúran þann gang að sæðið sem fyrst kemur upp eftir egglos hleypur í kökk og varnar annara apa sæði sem á eftir kunna að koma að fara lengra.

Sá á unga sem fyrstur frjóvgar.  
 
En það veit svo sem enginn hver er pabbinn hverju sinni og þegar unginn kemur í heiminn er sameiginleg forsjá allra í flokknum.
 
Fleiri voru á leiðinni. Hin karldýrin höfðu greinilega veður af því að eftir einhverju væri að slægast og hróp og köll tóku að berast ofan úr trjákrónum. Titto gerðist órólegur og varaforsetinn og daman smeygðu sér dýpra í þykknið.
 
Hvernig nær ungur simpansi frama í flokknum? Með því að slást. Og sýna leiðtogafærni. Titto hafði þotið upp metorðastigann með því að slást meira og betur en aðrir karlar, svo virtist hann nokkkuð góður í að finna mat og verjast þegar aðkomuflokkar reyna að seilast til áhrifa inn á svæði hópsins.  Og nú var hann kominn á það þroskastig í pólitíkinni að leita bandalaga við aðra apa, en þar var hann enn óþroskaður að sögn.  Meira fyrir að leysa málin með hnúunum.
 
Hver flokkur simpansa hefur sitt svæði og hleypir engum að. Karldýrin halda sig innan sama hópsins alla ævina, en eitt og eitt kvendýr færir sig á milli, stundum vegna þess að þeim er rænt eða þær gefst upp á ráðríki einhvers apans. Þannig tryggir náttúran líka hæfilega blöndun.
----
Slagsmál brutust út.
Við þustum í átt að látunum en hlupum næstum því um koll varaforsetann og apaynjuna sem sátu blíð á svip undir steini. Búin. Varaforsetanum hafði tekist að koma tappa í dömuna á réttu augnabliki.

Það var Titto sem hljóp út undan sér, bölvaður slagsmálaberserkurinn stóðst ekki að reka eftirfylgjendur frá og efndi til stórslagsmála uppi í trjánum þar sem allt var að verða vitlaust.

En nú heyrðust önnur köll.  Allir þustu af stað, sveifluðu sér af greinum eða þutu með skógarbotninum, einn sat efst í krónu og sýndi ógurlegar vígtennur:
Það eru komnir bavíanar!!! Nú voru allir í sama liði og skutust með ógnarhraða til móts við meinvættina sem voru að stelast í berin þeirra!
 
Við eltum sem mest við máttum í ærandi látunum, sáum bara eitt brúnleitt bak á bavína en okkar flokkur fór hamförum upp og niður trjástofna, út á greinar og sveiflaði sér á tágum eins og í Tarsanmyndum.
 
Nú birtist einn af þeim stóru á trjágrein þar sem hann blasti við öllum í kring, simpönsum og bavíönum og ferðamönnum.
Stór í sólarljósinu og sveiflaði herfangi sínu: Ofurlitlum bavíanaunga sem tísti af hræðslu. Sá stóri rumungur hélt um aðra afturlöppina og sveiflaði greyinu eins og tuskudúkku og lamdi harkalega í trjástofn.
 
Það glitti í brúnt bakið á móðurinni fyrir neðan tréð. Svo hvarf hún.
 
Ungaræninginn sat þarna uppi fyrir allra sjónum og lét krílið dingla, litla andlitið var afskræmt af hræðslu. Félagar öskruðu.
 
Þetta var herstjórnarleg gildra: ,,Komið ef þið þorið bavíanar og reynið að bjarga afkvæminu ykkar!” 
Simpansar gera þetta tíðum til að lokka óvininn í árás úr felustöðum. Þótt bavíanar séu með skarpar vígtennur og fimari en simpansar eru þeir ekki nærri jafn sterkir og láta oft undan síga.
 
Sem þeir gerðu. Enginn gaf sig fram til að bjarga unganum. Dunk,dunk,dunk heyrðist aftur meðan greyinu var lamið í trjágrein, svo eymdarlegt þegar apinn þaut ofar í tréð.
Niðri stóðum við þessi umkomulausi ferðamannahópur með kökkinn í hálsinum, ófær að bjarga greyinu sem enn tísti.

Sömmu síðar kom eitthvert stykki hrapandi niður. Iðrin úr unganum skullu á skógarbotninum.
 
Stríðinu var lokið og bavíanar farnir.
 
--
 
Nú kom ró yfir hópinn. Búnir að éta morgunverðinn, slást og stríða. Kominn tími til að ríða.
 
Nokkrir lögðust undir tré og fengu sér blund eða horfðu heimspekilega út í bláinn. Aðrir tóku til við kynlífið, oft hefur simpansaynja mök fjörutíu sinnum á dag. Hér var mikið fjöllyndi í gangi. Apakarl sat spakur á grein og þurrkaði af skaufanum með laufblöðum. Þetta gera þeir að afloknum mökum.
 
Tilhugalífið er einfalt. Ef apaynja er í stuði býður hún bara upp á sig. Ef karl girnist ynju hefur hann forleik sem felst í að taka laufblað og rífa það í smátætlur, bara svona í rólegheitum, svo daman sjái. Láti hún ekki heillast af þessu öskrar hann á hana að koma. Dugi það ekki rýkur hann til og grípur til heimilisofbeldis, lemur hana til samfara.
 
Hér fór allt fram í ró og spekt. Uppi í trákrónunum voru þau að maka sig eitt af öðru, samfarir taka 5-6 sekúndur. Aðrir voru að flétta greinar í tuga metra hæð og þekja laufum til að búa sér til hreiður fyrir hádegisblundinn. Svo dingluðu þeir þarna sofandi eins og í hengirúmi.
 
Nokkrir félagar sátu í makindum og leituðu lúsa hver á öðrum.
 
Við snæddum nesti á föllnum trjábol. Aðkomufólk frá Síle, Írlandi og Íslandi; hér selt inn og bókað fyrirfram, aðeins tveir hópar á dag fá að fara inn á svæðið og skoða tvo simpansaflokka sem hafa vanist fólki. Það kostar um 30.000 krónur á mann að kaupa leyfi og leiðsögn í svona heimsókn.  Og ef það er uppselt þá er uppselt.
Hér er engin Almannagjá.
,,Það eru ekki allir jafn heppnir og þið,” sagði vörðurinn sem hafði aðeins einu sinni áður orðið vitni að apastríði á sjö ára ferli sínum
Við brjótum okkur leið þangað sem nokkrir liggja í makindum eða snyrta og snurfusa hver annan. Hér á ekki að vera nein hætta á ferðum fari maður ekki alltof nálægt, en 2-3 metra friðhelgi gildir. Reglan er sú að maður má ekki snerta apa, en kjósi api að snerta mann má hann það.
 
Íslendingurinn hefur dregist lítillilega aftur úr röðinni á þröngum stíg. Stór, svartur og loðinn hlunkur sveiflar sér allt í einu fram fyrir hópinn, tekur snúning á tré framhjá fólkinu og kemur svo urrandi illur eftir stígnum í átt að afkomanda sagnaþula og víkinga. Hann þrífur upp lurk og lemur í jörðina, hristir greinar og öskrar, steðjar áfram að Frónbúanum hvítbláa sem þokar sér inn í runna og reynir að rifja upp glímutök Jóhannesar á Borg sem slóst við blámenn og jötna í sirkúsum utanlands.
Nær maður hálfum Nelson á helvítið áður en hann lemur mann? En það er apinn sem rýkur upp í tré fnæsandi og gefur hugtakinu ,,armslengdarfjarlægð” rétta merkingu.
Sonur eldfjallaeyjunnar andar léttar.
Það verður spennufall í hópnum. Vörðurinn spyr:  Hvernig leist þér á Titto ?
,,Góð upprifjun fyrir frekari pólitísk afskipti,“ segi ég.

Það kemur í ljós að konan frá Síle er sálfræðingur.
,,Mannasálfræðingur” segir hún.
,,Er mikill munur á apasálfræði og mannasálfræði?“ spyr konan frá Írlandi.
,,Ekki sýnist mér” segir hún.
 

3. pistill: Eiginkona forsetans


Úganda.   

Nefni maður heimalandið rekur fólk upp stór augu og svarar á móti: Idi Amin.
Idi Amin er mesta og versta landkynning Úganda meðal miðaldra Íslendinga og eldri sem enn muna þennan mikla harðstjóra.
Hann var rekinn frá völdum árið 1979. 
Og lifir enn i minningu Íslendinga sem vita ef til vill fátt annað um Úganda.  Landið er vel rúmlega tvisvar sinnum stærra en Ísland að flatarmáli.  Fólksfjöldi 36 milljónir.  Eitt af fátækari ríkjum Afríku og mjög neðarlega á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna.  

Hvar er Úganda?  Eiginlega í miðri Afríku.  Nær hvergi að sjó. Landsmenn kalla landið sitt stundum hjarta Afríku en væri það á líkama álfunnar myndi það kannski vera nafli Afríku. 
Liggur við miðabaug og loftslagið eins og Íslendingar myndu kalla ,,eilíft sælusumar.”
Einhver sagði að hugmyndin um aldingarðinn Eden ætti rætur að rekja hingað og annar segir að Winston Churchill hafi á sínum yngri árum sem erindreki lagt til að Bretar settu upp Afríkumiðstöðvar sínar hér.  Landgæði væru slík.  Perla Afríku er viðurnefnið.

Sutta lýsingin: Landlægt, fátækt bændasamfélag sem lifir mest á akuryrkju og aðal útflutningsvörur eru kaffi, te, og blóm, ávextir, grænmeti og fiskur úr vatninu.  80% sjálfsþurftarbændur og mjög fátækir.

Aðeins lengri lýsing:  Kampala er höfuðborgin og hefur útlínur sem minna á stórborgir.  Tveggja milljóna manna borg sem verður fjögurra milljóna manna borg á daginn?  Enginn veit almennilega.  Stefnir í að verða það sem kallað er ,,megaslömm” og er ekki eftirsóknarvert fyrir borg.
Sums staðar er borgin eins og heimurinn okkar í hnotskurn:
Glæsilegar ofurvillur klæða hæðina fyrir ofan gamla flugvöllinn, leiðin liggur framhjá snotrum verslunarklasa með súlum og hvelfingum þar sem unglingar í stælfötum taka sjálfur um helgar og þotulið af innlendu og erlendu bergi brotið sötar kaffi, vín og bjór og borðar salöt á verönd sem gæti verið í Mónakó.
Nokkur hundruð metrum neðar búa þúsundir, tugir þúsunda, hundruð þúsunda, í kofahverfum og hreysum.  Moldarslóðar milli húsa þar sem fjölskyldur hafa 6-8 fermetra til umráða, kamrar eru yfirfullir, síkin með seigfljótandi eðju því engin eru holræsin og einn og einn vatnskrani þjónar hundrað heimilum.  Börnin rúlla um troðninga enda dýrt að fara í skóla  og iðjulausir hanga við fallna staura.

Og svo aðeins meira:  Forsetinn sem gengur undir gælunafninu M7 (heitir Muzeveni) og hefur setið 31 ár í embætti; fjöldi flokka á þingi en aðalvaldaflokkurinn ráðandi  og hefur ráðið flestu lausu og föstu jafn lengi og forsetinn.  

Úganda hefur aðeins verið lýðveldi í rúmlega hálfa öld.

Landið er fyrrum nýlenda Breta og er saman< sett úr fjórum aldagömlum  kongungdæmum, sem lifa enn innan í ramma nútímaríkis.  Sagt er að landsmenn reki sína hollustu fyrst og fremst hver til síns konungdæmis.  Hjartað er hjá kónginum, skatturinn fer til forsetans.  Ef menn borga þá skatt.

Nýlendutíminn sjálfur lifir enn í minningunni:  ,,when the Bristish fucked the country” eins og sagt er.   En þar áður var öll sú fjölbreytta menning sem þróaðist með ýmsum ættbálkum og konungsveldum á ýmsa lund og lifir enn í hefðum og venjum, sögum, ljóðum og dönsum.  

Þegar kemur til átaka og deilna fara menn oft 150-200 ár aftur í tímann til að styðja mál sitt með dæmum.  Svona eins og þegar við vitnum í Jón Sigurðsson á Þjóðfundinum 1851.

Ættbálkar margir og fjölbreyttir, tungumál um 40- en opinbera málið enska.
Já, allt þetta litríka mannlíf og menningarstraumar í landi sem er aðeins rúmlega tvisvar sinnum stærra en Ísland.
Hér eru 1000 sinnum fleiri íbúar en heima, við erum aðeins 300 þúsund sálir á lítilli eyju með eina sögu og einn arf.  Mestanpart.Það er hollt að muna að allar þessar milljónir og öll þessi saga er saga fólks, einstaklinga, sem lifðu sínu lífi, trúðu á ólíka guði og hétu hollustu við ýmsa foringja...
Ég rak augun í eina sögu.  Hún er hliðarsaga við sjálfan Idi Amin. 
Birtist í nokkrum minningaargreinum skömmu eftir að ég hreiðraði um mig í Kampala.  Hún er um konu sem  var næstum jafnaldra mín, gæti hafa verið skólasystir í Vogaskóla í gamla daga, en fyrir henni átti að liggja að verða fimmta eiginkona Idi Amins og ,,uppáhaldskonan”. 


Sarah Amin lést í Lundúnum í hitteðfyrra, 59 ára að aldri, 40 árum eftir að Amin sá hana go-go dansa með hljómsveit sem kallaðist ,,Byltingarband sjálfsvígavélaherdeildarinnar”.
Hafa síðri hljómsveitarnöfn verið fundin upp. 


Enda kölluðu menn go-go stúlkuna Sjálfsvíga-Söru.  Hershöfðinginn sem hafði þá nýlega rænt völdum  sá í henni stóru ástina í lífinu og þau áttu eftir að verða forsetahjón.

Hún var þá 19 ára, ég var bráðum að útskrifast stúdent úr MT.
Haldið var tveggja milljóna dollara brúðkaup.  Yesser Arafat var svaramaður og lítið spurðist til fyrrverandi kærasta Söru eftir þetta.
Barn ól hún sem talið var víst að sá kærasti hafi átt.  Það skipti Amin engu, hann tók það í tölu þeirra 49 barna sem hann sagðist hafa getið með eiginkonum sínum. 
Saga Amins er einhver sú skelfilegasta sem Afríka kann frá að greina.  
Einhvern veginn við hæfi að áður en hann rændi völdum af fóstbróður sínum hafði þessi ómenntaði ,,böðull Úganda”,eins og hann var kallaður, risið til æðstu mögulegra metorða fyrir afrískan blökkumann innan breska hersins.

Amin er talinn  hafa 300-500.000 mannslíf á samviskunni. Þegar harðstjórinn var hrakinn í útlegð fór Sara með honum. 
Þá var ég enn að vonast til að verða einhvern tíma útvarpsmaður.
Auðvitað er ennþá fólk á lífi hér í Úganda sem man þessa hræðilegu tíma og hitt hef ég fólk sem missti mikið,  ættingja og vini, sumir flúðu land og bera þess aldrei bætur.  


Auðvitað lifir hann í minningunni þótt hann hafi dáið í Sádí Arabíu að lokum.  
Sarah fimmta frú fór land úr landi, með viðkomu í Þýskalandi uns hún settist að í norður London og rak snyrtistofu og kaffihús í spekt.


Nema laganna langi armur vildi meina að hún væri of kærulaus um heilbrigðislöggjöfina gagnvart kakkalökkum og músum á staðnum.  Flestir bera henni gott orð.  Og alltaf bar hún Idi Amin vel söguna.  Hann hafi verið vænn og góður maður og reynst sér vel. 

Og hér er ég kominn á þær slóðir sem Sjálfsvíga-Sara átti sína skrautlegu sögu, þessi næstum jafnaldra sem hefði getað verið systir mín í tímakennslu hjá séra Árlíusi, en varð go-go dansari með ,,Byltingarbandi sjálfsvígavélaherdeildarinnar” .  


Það var um það leiti sem ég stóð í biðröðum fyrir utan Sigtún um helgar til að fara á ball, en hún á leið í brúðarsæng með einum blóðugasta harðstjóra síðustu aldar.

4.pistill: Við erum öll kaþólikkar hér


Páfi var eins og poppstjarna þegar hann kom til Úganda.

Allir þurftu að sjá hann og skiptu trúarbrögð engu, fólk var forvitið um þennan mann á hvítum kjól sem það kallaði PAAAAAPAAAA! þar sem hann ók með hvíta kollu ofan á allt annað og veifaði, skartaði blíðu en stundum raunarlegu brosi.

Líkt hann bæri allar byrðar heimsins á nær áttræðum herðum sínum frá Argentínu. Og það gerði hann eiginlega:  Fór í fátækrahverfið í Nairobí í Keníu á leið hingað og talaði gegn spillingu, elítum og arðrænandi þaulsetnum valdamönnum;

Svo kom Paapapa hingað til Úganda og við sendifulltrúar erlendra ríkja vorum í samkomusal í forsetahöllinni þegar hann loks kom og heilsaði upp á ríkisstjórn landsins og okkur á leið áfram til móts við pöpulinn, sem var hið eiginlega erindi.  

Yfir okkur kaus hann að tala um flóttamenn og hrósaði Afríkuríkinu fyrir að taka vel á móti þeim og sýna í verki að við erum mannkyn - ,,ein fjölskylda” - og skilaboðin voru skýr.  Eftir stórmessu daginn eftir hvarf hann yfir til Mið-Afríku lýðveldisins þar sem kristnir og múslimir stríða.  Múslimar eru í herkví kristinna öfgamanna sem drepa þá og ofsækja og páfi fór rakleiðis í gin ljónsins, mosku bæjarins, og bað múslimum bæna.  

Þessa á milli talaði hann stríðum rómi um ábyrgð mannkyns á sköpunarverkinu, umhverfinu, náttúrunni, talaði gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum dagana sem Parísarráðstefnan hófst.  Ég heyrði hann varla minnast á guð.

Paaaapa rokkaði feitt.  Ég hitti múslimskan vin minn sem var á leið á stórleikvanginn í stuð með páfa, hann var með ís og blöðru og eftirvænting lá í loftinu.

--

Þar sem ég sit hér núna á svölunum á íbúð minni í Kampala og horfi yfir borgina í mistri er eins  og hún sé sveipuð ryksalla úr eyðimörkinni, öll rústrauð, sandgul eða músteinsbrún.  Nema auðvitað þar sem kínversku matsöluhúsin skarta ofurdýrð neonljósanna.  

Í þessu samsafni og óskipulagi húsa, gatna, trjátoppa og kofahverfa er friður meðal ólíkra iðkenda trúnarbragða.  
Á hæstu hæðinni trónir þrjátíu þúsund manna moska múslima sem Ghaddafi Líbíuleiðtogi lét byggja af gjafmildi sinni.  Sumir segja reyndar að það hafi verið af ást á konu hér í bæ, en altjent, múslimar eiga þetta glæsilega hús með feiknamikilli turnspíru og hvelfingum.   Þetta er einstaklega fagurt bænahús.  Fleiri moskur eru í bænum og víða um land.

Þaða hvarflar ekki að okkur að amast við bænaköllum múslima klukkan fimm á morgnana þegar þau óma yfir byggðina.  Né heldur lætur maður sálarhreinsandi gospelsöngva handan götunnar við skrifstofuna fara í taugarnar.  Hér eiga allir bæna- og söngrétt.

Frá Gaddafi moskunni er örstutt í kristna kirkju, enska biskupakirkju, sem er á næstu hæð.  Nóg er af kaþólskum kirkjum, einnig hvítasunnusöfnuðum af ýmsum toga.  Mótmælendur í ýmsum gervum. Sumir réttnefndir kristnir öfgamenn sem vilja ofsækja þá sem biblían bannfærir, samkynhneigða.

Svo höfum við hindúahof í miðbænum.  Hér eru líka mormónar og búddistar.  

Og sagt er að næstum fimmti hver maður hafi í heiðri einhvers konar innanlandstrú sem er frá fornu fari og geymir anda og líf í stokkum og steinum, galdra og alls konar.

Og ofarlega á hæðinni sem blasir hér við beint á móti og ég heillast af í morgunsólinni er fögur hvelfing á hofi sem er eina Bahái hof Afríku, þar mega allir koma og hugleiða trúmál, sama hverrar trúar þeir eru, enda sameiningartákn allra sem yfirleitt trúa.
Maður verður ekkert var við ófrið milli fylgjenda þessara ólíku trúarbragða.  Þvert á móti, og frídagar höfuðtrúarbragða virka þvers og kruss ef út í það er farið.  Kristnir fara glaðir í frí þegar múslimar ljúka sinni föstu, og múslimar virðast mér kunna vel að meta frí um jólin.
En samkvæmt tölfræðinni er þetta síst of mikið af trúarbrögðum því 94% landsmanna telja trú mikilvæga.
Um daginn hitti ég galdralækni.  Ég var á menningarferð um sveitaþorp og fékk að fara á fund þess manns sem stundar hefðbundnar lækningar.  Já einmittt.  Hér eru hefðbundnar lækningar það sem heima kallast óhefðbundnar lækningar.

Hann klæddist fötum úr trjáberki og minnti helst á seiðkarl úr barnasjónvarpsserí.  En galdramunir hans voru ekkert barnaglingur.  Leggir og leður, hár og húðir, koppar og kirnur.  Margt eitt dót til að liðsinna fólki í veikindum, hjónabandsörðugleikum eða glímu við illa anda.  Það er til ráð við öllu.  Þetta hafði hann lært af föður sínum og var nú mikilvæg persóna í þorpinu.  Ef konan ætlar að stinga af að heiman? Þá leggur maður þennan visk á þröskuldinn. Ef framliðinn afi ætlar að ræna barnabarni til að hafa með sér í gröfina...þá...  Hann sagði mér frá ótal illum áformum anda að handan.

Og hann var með nátúrulyf við risvandamálum.  Sagðist reyndar þurfa að vara útlendinga við því að gleypa svoleiðis nema kærastan væri mjög nálægt og reiðubúin.  Annars gæti illa farið og við förum ekki nánar út í það.
Þegar við kvöddumst spurði hann mig:  Hvernig er það í þínu landi?  Eru andalæknar?
Já já sagði ég.  Margir eru í sambandi við lækna að handan og fá leiðsögn og aðstoð.  
,,Hvað segir!“ sagði hann, ,,ég hélt að það væri bara í Úganda sem fólkið hefði svoleiðis.“
Þessi andatrú tekur á sig ýmsar myndir.  
Fyrir skömmu heimsótti ég sveitaþorp í fátæku héraði norður í landi og fékk leiðsögn heimamanns til að segja frá siðum og venjum, daglegu lífi og heimilishaldi  í kofum fólksins undir stráþökum.   Við ræddum mat, akuryrkju, lífið í þorpinu og þessa skrítnu siði: Hvar sem tvíburar fæðast er höfð viðhöfn, sérstöku tré plantað fyrir utan kofann og skreytt, það er blessun að eignast tvö en ekki bara eitt barn og upp á það er haldið.  Fólk sækir mikið á fund andalæknis sem kann ráð við öllu, drepa svarta geit við flensu, ná í þrjá hvíta kjúklinga ef einhver er ef til vill að ofsækja þig með sendingum að handan.  Finna sökudólga með andlegum krafti.  Vandræði með peninga?  Slátra hænu.  Þetta virðast eilífar fórnir og endlaust streð að uppfylla allar þessar kröfur sem ,,lausnamiðaður” særingamaður finnur upp á.  Maður þarf jafnvel að slá lán hjá okurkarli, eða hreinlega stela þessari geit og kalla yfir sig enn meiri reiði nágranna.

Kóngur sveitarinnar býr í sama þorpi og efst á stráþakinu trónir kerald úr leir; það kemur í veg fyrir að ugla setjist á kofann og væli, slíkt boðar ekkert nema ólán fyrir alla sveitina.  Í stráþakinu er skorðuð hauskúpa af geit, gamalt fórnarhöfuð tengdasonar við giftingu; það færir giftu.

Holar bambusstangir eru við kofadyrnar, fylltar vökva til að koma í veg fyrir að eldingu ljósti í þorpið.  Kóngurinn veitir mér blessun sína með sameiginlegri handaryfirlagningu okkar beggja, drottningin sópar moldarhlaðið, önd er á vappi og ,,prinsessur” sitja með kornabörn á trjábút.

Þetta er flókið andlegt líf.  Við röltum yfir að ökutækinu eftir að hafa náð í skartgripi hjá samvinnufélagi kvenna í þorpinu og ég spyr:  Hverrar trúar eruð þið hér í þorpinu?

,,Við?  Við erum öll kaþólikkar hér!”
5.pistill: Menntun

Góðir hlustendur
Úr því að ég fór fram á völlinn með þessa Afríkupistla mína í úvarpi allra landsmanna finnst mér við hæfi að ég geri aðeins grein fyrir mér hér í álfunni heitu.  Ég er sem sagt starfsmaður ykkar.  Starf minn felst í því einkum að koma á framfæri þróunarsamvinnufé sem þið borgið með sköttunum ykkar.   Þess vegna finnst mér ég skulda ykkur reglulegar greinargerðir,  frá því ég byrjaði að starfa á þessum vettvangi fyrir réttum 10 árum.  Ég hef skrifað greinar í blöð, komið í ótal viðtöl, haldið úti veftímariti frá Afríku, skrifað bók um ást mína á Afríku og birt myndir og frásögur við hvert tækifæri.

Og nú er hér ágætt tækifæri sem ég þakka fyrir og segi ykkur aðeins frá því sem þið leggið af mörkum gegnum mig og mína samstarfsmenn í Úganda.

Fyrst og fremst snýst starfið um vatn og hreinlæti, og skólamál.  Við í sendiráði Íslands vinnum með tveimur héraðsstjórnum í landinu, í landshlutum sem eiga verulega undir högg að sækja.  Annars vegar á eyjaklasa í Viktoríuvatni, þar sem heitir Kalangala og hins vegar í fiskimannaþorpum niður við strönd sama vatns hérna 50-60 kílómetra utan við borgina.

Fyrst smávegis um bakgrunn.  Fyrir nokkrum árum gerði Alþjóðabankinn könnun um allan heim um það hvaða málefni fólk í þróunarlöndum setti í efsta sæti að mikilvægi.  Menntun kom fyrst.  Þetta fannst mér mikið þroskamerki, og sama línan var gegnumgangandi þvert á álfur og höf.  Menntun var alltaf í einu að þremur efstu sætunum og þegar allt kom til alls - í fyrsta sæti.

Sumir vita að skólaganga barna hefur stóraukist  í heiminum á liðnum tveimur áratugum eða svo, og heilt yfir fá jafn margar stúlkur og strákar að ganga í skóla.

Mörg fátæk Afríkuríki ákváðu á þessum tíma að gera grunnskólamenntun fyrir alla að keppikefli, með ókeypis skólagöngu.
Í dag eru svona 50-60 milljónir barna í öllum heiminum sem ekki ganga í skóla, sem eru ansi mörg börn.  En mun færri en löngum áður, sem sagt, aldrei hafa fleiri börn gengið í skóla.

Það sem við erum að vakna við þegar þessar góðu tölur eru birtar er að aukin skólaganga þýðir ekki endilega aukin menntun.

Fjandinn hafi það segir maður.  Með því að gera skólana gjaldfrjálsa og opna öllum - sem eru grundvallarrréttindi, kom gusa skólabarna inn í kerfi sem var algjörlega vanmáttugt að taka við.

Ég hef séð þetta bæði í Malaví og hér í Úganda.  Jú,jú, börnin koma í skóla, en þau læra mest lítið.  Svo nú eru aðal orðin gæði menntunar.

Og nú ætla ég að hoppa með ykkur út í eyjaklasann sem ég nefndi, Kalangala.  Þar á grunnskólamenntun mjög undir högg að sækja.  Í fyrsta lagi eru skólarnir eitthvað sem þið mynduð aldrei kannast við sem íverustaðir, og hjálpi mér, heimavistirnar þar sem þær eru.  Skólagrauturinn eldaður á hlóðum í kofaræksni, 50-60 eða 100 nemendur á hvern kennara, 10-15 krakkar um hverja námsbók, sums staðar ekki vatn eða hreinlætisaðstaða.  Fjarvistir kennara 20%, illa menntaðir kennarar þar sem þeir eru...

....ég ætla ekki að lengja þetta því hér hefur orðið smá bragarbót á.  Fyrir nokkrum árum varð það hluti af stuðningsverkefni Íslands við Kalangalahérað að efla skólana.  Það var alls ekki ómyndarlegt:  Betri byggingar risu, yfirvöld fengu stuðning til að bæta menntun, námsgögn komu í þá þannig að nú fékk hver nemandi námsbók í faginu, eftirlit jókst, vatns og hreinlætisaðstaða batnaði.  

Ótrúlegur hlutur gerðist.  Kalangalabörnin sem alltaf höfðu verið langt fyrir neðan meðaltal á samræmdum landsprófum fóru upp.  Núna um daginn var enn staðfest að Kalangalaskólar voru komnir í efsta þriðjunginn í Úganda, sem hefur vakið athygli.  Eitt blaðanna spurði fræðslufulltrúann í héraðinu:  Hvernig stendur á því að þið eruð í svona mikilli sókn. Og hann svaraði:  Ísland kom með námsbækur og fleira.

Ég skal viðurkenna að þegar ég sá þessar tölur fyrst trúði ég þeim ekki.  En reglubundnar mælingar ár eftir ár sýna svipaðar niðurstöður.  Krakkarnir eru í sókn.

Ég hef spurt heimamenn hvað gerðist.  Þeir nefna ýmislegt.  Sjálfur tók ég þátt í að rýna hluta verkefnisins og hitti þá skólafólk úti á eyjunum og tók eftir einu:  Margt af þessu fólki sem vinnur við mjög erfiðar aðstæður - svo erfiðar að ég reyni ekki að segja ykkur frá því hér og nú- eru eldhugar.  Maður getur ekki sagt nákvæmlega hvað í verkefninu leiddi til jákvæðrar þróunar og niðurstaða okkar var að það væri margt í einu.  En eitt af því var tvímælalaust aukinn kraftur fólksins.

Já.  Svo við ákváðum að þróa þetta enn frekar í fleiri fiskimannaþorpum og nú erum við með samtímis tvö all stór margþætt skólaverkefni. Í Kalangala, þar sem rétt þótti að halda áfram og reyna að festa í sessi ávinning.  Og í Buikwe, þar sem algjört svarnætti ríkir í skólamálum.

Og þegar ég tala um svartnætti þá á ég við hluti eins og þessa sem nú koma:  70% brottfall nemenda úr fyrsta bekk barnaskóla upp í sjöunda bekk.  Helmingur af þeim sem eftir eru fellur á samræmdum prófum og kemst ekki upp í gangfræðaskóla, innan við 10% ná fyrstu einkunn en lang stærsti hópurinn er í fjórða og neðsta flokki í eikunnum, af þeim sem þó ekki falla.

Af þessum krökkum geta fæst lesið eða skrifað sér til gagns eftir 5-6 ára skólagöngu.  Og varla von.  Nýjar kannanir sýna að stór hluti kennara er litlu betri.

Mörg barnanna eru vannærð og hafa sum liðið skort frá því þau voru í móðurkviði - búa við vitsmunaskerðingu alla tíð.
Ég þarf ekki að hella yfir ykkur meiri tölum, þær eru allar á þessa lund, trúið mér bara.
En eitt talnadæmi ætla ég að leggja fyrir ykkur, því ég var einu sinni formaður menntaráðs í Reykjavíkurborg.  Það var fyrir svona 12-14 árum og ég man að framlag á hvern grunnskólanemanda var um 5-600 þúsund á ári.  Ég las svo í blöðunum um daginn að framlag á hvern nemanda í borginni væri komið í 1800 þúsund á ári.

Nú ætla ég að biðja ykkur að giska á hvert framlag með hverjum nemanda er hér, í Úgnada, frá ríkinu til hinna almennu barnaskóla.

Þið getið ekki látið ykkur dreyma svo lága tölu.  Við erum að tala um 250 krónur á ári.  En af því að ríkið borgar kennaralaun, tekst mér að koma tölunni samtals upp í 4000 krónur á ári með  því að slétta af helstu óvissuþætti.  Grunnskólabarni í Reykjavík fylgja 1800 þúsund, grunnskólabarni í Úganda 4000 krónur.

Þess vegna leggja skólarnir ótæpileg skólagjöld á foreldra.  Þau eru bæði ósamþykkt og ógagnsæ en ákaflega illa þokkuð af foreldrum sem lifa í loforðinu um ókeypis grunnmenntun fyrir alla.  
Þessi skólagjöld geta farið upp í 20 þúsund krónur á ári í almenna skólakerfinu, sem eru óvart rífleg mánaðarlaun kennara hér í landi.  Það sjá allir að í landi þar sem stór hluti landsmanna er með 200 krónur á dag í tekjur og þjóðarframleiðsla á mann er bara kringum 800 krónur á ári að þessi gjöld eru miklar byrðar á barnmargar fjölskyldur.

Svo dæmið er einfalt fyrir fátæka:  Skólarnir kenna ekkert af viti en rukka ofurgjöld fyrir - þá er nú betra að hafa barnið bara heima.

Þetta er sem sagt veruleikinn hér.  Skólaverkefnin okkar Íslendinga í Úganda nálgast líklega að ná til álíka fjölda nemenda og eru í grunnskólum Reykjavíkur.  

Svo erum við með vatns- og hreinlætisátak í þessum þorpum og náum til svona 40.000 íbúa á 4 árum.

Þetta er nú meðal þess sem Ísland leggur af mörkum.

Ef ég tek heildarkostnaðinn við rekstur þessara verkefna hér í Úganda á hverju ári nemur hann um það bil 1600 krónum á hvern Íslending.
6. pistill: Litið í blöðin

Góðir hlustendur.  Þegar maður býr um sig í nýju heimalandi eru fjölmiðlar á staðnum hraðleið til að kynnast nýrri menningu.  Maður má þó ekki blekkast og halda að blöð og útvarp og sjónvarp endurspegli lífið eins og það er.  Maður sem kæmi frá Úganda og ætlaði að fræðast um Ísland gegnum fjölmiðla yrði fljótur að átta sig á því trúarbrögð landsmanna eru peningar, tilgangur lífsins á Íslandi er Verðbólgumarkmið Seðlabankans og Árni Johnsen einn af helstu veðurvitum samfélagsins, ásamt Tobbu Marinós, Gilzenegger og... nei þetta eru víst leifar af liðinni tíð.   Gesturinn frá Úganda settist inn á smurstöð og fór að lesa gegnum gamla bunka af Séð og heyrt.  Og af því að hann kann hrafl í íslensku og villtist inn á Úvarp sögu er hann ákaflega hræddur við sjálfan sig, enda múslimi.

Þið skiljið hvað ég meina, um þessa þrasgjörnu þjóð sem gesturinn er nú að kynnast og fá óvilhalla mynd af.

Þess vegna er ég með ótal fyrirvara þegar ég les blöðin hér og hvernig þau birta mynd af Úganda.  En mig langar að renna gegnum einn bunka af helgarblöðum fyrir ykkur svo þið kynnist landi og þjóð á sama hátt og ég reyni að gera.

Vandinn byrjar strax á tungumálinu.   Þau blöð sem skrifuð eru á ensku eru nokkur, en hér eru töluð 40 tungumál.  Og mér skilst að þau blöð sem skrifuð eru á mér framandi tungumálum fjalli um allt aðra hluti og hliðar mannlífsins en ég fæ séð.  Því miður er ég líka ansi litlu nær um orðaflauminn á öllum útvarpsstöðvunum en skilst að sum sé þar ansi skrautlegt.  

 Blöðin sem eru á ensku eru bundin við kerfið og pólitíkina og mest við millistétt og betur megandi.  Eitt heitir Ný Sýn og fjallar vinsamlega um forsetann og allt sem valdaflokkurinn gerir.  Annað heitir Vaktmaðurinn, þriðja Sjáandinn, fjórða Skoðandinn og Rauði Piparinn er svo sæmdarheiti yfir helsta slúðurblaðinu, sem  leyfir sér stundum hressandi stílbrögð:  ,,Það varð eistnaflug á ritstjórninni þegar leynilegar nektarmyndir af félagsverunni Fabíólu bárust okkur til birtingar.”  

Fabíóla er fræg fyrir að vera fræg, aðallega held ég.

Þessa umræddu helgi stendur Vaktmaðurinn vaktina og er með forystumann stjórnarandstöðunnar á forsíðu um allt sem aflaga fer hjá valdaflokknum. Og launadeilur í háskólanum.  Fréttir sem gætu átt við hvaða land sem er.  Það veit ég hins vegar að það er í blaðakálfunum þar sem fjallað er um lífið í landinu að maður nálgast fólkið.  Og lesendabréfum og aðsendum greinum.  Og smáauglýsingum.

Hér er prestur að velta fyrir sér hvort Trump bandaríkjaforseti muni ekki bjarga kristnum dómi og forða okkur frá þeirri veraldarhyggju sem allt ætlar sundur að slíta.  Hann er ánægður með innsetningu nýja forsetans og allt bænakvakið og guðsorðið þar í kring.
Annar skrifar um menntamál og tekur þar á miklu þjóðfélagsmeini og áhyggjum foreldra.  Því hér í landi á að vera ókeypis grunnskóli og gagnfræðaskóli fyrir alla, en þar sem fjárveitingar ríkisins eru svo litlar og laun kennara svo lág verða skólar að leggja gjöld á foreldra.  Sem eru að sligast.  Fátækir foreldrar kjósa margir að senda börnin ekki í skóla, enda svo lélegir að fjárfestingin borgar sig ekki.  Þetta er stórmál sem blöðiin fjalla mikið um.  

Það er reyndar eftirtektarvert hve mikið er fjallað um skólamál hér. Þegar einkunnir fyrir samræmd próf úr sjöunda bekk liggja fyrir birtast ótal breiðsíður með myndum af þeim sem stóðu sig best.  Þetta eru glaðir unglingar sem lögðu hart að sér.  Hvernig skólar í landinu raðast eftir árangri er birt, hvaða héruð standa sig best og verst.  Og svo hið óhjákvæmilega:  Hvernig í veröldinni stendur á því að helmingur barnanna fellur á prófunum?  

Aðeins 7% ná fyrstu einkunn?  Þetta er risavaxið blaðamál og tekur engan enda eins og aðsendar greinar og fréttaskýringar benda til.

Í leiðara Vaktmannsins er hins vegar fjallað um að alltof margir opinberir starfsmenn séu nú að sækja um endurskráningu á aldri sínum.  Farnir að nálgast eftirlaunaaldur og vilja fá að yngjast um nokkur ár.  Það er ekki mikil regla á fæðingarvottorðum hér.  Og í framhaldi af þessu ætlar svo ríkið að skrá formlega með manntali alla sem eru komnir á aldur.  Til að menn hangi nú ekki of lengi á fágætum stöðugildum, en líka til þess að ekki sé greiddur lífeyrir til fólks sem í raun er ekki til.  

Hér í landi er talsvert um drauga á alls konar greiðsluskrám.  Til dæmis launaskrá kennara og annarra opinberra starfsmanna.  Lífeyrissjóðir tapa stórfé árlega á greiðlum til fólks sem hvergi er til nema á  bankareikningi í eigu útsjónarsamra svindlara.

Blaðaukar Vaktamannsins þessa helgina eru svo um ensku knattspyrnuna sem er útbreitt vandamál, áhugamál fyrirgefið, annar blaðauki um landbúnað með heilræðum og sigursögum af fólki sem ræktar kál með hagnaði, berst við svínaflensu og ætlar í býflugnarækt.  Enda ekki óeðlilegt í landi þar sem 85% íbúa eru smábændur.
“Konur á fullu “ er svo blaðauki með ítarviðtali við fræga sápuóperu leikkonu, sagt frá ljósmóður og lífi hennar, hún tekur á móti 500 börnum árlega.  Svo er flott grein um fátækar konur sem stofnuðu samvinnufélag um tekjuaukandi tækifæri, og félagslegan stuðning sem þær finna í þessum kvennahring.  

Og aftur varpar svona umfjöllun ljósi á lífið í landinu:  Þriðjungur landsmanna hefur minna en 200 krónur á dag og næstum helmingur aðeins litlu meira.  Landið er eitt hið fátækasta í heimi og því að vonum að blað sem kallar sig Vaktmanninn fjalli um úrræði fátækra kvenna.

Ný sýn hefur nú eins og nýtísku fjölmiðlar opnað samskiptarásir á netinu sem þar sem til verða ummæli fyrir blaðið.  Þar er fólk að deila um áfengissölu.  Já.  

En nú um það hvort bann við sölu á áfengi í smáskömmtum í plastpokum eigi rétt á sér.  Bæjaryfirvöld í Gulu voru ósátt við fyllerí á almannafæri og bönnuðu að selt væri áfengi út af börum í plastpokum.  Einn lesandi er óánægður með þessa forsjárhyggju.  Nóg er nú vínið dýrt þótt ekki sé reynt að neita fátækum um að bjarga sér um smáskammta í plastpokum.  Annar skrifar á móti:  Þessir brennivínspokar eru að gera útaf við karlana í bænum, burt með þetta!  

Ef menn halda að hægt sé að útkljá stóra áfengissölumálið þá er það misskilningur.  Um allan heim.

Blaðið fjallar um fjöldauppsagnir hjá símfyrirtæki, og enn eitt svikamálið.  Maður les endarlausar spillingar- og svikasögur.  Hjá hinu opinbera og í einkabusiness, hér eru það einhverjir sem þóttust reka stúdentagarða og sviku fé úr nýgræðinum.  Svona fréttir eru  endalausar, ef það eru ekki háttsettir embættismenn þá eru það verktakar.  Alþjóðabankinn fann út í fyrra að af þeim 5000 kílómetrum sem átti að vera búið að leggja af vegum með varanlegu slitlagi höfðu aðeins 1700 km orðið til.   2/3 veganna hurfu á leiðinni af einum bankareikningi á annan.

 Í aðsendum greinum er einn maður að velta fyrir sér hvort ekki eigi að setja lágmarkskröfur um menntun þingmanna.  Hann bendir á Trump forseta sem dæmi um mann sem ekki hefði staðist slíkt próf og telur dæmi um fólk á Úgandíska þinginu sem svipað sé ástatt um.

Í smáauglýsingunum getur maður svo reddað sér náttúrulyfjum gegn öllu því sem hugsanlega hrjáir mann, eða, mann dreymir um.  Svo er hér kona frá Tansaníu sem auglýsir sig með mikið spjót sem hún kveðst nota í særingar dugi ekki annað.

Það er Piparinn sem kryddar vel þessa helgi eins og oft:  Forsíðan undirlögð af því að einn helsti auðmaður landsins hrekist nú undan yfirvöldum eftir að hafa misst einkabanka sinn í hendur fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans.  Fjórði stærsti banki landsins féll fyrir nokkrum mánuðum og síðan hefur framhaldssaga undið sig um síður blaðanna.  

Fyrir Íslending er þetta allt eins og að lifa gamla tíma og greinilegt ef marka má frásagnir að Kaupthinking fékk að vaða hér uppi.  Ef þetta væri ekki allt saman svo sorglegt væri kómískt að bera saman okkar auðmenn og þeirra auðmenn, fjárhirðana og banksterana og maður kannast nánast við hvert einasta atriði sem blöðin varpa ljósi á.  Stundum hlær maður bara upphátt og getur ekki annað.

  Hvað segið þið: Vanfjármagnaðar fasteignir veðsettar upp í rjáfur? Ofskuldsettar fjárfestingar án þess að lánasöfnin í bankanum endurspegli áhættuna?  Vinir og vandamenn í viðskiptum?  Getur það verið?

Smátt og smátt lærir maður að lesa í bakgrunn og menningu.

En í myndirnar getur maður ráðið strax.  Áhrifamenn í viðskiptum og pólitík fylgja mjög formlegum klæðareglum, dökk jakkaföt og hvítar skyrtur og vandlega hnýtt bindi eru eins og eitt af boðorðunum 10.  Engin skandinavísk lausung hér og algjörlega útilokað að maður sem vill láta taka sig alvarlega mæti bindislaus á viðburð.  

Virðulegar konur í sömu greinum, já hér er talsvert um konur í áhrifastöðum, vanda mjög klæðaburð og við hátíðleg tækifæri er hreinlega öllu tjaldað í skrauti, málingu og klæðum enda ekkert til sem heitir að fara yfir strikið í Afríku ef um er að ræða glæsileika.  Unga fólkið á myndunum blandar saman afrísku og vestrænu ef það er úr þotuliðinu og gerir úr svalan samanruna.  

En það er á ,,hverjir voru hvar síðum “ Piparsins sem maður fær að gægjast inn í partí og opnunarhátíðir hvers konar.  

Og þar er nú ekki sóað bleki í flatneskju eins og ,,létu sig ekki vanta” heldur fá þeir sem rata inn á myndirnar einkunn og umsagnir fyrir klæðaburð og stíl:  Jæja vina ættir þú ekki að láta athuga þessa brjóstakoru aðeins betur?  Eða: Við veitum fyrstu viðurkenningu fyrir þessi læri, hér er nú eitthvað til að láta sig dreyma um.  

Og það er á þessum síðum sem opinberast mikill menninarmunur okkar og þeirra sem hér búa.  Íturvaxnar konur, og þá meina ég langtum langtum langtum meiri að ummáli og rúmmáli en flestar okkar konur á Íslandi, þykja veisla fyrir augun.  

Auðvitað má finna hér grindhoruð módel sem hafa gaman af því að spila tónlist og tjilla með vinkonum, en skúturnar og freigáturnar sem sigla um samkvæmishöf ljósmyndara Rauða piparsins eru greinilega úr öðrum ímyndaheimi en þeim sem fann upp Twiggy.  

Það er svo auðvitað við brúðkaupsmyndirnar sem ég staldra við hve lengst.  Nema hvað.  Og velti fyrir mér hvenær ég verði nógu mikið karlmenni til að fá mér lillabláan smóking með svörtum glansadi boðungum, gyllt blómamynstrað vesti og tindrandi eðalsteinanælu í þverslaufuna.
Því það er það sem menn gera hér.7.pistill: Minnisstæðar persónur

Góðir hlustendur. Það er við hæfi í útvarpsþætti sem heitir Mannlegi þátturinn, að fjalla um minnisstæðar persónur.  Sem ég hef hitt í Afríku, svo langt frá okkar hvimleiða hversdagsleika heima á Fróni.
Lífið er í litum og leikið á breiðtjaldi.  Þarna var kominn einn sem hefði alveg getað fengið Óskarinn fyrir aukahlutverk í drama stórveldanna.  Ég kynntist honum í Jóhannesarborg, í Suður Afríku, en þar rak hann eins konar blöndu af öryggisvörslu, einkabílarekstri og leiðsögu.  Maður fékk bara bland í poka með honum, og best að bóka hann frá flugvellinum og inn í bæ til að fá öruggt far á sanngjörnu verði með topp gæslu.  Hann varaði mig við.  Ef einhver ógandi gaur kæmi upp að hliðarrúðunni við ökumanninn væri ólíklegt að hann næði að seilast í skammbyssuna sem hann bæri við öklaband.  Við yrðum bara að hafa svona hluti á hreinu.

Hann hafði verið í her Serba í Balkanstríðinu.  Fór ekki nánar út í það, en eftir það hræðilega stríð í kjöltu Evrópu gerðist hann málaliði í Kongó.  Ekki batnaði það.  Hann var fáorður um þá hluti.  Vildi bara að staðreyndir væru á borðinu. Fór svo til Suður Afríku, stofnaði bílaleigu, en sá fljótt að betra væri að reka svona alhliða þjónustu í eigin nafni.  Helstu viðskiptavinir voru Ísraelsmenn á ferðalagi.  Mér fannst það meðmæli við öryggisvörslunni.  

Hann var ákaflega fróður um mannlífið í Suður Afríku, og dýralíf.  Fór með okkur á staði sem varla hefði þótt óhætt að sækja ókunnugur.  En hann var alltaf á varðbergi.  Konan hans var líka frá Balkanskaga og tók stundum í stýrið að aka með komumenn ef mikið var að gera.  Hún skutlaði tilbaka.  Áður varaði hann okkur við : Ekki minnast á stríðið við hana.  Hún er enn að glíma við þá minningu.  Komin alla þessa leið, næstum því eins langt frá og mögulegt var en alltaf með stríðið í farteskinu.
En hann var svekktur, með blússandi bisness og einstaklega vel að sér um margt:  Nú eru hvítir í minnihluta og við eigum ekki séns hér í Suður Afríku.  Taflinu hafði verið snúið við.  

Ég minnist Serbans sérstaklega vegna þess að í Höfðaborg í sama landi hitti ég líka fyrrum hermann:  Hvítan, úr her aðskilnaðarstjórnar Suður Afríku fyrr á tímum.  Hann var einkaleiðsögumaður í einn dag og fljótlega urðum við mátar.  Hann sýndi söguslóðirnar þegar sem Tutu biskup hafði haldið sínar eldmessur, og Nelson Mandela komið fram örstuttu eftir að hann var laus úr haldi á Robben eyju þarna skammt undan.  Þessi hvíti fyrrum hermaður og lögreglumaður var fámáll um hlut sinn meðan aðskilnaðarstefna hvítra útilokaði svarta frá öllu eðlilegu mannlífi.

 ,,Við vorum kvíðin.  Ég var kvíðinn.  Hvað tæki við? Það sem aldrei átti að geta gerst var staðreynd:  Svartir voru að taka við, hvíta kúgunarstjórnin að víkja.  Hver yrðu örlög lögreglumanns og hermanns úr liði hvítu grimmdarstjórnarinnar?  Sagði hann.  

Mandela og Tutu biskup töluðu öðru máli en fyrrum herrar.  Þegar Mandela kom fram fyrir tugum þúsunda í Höfðarborg og ávarpaði fólkið var maður með ótta í hjarta meðan fjöldinn fagnaði.  Okkar maður.  

Var á torginu og hélt að nú væri öllu lokið. En sagðist svo frá:  Þegar Mandela nefndi fyrirgefningu ákvað ég að vera með.  Hann sagði fyrirgefum.  Ég ákvað að vera með í að byggja upp nýja Suður Afríku.  Ég trúði að mér yrði ekki refsað og hér er ég,  með þér í dag á sama stað.

Í Namibíu hitti ég aldraða konu og kynntist. Hún rak mötuneyti fyrir munaðarlaus börn í fátækrahverfi höfuðborgarinnar.  Fékk um tíma styrk frá Íslandi.   Sem ung kona hafði hún lært hjúkrun og félagsfræði og verið í  ráðgjöf og stuðningi í fangelsum.  Það voru ekki fallegar aðstæður.  

En þar ákvað hún að lifa lífi sínu til að hjálpa þeim sem sem eiga bágast.  Munaðarleysingjamötuneytið var með morgunverð fyrir nokkra tugi krakka áður en þau fóru í skóla.  Þau bara gengu hjá á morgnana og fengu magafylli af graut.  Á heimleið komu þau aftur við og fengu hádegismat.  Allt til að halda þeim í skóla og halda þeim af götunni.  

Þegar ég kynntist henni var hún að puða við að opna sumardvalarstað, ef svo getur kallast í Namibíu, til að hafa krakkana fjarri solli götunnar í skólaleyfum.  Vildi fara með þau út fyrir bæinn.  Allt í sjálfboðinni vinnu með fjölda af góðu fólki.  Ég á ekki von á að hún komist í blöðin, eins og það er kallað, eða fái orðu, nema þessa eilífu sem úthlutað er við Gullna hliðið ef það er þá til.  En hún tók líf sitt frá fyrir aðra.

Eins og ung kona í Namibíu sem heitir Theresa og ég hef ekki heyrt af í 10 ár.  Margrét Blöndal gerði um hana fallegan sjónvarpsþátt um árið, því Theresa er heyrnarlaus í landi þar sem heyrnarlausir eru félagslegt úrkast.  En hún lærði, meira segja lærði hún hárgreiðlsu, og svo gerðist hún kennari, og var í liði til að opna leikskóla fyrir heyrnarlaus börn.  Hún var eiginlega fyrsti heyrnarlausi namibíski frumkvöðullinn til að sanna að fólk með þessa fötlun getur bæði lært og kennt.  Börnin elskuðu hana út yfir öll landamæri.  Þar sem engir möguleikar voru sá hún leið, og sýndi öðrum hana.  Helgaði líf sitt því að koma öðrum sömu braut.

Í Malaví hitti ég margt fólk.  Mannkynssagan talar stundum til manns í persónum sem hafa verið á sviðinu.  Aldraður maður sem ég kynntist hafði verið kallaður heim þegar Malaví fékk sjálfstæði skömmu eftir 1960.  Forsetinn, sem síðar var kallaður einræðisherra, kvaddi heim alla háskólamenntaða menn sem Malaví átti þegar landið fékk sjálfstæði.  Hér vantaði alla menn á dekk.  Þeir voru sex.  Sex háskólamenntaðir Malavar í öllum heiminum til að byrja að reka nýtt sjálfsætt ríki. Þessi kunningi minn hafði komið sér vel fyrir í Kandada, átti hvíta kærustu, þau voru í námi og leið vel.  

Nú kölluðu forsetinn og föðurlandið.  Malaví allt.  Það var ekki einfalt fyrir hjón í blönduðu hjónabandi að koma heim til nýs Afríkuríkis á þeim tíma.  Samskipti kynþáttanna  voru eitruð.  En skyldan kallaði og örlögin kveða upp sinn dóm.  Lífið tók þessa stefnu.

Og dauðinn kveður upp sinn dóm.  Ungur maður vann fyrir okkur í öryggisgæslu, einstaklega ábyrgur og duglegur maður sem eins og margir Malavar, stóð varla úr hnefa, en stóð á sínu ef á þurfti að halda.  Við fylgdumst með honum stofna fjölskyldu, kvænast, og geta frumburð, satt að segja tvo, því tvíburar voru í vændum.  

En eiginkonan unga varð fórnarlamb. Eins og þrjú hundruð þúsund konur árlega í heiminum.  Hún dó af barnsförum.  Engin lyf til á borgarspítalanum og smávægileg ígerð leiddi til dauða.  Þetta var þungbær raun og harmagrátur.  En tvíburarnir lifðu og ungi faðirinn stóð með tvær hendur tómar nema af þessum tvíburum.  Eins og hundruð þúsunda foreldra um allan heim á ári hverju.  

Ömmur mættu á svæðið.  Við hjónin stofnuðum mjólkursjóð.  Þá sá maður hvaða kjör fátækum eru skömmtuð í táradalnum.  Mjólkurduft frá alþjóðlegum viðskiptasamsteypum kostar margföld mánaðarlaun ungra ekkla og ungra mæðra.  En faðrinn ungi stóð sína vakt eins og hann stóð vaktina við hliðið um nætur.  Börnin döfnuðu og spékopparnir flæddu um allt í örmum fjölskyldunnar.  

Allir voru stoltir yfir því að hann henti þeim bara ekki inn á stofnun og flutti burt.  Þar til ættarvenjan tók við.  Í Malaví er móðurættarsamfélag hjá mörgum áttbálkum og nú kom í ljós að börnin áttu hvergi heima nema þar sem ömmur og frænkur vildu.  Og ekki hjá vini okkar verðinum, föður barnanna.  Þau voru flutt burt.  Hann hraktist úr vinnu og á eftir.  Það síðasta sem ég frétti var að honum hefði verið kastað út úr heimaþorpi móðurinnar látnu, börnin yrðu þar, og hann gæti étið skít þar sem slíkt lostæti væri að finna.  Síðast frétti ég af honum á hrakhólum í Tansaníu.  

Ég rifja upp þessi margvíslegu kynni af persónum hér í álfunni að bak við allar tölur og greiningarspár um hag og afkomu þjóða er fólk.  Einstaklingar sem eiga líf, koma úr ólíkum áttum og sogast með einstökum hætti, hver niður í þann stóra svelg sem kallast örlög.  Þegar fréttir berast af átökum eða stórviðburðum, skal ekki bregaðst að einhver deyr eða annar fær nýtt líf, betra eða verra líf, án þess að við vitum svo mikið um.

Og þegar þessar fréttir birtast eru aðrar fréttir líka, ósagðar, tíðindi sem fáir eða engir vita - sem skipta sköpum í lífi eintaklinga, feðra, mæðra og barna.   Þegar tjaldið fellur og við sem horfum á, rísum úr sætum, eru alltaf þúsundir, milljónir, milljarðar, enn að baksa baki brotnu við að lifa af.  Jafnvel þegar ljósin slökkna á stóra sviðinu.

Og sumir þeirra skilja ekkert í okkur, og þess vegna lýk ég þessari söguferð með vini mínum frá Malaví sem er all lunkinn náungi, næturvörður á okkar vegum.  Ég taldi alltaf að hann væri eins og allir hinir, steinsofandi á verðinum næturlangt. En frétti síðar að svo var alls ekki.  Hann hefði setið í skýli sínu nótt eftir nótt og stúderað til kennara.  Tekið próf, sem er, góðir hlustendur, ekkert smá mál fyrir vakthafandi fátækling utan úr þorpi.  
Og nú er hann kominn í stöðu.  Hann spáði í margt.  Þegar Eyjafjallajökulsgosið stóð sem hæst fóru Malvavar auðvitað ekki á mis við þau miklu tíðini. Og einn daginn stöðvaði hann mig og vildi spyrja að nokkru.

Er það satt, spurði hann, að á Íslandi séu jöklar svo stórir, þaktir íshettum að jafnist á við stóra landshluta í öðrum löndum.
Ég játti því.
Og svo þykkar eru þessar íshellur að getur numið mörg hundruð metrum?
Ég kvað það mögulegt.
Og er það satt, spurði hann, að undir þesssum ísbáknum séu eldfjöll, sem geta gosið hvenær sem er?
Vissulega sagði ég.
Og þegar þau kjósa þá getur ísinn bráðnað og orðið rosalega hamafarahlaup?  Er það satt.
Ég kvað svo vera.
Ja hérna, sagði vinur minn, hvers vegna vill nokkur manneskja búa í svona landi?Kynni mín af ljónum. 1 hluti


Góðir hlustendur.

Kynni mín af ljónum hér í Afríku hófust með lestri Tarzan bókanna góðu, um Graystoke lávarð sem var skilinn eftir í frumskóginum og fóstraður af apaynju.  Enda kallaður Tarzan apabróðir.  Maður lagði vel á minnið hvernig Tarzan slóst við ljónin og hafði betur.
En á síðari tíma ferðum hófust kynni mín af Afríkuljónum í ljónaleikhúsi.  Það var í einkareknum Safarigarði í Namibíu að eigendur höfðu grafið eins konar jarðhýsi og steypt með ákaflega þröngum sjónraufum þar sem túristar gátu keypt aðgang að sýningu kvöldsins.  Við gengum niður brattar tröppur og stóðum við gjæjugatið.  Sýningin fólst í því að svert gírafalæri var hlekkjað niður framan við jarðhýsið, rétt fyrir framan sjónraufina, og ljónum garðsins hleypt inn þegar búið var að æra þau með blóðlykt.  Þau röðuðu sér svo á lærið, ungar, ljónynjur og karlinn og nöguðu sig inn að beini með kjamsi og bruddu beinin ákaflega.  Þetta var heillandi sýning því fágætt er að komast svo nálægt ljónum sem ekkert létu sig varða angan af túristum.  Minnisstæðust er mér lyktin sem var stæk, blanda af saur, blóði, sendinni jörð og úldnu kjöti.  Eða öskrin þegar þau biðu eftir að hliðið opnaðist.  Það var eins og Fokker Friendship flugvélar á Reykjavíkurflugvelli að hita hreyflana á köldum vetrardegi.

Konungur dýranna er réttnefndur svo, því konungar hafa margir tekið sér ljósnafnbót eða ljónsmerki á skjöld sinn, og öll munum við eftir Ríkharði ljónshjarta.  Haile Selassie Eþíópíukeisari er sagður hafa haldið mörg ljón og notið þess að gefa þeim árbít hvern morgun í hinum keisaralega garði.  Sumir vilja meina að þar hafi horfið margur andstæðingur í  ljónskjaft.

Ég hef verið svo heppinn að hitta ljón á ferðum mínum þegar leyfi gefst frá störfum og heimsóknir í þjóðgarða leitt mig á ljónaslóðir.  Ljónið er eini kötturinn sem heldur sig í hjörð.  Hlébarðinn, Blettatígurinn, tígrisdýrið og aðrir minni kettir eru einfarar.  Og ljón eru merkilegar félagsverur sem lifa í móðurættarsamfélagi.  Hjarðirnar eru oftast 5-6 ljónynjur sem eru systur eða frænkur, með unga sína, og svo eitt en stundum fleiri karldýr.  En á þessu eru ótal frávik og þekktar eru hjarðir sem telja upp í 30 dýr.

Það má alveg velta fyrir sér stöðu karldýrsins.  Hann er í raun í vinnu hjá kvendýrunum.  Sér þeim fyrir vernd og getur með þeim afkvæmi.  En þetta er óörugg vinna og þarf að hafa fyrir henni.  Til að komast til metorða í ljónahjörð þarf karlinn að bæla frá þeim karli sem fyrir er, oft með blóðugum slagsmálum.  Á hátindi ferils síns, svona 5-7 ára er karlinn sterkur og ráðandi, en upp úr því þarf hann að verjast ásælni annarra karldýra sem vilja taka yfir.  Nóg er af ungum og frískum keppinautum, því þegar karldýrin ná 2-3 ára aldri og kynþroska eru þau rekin að heiman frá hjörðinni og eigra þá í einsemd sinni um slétturnar.  Stundum nokkrir svona piparsveinar saman, vaxa úr grasi og eflast að þrótti þar til kemur að áskorun við gamlan skrögg.  Oft slá þeir sig saman í bandalag, tveir eða jafnvel fleiri, og yfirbuga konung yfir lokkandi hjörð.  

Við yfirtöku drepa þeir öll afkvæmi konungsins sem velt hefur verið af stóli og taka til við að frjóvga ljónyjurnar til að passa upp á eigið erfðaefni.  

Karlljón hefur því þann lífstilgang að komast yfir hjörð, eiga eigin afkvæmi að hinum drepnum, og halda svo völdum nógu lengi til að tryggja að ungarnir verði nógu stálpaðir.  til að  lifa af valdatöku þess konungs sem óhjákvæmilega mun hrifsa til sín völdin í fyllingu tímans.

Eitt sinn sá ég ljónahjörð liggjandi undir tré úti á sléttunni.  Þau velja sér oft laufskrúðugt tré sem varpar góðum skugga til að hvílast.  Liggja jafnvel á meltunni yfir daginn meðan heitast er, og veitir ekki af: Ljón getur torgað meira en 20 kílóum í einu ef vel ber í veiði og sofið megnið úr sólarhring þar á eftir.
Við vorum þarna nokkur þegar áliðið var dags og skoðuðum kösina undir trénu þar til ungi nokkur sperrti sitt litla loðna eyra og vildi brölta á fætur.  Skammt frá var tjörn og vatnsból sem antilópurnar í kring langaði mikið að heimsækja en vissu alveg af því dauðafæri sem þá skapaðist fyrir ljónin.  Unginn var þyrstur og rölti af stað niður að tjörn.  Ein mamman kom í humáttina og saman drukku þau á bakkanum, svo vildu fleiri ungar koma á eftir og þá kom  í ljós að félagsskapurinn var ekki bara upp á systralagið.  Ein ljónynja fór að öðrum enda tjarnarinnar og kom sér fyrir, önnur að hinum endanum og lagðist undir barð og sú þriðja skimaði ákaft af sjónarhóli sem hún fann skammt undan.  Nú kom karlinn og lagðist á áberandi stað á bakkanum með reistan makka.  Þá máttu hinir ungarnir koma.  Hér var búið að setja vakt á alla helstu staði og nú gat hjörðin öll drukkið áhyggjulaus.  Þetta var allt í röð og reglu á heimilinu.

Hér birtist manni ávinningur ljónanna af því að halda hópinn.  Hvað sem líður styrk og þrótti eru fleiri ljón saman betri en eitt og sér.  Já, rándýrin á sléttunni hafa fundið sér hvert sína sérstöðu í lífskeðjunni.  

Hlébarðinn er einfari og fimur, dregur með sér bráðina upp í hátt tré svo hin dýrin geti ekki rænt máltíðinni.  Þar geymir hann líka unga sína.  Hlébarðinn er klókur, hann drepur aldrei dýr í nágrenni við tréið sitt.  Þau dýr eru varaforðinn hans ef hann eitthvað kemur uppá og hann kemst ekki langt á veiðar.  Blettatígurinn sérhæfir sig í gríðarlegum spretthraða til að elta bráðina uppi og nær því að veiða dýr sem ljónin myndu aldrei ná.  

Hýenurnar mynda stóra hópa og veiða saman og berjast saman, ræna meira að segja ljónin svo  ber undir.  Það þarf fimm hýenur til að ræna máltíð af ljóni, svo það er kostur fyrir ljónin að halda saman.  Hýenur og ljón eru á líkum stað í lífinu og eru í hörkubaráttu.

En aðalbarátta ljónanna er við manninn.  Ljónum hefur fækkað um mörg hundruð þúsund á hálfri öld í Afríku.  Nú eru á bilinu 30-40.000 ljón í Afríku, nánast öll í lokuðum görðum, en þeim fækkar hratt eigi að síður.  Bara síðustu 20 ár hefur ljónum fækkað um nærri helming.  Hér stefnir í mikið óefni á auknum hraða.

Það er nokkuð um veiðiþjófnað, en einnig ráfa ljónin út af verndarsvæðum og lenda þá í eiturbrasi eða kúlnahríð bænda sem óttast um kýr sínar.  Í gamla daga áttu ljón heima um alla Afríku, mið austurlönd, sunnanverða Evrópu, alla Asíu og allt til Indlands.  Örfá ljón eru eftir á Indlandi, hin eru útdauð.

Það má því segja að síðasta vígi ljónanna sé hér í Afríku.  Og þar sem sagnasjóðurinn er ekki nærri tómur ætla ég að halda áfram að segja frá ljónum í næsta pistli.
Kynni mín af ljónum 2. hluti

Góðir hlutstendur, í síðustu viku sagði ég ykkur frá margvíslegum kynnum mínum af ljónum.

Nú ætla ég að halda áfram vegna þess að ljónin eru í huga okkar tákn um lífið úti á mörkinni.  Sjálfur konungur dýranna er í hættu, gæti orðið útdauður á næstu áratugum, því aðeins örfá tugi þúsunda ljóna eru eftir í Afríku, og hvergi annars staðar nema í afkimum Indlands.

Annars væri nær lagi að tala um drottningu dýranna, því eins og ég sagði frá síðast búa ljónin í móðurættarsamfélagi.  Hjörðin er byggð á valdi og frjósemi kvendýranna, karlarnir koma og fara, eru svona eins og húskarlar á heimilinu um hríð, varðmenn og sæðisgjafar, og er svo hent út þegar næstu karldýr heimta völdin.

Félagsfærni ljónanna birtist í fallegu fjölskyldulífi þegar allt er í sómanum.  Ungar og mæður sleikja hvert annað, nudda saman nefjum í kveðjuskyni og passa upp á hlutverkin.  
Þegar ljónin hafa drepið er forgangsröð skýr:  Karlinn, verndari hjarðarinnar fær fyrstur og skiptir engu hvort hann tók þátt í veiðum, sem hann gerir sjaldnast.  Næstar koma þær ljónynjur sem færastar eru í að drepa. Þetta eru dýrin sem mestu skiptir að séu stór og sterk.

Menn hafa samt talið sig sjá ákveðna verkaskiptingu hjá ljónum sem ekki er endilega byggð á því að hámarka arðsemi hverju sinni.  

Dýr sem gætu kallast dragbítar fá líka að vera með og eru þá í stuðningshlutverkum.  

Ég var eitt sinn svo heppinn að fá að fylgjast með ljónaveiðum.  Þau röltu eftir vegarslóða þar sem við ókum, voru í snertifjarlægð frá bílnum án þess að láta sig það nokkru varða.  Svo beygði hjörðin útaf veginum, og nú fóru þau álút upp þornaðan árfarveg undir barði svo lítið bar á.  Þar ofan við var sléttur völlur fullur af grasbítum, antilópum og zebradýrum.   Karlinn rak lestina, enda eru þeir oftast alltof seinir á sér á veiðum.  Ljónynjurnar veiða í hóp og skipta með sér verkum.  Við ókum aðeins niður fyrir og til móts við grasvöllinn þar sem var mergð dýra.  Hafi ljónin verið svöng létu þau ekki á neinu bera.  En eftir drykklanga stund skaut upp ljónshaus á bak við hól og var ekkert að fela sig.  Neðar kom svo upp annar haus undan barði.  Og svo hinn þriðji.  Þau horfðu bara á dýrbítana og nú fór kuldahrollur um hryssur og kálfa.  Folar ráku upp granir og það var eins og þytur færi um hjarðirnar, dýrin frusu.  Svo stappaði ein zebrahryssa niður fæti og flótti brast á.  Þau þustu öll burt frá ljónunum sem komu bara á hægu skokki á eftir.   Antilópur og zebrahestar brunuðu framhjá okkur í trylltum stökkum með fnæsi og blæstri - þegar plottið kom í ljós.  Á móti þeim kom æðandi ljónynja úr fyrirsátri þar sem hún hafði komið sér fyrir meðan vinkonur hennar sáu um að reka dýrin í opin dauðann.  Hún kom á harðastökki inn í bílljósin okkar, kannski blindaðist hún eða varð ráðvillt þegar rendurnar á sebraskrokkunum runnu saman í eina samfellda sjóntruflum.  Hún fipaðist og svo voru dýrin farin og ég hef aldrei séð dýr á villi mörk sýna svo augljósan vonbrigðasvip.  Það var spaugilegt að sjá hana drullusvekkta.  Eins og Disney sjálfur hefði teiknað ljón í fýlukasti.

Við náttstað áttum við í löngu spjalli fram undir rauða nótt við margfróða konu um dýralíf og tókum á okkur náðir heldur seint.  Maður gengur í fylgd varða í smáhýsi og það mun hafa verið um það leyti sem við vorum að bursta tennurnar að stóra ljónaspæling ævi minnar átti sér stað.   

Verðirnir sögðu frá því við morgunverðarborðið næsta dag.  Varla höfðu kofadyrnar lukist að baki okkar en þeir heyrðu fyrirgang og læti.  Flóðhestur kom á æðishlaupi niður milli smáhýsanna og henti sér út í á með busli.  Á herðakampi hans hékk ljónynjan sem áður hafði misst af bráðinni.  Drullusvekkt og spæld höfðu ljónin rölt niður að á og rekist á þennan flóðhest sem var alltof stór og feitur biti til að þau stæðust hann.  En það var bara þessi eina sem náði að krafla sig upp á bakið honum og bíta sig fasta í herðarkambpinn meðan hann þeysti niður bakkann og út í á.  Þar fór hann á bólakaf og veiðidýrið mikla varð að sleppa feng sínum og krafla sig til lands, ekki beint kattaleg á sundi.

Það var erfitt að segja hvor spæling var meiri, ljónynjunnar að hafa misst bráðina eða okkar að hafa misst af þessum hasar við húsvegginn okkar.

Þessi ljónynja sem var aðaldráparinn í hópnum gegndi nákvæmlega því hlutverki.  Oft sanna þessi dýr hæfni sína fyrir öðrum og veljast í þetta forystusæti.  Önnur leika hlutverk bakvarða: Þegar hjarðinar sem veitt er fyrirsát sundrast má alltaf búast við ráðvilltum kálfi eða folaldi sem missir af hinum og bakvaktin hirðir upp.  

Enn önnur sem eru síðri veiðidýr hafa líka hlutverk: gæta unganna á meðan eða standa vakt.  Þegar hrægammarnir sjá hvað ljónin aðhafast hnita þeir hringa þar ofan við, og það sjá hýenurnar sem eru fljótar að koma þangað sem blóð rennur í von um að stela sér bita.

Það er ekkert mjög algengt að ljón drepi menn. Mannætuljón verða til við sérstakar aðstæður, en almennt eru þau ekki hættuleg ef maður hefur vit á að halda sig fjarri.  Helstu óhöpp manna og ljóna verða ef einhver anar í flasið á ljóni, tala nú ekki um ef það er móðir með unga. Það eru alltaf hættulegustu dýrin sama hvaða tegund um ræðir.  Margir gefa heilræði um hvað eigi þá að gera, en eitt virðist algilt:  Hvað sem þú gerir, ekki reyna að hlaupa burt.  Bossinn á túrista á hlaupum er alltof auðveld kjaftfylli.  

Sumir segja að maður eigi bara að leggjast og þykjast dauður.  Það má vera taugasterk kona sem þannig hegðar sér.  Betra er líklega að (alls ekki horfa í augun á ljóninu sem er ógn) en gera sig breiðan, hækka sig og stækka lyfta örmum og hörfa afturábak skref fyrir skref.

Eða gera bara eins og ég kenndi vörðunum í þjóðgarði í Malaví þegar við ræddum manndómsvígslu Masai manna Kenía, sem verða ekki alvöru menn fyrr en þeir hafa drepið ljón með berum höndum og spjóti, og þá oft með því að grípa í skottið á dýrinu og halda því.  

Ég sagði þeim að það væri betri leið.  Í fyrsta lagi fer maður aftan að ljóninu og stekkur upp á bak þess.  Læsir báðum fótleggjum undir kviðinn, en smeygir vinstri handlegg undir framlegg ljósins og spennir það aftur meðan maður bítur í hnakkadramið á því.  Í hinni hendinni hefur maður hníf.  Þegar ljónið svo prjónar til að losa sig við mann keyrir maður hnífinn fram fyrir bringuna á því og inn undir rifbeinin beint í hjartastað.

Verðirnir göptu.  Hvar lærðir þú þetta?  

Ég: Nú auðvitað í Tarzanbókunum.


Það er freistandi að segja ljónin mikilfenglegar skepnur þegar maður sér þau, og allir hafa líklega séð einhverjar stórkostlegar myndir af ægifögrum ljónum á sléttum afríku.  Karldýr með reistan makka eða ljónynju með unga sér við hlið að kúra.  En sannast sagna eru þetta oft luntaleg dýr, liggja tímunum saman í forsælu eða á víðavangi.  Rölta þyngslalega með signa vömb, letilegum hreyfingum með skítaklepra og angandi af þessu rándýrslífi sem þau iðka.

En þetta eru boldángsdýr og lifa fjölbreytt lífi við ýmsr aðstæður.  Hvítu ljónin í suður Afríku eru falleg, eþíópisku keisaraljónin eru með svartan makka.  Á einum stað heyrði ég um ljón sem syntu á veiðar út í smáeyjar á vatni. Um daginn sá ég ljónahjörð uppi í tré, Ishasa ljónin í Úganda halda mikið upp á fíkjutré og liggja á digrum greinum daglangt og láta fara vel um sig.

Karldýrin geta orðið 250 kíló takk fyrir.  Og sterk.  Einu sinni hitti ég ljósmyndara sem hafði ætlað að egna fyrir fallegt ljón sem hann vissi af en gat ekki myndað.  Fór með pallbíl á slóðir ljónsins, hlekkjaði hálfan uxa við krók á bílnum og kom sér svo fyrir með myndavélina í leyni skammt unda.  Og ljónið kom.  Þefaði af kjötflykkinu, tók svo í munn sér og lagði af stað.  Með bílinn í eftirdragi!  
Hvað ertu að segja, dró ljónið bílinn burt sagði ég?

Já, við gleymdum að hafa hann í handbremsu.


Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is