Manifest 2016: Jfnuur

 

Sjá uppsetta grein hér.

Hvers vegna er ójöfnuður í heiminum og á Íslandi vandamál og hvað er hægt að gera til að ráðast gegn vandanum?  Í 1. hefti tímaritsins Foreign Affairs 2016 er fjallað um ójöfnuð sem eitt helsta heimsbyggðarvandamálið sem þarf að ráðst gegn og rakin dæmi um leiðir í greinasafni.  Stefán Jón Hafstein ræðir efni greinanna og setur í samhengi við íslensk samfélagsmál.  Hann bendir á að:

Ójöfnuður er viðurkennt vandamál, af forseta Bandaríkjanna, framkvæmdastjóra Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og fjölmörgum sem ná máli í alþjóðlegri umræðu - frá páfa til stórfjárfesta og róttækra umbótasinna og hagfræðinga í fremstu röð.


Hægt er að bregðast við, en það kallar á pólitískar ákvarðanir, sem vafi er á að hægt sé að taka innan núverandi valdastofnana.


Ójöfnuður birtist í ólíkum myndum og kallar á ólíkar lausnir - líka nýjar.


Á Íslandi í dag þarf að: Endurskipta auðlindaarðinum, skilgreina fá forgangsmál sem hafa mikið og mótandi samfélagslegt gildi, gefa unga fólkinu tækifæri og ,,jafna” milli kynslóða

 

 

Inngangur:  Þetta er löng grein (4500 orð) og kaflaskipt með þessum hætti fyrir þá sem vilja stytta sér leið:

I.Vandamálið er vont og versnar:  Lýsing á vanda

II.Hvers vegna er ójöfnuður vandamál? : Greining

III.Breytt pólitískt landslag:   Áskorun.

IV. Misgengi stjórnmála og efnahags: Sundrung

V.Takmörkuð hugmynd um jöfnuð: Endurskoðun á jöfnuði

VI.Jákvæð skilgreining á jöfnuði: ,,Ný” nálgun.

VII.Hvað má jöfnuður kosta? Firra hrakin.

VIII.Áskorunin er stór: Hnattrænar og staðbundnar lausnir

IX.Hvað er til ráða?  Dæmi.

X.Aðgerðir á Íslandi: Mótandi breytingar

XI. Pólitískur veruleiki? Núna.I. Vandamálið er vont og versnar

Ísland er ekki ójafnaðarland á alþjóðlegan mælikvarða.  En af því að Ísland er gríðarlega auðugt tekst að fela óréttlæti, spillingu og óstjórn með því að kreista æ meira út úr náttúruauðlndum, en vanrækja mannauðsmálin á meðan og þar með skapa skuld við framtíðina. Ísland er rányrkjubú.


Á heimsvísu er ójöfnuður yfirþyrmandi.  1% jarðarbúa ræður yfir 50% af auði heimsins.  Það sem meira er, 0,1% af mannkyni, örfárar manneskjur, ráða yfir svo miklum auði að það er gjörsamlega óskiljanlegt og utan við allt samhengi daglegrar reynslu fólks.


Helmingur mannkyns er í raun eignalaus.  Þó svo að hnattrænn jöfnuður milli landa hafi aukist undanfarna áratugi má helst þakka það því að Kína og Indland hafa tekið stór skref til hagvaxtar, með hrikalegum umhverfiskostnaði, en flest önnur lönd sitja eftir.

 
Þó svo að munurinn að meðaltali milli Ameríkana og Kínverja hafi minnkað, hefur munurinn á milli ríkra Ameríkanaog fátækra Ameríkana aukist, og munurin á milli ríkra Kínverja og fátækra samlanda þeirra aukist gríðarlega.

 
Raunlaun verkafólks og millistéttar í Bandaríkjunum hafa staðið í stað síðustu 20-30 ár, fátækum hefur fjölgað, ekki fækkað.  Tekjumunur forstjóra stórfyrirtækja og launafólks farið úr 20 földum í næstum 300 faldan mun.
Dæmi um þróun: Á síðstu þremur áratugum fór eignarhlutur 0.1% Bandaríkjamanna úr 9% af heildinni í 22%.  1% Bandaríkjamanna eiga 40% auðsins. 

Þótt þessi dæmi séu öfgakennd má sjá sömu þróun í öllum OECD ríkjum síðustu ár. Líka á Íslandi, þar sem eignamunur ríkra og hinna jókst markvert;  20 prósent Íslendinga eiga jafn mikið og hin 80%.  Árið 2014 juku 10% ríkustu Íslendinga auð sinn meir en 50% tekjulægstu Íslendinganna - í krónum talið.


II. Hvers vegna er ójöfnuður vandamál?  

Góður vinur minn og mektarmaður í íslenskri stjórnmálaumræðu spurði mig að þessu fyrir skömmu.  Hann er reyndar ekki einn af þeim sem talar í slagorðum eins og ,,ég get sofið á nóttunni þótt einhver annar sé ríkur”.  En hver er vandinn?

Vandinn, í örstuttu máli, er ekki sá að ef peningarnir væru teknir af ríka fólkinu og dreift á fjöldann væri hægt að útrýma fátækt.  Það væri ekki hægt.  Hins vegar væri hægt að nota drjúgan hluta af þeim helmingi heimsauðsins sem safnast á hendur örfárra til að byggja spítala, vegi, skóla og bjarga mannslífum.  En til lengri tíma litið er vandinn við ójöfnuð stærri.  Hann er pólitískur, samfélagslegur og vegur að grunni mannlegs samfélags sem við trúum að eigi að byggja á einhverju formi af lýðræði.  

Í ritgerð sem ég samdi sem áramótaávarp nýlega sagði ég:

,,Óhóflegur auður færir ríku fólki óhófleg völd.  

Það kaupir sér stjórnmálamenn, alþjóðabanka, lögfræðingaheri og hagfræðingastóð sem skilgreina tilgang lífsins út frá auðvaldshagsmunum sínum.   
Þessi sjúdómur grefur sig inn í menntamusteri og fjölmiðla, menningu og umræðu eins og veira sem borar sig inn í hverja frumu samfélagsins og leitast við að útrýma mótstöðuafli almannhagsmuna.

Jafnari auður skapar gjörbreytt valdahlutföll.”

Jöfnuður snýst um mannvirðingu og lýðræði.  Í greinasafninu í Foreign Affairs (FA 2016, Vol 95, no 1) sem hér er stuðst við segir Ronald Inglehart efnislega (bls. 3):

Þeir ríku eru í yfirburðastöðu til að undirbyggja pólitískar ákvarðanir sem auka enn á veldi þeirra og auð; forréttindin stigmagnast milli kynslóða og hópa með betri menntun, betri næringu og heilsu. Og betri aðgengi að völdum og áhrifum.  Smátt og smátt- og svo hratt og hraðar, verður samfélagslandslagið gjörbreytt og möguleikarnir til að hafa áhrif á það minnka fyrir allan almenning.

Ójöfnður snýst um völd og vegur að lýðræðislegri þróun.  III. Breytt pólitískt landslag.   

Hið kapítalíska  hagkerfi þróaðist á þann vegn að iðnbyltingin skóp stóran hóp verkafólks sem mikil þörf var fyrir og hafði því pólitískt vægi með samtakamætti sínum. Síð-iðnbyltingin og upplýsingabyltingin sem nú umturna hagkerfinu skapa færri, en hlutfallslega mikilvæg störf, meðan fjöldinn hrapar niður þrepin sem áður leiddu hann upp á við.
 
Alþjóðleg samkepppni þrýstir vestrænum almenningi enn neðar. ,,Heimurinn er flatur” segir Thomas Friedmann og er heimsfrægur fyrir, bendir á að hnattræn þróun skerði samkeppnishæfni og samningsstöðu millistéttar á Vesturlöndum.

Nafni hans Picketty er kunnur fyrir að benda á að vægi fjármálakapítalsins hafi svo enn frekar skekkt samkeppnisstöðu í þágu hinnar auðugu elítu með því að fleyta rjómann í æ stærri skömmtum ofan af ,,raunhagkerfinu” - þar sem vinnandi fólk semur um kaup og kjör.

Hjá okkur á Íslandi birtist þetta í þeirri mynd að bankar og fjármálastofnanir, fyrir og eftir Hrun, telja sig í allt öðrum heimi en aðrir og skiptir ekki máli hvort um er að ræða hagnað, arðgreiðslur, afkomubónusa og jafnvel laun þeirra sem þar vinna í samanburði við ,,framleiðslugreinar”.   Allt einkennir þetta síðustu 2-3 áratugi 20.aldar og upphaf þeirrar 21.

Í stað þess áður að útlit væri fyrir aukna ,,velferð” öllum til handa, færist fjöldinn niður, fyrst millistéttin og svo mest þeir ungu í vestrænu hagkerfunum, sem skapar óvðunandi kynslóðaójöfnuð.

IV. Misgengi stjórnmála og efnahags


Hin efnahagslega þróun og samfélagspólitikin leiðast ekki hönd í hönd.  Minnug stúdentabyltinganna 1968 og upprisu kvenna- umhverfis- og annarra frjálslyndra sjónarmiða skynjum við að hin hefðbundnu ,,efnahagsspursmál” (laun, staða, stétt), hafa horfið í bakgrunn.
 
Við höfum í dag ,,tilfinningastjórnmál” eða ,,gildissjónarmið” sem kallast á við ,,réttindamál” sem eru talsvert ólík  ,,fram þjáðir menn í þúsund löndum” á átakaárum 20.aldarinnar -kröfunum um átta stunda vinnudag, ellilaun, atvinnuleysisbætur og orlof.  Að stórum hluta urðu stéttastjórnmálin fórnarlamb eign árangurs, auður færðist á fleiri hendur.  En aðeins um stundarsakir, eins og nú kemur í ljós.

 
Gildisstjórnmál dagsins - eða sérstöðumálefnin (hatursklám, Útlendingastofnun, virkjanir og hálendið) eru á vissan hátt lúxusvandamál á Vesturlöndum í samanburði við hörmungarfátækt í þróunarlöndum.  Eðli og inntak stéttabaráttunnar í ríku löndunum breyttist samfara þeirri röngu skynjun að alltaf kæmi betri tíð ef bara tækist að tryggja hagvöxt.


Gildis- og sérstöðustjórnmálin munu áfram lifa, en kjarni málsins er sá ef ef þú sérð ekki fram úr reikningum daglegs lífs þarf að gera eitthvað í málinu.  Ef 1% elítan hirðir alltaf stærri og stærri skerf af vextinum verður óhjákvæmilega minna eftir handa hinum. 

 
Bakslagið er komið í hagkerfið og mun setja stjórnmál dagsins í nýjan brennipunkt:   Efnahags og stéttastjórnmálin færast aftur framar, þó ekki væri nema vegna þess að unga fólkið sér að í fyrsta sinn í marga mannsaldra eru engar líkur á að það hafi það jafn gott eða betra en foreldrarnir.


Vestræna millistéttin hefur varið sig með aukinni skuldsetningu og neyslulánum sem felur um stund rauntekjulækkun, samtímis því að pólítíska valdablokkin hefur hyglað henni á kostnað annarra hópa til að kaupa fylgi.  Eftir því sem millistéttin finnur brenna undan sér aukast kröfur um pólitískar lausnir sem viðhalda blekkingunni um ,,batnandi stöðu” og ,,áhyggjulaust og eignaríkt ævikvöld”.
   
Hér á landi birtist þetta í að eldri kynslóðin sendir reikninginn inn í framtíðina:  Svokölluð ,,skuldaleiðrétting” fasteignaeigenda mun fara í skólabækur um slíka framgöngu, en stærri bomba bíður uppvaxandi kynslóða, mörg hundruð milljarða króna ,,lífeyrisskuldbindingar” sem komandi skattgreiðendur munu borga.  
Í hinu stóra veraldlega samhengi er svo loftslagsreikningurinn sams konar yfirdráttur eldri kynslóðanna sem þarf að greiða mun hraðar en áður var talið.


Skuldinni er hent inn í framtíðina til að fresta vandanum.


Ingelhart segir að á síðustu 25 árum, jafnhliða því að ójöfnuður jókst gríðarlega í OECD löndum, hafi jafnaðarhugmyndum samt vaxið mjög ásmegin, svo mjög að 80% íbúa landanna styðji pólitískar aðgerðir til auðjöfnunar.   (Má nefna hlutverk Bernie Sanders í forkosningum demókrata í Bandaríkjunum sem nokkurs konar holdvervings þessa í því sambandi.)   


En málið er flóknara: Hin pólitíska ,,miðja” færist vissulega til samfélagslegri gilda.  En, eins og dæmi eru um víða af hinum vestræna pólitíska markaði, færist hún líka út til öfga lengst til hægri. Kraftar toga í báðar áttir á þessum umbrotatímum og magna pólitíska spennu.  


Þessi spenna leiðir til að þess að trú á lýðræðislegar stofnanir minnkar (réttilega) því fólk er búið að fá nóg og trúir ekki á tálsýn um stöðugan hagvöxt sem lyftir öllum upp jafnt og þétt.  Hin pólitíska valdaelíta er gjaldþrota.

V. Takmörkuð hugmynd um jöfnuð
 
Hugmyndir um lausnir verða að taka mið af þessum flókna samspili sem að ofan greinir - og vera samtímis á heimsvísu og staðbundnar.  Thomas Picketty leggur til alþjóðlegan fjármagnsskatt til að ná til kvikra fjárflutninga og undanskota fjár frá samfélagsþátttöku.  Ef öll ríki heimsins sameinast um hnattrænar lausnir við loftslagsvandanum ætti það að vera fordæmi um pólitískar aðgerðir á efnahagssviðinu.
 
Staðabundnar lausnir byggjast svo á sérstökum aðstæðum hverju sinni, en undirliggjandi verður að vera traust skilgreinng á því hvað við eigum við með ,,jöfnuði”.


Í skilningi þeirra sem stofnuðu Bandaríkin og rituðu stjórnarskrána voru ,,allir menn skapaðir jafnir” – sem var siðferðisleg vísun um jöfnuð.  Hugmyndin um efnahagslegan, félagslegan og lýðræðislegan jöfnuð er miklu yngri og óstöðugari.

 
Velferðarlausn um eins konar samtryggingu undir forystu Bismarcks þýskalandskanslara á síðari hluta 19.aldrar byggðist á nákvæmlega sama pólitíska ótta og náði að festa í sessi hugmyndina um ,,velferðarsamfélag” á Vesturlöndum á 20. öld.

 
Þetta var óttin við pólitískar uppreisnir, bitur reynsla af styrjöldum og hugmyndafræðileg sókn gegn óheftri einstaklingshyggju, svo sem með skipulagðri verkalýðsbaráttu og sköpun þjóðríkja.  
Í þessu samhengi var hugmyndin um jöfnuð byggð á tveimur meginstoðum: 


1)Félagslegri einsleitni  í mismunandi blæbrigðum sem fóru stundum  í hörmulegar öfgar (óbeislaða þjóðernishyggju, Austur- þýskar blokkir, Norður- Kóreska einkennisbúninga), eða,

2) rökræðunni um ,,jöfn tækifæri” allra, sem er mun geðþekkari, en hefur galla.


Í greinasafninu sem hér er leiðarljós rekur Pierre Rosanvallon hvernig ein grunnstoð nútíma jafnarðarstefnu um ,,jöfn tækkfæri” leiðir til þeirrar hugsunar að ekki sé nægilegt að afnema tálma (lagalega, stéttarlega, lagalega) fyrir félagslegum framgangi.  Hún feli í sér jákvætt inngrip til að tryggja möguleika, svo sem af hálfu ríkisins (menntun og heilsa eru góð dæmi).  Þetta hugnast mörgum nútímalegum jafnaðarmanni. 

Hún byggir á jákvæðu hlutverki ríkisvaldsins.

Í hinum kapítalíska heimi er auðvitað mikið svigrúm til túlkana á ,,jöfnun tækifærum”, allt frá ameríska draumnum yfir í sænska forsjá svo hugmyndin sjálf er engin trygging fyrir almennri velsæld.
Gallinn er að mati Rosanvallons sá að þessi hugmynd segist byggja á ,,verðleikum” einstaklingsins og sé því einangrandi og jaðarsetji marga sem ekki ná að sigra innan rammans - geti jafnvel verið andfélagsleg - á fögrum forsendum.  


Á Íslandi getum við litið í eigin barm:  Við höfum lagt gríðarlega áherslu á ,,jöfn tækifæri” og ,,aðgengi” á ýmsum sviðum, en samtímis skilið útundan lítinn, en mikilvægan hóp, sem af ýmsum ástæðum smellur ekki inn í regluverkið.  Þannig er fátækt um 10% íbúa eyjunnar viðvarandi og jaðarsetning nokkur þúsunda fátækra barna staðreynd.  


Hugmyndin um ,,jöfn tækifæri” missir marks í veigamiklum atriðum og hin hefðbundna jafnaðarmannapólitík hefur ekki getað komið í veg fyrir þann hrikalega og vaxandi ójöfnuð sem við blasir.
Sættum við okkur við þessa annmarka jafnaðarmennskunar á vorum tímum eða viljum við skilgreina jöfnuð öðruvísi og leita nýrra leiða?

VI. Jákvæð skilgreining á jöfnuði

Hér verða kynnt til sögunnar tvö hugtök: viðurkenning á sérstöðu og gagnkvæmni í samskiptum.
Fyrst verðum við að rækta og efla þá pólitísku sannfæringu að það sé eðlilegt og sjálfsagt samfélagslegt verkefni að spyrja áleitinna spurning um hver sé sanngjörn skipting gæða, hvernig við eigum sameiginlega hagsmuni í hnattrænum skilningi og hvers konar samfélag við viljum byggja.


Þröngt skilgreindur efnhagsjöfnuður eða regluverk í verðleikakapphlaupi ætti að skilgreinast upp á nýtt sem ,,jöfnuður þar sem samheldni ríkir” (e. Communal bond).  

Þessi almenna samheldni byggir einnig á virðingu fyrir sérstöðu.
 
Hugtakið sem Rosanvallon notar í grein sinni (FA, bls. 16-22) er singularity, sem er annað en einstaklingshyggja, því það byggir á gagnkvæmri virðingu - á grunni mismunandi sérkenna.  

Hann vill skipta út einstaklingshyggju fyrir viðurkenningu á sérstöðu innan félagshópsins – og taka líka á göllum félagshyggju þar sem einsleitni er tákn um t.d. menningarlegan stöðugleika (túlkun SJH).

Hér höfum við Íslendingar af nokkru að státa, ef litið er á réttindi og stöðu samkynhneigðra og margt annað sem til bóta horfir í samfélagi sem nú hjálpast við að ,,skila skömminni heim” svo dæmi sé tekið úr umræðu liðinnar stundar. Þetta felur í sér viðurkenningu á sérstökum aðstæðum einstaklinga án þess að fordæma þá, frekar hitt, hjálpa þeim inn fyrir viðurkenningarrammann.

Samheldni gerir því ráð fyrir fjölbreytni og virðingu fyrir ólíkum aðstæðum og einstaklingum, ekki félagslegri einsleitni.  Þetta er áhugaverð nálgun til skilnings á jöfnuði í víðu samhengi.

Annað lykilhugtak í þessari umræðu um jöfnuð og á beina skírskotun til Íslands í samtímanum er gagnkvæmni.
   
“Ójöfnuður er mestur í hugum fólks þegar borgurunum finnst sem ólíkar reglur gildi um ólíkt fólk.  Þeir hafna tvöföldu siðgæði og þeim sem stýra og misstýra gæðum sjálfum sér til hagsbóta.  Slíkar tilfinningar eru kjarninn í vantrausti í samfélaginu.”  (FA, Rosanvallon, bls 21.)

Ef þetta vantraust er ráðandi verður enginn samfélgassáttmáli segir höfundur, (e.commonality), því fólk stendur ekki jafnfætis gagnvart aðgengi og þátttöku.

Skýrasta og svívirðilegasta birtingarmynd þessa er þegar hinir ríku láta sig hverfa inn í eigin himnaríki, skjól eða verndarsvæði, hvort heldur er um að ræða innmúraðaðar lúxusvillur með vopnuðum vörðum- eða það sem verra er: Aflandsfélög og skattaskjól, sem eru í raun hagkerfi fyrir útvalda.

Nákvæmlega þetta felldi íslenska forsætisráðherrann, afhjúpaði fjármálaráðherrann og sömuleiðis innanríkisráðherrann, marga stærstu burgeisa Íslands og smáleikendur vini þeirra sem í aðstöðubraski sínu sögðu sig undan ímynduðum samfélagssáttmála.  Þau sýndu okkur fram á að á Íslandi er engin gagnkvæmni.  
Og þarf að leiðandi enginn samfélagssáttmáli.  

Krónan er góður gjaldmiðill fyrir almenning, hún er afleit fyrir þá sem þurfa að tryggja ,,fjölskylduauðinn” því ,,einhvers staðar verða peningarnir að vera”. Allt löglegt, ekki vantar það.  En um það snýst tilfinning almennings alls ekki né það hvort af hafi verið borgaðir skattar sem er bara óleyst tæknimál.

Tilfinningin snýst um það sem bílaheildsalinn átti að hafa sagt við fjölskyldu sína eftir að hann færði undan ,,kommissjón” af viðskiptum sínum á útlenda reikninga áratugum saman:  Ef allt fer til helvítis á Íslandi getum við þó búið á fimm stjörnu hóteli erlendis það sem eftir er. 

Fjölskylduharmleikurinn sem þetta leiddi svo til er aukaatriði í þeim harmleik sem þetta almenna arðrán viðskiptalífsins leiðir yfir þjóðarheimilið.

Spurningin um jöfnuð er því ekki bara spurning um að dreifa auði og tekjum um samfélagið eftir einhverjum tæknilegum útfærslum SALEKS á vinnumarkaði, Tryggingastofnunar og skattalagananna, heldur snýst hún um að byggja samfélag sem byggir á félagslegum sáttmála, virðingu, friði, samvinnu og gagnkvæmni.  
Að við getum treyst því að sömu reglur gildi um alla og að í grunninn séu hagsmunir okkar sameiginlegir.
 
Svo er ekki á Íslandi í dag eins og sannast hefur.
 
VII. Hvað má jöfnuður kosta?

Í  hinni stundlegu pólítík eru hinar ýmsu leiðir til tekju- og eignadreifningar oft sagðar kosta of mikið.  Hinar hagrænu ,,undirstöður” þolir ekki alla þessa velferð, hvorki hærri laun né öruggari afkomu og krabbameinsmeðferðir séu einfaldlega svo dýrar - fólk verði að skilja að allir geri sitt besta, en… 
 
Það góða við Hrunið og síðan afhjúpun Panamaskjalanna er að nú er hverju barni ljóst að kostnaður almennings á Íslandi af því að reka elítuna er margfaldur á við það að reka heiðarlegt velferðarsamfélag.  

,,Norræna módelið” hafði reyndar fyrir löngu sýnt fram á mikinn efnahagslegn ávinning af því að reka nokkurn veginn heildstætt samfélag, þótt í fyrir-Hruns-óráðinu hafi Viðskiptaráð Íslands viljað segja sig úr öllu slíku samhengi (og er enn að).
 
Meginkostnaður okkar af Hruninu var samt ekki fjárhagslegur, heldur siðferðislegur og félagslegur.  Segja má að goðsögnin um samfélagssáttmála (við erum öll á sama báti Íslendingar) hafi þurrkast út og spillingarleiðir auðvaldsins sem síðan hafa afhjúpast gjaldfellt stóran hluta af félagsauði lansins.  Vantraust er ríkjandi.
Það er því órökrétt og rangt að halda að spurningin um jöfnuð sé tekin fyrir og henni svarað á hinum efnahagslega velli sem ,,kostnaði” sem færiböndin verði að standa undir.
 
Jöfnuður er fjárfesting í velsæld.  

Og þá er ég ekki bara að ræða um uppáhaldsfrasa kjörinna jafnaðarmanna á Alþingi sem oft segja ,,það skiptir máli hverjir stjórna” eða ,,standa verður vörð um velferðarkerfið”, heldur miklu dýpri grundvallarspurningu um það hverjir taka ákvarðanir og hvernig.  Um pólitískan, félagslegan og menningarlegan jöfnuð, sem er allt annað og miklu víðtækara hugtak en hið sorglega rangnefnda Þjóðhagsráð gerir ráð fyrir um óbreytt ástand.

Það er ekki nóg með að Hrunið og eftirmálar þess hafi afhjúpa það rányrkjubú sem íslenskur ríkisverndaður kapítalismi rekur, heldur hafa valdablokkir þvergirt fyrir aukinn pólitískan jöfnuð, krefjandi aðkomu almennings og valddreifingu.  

Ekki þarf að rekja væntingar um nýja stjórnarskrá með lýðræðislegum umbótum heldur minna á að valdastofnanir, stjórnmálamenn og embættismenn sameinast um að hafna öllum slíkum tilraunum.  Öllum.  
Hið pólitíska valdakerfi á Íslandi hefur tapað réttmæti.  Kröfunni um aukinn pólitískan jöfnuð hefur verið hafnað, af þeim sem fara með pólitísk völd.
 
Engin leið er að horfa fram hjá því að hið pólitíska þrátefli sem iðkað hefur verið af ólíklegum bandamönnum skoðast í beinu samhengi við það kerfisbundna arðrán sem nú fer fram á auðlindum landsins og tilflutningum á auði milli fólks og kynslóða.  

Aðeins eitt orð nær yfir þetta allt: Spilling.

Að svara kalli tímans felur þá ekki bara í sér nýja og betri tekjudreifingu innan ramma kerfisins, heldur grundvallarfærslu á valdi úr gömlum stofnunum og ferlum yfir til fólksins, eins og til dæmis Stjórnlagaráð reyndi að útfæra.


VIII. Áskorunin er stór

Að sjá fyrir sér eitthvað rísa úr þessum rústum er ekki auðvelt.  Árið 2015 var samt merkilegt því þá gerði mannkyn (nánast öll ríki veraldar) tvo stóra sáttmála um sjálfbær félagsleg markmið og að bjarga plánetunni frá mengun.  Bæði eru ófjármögnuð og pólitískt vægi þeirra veikt þótt táknrænt gildi þeirra sé mikið.
Markmið Sameinuðu þjóðanna með Sjálfbærum heimsmarkmiðum (2016-2030) fela í sér að útrýma fátækt og afmá helstu einkenni hennar (líka á Íslandi). 

Leiðin hefur verið kortlögð en nú á fyrstu árum þessarar áætlunar eru merki þess að ríkustu löndin ætli að draga úr þróunaraðstoð, ekki auka hana mikið eins og þarf.  Sama á reyndar við um loftslagssáttmálann.  Slæm áhrif hlýnunar á jörðu hitta fyrir fyrst og fremst fátæka og fátæk ríki.  Hér þarf gríðarlegt átak eigi markmið að nást, mun meira en er á dagskrá.

Á smærri skala má líka sjá tillögur: Picketty leggur til alþjóðlegan auðlegðarskatt sem í dag er útópískur í besta falli.  Þegar heimsbyggðin ræður ekki við spurningar um líf og dauða, stríð og frið, nær hún tæpast taki á ríkasta hluta mannfólksins sem talið er að hafi með auðfélögum sínum falið nær 8 milljónir milljarða dollara í aflandsfélögum. (Þetta er meira en fimmtíu sinnum öll þróunaraðstoð OECD ríkja á einu ári, og sumir telja töluna að minnsta kosti fjórfalt hærri).

Tillögur Nóbelsverðlaunahafans Jóseps Stiglitz um skatt á fjármagnsflutninga gegnum hið alþjóðlega rafræna fjármagnsflutningakerfi gætu verið raunhæfari og Panamaskjölin hafa valdið alþjóðlegum úlfaþyt sem gæti endað í aðgerðum til dreifa auðnum betur.  

En þar stendur upp á fína fólkið:


Þótt skattaskjólin svokölluðu séu í nafni einhvera hlægilegra Tortóluríkja er staðreyndin sú að ríki eins og Bretland, Sviss og Lúxumborg hafa löngum byggt stóran hluta auðsældar sinnar á þjónustu við þjófræði.   Og munum að það var hinn alíslenski Landsbanki sem þá var í eigu ,,almennings” sem hóf aflandseyjavæðingu rányrkjumanna hér heima fyrir síðustu aldamót, árum áður en einkavinavæðingin hófst.

Í þessu flókna samhengi á veraldarvísu reyna menn að þróa einfaldar og skilvirkar leiðir til að auka jöfnuð.  Svo sem með ,,borgaralaunum” sem er 200 ára gömul hugmynd svipuð þeirri sem sumir stofnendur Bandaríkjanna lögðu til, að hver einstaklingur (konur líka?) sem næði ákveðnum aldri eftir tvítugt fengi útgreiddan ,,arf” frá samfélaginu til að koma undir sig fótum.  

Í Sviss var hugmyndinni um mánaðarlegar óskilyrtar greiðslur til allra borgara felld, í Finnlandi og víðar er hún til ítarlegrar skoðunar, en í mörgum þróunarlöndum hafa beingreiðslur til fátækra unnið hratt gegn fátækt.  Í Foreign Affairs greinasafninu er ítarlega rakið hvernig ,,Bolsa Familia” hóf stóran hluta brasilísku þjóðarinnar upp úr verstu afleiðingum sárafátæktar með skilyrtum greiðslum til fátækra um að sjá sómasamlega um að börn gengu í skóla, fengju bólusetningar og fleira í þeim dúr, sem hefur  ómetanlegt samfélagslegt gildi, ekki bara persónulegt.

Tilraunir í þessa hátt hafa verið gerðar víðar og stundum vel heppnaðar; þær gegna samfélagslegum markmiðum, vinna gegn verstu afleiðingum sárafátæktar og eru viðurkenning á því að lágmarkskrafa um jöfnun auðs er góð fyrir alla.

Á smærri kvarða innan einstakra þjóðríkja verður fróðlegt að sjá hvort sveiflan tilbaka inn á svið samfélagsgilda vinnur gegn straumum út á ysta hægri væng stjórnmálanna.  Munu þær 10 milljónir manna sem styðja Bernie Sanders frá vægi innan herbúða demókrata í forsetakosningunum eða hrollvekjan Trump meðal almennings? Mun Þýskaland undir forystu hinnar mjúku Merkels standast áhlaup þjóðernissinnaðra öfgamanna?

Eins og kjarni þessarar greinar sýnir þá eru hin pólitísku og efnahagslegu valdahlutföll í heiminum svo sannarlega ekki í vil þeim sem ætla að breyta. Og ágengar raddir metinna fræðimanna draga upp dökka mynd af því hvort lýðræði eins og við þekkjum það fái í raun staðist þessa áraun.


IX. Hvað er til ráða?

Lausnir eða hugmyndir um leiðir á veraldarvísu eða á ólíkum stöðum eiga tvennt sameiginlegt:  Að vera ætlað að vinna gegn mannlegri þjáningu, sem er einkenni á fátækt - og samfélagslegu niðurbroti, sem er hitt megineinkenni fátæktar. Þar með eru taldar hættulegar afleiðingar umhverfsspjalla.    Samtímis felst í slíkum aðgerðum valdefling, breyting á valdahlutföllum, fjöldanum í hag.  

Leiðin til þessa er með þeim lýðræðislegu tækjum sem enn eru tiltæk, áður en það verður of seint.  

Þess vegna þarf að skoða hugtakið um jöfnuð í víðu samhengi, efnahagslega, félagslega og út frá einstaklingnum, en einnig út frá því að aðgerðirnar séu mótandi um fyrirsjánlega framtíð - ekki skammtímalausnir.  Þetta er áskorun jafnaðarmanna alls staðar í heimnum.

Sagan um það hvernig Lula Brasilíuforseta tókst að koma á fátækragreiðslum Bolsa Familia í gegnum kerfið er upplýsandi (FA, bls. 34-44).  Ná þarf nægilega víðtækum póltískum stuðningi sem höfðar ekki aðeins til þeirra fátæku, heldur einnig til millistéttarinnar sem sér skynsemi og óbeinan hag í aðferðum af þessu tagi þótt ekki komi til beinn stundargróði. Þess vegna þarf sókn jafnaðarmanna að höfða til hinnar breiðu miðju.  

Hin breiða miðja er ekki föst stærð á ákveðnum stað í pólitíska rófinu. Við höfum skýrar vísbendingar um að hún hafi nú færst í átt til samfélagslegra gilda, líka á Íslandi.  Því sé jarðvegur fyrir jafnaðarstefnu góður. Hins vegar er borin von að reyna að knýja í gegn misvel þokkaðar breytingar til skamms tíma, því hver sú samfélagsleg breyting sem á að vara þarf að hafa breiðan stuðning - og þar er pólitíska miðjan lykilatriði.  

Ef hin feimnislega og taugaveiklaða ákvörðun að setja á auðlegðarskatt á Íslandi í tíð vinstri stjórnarinnar hefði verið sett í skýrt almannahagsmunasamhengi af pólitískum þrótti með því að eyrnamerkja fjáröflun (Landsspítala?) hefði ekki verið jafn auðvelt að strika hann út og raun bar vitni.X. Aðgerðir á Íslandi

Hin þröngt skilgreindu efnahagseinkenni núverandi uppgangs á Íslandi eru eins og klassísk uppskrift að kollsteypu; hið pólitíska þrasland gegnir þeim tilgangi að þreyta almenning og skapa firringarástand sem letur fólk til samfélagsþátttöku. Fátt bendir til að efnahagslegur, félagslegur eða pólitískur jöfnuður verði framtíð okkar um hríð enda ógjörningur að taka á öllu því sem þarf í einu.

En vísbendingar eru um að fyrstu skrefin séu fær.
Hverjar gætu þá verið leiðir jafnaðarmanna til betra Íslands á næstunni að öllum spekilegum vangaveltum slepptum?  

Fyrst og fremst verða þær breytingar sem unnið er að að vera markverðar og varanlegar og hafa mótandi áhrif á íslenskt samfélag til auksins jafnaðar í víðtækum skilningi.  Ekki smálagfæringar eða samsafn ,,réttlætismála” fyrir tiltekna hópa.  Heldur breiðvirkar og mótandi breytingar á nokkrum sviðum sem varða jöfnuð:

Verkefnalisti næstu ára gæti verið svona:

Efnahagslegur jöfnuður:  

1)  Skýr áform um að færa auðlindarentuna til landsmanna frá þeim sem nýta fiskimiðin, orkuna og náttúruna sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Þetta gerist bæði táknrænt og pólitískt með því að færa ákvæði um sameign þjóðarinnar inn í stjórnarskrá, en beinlínis með blöndu af einföldum leiðum sem þegar er búið að  benda á, en eru ólíkar í hverju tilviki.  Þennan auð þarf að nýta til að byggja upp félagslega innviði sem öllum gagnast, heilsugæslu, menntun og samgöngur og á ekki að taka í einkaneyslu.  Því Ísland, þetta ríka land, er að grotna niður innanfrá. Um þetta er hægt að ná breiðri pólitískri samstöðu því hér eru hagsmunir miðjunnar og millistéttanna áþreifanlegir.

2) Stighækkandi skattar á tekjur, eignir og neyslu samhliða stórlega einfölduðum bóta og tryggingaleiðum.  Taka eigna- og tekjufærsluna frá aldamótum tilbaka. Pólitísk samstaða næst frekar ef tekjuöflunarleiðir haldast í hendur við kerfisbreytingar sem eru réttlátar, sannfærandi og gagnast þeim best sem helst þurfa á að halda - og skapa sátt hjá hinum breiða fjölda um að rétt sé gefið.  

Pólitískur jöfnuður:

3)  Jafna atkvæðisrétt.
4) Koma á ákvæði í stjórnarskrá sem leyfir ,,málskot” tiltekins hóps fólks til að setja valdastofnunum skorður með atkvæðagreiðslum.  Verður að vera raunhæft úrræði og lifandi möguleiki.
5) Reka fjölbreyttar menningarstofnanir, svo sem almannaútvarp og internet fyrir alla, víðtækt upplýsingafrelsi, til að vega upp á móti valdi markaðsaflanna. Með frjálslyndi að leiðarljósi.

Félagslegur jöfnuður:

6) Ef nú hylllir undir félagslegar lausnir í húsnæðismálum má færa áherslur frekar í átt til námsmanna og barnafólks, svo sem með því að sveitarfélög og ríki stefni að gjaldfrjálsum leikskóla (sem er talin einhver arðsamasta fjárfesting í menntun sem um getur) og lækkar útgjaldareikning ungra foreldra um leið og hún jafnar félagslega stöðu barna á upphafsreit menntabrautar; LÍN verði jöfnunartæki fyrir menntun heima og erlendis.

7) Færa niður skuldir ríkisins til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir, svo sem eins og Píratar hafa verið nógu frumlegir að benda má, með því að nota ágóða af sölu Íslandsbanka til að greiða inn á lífeyrisskuldbiningar og létta þeim af unga fólkinu og komandi skattgreiðendum
Jöfnuður fjármagns og fólks:

8)  Neytendavernd og –réttur kallar á glerharðar ákvarðanir um að takmarka sjálftökurétt banka, tryggingafélaga og samþjappaðra fyrirtækja á neytendamarkaði (birgja, smásala, framleiðenda).  Þar sem ekki er útlit fyrir að alvöru gjaldmiðill verði tekinn upp á næstunni þarf að hnika valdahlutföllum neytendum í hag frá fáokun og markaðsmisnotkun.  

Hinn hataði ,,eftirlitsiðnaður” er góður fyrir neytendur:  Skattaeftirlit í landi þar sem eru árleg undanskot upp á 80 milljarða; Fjármálaeftirlit sem vakir yfir hagsmunum neytenda ekki banka (og kemur í veg fyrir stuld um hábjartan dag eins og salan á Borgun, Símanum og Högum eru dæmi um ásamt aðför tryggingafélaganna að neytendum); Samkeppniseftirlit sem sundrar fákeppni.


XI. Pólitískur veruleiki?

Sé litið til þeirra tíðinda sem landsskrið á vettvangi stjórnmálanna boðar og hvernig flokkar setja sig í samhengi við kosningar í haust má sjá að bandamenn um svona grundvallarbreytinar gætu orðið Píratar, VG, Samfylking og Viðreisn. Nýlegar ályktanir og stefnuyfirlýsingar þessara flokka hafa þann breiða grunn að geyma og skírskotun til almannahagsmuna sem duga til að mynda ríkisstjórn um svona ramma.
 
Í fyrsta sinn í langan tíma á Íslandi gæti myndast ný pólitísk vídd sem er ekki persónulega eða hagsmuna- og stofnanabundin fortíðinni.  Skil kunna að myndast. Tveir af þessum flokkum gætu komið með þann ferskleika sem fylgir því að hafa næstum hreint borð, hinir tveir hafa engu að tapa nema ærunni ef þeir bjóða ekki fram fólk sem hefur burði til að standa undir fegurstu hugsjón sem stjórnmálin kunna frá að greina. Um frelsi, jöfnuð og….

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is