Nrshugvekja Frkirkjunni Gamlrsdag 2015

Fríkirkjan Gamlársdag 2015.
Stefán Jón Hafstein

Hvaða markmið ætlum við að setja okkur á nýju ári?  
Við ætlum að bjarga heiminum.  

Á því ári sem nú er liðið komu ríki veraldar saman, ekki einu sinni heldur tvisvar og gáfu  öllu mannkyni þau hátiðlegu loforð að bjarga heiminum.

Fyrst með því að samþykkja heimsmarkmið um sjálfbæra þróun.  Eyða fátækt og hungri, auka jöfnuð, bæta jafnrétti kynja, stuðla að friði - þetta eru sautján hátíðleg loforð um nánast allt sem til framfara horfir og undir þeim eru hvorki meira né minna en 169 framkvæmdaliðir til að tryggja að allt þetta verði reyndin eftir aðeins 15 ár.  Eftir fimmtán stutt ár.

Og svo ætla ríki heimsins að gera meira:  Stöðva hnattræna hlýnun sem ógnar vistkerfi okkar og lífi. 

Hér heima súrna höfin kringum eyjuna okkar og sú þróun ógnar því sem við lifum á.  Þetta loforð var gefið í París fyrir nokkrum vikum og þau okkar sem þar voru eru sammála um að þar hafi verið söguleg stund, kökkur í hálsi og tár á hvörmum.

Og svo stend ég hér með ykkur á Gamlársdag  í þessari litlu timburkirkju sem reykvísk alþýða reisti fyrir meira en einni öld og kúrir við þennan litla andapoll sem er okkur svo kær í miðju þorpinu sem við köllum höfuðborg Íslands.

Hér erum við á þessu litla sviði til að skoða hina stóru mynd af heimi - sem vill ekkert endilega ekki láta bjarga sér.


# # #

Ég var á fundi með páfa fyrir nokkrum vikum.  Ég veit að í annarra manna kirkjum er æðsti yfirmaður í því stóra batteríi sem kallast kaþólska kirkjan kannski ekki helsti spámaðurinn.

Allra síst kannski í sjálfri Fríkirkjunni sem afi minn Stefán skipstjóri og amma mín Júna voru hluti af.  
Þar sem byltingarmaðurinn Marteinn Lúter er ef til vill stærra númer.  
Og sá Jesú kristur sem velti borðum víxlaranna - það er sá Jesú sem Fríkirkjupresturinn minnir á þegar hann fær tækifæri í útvarpinu.  

Við vorum þarna með þreytulegum gömlum manni á hvítum kjól með samlita kollu og hann var nýkominn úr einu versta fátækrahverfi álfunnar heitu - í Nairóbí í Kenía.

Þar talaði hann minnst um Guð og Jesú en miklu meira um forréttindastéttir sem sópa til sín auði, skeyta lítt um fátæka, sjúka og hungraða en stunda þaulsetur í valdastólum.  

Það rigndi eldi og brennisteini yfir forréttindalýðinn sem sat í hásætum.

Hjá okkur í Úganda ræddi hann flóttamannavandann, því í einu fátækasta landi heims hefur verið tekið á móti stríðshrjáðum flóttamönnum víða að frá grannríkjum - með aðstoð auðvitað - en grið veitt.  Skilaboðin norður yfir miðbaug voru skýr.

Og svo flaug hann beint í gin ljónsins, lenti í Mið-Afríkulýðveldinu og heimsótti mosku, já mosku múslima, sem sæta ofsóknum, ofsóknum kristinna manna þar í landi.  Hann talaði ekkert um nauðsyn þess að loka bænahúsum, vara sig á fólki ólíkrar trúar eða reisa veggi þar á milli.  
Hann sagði, við erum öll ein fjölskylda.

Helsti boðskapur páfa á liðnu ári var umhyggja fyrir því sem trúaðir kalla sköpunarverk guðs.  Aðrir kalla það lífríkið, vistkerfið, móður jörð.  Umburðarbréf hans á árinu var um loftslagsbreytingar af mannavöldum.

Rányrkja mannsins felst í því að á hverju ári tökum við miklu meira af afurðum jarðar  en hún fær staðið undir.

Við tökum auð sem nemur einni og hálfri jörð.

Sem kunnugt er gaf guð okkur bara eina jörð, sem verður  að duga.  # # #

Þótt við Íslendingar séum ein ríkasta þjóð í heimi snýr þessi vandi að okkur, nokkrum þúsundum á lítilli eyju sem er full af auðlindum.  

Árið 2015 var ekki bara ár stóru loforðana heldur ár óttans.  Hér hjá okkur ríka fólkinu þar sem óttinn knúði dyra.  

Æ fleiri teikn eru á lofti um að jafnvel hér í norðrinu séu breytingar í náttúru sem kunna að ógna okkur miklu fyrr en reiknað var með.  

Ein milljón flóttamanna hélt inn í hina ríku Evrópu. Og hin stríðandi öfl virða engin landamæri.  

Og eru þó þessi óþægindi smávægileg miðað við það sem aðrar byggðir heimsins líða, tugir milljóna  leita að skjóli, hryðjuverk eru daglegt brauð, og þá meina ég daglegt,  og miklu stórvægilegri en þau sem við höfum kynnst í nágrenni okkar.  

Þið munið áreiðanlega öll eftir hryðjuverkunum í París.  En munið þið eftir því þegar 150 skólabörn voru skotin í Keníu í vor?  Svo bara eitt dæmi sé tekið af ótal mörgum.

Við Íslendingar eigum sjálf mikið undir að vel til takist að efna stóru loforðin um að bjarga  heiminum.  Og það fljótt.

En hversu liklegt er það?

Loforðin um sjálfbær heimsmarkmið fyrir árið 2030 kosta gríðarlegt fé.  

Við gætum spurt: Hvernig er sú tala í samanburði við framlög til þróunarmála síðstu fimmtán, tuttugu eða þrjátíu ár?  

Örfá ríki heims hafa náð því yfirlýsta markmiði  að veita  0.7% af landsframleiðslu til þróunarmála.

Þetta einfalda loforð sem ekki hefur verið efnt þyrfti nú að tvöfalda eða þrefalda á hverju ári. Að lágmarki.

Ekki hvarflar að mér að nefna hlut Íslands í því samhengi.

Hvað þá með hitt stóra loforðið um að stöðva hlýnun jarðar sem hefur staðið linnulaust síðan iðnbylting hófst fyrir 200 árum?  

Við getum líkt því við að hluti mannkyns hafi safnað svo miklum skít í höf og lofthjúp jarðar að ruslatunnan sé nú við það að springa framan í okkur.

Hér dugar ekkert minna en nýbylting.  Algjör umskipti á lífsháttum, efnahaglífi, daglegum neysluvenjum, samgöngum og hernaði.  

Nýbyltingin þarf að vera á sams konar stærðarkvarða og iðnbyltingin sjálf, nema á miklu skemmri tíma.

Þessi nýbylting er ekki bara nauðsynleg heldur stórhættuleg - fyrir þá sem græða á núverandi ástandi.

Til dæmis fyrir þetta eina prósent jarðarbúa sem á helming af öllum eignum heimsins.

Já, jafnvel líka fyrir þetta eina prósent Íslendinga sem á næstum fjórðung af öllum auði Íslands.

Það sem ég er að hræða ykkur með, og er Grýlan í boðinu í dag, er þetta sem stundum er kallað ,,sameiginlegir hagsmunir okkar allra”.

Við eigum alls ekki öll sameiginlega hagsmuni.

Heimsbyggðirnar eru svo margar, og ólíkar og eiga við svo mismunandi áskoranir að stríða  að varla er hægt að tala um að bjarga heiminum.

Við lifum í ótal hliðarveröldum sem þarf að tengja saman.

Þetta er kjarni málsins og þess vegna er páfi vinsæll þegar hann ferðast með boðskap í þágu alþýðu. Þess vegna eru stjórnmálamenn og trúarleiðtogar sem koma að utan við valdakerfi og stofnanir  betur þokkaðir en hinir sem vara okkur við óvissu, breytingum eða vilja ríghalda í forna frægð.

Það eina sem er öruggt er að óbreytt ástand gengur ekki.

Og þess vegna eru nú þessi stóru og miklu loforð mannkyns til handa sjálfu sér ákaflega merkileg heimspólitísk tíðindi.  

Við, þessi mörgu, ætlum ekki endalaust að borga fyrir forréttindi hinna fáu.

Gagnvart þessu stóra samhengi held ég að undirstaða allra framfara fyrir mannkyn felist í tvennu:  

Auknum jöfnuði og auknu lýðræði.

Óhóflegur auður færir ríku fólki óhófleg völd.  

Það kaupir sér stjórnmálamenn, alþjóðabanka, lögfræðingaheri og hagfræðingastóð sem skilgreina tilgang lífsins út frá auðvaldshagsmunum sínum.   
Þessi sjúdómur grefur sig inn í menntamusteri og fjölmiðla, menningu og umræðu eins og veira sem borar sig inn í hverja frumu samfélagsins og leitast við að útrýma mótstöðuafli almannhagsmuna.

Jafnari auður skapar gjörbreytt valdahlutföll.

Og þá komum við að lýðræðinu:  Það er eina leiðin til að knýja fram breytt valdahlutföll!

Meira lýðræði, betra lýðræði.

Til að velta borðum víxlaranna.


# # #Er ástæða til bjartsýni?  Okkur hefur tekist glettilega vel.  

Það búa færri við sára fátækt í ár en nokkru sinni fyrr, fleiri börn fara í skóla en áður, hættulegum sjúkdómum hefur verið úthýst á stórum svæðum, jafnvel malaríutilellum fækkar um mörg hundruð þúsund árlega og lífi milljóna er bjargað.  Ungbarnadauði minnkar og konur sem deyja af  barnsförum eru nú helmingi færri á ári en fyrir 15 árum.

Þessi skref hafa verið tekin af hugrökku fólki sem neitar að gefast upp.

Maður þarf ekki að vera páfi til þess.

Við í heimsmenningunni teflum ekki bara á hvítum reitum og svörtum,
Við erum á mismunandi grátóna borði þar sem auður, stríðsvélar og völd stýra grásvörtu mönnnunum sem vilja stærri heri, dýrari málaliða, traustari bankahvelfingar og fleiri múra til að halda skrílnum úti þegar hann heimtar að koma í mat.
En hvítur á annan hvern leik:   Sem skilar sér, til dæmis í stóru loforðunum um betri heim og betra líf og þeim árangri sem þegar má benda á.

Stóra fréttin í dag er þessi:  nýbyltingin sem ég talaði um ER hafin.  

Upplýsingabyltingin sem á rót sína í internetinu mun verða kraftbirtingarhljómur nýbyltingarinnar sem leysir af hólmi iðnbyltinguna gömlu.

Stjórnmálamenn og valdastofnanir hér heima munu minnast ársins 2015 sem ársins þegar ekki var lengur hægt að ljúga.  

Og valdið færist undrahratt til fólksins.  Jafnvel hér heima.  Þegar stjórnvöld segjast ætla að taka á móti aðeins 50 flóttamönnum, kemur ung kona fram á samskiptasíðu og hleypir af stað skriðu sem breytir pólitísku landslagi.

 Einstaklingar sem hafa stunið undan þöggun og kúgun fá hugrekki í fjöldanum til að segja satt um sjúkt samfélag.
 
Það er ekki einu sinni hægt að stela ríkiseigum í friði eða selja vildarvinum gróðatækifæri án þess að skammast sín til að byrja með.  

Þegar ungur drengur var sendur burt úr landi héðan með tuskubangsann sinn var öll íslenska þjóðin komin í dauðaleit að sjálfsvirðingu sinni fyrir hádegi.

En tæknin leysir sjálf engin vandamál.  Við þurfum hugrakkt fólk líka - eins og Edward Snowden sem fórnar í raun lífi sínu til að upplýsa okkur um það njósnanet sem ofið er utan um hverja okkar gjörð á internetinu.

Stríðið um frjálst internet er hið nýja frelsisstríð frjálslyndra afla gegn ofríki valdsins.

Ímyndum okkur það vald sem við getum nú fengið!  

Og munum að hvert tækifæri færir okkur nýja ógn.


# # #


Nú þegar dregur að lokum þessa erindis ætti ég að bregða upp mynd af því hvernig heimurinn  lítur út þegar búið er að bjarga honum með lýðræði og jöfnuði.

Við munum mörg biblíumyndirnar frá himnaríki sem kirkjurnar hafa útbúið með ótal geislabaugum, en ég er ekki viss um að ég fái ykkur til að taka þær gildar sem framtíðarsýn fyrir jarðarbúa.

Þess vegna er hér bara lítil saga:

Ég heyrði bráðgóða frásögn af samtali sem  var rakið á áreiðanlegum fréttamiðli þar sem ég sat í umferðarþvögu í Kampala, höfðborg Úganda, og horfði yfir endalausar raðir af reykspúandi púströrum.

Áhrifamaður í Bandaríkjunum sat til borðs með Dalai Lama, andlegum leiðtoga þeirra Tíbeta sem enn fá að hafa andlegan leiðtoga.

Efnislega var samtalið svona:

Áhifamaðurinn spurði:  Til hvaða guðs beinir þú bænum þínum?
Dalai Lama:  Ja, ég trúi nú eiginlega ekki á neinn  guð.
Áhrifamaður: Ja hérna, andlegur leiðtogi sem trúir ekki á neinn guð, um hvað snúast þá bænir yðar?
Dalai Lama:  Ja, eiginlega bið ég aldrei bænir.
Áhrifamaður: Nú, en þegar þú lygnir aftur augum í kyrrstöðu, hvað með það?

Dalai Lama sagðist þá vera að íhuga stöðu mannsins.

Og hvað bjargar þá manninum ef enginn guð er í bænum yðar?

Dalai Lama svaraði: Ja, maðurinn kom sér nú sjálfur í þau vandræði sem hann nú er í og verður bara að klóra sig fram úr þessu af eigin rammleik.


Ábyrgðin er okkar.

En nú er mér vandi á höndum:

Það er mjög erfitt í svona spjalli eins og þessu að bregða upp myndrænni lýsingu af ábyrgð.  Þess vegna sagði ég söguna af þessu samtali hér áður.

Það er líka mjög erfitt að ímynda sér heim sem byggir ekki hagvaxtarþrá sína  á því að spúa út mengun sem eyðileggur jörðina.   Sama hvort við erum stödd í umferðarteppu í Kampala eða New York eða Miklubraut. Hvernig er heimur án púströra?

Og það er einstaklega erfitt að ímynda sér að þeir 85 auðkýfingar sem eiga samtals meira af eignum en fátækasti helmingur mannkyns - vilji skipta upp á nýtt.

Staðreyndin er sú að við getum ekki einu sinni ímyndað okkur þann heim sem verður að taka við af þeim sem við ætlum að bjarga.

Ímyndið ykkur það!

# # #


Og þá er komið að lokakaflanum: Hvað er hægt að gera?

Fyrir nokkrum vikum hitti ég unga konu frá Kólumbíu, hún vinnur fyrir friðarsamtök sem njóta styrkja frá velviljuðum ríkisstjórnum.  Þau stilla til friðar á átakasvæðum í meira en 20 löndum og hafa áratuga reynslu.
Friðarferli á átakasvæðum er nokkurn veginn það erfiðasta sem fólk kemst í.  

Svo ég spurði þessa ungu konu, hvaða aðferð notið þið við svona erfiðar aðstæður?

,,Við leitum uppi möguleika til að skapa tækifæri” sagði hún.

Tækifærin eru ekki einhvers staðar þarna úti og bíða eftir að vera uppgötvuð, þau eru búin til.  Samtökin leita uppi velviljaða leikendur á sviðinu, félög, fólk, stofnanir, fyrirtæki - og skapa sambönd.  Leiða saman fólk til samstarfs sem oft vissi ekki um hvert annað.  Samstarfið felst í að setja raunhæf markmið og hrinda þeim í framkvæmd. Oft framhjá ríkjandi valdhöfum og hefðbundnum stofnunum  - þeim sem stunda strið.

Með  þessu tengist fólk þvert á hagsmuni, stjórnmálaflokka, landamæri, stríðslínur eða trúarbragðakrytur - ef þá fær tækifæri til.  Og þau tækifæri er hægt að skapa. Og festa í sessi til framtíðar - en ekki bara blogga um þau frá degi til dags.  

Ný spyr ég: Ef þessi aðferð virkar á átakasvæðum gæti hún dugað okkur líka hér heima á Íslandi?

Og þá erum við enn og aftur komin inn í þessa hlýlegu litlu kirkju við andapollinn í smáþorpinu við heimskautsbaug.

Og ég ætla að rétta ykkur nokkur dæmi inn í nýja árið, um tækifæri hér heima sem þarf að skapa.  

Því þessi fyrstu fimmtán ár 21.aldarinnar hafa ekki verið sérlega happasæl hjá okkur.  Ísland var rétt í þessu að færast niður í 16 sæti á velsældarlista Sameinuðu þjóðanna, neðar en við höfum verið í 30 ár.

Þegar Ísland samþykkti í heimsmarkmiðunum að afmá fátækt átti það líka við um fátækt á Íslandi.  Fátækir á Íslandi eru um 10% af landsmönnum og sárafátækir eru 2-3% svo þetta er ekki stórt verkefni í ríku landi.

Í áratugi hefur verið talað um að hinar gríðarlegu auðlindir Íslendinga verði lýstar þjóðareign í stjórnarskrá.  Nú berast fregnir af því að enn ein stjórnarskrárnefndin hafi gefist upp á þessu verkefni.  Lífsþreytt valdastofnun sem nýtur trausts innan við 20% landsmanna hér hinum megin við andapollinn hundsar kröfu meirihluta Íslandinga um auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

Margir hafa lagt til og tugir þúsunda landsmanna samþykkt að það synjunarvald á lögum frá Alþingi sem forseti Íslands einn hefur nú - án reglu eða festu - verði falið þjóðinni til að veita fulltrúalýðræðinu aðhald.  

Þessi sáraeinfalda tillaga er kæst eins og skata.

Svona birtist okkur að jafnvel hér, við friðsæla Tjörn í Reykjavík, eru sömu átök og standa um allan heim.  

Um forræði yfir auðlindum og lýðræðislegan rétt.
 
Að afnema fátækt er að færa fólki frelsi.  Að færa fólki upplýsingu og tjáningarleiðir er að færa því vald.  Vald til að þroska enn betur lýðræði og mannréttindi, ekki síst til að nýta auðlindir jarðar í þágu fjöldans en ekki útvalinna.

Valdið til fólksins er svarið - ef spurningin er um að bjarga heiminum, lífríkinu - og íslensku samfélagi.

Og þá minni ég á að við íslensk þjóð erum einstaklega vel sett til að skapa fordæmi, byrja að taka þau skref sem munu að lokum breyta heiminum og jafnvel bjarga honum - einhvern veginn.
Við erum rík, við njótum mannréttinda og við höfum þegar sannað að samtakamáttur fólksins, í stóru og smáu hefur áhrif.

Það er því útlit fyrir mjög gleðilegt ár 2016, árið sem við byrjum að bjarga heiminum.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is