Dagbkur:janar-mars 2012


Malavískar konur láta margt yfir sig ganga, en ekki hvað sem er

Malavar brugðust hart við þegar ótíndir ruddar réðust að gallabuxnaklæddum konum og rifu út fötum til að niðurlægja þær. Fáir skildu hvað mönnunum gekk til eða hvaðan sú hugmynd kom að gallabuxur væru hættulegar siðmenningu - en samt. Lengi var Malaví haldið í fjötrum einræðisherrans Banda sem lagði blátt bann við öðru en hefðbundnum ökklasíkðum lendaklæðum kvenna, eða í mesta lagi siðprúðum pilsum.

Í landinu er grúi öfgasinnaðra kristinna kirkna og einhver þeirra gæti hafa tekið upp á að prédika siðferði í formi þess að afklæða konur á götum úti? En konum til hróss risu þær upp með mótmælum á útifundi í borginni Blantyre og varaforsetinn Joyce Banda var þar á meðal. Og erkifjendi hennar forsetinn, Bingu, gaf út yfirlýsingu sem fordæmdi verknað mannanna. Síðan hefur verið kyrrt. Á þeim vettvangi.

Þetta er árstími hinna miklu þrumuveðra. Rafmagn slær út, götur fyllast af aur og stundum koma hellidembur svo varla er stætt. Glampar endursendast um himinhvolfið og sprengur þrumuguðsins setja allt á annan endan. Þetta er ágætt fyrir uppskeru og maís þarf vökvun. En illúðleg eru skýin ofar okkur og svartir flekkir fara eins og tjöld í leikhúsi um himinhvolfið meðan sólin reynir að brjótast í gegn.

Menning og mannlif

Það er hefð í Malaví að bresta á með söng og dansi þegar gesti ber að garði eða halda á litla hátíð til að ræða...svo sem hreinlætismál eða vatn. Einkum eru það konurnar sem sjá um þessa skemmtan, nema þegar galdradansahópurinn í þoprinu er kallaður til. Þá eru það grímukæddir karlar í leynireglu staðarins sem halda uppi fjöri. Á fæstum stöðum er rafmagn svo ekki er hægt að magna upp bítlahljómsveit með ljósasjóvi. En klappa saman lófum og dilla sér í lendum kallar bara á kvenorkuna.

Menningarlíf í Malaví er einkum fólgið í kirkjurækni (sunnudagarnir fara í slíkt). Og svo söng og dans við hátíðleg tækifæri. Leikhús er ekki algengt en stundum eru leikhópar virkjaðir til að koma uppbyggjandi boðskap á framfæri og þá mæta allir í þorpinu. Bækur koma ekki út svo teljandi sé, en nóg er af blessaðri biblíunni út um allt, svo ekki unir fólkið sér mikið við lestur enda dofnar ansi mikið þegar sól hnígur til viðar í lok vinnudags á akrinum og ekki sér handaskil.

Tónlistarviðurðir eru svo annað mál því í borgunum dynur raggískotið píkupopp á börunum en úti í sveitunum er hljótt langtímum saman.

Hér í landi skemmta menn sér sjálfir því ekki er um annað að ræða. Það er því meira en bara trúrækni sem dregur fólk í kirkju. Ungar borgardömur í leit að tækifærum lífsins klæða sig fagurlega á sunnudagsmorgnum og fara á háum hælum með lendasveiflu til móts við guð og menn....sem sitja á kirkjubekk og horfa á dýrð almættisins og þeirra. Stefnumótastaðurinn.

Það má því sjá víða að landið er á mótum nýrra og gamalla tíma. Æ fleiri vilja leita inn í borgirnar þar sem er rafmagn, barir, fjör og líflegir markaðir. Enn eru samt 85% landsmanna úti í þorpunum sem eru nánast óbreytt frá því í árdaga. Gamla og nýja testamentið í hinum ýmsu túlkunarútgáfum sértrúarflokka eru einn heimur, löngun í nýmóðins hluti fær útrás í farsímum sem allir ganga með, en suss og svei heyrist ef einhver gengur of langt í eina átt frekar en aðra.  Togsteitan leiðir til atburða eins og að svívirða gallabuxnaklæddar konur - og að þær svara á móti hástöfum og láta ekki bjóða sér þetta rugl

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is